Umhverfisráðuneyti

808/1999

Reglugerð um sorpbrennslustöðvar - Brottfallin

REGLUGERÐ

um sorpbrennslustöðvar.

 

I. KAFLI

Markmið, gildissvið o.fl.

Markmið.

1. gr.

1.1 Markmið reglugerðar þessarar er að koma í veg fyrir mengun af völdum reksturs sorpbrennslustöðva.

 

Gildissvið.

2. gr.

2.1 Reglugerð þessi gildir um nýjar og starfandi sorpbrennslustöðvar eins og nánar segir í reglugerðinni. Reglugerðin gildir um atvinnurekstur hér á landi og í mengunarlögsögunni.

2.2 Reglugerðin gildir ekki um brennslu spilliefna.

 

Skilgreiningar.

3. gr.

3.1 Atvinnurekstur er hvers konar starfsemi og framkvæmdir.

3.2 Besta fáanlega tækni er framleiðsluaðferð og tækjakostur sem beitt er til að lágmarka mengun og myndun úrgangs. Tækni nær til framleiðsluaðferðar, tækjakosts, hönnunar mannvirkja, eftirlits og viðhalds búnaðarins og starfrækslu hans. Með fáanlegri tækni er átt við aðgengilega framleiðsluaðferð og tækjakost (tækni) sem þróaður hefur verið til að beita í viðkomandi atvinnurekstri og skal tekið mið af tæknilegum og efnahagslegum aðstæðum. Með bestu er átt við virkustu aðferðina til að vernda alla þætti umhverfisins.

3.3 Eftirlit er athugun á ferli eða starfsemi til að ákvarða samræmi þeirra við tilteknar kröfur.

3.4 Eftirlitsaðilar eru viðkomandi heilbrigðisnefnd og Hollustuvernd ríkisins og einnig faggiltir skoðunaraðilar sem starfa samkvæmt reglugerð þessari með takmarkaðar heimildir í samræmi við 24. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.

3.5 Losunarmörk eru mörk fyrir leyfilega losun sem óheimilt er að fara yfir á einu eða fleiri tímabilum. Mörkin geta verið tilgreind sem massi, rúmmál, styrkur eða aðrar breytur.

3.6 Mengun er þegar örverur, efni og efnasambönd og eðlisfræðilegir þættir valda óæskilegum og skaðlegum áhrifum á heilsufar almennings, röskun lífríkis eða óhreinkun lofts, láðs eða lagar. Mengun tekur einnig til ólyktar, hávaða, titrings, geislunar og varmaflæðis og ýmissa óæskilegra eðlisfræðilegra þátta.

3.7 Mengunarvarnaeftirlit er eftirlit með þeim þáttum sem eiga að fyrirbyggja eða draga úr mengun lofts, láðs eða lagar, eftirlit með eiturefnum og hættulegum efnum og fræðsla um þessi mál. Vöktun umhverfisins telst til mengunarvarnaeftirlits.

3.8 Nafnafköst brennslustöðvar eru samanlögð afköst brennsluofna stöðvar, tilgreind sem magn úrgangs sem brennt er á klukkustund.

3.9 Ný sorpbrennslustöð er stöð sem fengið hefur útgefið starfsleyfi frá og með 27. janúar 1994.

3.10 Starfandi sorpbrennslustöð er stöð sem hefur fengið útgefið starfsleyfi í fyrsta sinn fyrir 27. janúar 1994.

3.11 Sorpbrennslustöð er hvers kyns tæknibúnaður sem notaður er til að brenna úrgang, hvort sem hitinn sem myndast við brennsluna er nýttur eða ekki.

3.12 Spilliefni er úrgangur sem merktur er með stjörnu * í I. viðauka með reglugerð um skrá yfir spilliefni og annan úrgang og einnig annar úrgangur sem hefur einn eða fleiri eiginleika sem tilteknir eru í III. viðauka með tilvitnaðri reglugerð.

3.13 Úrgangur er hvers kyns efni eða hlutir sem einstaklingar eða lögaðilar ákveða að losa sig við eða er gert að losa sig við á tiltekinn hátt.

