Umhverfisráðuneyti

794/1999

Reglugerð um varnir gegn mengun af völdum asbests - Brottfallin

Reglugerð

um varnir gegn mengun af völdum asbests.

 

Markmið.

1. gr.

1.1 Markmið reglugerðar þessarar er að draga úr og koma í veg fyrir mengun af völdum asbests.

 

Gildissvið.

2. gr.

2.1 Reglugerðin gildir um vinnslu með asbest, svo og vörur og úrgang sem inniheldur það. Reglugerðin gildir um viðeigandi atvinnurekstur hér á landi og í mengunarlögsögunni.

 

Skilgreiningar.

3. gr.

3.1 Vísað er til reglugerðar um úrgang um skilgreiningar að því leyti sem ekki er að finna tæmandi skýringar í fylgiskjali reglugerðarinnar.

 

Hlutverk Hollustuverndar ríkisins og heilbrigðisnefnda.

4. gr.

4.1 Heilbrigðisnefndum, undir faglegri yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, og Hollustuvernd ríkisins ber að sjá til að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

4.2 Lögbært stjórnvald (yfirvald) er í reglugerðinni Hollustuvernd ríkisins.

 

Meginreglur.

5. gr.

5.1 Reglur sem eiga að koma í veg fyrir og draga úr mengun af völdum asbests eru í fylgiskjali með reglugerðinni og er það hluti af henni.

 

Starfsleyfisskylda.

6. gr.

6.1 Mengandi atvinnurekstur sem tengist vinnslu og meðferð asbests og meðhöndlun úrgangs frá honum er starfsleyfisskyldur.

 

Aðgangur að upplýsingum.

7. gr.

7.1 Um aðgang að upplýsingum fer samkvæmt lögum um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál nr. 21/1993, upplýsingalögum nr. 50/1996 og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998.

 

Þagnarskylda eftirlitsaðila.

8. gr.

8.1 Eftirlitsaðilar og aðrir sem starfa samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem varða framleiðslu- og verslunarleynd. Sama gildir um atriði sem þeir fá vitneskju um og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.

8.2 Upplýsingar og tilkynningar eftirlitsaðila til fjölmiðla skulu vera efnislega rökstuddar og þess gætt að einstakar atvinnugreinar, stofnanir eða fyrirtæki bíði ekki tjón og álitshnekki að óþörfu.

 

Valdsvið og þvingunarúrræði.

9. gr.

9.1 Til að knýja á um ráðstafanir samkvæmt reglugerð þessari skal fylgja þeim þvingunarúrræðum sem mælt er fyrir um í IX. kafla reglugerðar um mengunarvarnaeftirlit þegar við á.  Annars gilda ákvæði VI. kafla laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 um valdsvið og þvingunarúrræði.

Viðurlög.10. gr.

10.1 Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða sektum hvort sem þau eru framin af ásetningi eða stórfelldu gáleysi. Sé um stórfelld eða ítrekuð ásetningsbrot að ræða skulu þau að auki varða fangelsi allt að fjórum árum.

10.2 Sektir má ákvarða lögaðila þó að sök verði ekki sönnuð á fyrirsvarsmenn eða starfsmenn hans eða aðra þá einstaklinga sem í þágu hans starfa, enda hafi brotið orðið eða getað orðið til hagsbóta fyrir lögaðilann.

 

Lagastoð og gildistaka.

11. gr.

11.1 Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Jafnframt er reglugerðin sett að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 9. gr. laga nr. 7/1998.

11.2 Reglugerðin er sett með hliðsjón af tölul. 18 í XX. viðauka EES-samningsins (tilskipun 87/217/EBE), sbr. og bókun 1 við EES-samninginn.

11.3 Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

 

Umhverfisráðuneytinu, 29. október 1999.

 

Siv Friðleifsdóttir.

Magnús Jóhannesson.

Fylgiskjal.

TILSKIPUN RÁÐSINSfrá 19. mars 1987um að koma í veg fyrir og draga úr asbestmengun í umhverfinu(87/217/EBE).

RÁÐ EVRÓPUBANDALAGANNA HEFUR,

 

með hliðsjón af stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu, einkum 100. og 235. gr. hans,

 

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar 1),

 

með hliðsjón af áliti Evrópuþingsins 2),

 

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar 3),

 

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

 

Í áætlunum Evrópubandalaganna um aðgerðir í umhverfismálum 4) er lögð áhersla á mikilvægi þess að koma í veg fyrir og draga úr mengun í umhverfinu. Í þessu samhengi hefur asbest verið talið meðal þeirra mengunarefna sem mikilvægast er að taka fyrir sökum eiturverkunar þeirra og hversu alvarleg áhrif þau gætu haft á umhverfið og heilsu manna.

 

Með tilskipun ráðsins 83/478/EBE 5) var ákvæðum sem takmarka markaðssetningu og notkun á krókídólíti (bláu asbesti) og vörum sem innihalda krókídólíttrefjar, svo og sérstökum ákvæðum sem varða merkingar á vörum sem innihalda asbest, bætt í tilskipun 76/769/EBE 6), eins og henni var síðast breytt með tilskipun 85/467/EBE 7).

 

Í tilskipun ráðsins 83/477/EBE 8) eru sett ákvæði um verndun starfsmanna gegn áhættu vegna áhrifa af asbesti á vinnustöðum.

 

Í tilskipun 84/360/EBE 9) eru sett ákvæði um baráttu gegn loftmengun frá iðjuverum.

 

Aðildarríkin skulu grípa til nauðsynlegra ráðstafana til að tryggja að eins og framast er unnt verði dregið úr eða komið í veg fyrir útblástur asbests í andrúmsloftið, asbestlosun í sjó, ár og vötn og tilurð asbestúrgangs í föstu formi, þar sem slíkt á upptök sín.

 

Rétt er að veita hæfilegan tíma fyrir beitingu þessara ráðstafana gagnvart starfandi iðjuverum.

 

Aðildarríkjunum ætti að vera mögulegt, svo lengi sem ákvæði sáttmálans eru virt, að setja strangari ákvæði í heilsu- og umhverfisverndarskyni.

 

Sá mismunur á gildandi lagaákvæðum eða ákvæðum sem verið er að breyta, í aðildarríkjunum, til að takmarka mengun frá iðjuverum, getur skapað ójöfn samkeppnisskilyrði og þar með haft bein áhrif á starfsemi hins sameiginlega markaðar. Þess vegna er nauðsynlegt að samræma löggjöf á þessu sviði á grundvelli 100. gr. sáttmálans.

 

Takmörkun asbestmengunar stuðlar að því að koma áleiðis einu af stefnumálum bandalagsins um verndun og úrbætur í umhverfismálum. Hins vegar gerir sáttmálinn ekki ráð fyrir sérstakri heimild í þessu skyni og því verður einnig að skírskota til 235. gr. hans.

 

 

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

 

1. gr.

 

1. Markmið þessarar tilskipunar er að mæla fyrir um ráðstafanir og bæta við lagaákvæði sem þegar eru í gildi, með það fyrir augum að draga úr og koma í veg fyrir asbestmengun og stuðla þannig að verndun umhverfisins og heilsu manna.

 

2. Tilskipun þessari skal beitt án þess að það brjóti í bága við ákvæði sem fastsett eru með tilskipun 83/477/EBE.

 

 

 

 

2. gr.

 

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

 

1. _Asbest" merkir eftirfarandi þráðlaga sílíkatsambönd:

 

- krókídólít (blátt asbest),

 

- aktínólít,

 

- antófyllít,

 

- krýsótíl (hvítt asbest),

 

- amósít (brúnt asbest),

 

- tremólít.

 

2. _Hráasbest": Afurðin sem fengin er við fyrstu molun asbestbergs.

 

3. _Asbestnotkun": Starfsemi sem hefur í för með sér árlega notkun á meira en 100 kg af hráasbesti og sem tekur til:

 

a) framleiðslu á hráasbesti úr bergi, ef frá eru talin ferli sem tengjast beint námuvinnslu bergsins, og/eða

 

b) vinnslu og lokameðhöndlun eftirfarandi afurða þar sem hráasbest er notað: asbest-sement, eða vörur úr asbest-sementi, núningsvörur úr asbesti, asbest-síur, asbest-vefnaður, asbest-pappír og -pappi, pökkunar- og styrkingarefni, asbest-gólfefni, asbest-fylliefni.