Tegundir úrgangs eru t.d.:

Úrgangur án spilliefna er úrgangur frá heimilum svo og úrgangur frá atvinnurekstri sem hefur svipaða eiginleika og gerð og heimilisúrgangur, t.d. matarleifar og umbúðir, og úrgangur sem fellur til við framleiðslu, verslun og þjónustu, t.d. pappír, timbur o.þ.h.

Spilliefni, sbr. skilgreiningu í 12. mgr., t.d. sóttmengaður úrgangur og olíuúrgangur.

Óvirkur úrgangur er úrgangur sem breytist ekki efna- eða eðlisfræðilega á skömmum tíma, t.d. múrbrot, gler og uppmokstur.

 

II. KAFLI

Umsjón.

Hlutverk Hollustuvernd ríkisins og heilbrigðisnefnda.

4. gr.

4.1 Heilbrigðisnefndum, undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, og Hollustuvernd ríkisins ber að sjá um að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

 

III. KAFLI

Almenn ákvæði um sorpbrennslustöðvar.

Starfsleyfisskylda.

5. gr.

5.1 Rekstur sorpbrennslustöðva er starfsleyfisskyldur atvinnurekstur.

 

IV. KAFLI

Reglur um nýjar sorpbrennslustöðvar.

6. gr.

6.1 Eftirfarandi losunarmörk sem stöðluð eru við þessi skilyrði: hiti 273 K, þrýstingur 101,3 kPa, 11% O2 (súrefnisinnihald) eða 9% CO2 (koldíoxíð) sem þurrt gas, skulu gilda um nýjar sorpbrennslustöðvar:

Losunarmörk í mg/Nm3 miðað við nafnafköst brennslustöðvarinnar

 

Mengunarefni             Minna en     1 tonn/klst. eða meira,  3 tonn/klst. eða meira

       1 tonn/klst. en minna en 3 tonn/klst.                                              

Ryk alls                             200                       100                                  30                 

Þungmálmar                                                                                                               

- Pb+Cr+Cu+Mn                  -                             5                                   5                 

- Ni+As                               -                             1                                   1                 

- Cd og Hg                           -                             0,2                                 0,2               

Saltsýra (HCl)                    250                       100                                  50                 

Flúorsýra (HF)                     -                             4                                   2                 

Brennisteinsdíoxíð (SO2)       -                         300                                300                 

6.2 Þegar í hlut eiga stöðvar með afköst undir einu tonni á klukkustund er heimilt að miða losunarmörk við 17% súrefnisinnihald. Ef svo er má styrkur ekki fara yfir þau gildi sem kveðið er á um í 1. mgr., deilt með 2,5.

6.3 Þrátt fyrir 1. mgr. er heimilt ef sérstakar aðstæður á staðnum krefjast þess að veita leyfi fyrir stöðvar með nafnafköst undir einu tonni á klukkustund að því tilskildu að farið sé eftir losunarmörkunum 500 mg/Nm3 heildarrykmagn.

6.4 Í starfsleyfi skal setja losunarmörk fyrir önnur mengunarefni en þau sem nefnd eru í 1. mgr. þegar við á með tilliti til samsetningar úrgangsins sem brenna á og gerðar brennslustöðvarinnar. Við setningu þessara útblástursmarka skal taka tillit til hugsanlegra skaðlegra áhrifa þeirra mengunarefna sem um ræðir á umhverfið, heilsu manna, svo og til bestu fáanlegrar tækni. Einkum skal setja losunarmörk fyrir díoxín og fúrön. Þá skal í starfsleyfi m.a. kveða á um hvaða úrgang heimilt er að brenna í stöðinni.  Jafnframt skal kveða á um geymslu úrgangs fram að brennslu og blöndun úrgangs eftir því sem við á.

 

7. gr.

7.1 Allar nýjar sorpbrennslustöðvar skulu vera hannaðar, útbúnar og starfræktar með það í huga að lofttegundir, sem myndast við brennslu úrgangsins, séu hitaðar eftir síðustu inndælingu brennslulofts, á skipulegan og jafnan hátt og jafnvel við óhagstæðustu aðstæður, upp í að minnsta kosti 850°C í tvær sekúndur hið minnsta, og að súrefnisinnihald sé eigi minna en 6%.

7.2 Allar nýjar sorpbrennslustöðvar skulu fullnægja eftirfarandi kröfum þegar þær eru starfræktar:

a. styrkur kolmónoxíðs (CO) í útblásturslofti frá brennslu má ekki fara yfir 100 mg/Nm3.

b. styrkur lífrænna efnasambanda (tilgreindur sem heildarmagn kolefnis) í útblásturslofti frá brennslu má ekki fara yfir 20 mg/Nm3.

Mörkin sem kveðið er á um í a- og b-lið hér að ofan skulu stöðluð við þessi skilyrði: hiti 273 K, þrýstingur 101,3 kPa, 11% súrefni eða 9% CO2 og þurrt loft.

7.3 Heimila má önnur skilyrði en þau sem kveðið er á um í 1. mgr. ef viðeigandi aðferðum er beitt í brennsluofnum eða búnaði til meðhöndlunar á útblásturslofti frá brennslu að því tilskildu að gengið hafi verið úr skugga um að með notkun þessara aðferða verði magn fjölklóraðra díbensódíoxína (PCDD) og fjölklóraðra díbensófúrana (DCDF) sem losuð eru jafnt eða minna en það sem fæst með þeim tæknilegu skilyrðum sem kveðið er á um í 1. mgr.

7.4 Allar nýjar sorpbrennslustöðvar verður að hanna, útbúa og starfrækja þannig að koma megi í veg fyrir útblástur út í andrúmsloftið sem veldur verulegri loftmengun niðri við jörðu; einkum skal þess gætt að úrgangsloft sé losað á skipulegan hátt um reykháf. Tryggt skal að hæð reykháfsins sé reiknuð út með það fyrir augum að vernda heilsu manna og umhverfi.

 

8. gr.

8.1 Hiti og súrefnisinnihald sem kveðið er á um í 7. gr. eru lágmarksgildi sem ætíð skal fara eftir meðan brennsla fer fram í stöðinni.

8.2 Sá styrkur kolmónoxíðs (CO) sem kveðið er á um í a-lið 2. mgr. 7. gr. er viðmiðunarmark fyrir meðalgildi á klukkustund í öllum stöðvum. Enn fremur ef um er að ræða stöðvar með nafnafköst sem nema 1 tonni á klukkustund eða meira verða a.m.k. 90% allra mælinga sem gerðar eru yfir 24 klukkustunda tímabil að vera undir 150 mg/Nm3. Þessi meðalgildi skulu aðeins reiknuð út frá þeim tíma sem stöðin starfar í raun, þar með talinn gangsetningar- og stöðvunartími.

8.3 Ef um er að ræða einhver hinna efnanna sem samkvæmt 9. gr. á stöðugt að fylgjast með:

a. má ekkert 7 daga hlaupandi meðaltal af mælingum á styrk umræddra efna fara fram úr samsvarandi losunarmörkum;

b. má ekkert sólarhringsmeðaltal af mælingum á styrk umræddra efna fara meira fram úr samsvarandi losunarmörkum en sem nemur 30%.

Í tengslum við útreikning á ofannefndum meðaltalsgildum skal aðeins taka mið af þeim tíma sem stöðin starfar í raun, þar með talinn gangsetningar- og stöðvunartími.

8.4 Þar sem eingöngu er krafist stakra mælinga skal líta svo á að farið hafi verið að losunarmörkum ef niðurstöður hverrar syrpu mælinga sem skilgreind er og ákvörðuð í starfsleyfi í samræmi við 6. og 7. gr. og 5. mgr. 9. gr. fara ekki yfir losunarmörk.

 

9. gr.