 

4. _Vinnsla á vörum sem innihalda asbest": Starfsemi önnur en asbestnotkun, sem líklegt er að hafi í för með sér að asbest komist út í andrúmsloftið.

 

5. _Úrgangur": Efni eða hlutur samkvæmt skilgreiningu í 1. gr. tilskipunar 75/442/EBE 1).

 

3. gr.

 

1. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að dregið sé úr eða komið í veg fyrir losun asbests í andrúmsloftið, asbestlosun í vatn og tilurð asbestúrgangs í föstu formi þar sem slíkt á upptök sín, að svo miklu leyti sem það er hægt með góðu móti. Ef asbest er notað skulu þessar ráðstafanir fela í sér notkun fullkomnustu tækni sem völ er á og hefur ekki í för með sér óhóflegan kostnað, þar með talin endurvinnsla eða meðhöndlun þar sem það á við.

 

2. Ef um er að ræða starfandi iðjuver skulu skilyrðin í 1. mgr. að notuð sé fullkomnasta tækni, sem völ er á og hefur ekki í för með sér óhóflegan kostnað, til að draga úr eða koma í veg fyrir útblástur asbests í andrúmsloftið gilda og taka skal til greina þá þætti sem settir eru fram í 13. gr. tilskipunar 84/360/EBE.

 

4. gr.

 

1. Án þess að brjóti í bága við 3. gr. skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að magn asbests, sem veitt er um útblástursrásir út í andrúmsloftið meðan á notkun asbests stendur, fari ekki yfir viðmiðunarmörk sem eru 0,1 mg/m3 (milligrömm asbests á m3 af útblásturslofti).

 

2. Aðildarríkin mega veita undanþágu frá þeirri skyldu sem getið er í 1. mgr. ef um er að ræða iðjuver þar sem heildarútblástur lofts er minni en 5.000 m3 /klst., og útblástur asbests í andrúmsloftið er aldrei meiri en 0,5 grömm á klukkustund við eðlileg starfsskilyrði.

 

Þegar þessi undanþága gildir skulu lögbær yfirvöld í aðildarríkjunum gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að tryggja að ekki sé farið yfir mörkin sem nefnd eru í fyrstu undirgrein.

 

5. gr.

 

Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að:

a) Allt fráveituvatn frá framleiðslu á asbest-sementi sé endurnýtt. Þar sem slík endurnýting er ekki hagkvæm skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að losun fráveituvatns sem inniheldur asbest muni ekki hafa í för með sér mengun vatns eða annarra þátta umhverfisins, að meðtöldu andrúmsloftinu.

 

Í þessu skyni:

 

-   skal viðmiðunarmarkið 30 grömm alls af svifefni í hverjum m3 af fráveituvatni gilda,

 

-   skulu lögbær yfirvöld í aðildarríkjunum tilgreina, fyrir hlutaðeigandi iðjuver, magn það sem losað er í vatnið, eða heildarmagn svifefna sem losuð eru fyrir hvert tonn framleiðslu, að teknu tilliti til sérstöðu iðjuversins. Þessi mörk skulu gilda við útrásir þar sem fráveituvatn er losað úr iðjuverinu.

 

b) Allt fráveituvatn frá framleiðslu á asbestpappír eða asbestpappa sé endurnýtt.

 

Hins vegar má heimila losun fráveituvatns sem inniheldur í mesta lagi 30 grömm af svifefnum í m3 vatns meðan á reglulegri hreinsun eða viðhaldi iðjuversins stendur.

 

 

6. gr.

 

1. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að mælingar séu gerðar með reglulegu millibili á útblæstri í andrúmsloftið og á fráveituvatni frá stöðum þar sem viðmiðunarmörkin sem kveðið er á um í 4. og 5. gr. gilda.

 

2. Til þess að kanna megi hvort farið sé að fyrrgreindum viðmiðunarmörkum skulu starfshættir og aðferðir við sýnatöku og greiningu vera í samræmi við þær sem lýst er í viðauka eða við aðra starfshætti og aðferðir sem gefa sambærilegar niðurstöður.