9.1 Við nýjar sorpbrennslustöðvar skal mæla:

a.   styrk tiltekinna efna í útblásturslofti frá brennslu:

     i) heildarrykmagn, styrk CO, súrefnis og HCl skal stöðugt mæla og skrá þegar í hlut eiga stöðvar þar sem nafnafköst eru 1 tonn á klukkustund eða meira.

     ii) eftirfarandi skal mæla með reglulegu millibili:

     - styrk þungmálmanna sem um getur í 1. mgr. 6. gr., styrk HF og SO2 þegar í hlut eiga stöðvar þar sem nafnafköst eru 1 tonn á klukkustund eða meira,

     - heildarrykmagn, styrk HCl, CO og súrefnis þegar í hlut eiga stöðvar þar sem nafnafköst eru minni en 1 tonn á klukkustund,

     - styrk lífrænna efna (tilgreinds sem heildarmagn kolefnis) almennt.

b.   brennsluaðstæður:

     i) stöðugt skal mæla og skrá hita lofttegundanna í því rými þar sem skilyrðum 1. mgr. 7. gr. er fullnægt, svo og magn vatnsgufu í útblásturslofti frá brennslu. Ekki er þörf á að mæla magn vatnsgufu stöðugt ef útblástursloft frá brennslu er þurrkað áður en útblástur er efnagreindur,

     ii) sannprófa skal á viðeigandi hátt dvalartíma útblásturslofts frá brennslu við lágmarkshitann 850°C, svo sem tilgreint er í 1. mgr. 7. gr., að minnsta kosti einu sinni þegar brennslustöð er tekin í notkun og við óhagstæðustu brennsluskilyrði sem fyrirsjáanleg eru.

9.2 Niðurstöður mælinga sem um getur í 1. mgr. skulu staðlaðar við eftirfarandi skilyrði: hiti 273 K, þrýstingur 101,3 kPa, 11% O2 eða 9% CO2, þurrt gas. Þegar 2. mgr. 6. gr. er beitt má þó staðla þær við eftirfarandi skilyrði: hiti 273 K, þrýstingur 101,3 kPa, 17% súrefni, þurrt loft.

9.3 Allar niðurstöður mælinga skulu skráðar, unnið úr þeim og þær settar fram á viðeigandi hátt svo að eftirlitsaðili geti gengið úr skugga um að farið sé að þeim skilyrðum sem sett hafa verið.

9.4 Tilhögun við sýnatöku og mælingar sem stuðst er við til að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru í 1. mgr. svo og staðsetning sýnatöku- eða mælistaða skal vera háð samþykki eftirlitsaðila.

9.5 Hvað varðar mælingarnar sem gerðar eru með reglulegu millibili skal rekstraraðili gera viðeigandi mælingaáætlanir til að tryggja að niðurstöðurnar gefi rétta mynd af venjulegu magni útblásturs þeirra efna sem um ræðir.  Niðurstöðurnar verða að gera það kleift að hægt sé að ganga úr skugga um hvort farið hafi verið eftir gildandi losunarmörkum.

 

10. gr.

10.1 Allar nýjar sorpbrennslustöðvar skulu búnar aukabrennurum. Þessir brennarar eru ræstir sjálfvirkt þegar hiti útblásturslofts frá brennslu fer niður fyrir 850°C. Einnig skal nota þá meðan verið er að hefja eða stöðva brennslu í stöðinni til þess að tryggja að framangreindum lágmarkshita sé ávallt haldið meðan þessi starfsemi fer fram og eins lengi og úrgangurinn er í brunahólfinu.

 

11. gr.

11.1 Sýni mælingar að farið hafi verið yfir losunarmörk þau sem kveðið er á um í reglugerð þessari skal gera eftirlitsaðila viðvart eins fljótt og unnt er. Honum ber að tryggja að engin brennsla fari fram í hlutaðeigandi stöð á meðan ekki er farið eftir útblástursstöðlum og skal hann gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að stöðinni sé breytt eða starfseminni hætt.