 

3. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um starfshætti og aðferðir sem þau nota, og gefa upplýsingar sem þarf til að meta hversu viðeigandi slíkir starfshættir og aðferðir eru. Á grundvelli þessara upplýsinga mun framkvæmdastjórnin hafa eftirlit með því hversu sambærilegir hinir ýmsu starfshættir og aðferðir eru og gefa ráðinu skýrslu fimm árum eftir birtingu tilskipunarinnar.

 

7. gr.

 

Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að:

-    starfsemi sem felur í sér vinnslu á afurðum sem innihalda asbest valdi ekki verulegri umhverfismengun með asbesttrefjum eða -ryki,

 

-    að veruleg umhverfismengun verði ekki af því er búnaður, byggingar og mannvirki sem innihalda asbest eru rifin og asbest eða efni sem innihalda asbest eru fjarlægð úr þeim, með þeim afleiðingum að asbestryk eða asbesttrefjar losna. Í því skyni skulu aðildarríkin sjálf ganga úr skugga um að vinnuáætlunin, sem kveðið er á um í 12. gr. tilskipunar 83/477/EBE, mæli fyrir um að öllum nauðsynlegum varnaraðgerðum í þessu skyni sé komið á.

 

8. gr.

 

Með fyrirvara um tilskipun 78/319/EBE 1), með síðustu breytingum aðildarlaga frá 1985, skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að:

 

-    meðan flutningur og losun á úrgangi sem inniheldur asbesttrefjar eða -ryk stendur yfir, sé engum slíkum trefjum eða ryki hleypt út í andrúmsloftið og enn fremur að engir vökvar sem kunna að innihalda asbesttrefjar hellist niður,

 

-    ef úrgangur sem inniheldur asbesttrefjar eða -ryk er urðaður á stöðum þar sem það er heimilt, þá sé hann meðhöndlaður, pakkaður og þakinn þannig með tilliti til aðstæðna að komið sé í veg fyrir að asbestagnir berist út í umhverfið.

 

9. gr.

 

Í því skyni að vernda umhverfið og heilsu manna er aðildarríkjunum heimilt að innleiða strangari ákvæði en þau sem sett eru í þessari tilskipun, í samræmi við skilyrði ákveðin í sáttmálanum.

 

10. gr.

 

Tilhögun þeirri sem kveðið er á um í 11. og 12. gr. er komið á til að laga megi viðaukann að tækniframförum og farið skal eftir henni ef breyta þarf sýnatöku- og greiningaraðferðum sem minnst er á í viðauka. Þessi aðlögun má ekki leiða beint eða óbeint til breytinga á viðmiðunarmörkum sem nefnd eru í 4. og 5. gr.

 

11. gr.

 

Nefnd til að laga þessa tilskipun að framförum í vísindum og tækni, hér eftir kölluð _nefndin", er hér með komið á fót; hún skal skipuð fulltrúum aðildarríkjanna undir formennsku fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar.

 

Nefndin setur sér starfsreglur.

 

12. gr.

 

1. Þegar fylgja skal tilhögun þeirri sem sett er fram í þessari grein, ber formanni nefndarinnar að vísa málinu til hennar, annaðhvort að eigin frumkvæði eða að ósk fulltrúa aðildarríkis.

 

2. Fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar leggur fyrir nefndina drög að þeim ráðstöfunum sem gera skal. Nefndin skal skila áliti sínu á drögunum fyrir þau tímamörk sem formanni er heimilt að setja eftir því hversu brýnt málið er. Álit skulu samþykkt með 54 atkvæða meirihluta og vega atkvæði aðildarríkjanna eins og mælt er fyrir um í 2. mgr. 148. gr. sáttmálans. Formaður greiðir ekki atkvæði.

 

3.  a)  Framkvæmdastjórnin skal samþykkja fyrirhugaðar ráðstafanir séu þær í samræmi við álit nefndarinnar.

 

     b) Séu fyrirhugaðar ráðstafanir ekki í samræmi við álit nefndarinnar eða skili nefndin ekki áliti ber framkvæmdastjórninni án tafar að leggja tillögu fyrir ráðið um ráðstafanir sem gera skal. Ráðið tekur ákvörðun með auknum meirihluta.

 

       Hafi ráðið ekkert aðhafst innan þriggja mánaða frá því að tillagan var lögð fyrir það skal framkvæmdastjórnin samþykkja fyrirhugaðar ráðstafanir og beita þeim þegar í stað.

 

13. gr.

 

1. Framkvæmdastjórnin skal með reglulegu millibili bera saman og meta beitingu þessarar tilskipunar í aðildarríkjunum. Aðildarríkin skulu sjá framkvæmdastjórninni  fyrir öllum upplýsingum í þessu skyni. Ef veittar upplýsingar eru trúnaðarmál ber að virða það.

 

2. Í ljósi aukinnar þekkingar í læknisfræði og tækniþróunar skal framkvæmdastjórnin leggja fram ef þörf krefur frekari tillögur sem miða að því að koma í veg fyrir og draga úr asbestmengun, í þágu umhverfis- og heilsuverndar.

 

14. gr.

 

1. Með fyrirvara um 2. mgr. skulu aðildarríkin koma í framkvæmd lögum og stjórnsýslufyrirmælum sem nauðsynleg eru til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 31. desember 1988. Þau skulu þegar í stað upplýsa framkvæmdastjórnina um það.

 

2. Aðildarríkin skulu samþykkja og birta þau ákvæði sem nauðsynleg eru til að hlíta 4. og 5. gr. eins fljótt og auðið er og eigi síðar en 30. júní 1991 ef um er að ræða iðjuver sem byggð eru eða hafa fengið starfsleyfi fyrir dagsetninguna sem getið er í 1. mgr.

 

3. Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni texta helstu ákvæða úr þeim lögum sem sett eru á því sviði sem tilskipun þessi nær til.

 

15. gr.

 

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

 

 

Gjört í Brussel 19. mars 1987.

 

Fyrir hönd ráðsins,

 

M. SMET

 

Forseti.

VIÐAUKI

 

Aðferðir við sýnatöku og greiningu.

 

A. Losun frárennslisvatns.

 

Tilvísunaraðferðin sem notuð er við ákvörðun á heildarmagni svifagna (síanlegt efni úr sýninu fyrir botnfellingu), gefið upp í mg/l, felst í síun gegnum 0,45 m síuhimnu, þurrkun við 105 °C og vigtun1).

 

Sýni skulu tekin þannig að þau gefi rétta mynd af losuninni á 24 klukkustunda tímabili.

 

Þessi ákvörðun skal gerð með nákvæmninni2) 5% og hittninni2) 10%.

 

B. FORSKRIFTIR SEM FARA SKAL EFTIR ÞEGAR AÐFERÐ ER VALIN TIL AÐ MÆLA ÚTBLÁSTUR Í ANDRÚMSLOFTIÐ.

 

I. Þyngdarmæling.

 

1. Valin er þyngdarmælingaraðferð sem gerir kleift að mæla heildarmagn ryks sem losað er í andrúmsloftið um útblástursrásir.

 

Taka skal tillit til styrks asbests í ryki. Þegar styrkmælinga er krafist skal mæla eða meta styrk asbests í ryki. Eftirlitsaðili skal, með hliðsjón af því hvaða framleiðslu og iðjuver er um að ræða, ákveða hversu oft slíkar mælingar fara fram en þær skulu í fyrstu fara fram að minnsta kosti sjötta hvern mánuð. Hafi aðildarríki komist að því að ekki sé um miklar breytingar á styrk að ræða má draga úr sýnatökutíðninni. Ef reglubundnar mælingar fara ekki fram gilda viðmiðunarmörkin, sem tilgreind eru í 4. gr. tilskipunarinnar, um heildarmagn ryks í útblæstri.

 

Sýnataka skal fara fram áður en útblástur sem mæla á þynnist.

 

2. Sýnataka fer fram með nákvæmninni 40% og hittninni 20% við viðmiðunarmörkin. Greiningarmörkin skulu vera 20%. Mæla skal að minnsta kosti tvisvar við sömu skilyrði til þess að komast að því hvort viðmiðunarmörkunum sé hlítt.

 

3. Starfsemi starfsstöðvarinnar

Mælingar eru aðeins gildar ef sýni eru tekin við eðlilega starfsemi starfsstöðvarinnar.

 

4. Sýnatökustaður valinn.

Sýnataka skal fara fram á stað þar sem loftflæði er ótruflað. Forðast skal eins og hægt er loftsveipi og hindranir sem kunna að trufla flæði loftsins.