11.2 Í starfsleyfi skal tiltaka hversu lengi hreinsibúnaður má stöðvast af tæknilega óviðráðanlegum orsökum með þeim afleiðingum að styrkur efnanna sem losuð eru út í andrúmsloftið á meðan og búnaðinum er ætlað að draga úr, fari yfir sett losunarmörk. Ef bilun verður skal stöðvarstjóri draga úr starfseminni eða stöðva hana eins fljótt og unnt er að koma því við þangað til hægt er að hefja eðlilega starfsemi á ný. Óheimilt er með öllu að halda áfram brennslu í stöðinni lengur en átta stundir samfleytt, enn fremur skal samanlagður rekstrartími á starfsári við slíkar aðstæður vera skemmri en 96 klukkustundir. Magn ryks í útblásturslofti má í engum tilvikum fara yfir 600 mg/Nm3 á þeim tíma sem um getur hér að ofan og fullnægja skal öllum öðrum skilyrðum, einkum brennsluskilyrðum.

 

V. KAFLI

Ákvæði um starfandi sorpbrennslustöðvar.

12. gr.

12.1 Þegar um er að ræða stöðvar með nafnafköst sem jafngilda 6 tonnum af úrgangi á klukkustund eða meira gilda sömu skilyrði og sett eru nýjum brennslustöðvum með sömu afkastagetu og getið er í IV. kafla reglugerðarinnar. Þó gildir 14. gr. í stað 7. gr.

12.2 Eftirfarandi ákvæði gilda um aðrar starfandi sorpbrennslustöðvar: Skilyrðin sem sett eru í 13. til 14. gr. þessa kafla gilda og frá 1. desember 2000 gilda sömu skilyrði fyrir starfandi sorpbrennslustöðvar og sett eru fyrir nýjar stöðvar með sömu afkastagetu, sbr. IV. kafla reglugerðarinnar, þó gildir 14. gr. í stað 7. gr.

 

13. gr.

13.1 Eftirfarandi losunarmörk gilda um starfandi sorpbrennslustöðvar og eru þau stöðluð við þessi skilyrði: hiti 273 K, þrýstingur 101,3 kPa, 11% súrefni eða 9% CO2 sem þurrt gas:

a. stöðvar með minni nafnafköst en 6 tonn af úrgangi á klukkustund en þó að minnsta kosti 1 tonn:

- ryk alls 100 mg/Nm3;

b. stöðvar með minni nafnafköst en eitt tonn af úrgangi á klukkustund:

- ryk alls 600 mg/Nm3.

13.2 Þegar í hlut eiga stöðvar með afköst undir einu tonni á klukkustund er heimilt að miða losunarmörk við 17% súrefnisinnihald. Ef svo er má styrkleiki ekki fara yfir þau gildi sem kveðið er á um í 1. mgr., deilt með 2,5.

13.3 Í starfsleyfi skal setja losunarmörk fyrir önnur mengunarefni en þau sem nefnd eru í 1. mgr. þegar við á með tilliti til samsetningar úrgangsins sem brenna á og gerðar brennslustöðvarinnar. Við setningu þessara útblástursmarka skal taka tillit til hugsanlegra skaðlegra áhrifa þeirra mengunarefna sem um ræðir á umhverfið og heilsu manna, svo og til bestu fáanlegrar tækni. Meðal annars er heimilt að setja losunarmörk fyrir díoxín og fúrön.

 

14. gr.

14.1 Starfandi sorpbrennslustöðvar með afkastagetu er jafngildir 6 tonnum á klst. eða meira verða að uppfylla eftirfarandi skilyrði: Lofttegundir sem myndast við brennslu úrgangsins séu hitaðar eftir síðustu inndælingu brennslulofts og jafnvel við óhagstæðustu aðstæður upp í að minnsta kosti 850°C í tvær sekúndur hið minnsta og sé súrefnisinnihald eigi minna en 6%. Ef af þessu hljótast veruleg tæknivandamál er heimilt að fresta skilyrðinu um tveggja sekúndna tímann en þó ekki lengur en þar til skipt hefur verið um brennsluofna.

14.2 Aðrar starfandi sorpbrennslustöðvar verða að uppfylla eftirfarandi brennsluskilyrði: Lofttegundir sem myndast við brennslu úrgangsins séu hitaðar, eftir síðustu inndælingu brennslulofts og jafnvel við óhagstæðustu aðstæður í þann tíma sem ákveðinn er í starfsleyfi að sé nægilegur, upp í að minnsta kosti 850°C og sé súrefnisinnihald eigi minna en 6%.