 

5. Breytingar vegna sýnatöku.

Gera skal viðeigandi op í útblástursrásir þar sem taka á sýni auk þess sem hentugum vinnupöllum skal komið fyrir.

 

6. Mælingar sem gera þarf áður en sýni eru tekin.

Áður en sýnataka hefst er nauðsynlegt að mæla lofthita og -þrýsting auk hraða loftstreymis í útblást-ursrásinni.  Venjulega skal mæla lofthita og -þrýsting meðfram sýnatökurásinni þegar loftstreymi er eðlilegt. Við óvenjulegar aðstæður er einnig nauðsynlegt að mæla magn vatnsgufu svo hægt sé að leiðrétta niðurstöðurnar á viðeigandi hátt.

 

7. Almennar kröfur um aðferð við sýnatöku.

Gerð er krafa um að sýnatökuaðferð feli í sér að tekið sé loftsýni í gegnum síu úr útblástursrás þar sem asbestryki er blásið út og mælt asbestmagnið sem verður eftir í síunni.

 

7.1. Prófa skal sýnatökurásina til að ganga úr skugga um að hún sé þétt svo að tryggt sé að það valdi ekki mæliskekkju. Inntaksopinu er lokað gaumgæfilega og sýnatökudælan gangsett. Leki má ekki vera meiri en 1% af venjulegu sýnatökuflæði.

 

7.2. Sýnataka fer venjulega fram við _ísókínetískar" aðstæður.

 

7.3. Sá tími sem sýnataka varir fer eftir starfseminni sem haft er eftirlit með og sýnatökurásinni sem notuð er og sýnatökutíminn skal vera nægilega langur til að tryggt sé að nógu mikið magn efnis sé safnað til að vega. Hann skal vera dæmigerður fyrir allt eftirlitsferlið.

 

7.4. Ef sýnatökusían er ekki staðsett fast við inntaksopið er mikilvægt að safna saman þeim efnum sem falla út í sýnatökuinntakinu.

 

7.5. Ákvörðun um inntaksop og fjölda sýnatökustaða er tekin í samræmi við staðla sem hvert land hefur sett.

 

8. Tegund sýnatökusíunnar.

 

8.1. Velja skal síu sem best hentar fyrir þá greiningartækni sem beitt er. Sé þyngdarmælingu beitt er æskilegt að nota glertrefjasíur.

 

8.2. Krafist er 99% lágmarkssíunarvirkni, skilgreindri samkvæmt DOP-prófun þar sem notaður er úði með ögnum sem eru 0,3 m að þvermáli.

 

9. Vigtun.

 

9.1. Nota skal viðeigandi nákvæmnisvog.

 

9.2. Til þess að uppfylla kröfur um nákvæmni vigtunar er mikilvægt að laga síurnar að stöðluðum aðstæðum fyrir og eftir sýnatöku.

 

10. Framsetning á niðurstöðum.

Auk niðurstaðna mælinganna skal skrá tölur um hita, þrýsting og flæði sem og allar upplýsingar sem skipta máli, svo sem einfalda skýringarmynd sem sýnir staðsetningu sýnatökustaða, mál útblástursrása, safnað magn og aðferð við að reikna út niðurstöðurnar. Niðurstöðurnar skulu gefnar upp miðað við staðalhitastig (273 K) og þrýsting (101,3 kPa).

 

II. Trefjatalningaraðferð.

 

Þar sem þeirri aðferð er beitt að telja trefjar í þeim tilgangi að fylgjast með hvort viðmiðunarmörkum 4. gr. tilskipunarinnar sé hlítt má nota breytistuðulinn tvær trefjar/ml sem jafngilda 0,1 mg/m3 af asbestryki, samanber þó ákvæði 3. mgr. 6. gr. tilskipunarinnar.

 

Í þessari tilskipun eru trefjar skilgreindar sem hlutir sem eru lengri en 5 m, grennri en 3 m og þar sem hlutfall milli lengdar og breiddar er hærra en 3:1 og hægt er að telja með hjálp fasasmásjár samkvæmt evrópsku tilvísunaraðferðinni sem skilgreind er í I. viðauka tilskipunar 83/477/EBE.

 

Aðferð við að telja trefjar skal vera í samræmi við eftirfarandi forskrift:

 

1. Með aðferðinni skal vera mögulegt að mæla fjölda teljanlegra trefja í útblásturslofti.

 

Eftirlitsaðili skal, með hliðsjón af því um hvaða framleiðslu og iðjuver er að ræða, ákveða hversu oft slíkar mælingar fara fram en þær skulu í fyrstu fara fram a.m.k. sjötta hvern mánuð. Ef reglulegar mælingar fara ekki fram gilda viðmiðunarmörkin, sem tilgreind eru í 4. gr., um heildarmagn ryks í útblæstri.

Sýnataka skal fara fram áður en útblástur sem mæla á þynnist.

 

2. Starfsemi starfsstöðvarinnar.

Mælingar eru aðeins gildar ef sýni eru tekin við eðlilega starfsemi starfsstöðvarinnar.

 

3. Sýnatökustaður valinn.

Sýnataka skal fara fram á stað þar sem loftflæði er ótruflað. Forðast skal eins og hægt er loftsveipi og hindranir sem kunna að trufla flæði loftsins.

 

4. Breytingar vegna sýnatöku.

Gera skal viðeigandi op í útblástursrásir þar sem taka á sýni auk þess sem hentugum vinnupöllum skal komið fyrir.

 

5. Mælingar sem gera þarf áður en sýni eru tekin.

Áður en sýnataka hefst er nauðsynlegt að mæla lofthita og -þrýsting auk hraða loftflæðis í útblástursrásinni. Venjulega skal mæla lofthita og -þrýsting meðfram sýnatökurásinni þegar loftstreymi er eðlilegt. Við óvenjulegar aðstæður er einnig nauðsynlegt að mæla magn vatnsgufu svo hægt sé að leiðrétta niðurstöðurnar á viðeigandi hátt.

 

6. Almennar kröfur um aðferð við sýnatöku.

Gerð er krafa um að sýnatökuaðferð feli í sér að tekið sé loftsýni í gegnum síu úr útblástursrás þar sem asbestryki er blásið út og asbestmagnið sem verður eftir í síunni mælt.

 

6.1. Prófa skal sýnatökurásina til að ganga úr skugga um að hún sé loftþétt svo að tryggt sé að það valdi ekki mæliskekkju. Inntaksopinu er lokað gaumgæfilega og sýnatökudælan gangsett. Leki má ekki vera meiri en 1% af venjulegu sýnatökuflæði.

 

6.2. Sýnataka fer venjulega fram við _ísókínetískar" aðstæður.

 

6.3. Sá tími sem sýnataka varir fer eftir starfseminni sem haft er eftirlit með og stærð sýnatökustútsins sem notaður er. Sýnatökutíminn skal vera nægilega langur til að tryggt sé að á síuna hafi safnast milli 100 - 600 teljanlegar asbesttrefjar/mm2 . Hann skal vera dæmigerður fyrir allt eftirlitsferlið.

 

6.4. Ákvörðun um inntaksop og fjölda sýnatökustaða er tekin í samræmi við staðla sem hvert land hefur sett.

 

7. Tegund sýnatökusíunnar.

 

7.1. Velja skal síu sem best hentar fyrir þá mælingartækni sem beitt er. Sé trefjatalningaraðferðinni beitt skal nota himnusíur (blandaðir sellulósa eða sellulósanítratesterar) með opnuninni 5 m, 25 mm í þvermál, með þrykktum ferningum.

 

7.2. Lágmarkssíunarvirkni sýnatökusíunnar skal vera 99% miðað við teljanlegar asbesttrefjar.

 

8. Trefjatalning.

Aðferðin sem notuð er við trefjatalningu skal samræmast evrópsku tilvísunaraðferðinni sem sett er fram í I. viðauka tilskipunar 83/477/EBE.

 

9. Framsetning á niðurstöðum.

Auk niðurstaðna mælinganna skal skrá tölur um hita, þrýsting og flæði sem og allar upplýsingar sem skipta máli, svo sem einfalda skýringarmynd sem sýnir staðsetningu sýnatökustaða, mál útblástursrása, safnað magn og aðferð við að reikna út niðurstöðurnar. Niðurstöðurnar skulu gefnar upp miðað við staðalhitastig (273 K) og þrýsting (101,3 kPa).


Þetta vefsvæði byggir á Eplica