14.3 Allar starfandi sorpbrennslustöðvar skulu virða losunarmörk um 100 mg/Nm3 hámarksstyrk kolmónoxíðs (CO) í útblásturslofti frá brennslu á meðan brennsla stendur yfir. Losunarmörkin skulu stöðluð við þessi skilyrði: hiti 273 K, þrýstingur 101,3 kPa, 11% súrefni eða 9% CO2 sem þurrt gas.

14.4 Heimila má önnur skilyrði en þau sem sett eru í 1. mgr. ef viðeigandi tækni er beitt í brennsluofnum eða búnaði til meðhöndlunar á útblásturslofti frá brennslu að því tilskildu að magn fjölklóraðra díbensódíoxína (PCDD) og fjölklóraðra díbensófúrana (PCDF) sem losnar verði jafnt eða minna en það sem fæst með þeim tæknilegu skilyrðum sem sett eru í 1. og 2. mgr.

 

15. gr.

15.1 Hiti og súrefnisinnihald sem kveðið er á um í 1. mgr. 14. gr. eru lágmarksgildi sem ætíð skulu virt meðan brennsla fer fram í stöðinni.

15.2 Sá styrkur kolmónoxíðs (CO) sem kveðið er á um í 2. mgr. 14. gr. er:

a. viðmiðunarmark fyrir meðalgildi á klukkustund ef um er að ræða stöðvar með 6 tonna nafnafköst á klukkustund eða meiri. Þá verða enn fremur að minnsta kosti 90% allra mælinga sem gerðar eru yfir 24 klst. tímabil að vera undir 150 mg/Nm3.

b. viðmiðunarmark fyrir meðalgildi á klukkustund ef um er að ræða stöðvar með minni nafnafköst en 6 tonn á klukkustund en þó ekki minni en 1 tonn á klukkustund,

c. viðmiðunarmark fyrir sólarhringsmeðaltal, ef um er að ræða stöðvar með minni nafnafköst en 1 tonn á klukkustund.

Við útreikning á ofannefndum meðaltalsgildum skal aðeins taka með í reikninginn þann tíma sem stöðin er í gangi, þar með talinn gangsetningar- og stöðvunartíma.

15.3 Þegar um er að ræða ryk sem samkvæmt 16. gr. á að fylgjast stöðugt með:

a. má ekkert sjö daga hlaupandi meðaltal af mælingum á styrk umræddra efna fara yfir samsvarandi losunarmörk;

b. má ekkert sólarhringsmeðaltal af mælingum á styrk umræddra efna fara meira yfir samsvarandi losunarmörk en sem nemur 30%.

Við útreikning á áðurnefndum meðaltalsgildum skal aðeins taka með í reikninginn þann tíma sem stöðin er í gangi, þar með talinn gangsetningar- og stöðvunartíma.

15.4 Þegar krafist er reglubundinna mælinga á öllu ryki samkvæmt 16. gr. má styrkurinn sem mælist ekki fara yfir losunarmörk.

 

16. gr.

16.1 Við starfandi stöðvar skal mæla:

a.   styrk tiltekinna efna í útblásturslofti frá brennslu:

     i) heildarrykmagn, CO og súrefni skal stöðugt mæla og skrá þegar í hlut eiga stöðvar þar sem nafnafköst eru 1 - 6 tonn á klukkustund eða meiri;

     ii) eftirfarandi skal mæla með reglulegu millibili:

     - heildarrykmagn, styrk súrefnis og CO þegar í hlut eiga starfandi stöðvar með minni nafnafköst en 1 tonn af úrgangi á klukkustund;

b.   brennsluaðstæður:

     i) stöðugt skal mæla og skrá hita lofttegundanna í því rými þar sem skilyrðum 1. mgr. 14. gr. er fullnægt;

     ii) sannprófa skal á viðeigandi hátt og við óhagstæðustu brennsluskilyrði sem fyrirsjáanleg eru í stöðinni, dvalartíma útblásturslofts frá brennslu við lágmarkshitann 850°C, svo sem tilgreint er í 1. mgr. 14. gr. að minnsta kosti einu sinni eftir hverja breytingu á stöðinni.

16.2 Niðurstöður mælinganna sem greint er frá í 1. mgr. skulu staðlaðar við eftirfarandi skilyrði:

- hiti 273 K, þrýstingur 101,3 kPa, 11% O2 eða 9% CO2, þurrt loft.

Þegar 2. mgr. 13. gr. er beitt má þó staðla niðurstöðurnar við eftirfarandi skilyrði:

- hiti 273 K, þrýstingur 101,3 kPa, 17% O2 , þurrt loft.

16.3 Niðurstöður allra mælinga skulu skráðar svo eftirlitsaðili geti gengið úr skugga um að farið sé að þeim skilyrðum sem sett hafa verið.

16.4 Tilhögun við sýnatöku og mælingar, aðferðir og búnaður sem stuðst er við til að fullnægja þeim kröfum sem gerðar eru í 1. mgr., svo og staðsetning sýnatöku- og mælistaða, skal vera háð samþykki eftirlitsaðila.

16.5 Hvað varðar mælingarnar sem gerðar eru með reglulegu millibili skal eftirlitsaðili gera viðeigandi mælingaáætlanir til að tryggja að niðurstöðurnar gefi rétta mynd af venjulegu magni útblásturs þeirra efna sem um ræðir. Niðurstöðurnar verða að gera það kleift að ganga úr skugga um hvort farið hafi verið eftir gildandi losunarmörkum.

 

17. gr.

17.1 Sýni mælingar að farið hafi verið yfir losunarmörk þau sem sett eru með þessari reglugerð skal tryggja að engin brennsla fari fram í hlutaðeigandi stöð á meðan ekki er farið eftir útblástursstöðlum og gera skal nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að henni sé breytt eða starfsemi hennar hætt.

17.2 Í starfsleyfi skal ákveða hversu lengi hreinsibúnaður má stöðvast af tæknilega óviðráðanlegum orsökum með þeim afleiðingum að styrkur efnanna sem hleypt er út í andrúmsloftið á meðan og búnaðinum er ætlað að draga úr, fari yfir sett losunarmörk. Ef bilun verður ber rekstraraðila að draga úr starfsemi eða hætta brennslu eins fljótt og unnt er að koma því við og þar til hægt er að hefja eðlilega starfsemi á ný. Ekki er heimilt undir nokkrum kringumstæðum að halda áfram brennslu í stöðinni lengur en í 16 stundir samfleytt; enn fremur skal samanlagður rekstrartími á starfsári við slíkar aðstæður vera skemmri en 200 klukkustundir. Magn ryks í útblásturslofti má í engum tilvikum fara yfir 600 mg/Nm3 á þeim tíma sem greint er frá í ofannefndri undirgrein og fullnægja skal öllum öðrum skilyrðum, einkum skilyrðum um brennslu.

 

VI. KAFLI

Aðgangur að upplýsingum, þvingunarúrræði, viðurlög o.fl.

Aðgangur að upplýsingum.

18. gr.

18.1 Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt lögum um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál nr. 21/1993, upplýsingalögum nr. 50/1996 og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

 

Þagnarskylda eftirlitsaðila.

19. gr.

19.1 Eftirlitsaðilar og aðrir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

19.2 Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.

 

Valdsvið og þvingunarúrræði.

20. gr.

20.1 Til að knýja á um ráðstafanir samkvæmt reglugerð þessari skal fylgja þeim þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir um í IX. kafla reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit þegar við á.  Annars gilda ákvæði VI. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 um valdsvið og þvingunarúrræði.

 

Viðurlög.

21. gr.

21.1 Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

21.2 Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.

 

VII. KAFLI

Lagastoð, gildistaka o.fl.

22. gr.

22.1 Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laganna.

22.2 Reglugerðin er sett með hliðsjón af 20. og 21. tölul. XX. viðauka EES-samningsins (tilskipun 89/369/EBE og tilskipun 89/429/EBE).

22.3 Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

 

Umhverfisráðuneytinu, 29. október 1999.

 

Siv Friðleifsdóttir.

Magnús Jóhannesson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica