REGLUGERÐ
um innflutning, notkun og förgun PCB, PCT og umhverfisskaðlegra staðgengilsefna þeirra.
I. KAFLI
Markmið og skilgreiningar.
1. gr.
Reglugerð þessi er sett til þess að takmarka notkun tiltekinna efnasambanda sem eru hættuleg heilsu manna og skaðleg umhverfinu og tryggja örugga förgun þeirra.
2. gr.
Reglugerðin gildir um hreint PCB og PCB í blöndu með öðrum efnum enda sé þyngdarhlutfall þeirra í blöndunni hærra en 0,005%.
3. gr.
Með PCB í þessari reglugerð er átt við:
- fjölklóruð bífenýlsambönd PCB (polychlorinated biphenyls), CAS-nr. 1336-36-3,
- fjölklóruðterfenýlsambönd PCT(polychlorinated terphenyls), CAS-nr.61788-33-8,
- mónómetýltetraklórdífenýlmetan (Ugilec 141), CAS-nr. 76253-60-6,
- mónómetýldíklórdífenýlmetan (Ugilec 121 eða Ugilec 21),
- mónómetýldíbrómdífenýlmetan (DBBT), CAS-nr. 99688-47-8.
Með búnaði sem inniheldur PCB er átt við öll tæki, vélar eða varning sem innihalda PCB eða innihéldu áður PCB (s.s. spennubreyta, þétta og ílát sem í eru afgangar). Búnaður sem gæti innihaldið PCB skal meðhöndlaður eins og hann innihaldi PCB.
Með notuðu PCB er átt við PCB sem spilliefni samkvæmt skilgreiningu í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994, ásamt síðari breytingum.
Með endurmyndun er átt við aðgerð til að hreinsa úrgang svo að hann eða hluti hans komist í svipað eða sama form og hann var upphaflega.
Með eiganda eða umráðamanni er átt við þann aðila sem er ábyrgur fyrir PCB, notuðu PCB eða búnaði sem inniheldur þau.
Með hreinsun er átt við allar aðgerðir sem gera það kleift að endurnota, endurvinna eða farga á öruggan hátt búnaði eða olíu sem er PCB menguð, þar með talið þegar PCB er skipt út í staðinn fyrir olíu sem er án PCB.
Með förgun er átt við förgunaraðgerðir eins og þær eru tilgreindar í viðauka 18 um úrgang, II. viðauka A-hluta, í mengunarvarnareglugerð nr. 48/1994 með síðari breytingum, nánar tiltekið D8, D9, D10, D12 (aðeins í öruggum geymslum sem grafnar eru djúpt í þurr berglög og aðeins fyrir búnað sem inniheldur PCB og PCB-olíur sem ekki er unnt að hreinsa PCB úr) og D15.
II. KAFLI
Takmarkanir.
4. gr.
Óheimilt er að flytja inn til landsins og nota PCB og búnað sem inniheldur þau. Öllu notuðu PCB skal fargað í samræmi við ákvæði mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, ásamt síðari breytingum. Þessar takmarkanir eiga ekki við um ein- og tvíklóruð bífenýlsambönd og búnað sem inniheldur þau.
Öllum búnaði sem inniheldur PCB skal fargað eða búnaðurinn hreinsaður eins fljótt og auðið er. Þessar takmarkanir eiga ekki við um ein- og tvíklóruð bífenýlsambönd og búnað sem inniheldur þau.
III. KAFLI
Undanþágur.
5. gr.
Umhverfisráðherra getur að fenginni umsögn eða tillögu Vinnueftirlits ríkisins og umsögn Hollustuverndar ríkisins veitt undanþágur frá ákvæðum 4. gr. um bann við innflutningi og notkun PCB og búnaðar sem inniheldur PCB. Undanþáguheimildin gildir þó ekki um Ugilec og DBBT. Slíkan innflutning og notkun skal takmarka við það notagildi eitt að önnur efni geti ekki komið í stað PCB. Skal í hverju veittu leyfi til innflutnings taka fram til hverra nota efnin eða búnaður sem hefur þau að geyma eru ætluð.
Um notkun og alla meðhöndlun PCB á vinnustöðum fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
Engin undanþága má gilda lengur en til ársins 2010 og skal förgun PCB lokið fyrir árslok 2010. Jafnframt skal hreinsun búnaðar sem inniheldur PCB lokið fyrir sama tímamark.
6. gr.
Vinnueftirlit ríkisins skal halda sérstaka skrá yfir búnað sem inniheldur meira en 5 lítra af PCB. Í spennustöðvum er átt við heildarmagn PCB í stöðinni. Í skránni skal koma fram:
1. Nafn og heimili eiganda eða umráðamanns.
2. Staðsetning og lýsing á búnaði.
3. Magn PCB.
4 Hvenær og hvernig viðhald á viðkomandi búnaði fer fram.
5. Dagsetning skráningar.
Skráin skal uppfærð árlega. Sé magn PCB á milli 0,005% og 0,05% er einungis nauðsynlegt að skrá fyrstu tvö atriðin hér að ofan.
7. gr.
Eigandi eða umráðamaður skal gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að í spennubreytum sem innihalda meira PCB en 0,05% sé PCB hreinsað úr þeim samkvæmt eftirfarandi:
1. Magn PCB fari niður fyrir 0,05% og ef mögulegt er niður fyrir 0,005%.
2. Olían sem sett er í staðinn verður að vera mun minna skaðleg umhverfi og heilsu manna en PCB.
3. PCB sem var í spennubreytunum verði fargað.
4. Merking spennubreytanna eftir að PCB hefur verið hreinsað úr þeim sé í samræmi við viðauka I.
Í samræmi við 4. og 5. gr. skal eigandi eða umráðamaður sjá til þess að PCB séu hreinsuð úr spennubreytum sem innihalda PCB í styrkleikanum 0,005% til 0,05% þegar hætt er að nota þá eða þeim fargað á löglegan hátt.
Eftirlitsaðili skal sannreyna að ráðstafanir hefi verið gerðar í samræmi við ákvæði 1. og 2. mgr. og gefa út um það vottorð. Ef ekki finnst eigandi eða umráðamaður yfir slíkum búnaði skal eftirlitsaðili sjá til þess að ráðstafanir séu gerðar í samræmi við 1. og 2. mgr.
8. gr.
Óheimilt er að skilja PCB frá öðrum efnum í þeim tilgangi að nota PCB aftur. Einnig er óheimilt að bæta olíu á spennubreyta sem innihalda PCB. Loks er óheimilt að brenna PCB eða notuðu PCB um borð í skipum.
IV. KAFLI
Merkingar.
9. gr.
Búnaður sem inniheldur PCB skal vera sérstaklega merktur. Sé áætlað magn PCB á milli 0,005% og 0,05% skal búnaðurinn merktur _PCB-mengun < 0,05%". Að auki skulu vera merkingar með upplýsingum um það hvernig farga skuli búnaðinum þegar að því kemur og hvernig standa skuli að viðhaldi og notkun hans. Merkingin skal vera á íslensku með greinilegu og auðlæsilegu letri.
V. KAFLI
Móttaka og förgun.
10. gr.
Móttökustöðvar sem taka við PCB, notuðu PCB og búnaði sem inniheldur PCB skulu skrá magn, uppruna og tegund alls þess PCB sem tekið er á móti. Móttökuaðilar skulu afhenda þeim sem skilar PCB kvittun þar sem fram kemur tegund PCB og magn. Móttökuaðilar skulu halda sérstaka skrá sem allir eiga greiðan aðgang að og senda árlega yfirlit úr skránni til Hollustuverndar ríkisins. Í skránni skal koma fram uppruni, magn og tegund PCB og hvað móttökuaðili hafi gert við efnin.
11. gr.
Móttökustöðvar og förgunarstöðvar fyrir PCB, notað PCB og búnað sem inniheldur PCB skulu hafa til þess starfsleyfi samkvæmt ákvæðum gildandi mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, ásamt síðari breytingum.
VI. KAFLI
Meðferð olíuúrgangs.
12. gr.
Olíuúrgang sem inniheldur meira en 0,005% af PCB skal meðhöndla sem PCB-spilliefni nema þegar hægt er að eyða PCB eða draga svo úr magni þess með endurmyndun að olían innihaldi ekki efnin umfram tilgreint hámark, sbr. ákvæði reglugerðar þessarar og mengunarvarnareglugerðar nr. 48/1994, ásamt síðari breytingum.
Olíuúrgangur sem notaður er sem eldsneyti má ekki innihalda önnur spilliefni umfram leyfileg mörk fyrir viðkomandi efni. Jafnframt má úrgangurinn ekki innihalda PCB í meiri styrk en sem nemur 0,005%.
VII. KAFLI
Eftirlit.
13. gr.
Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins fer með eftirlit með framkvæmd þessarar reglugerðar. Vinnueftirlit ríkisins fer með eftirlit með framkvæmd og starfsemi sem fellur undir reglugerð þessa í samræmi við lög nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
VIII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
14. gr.
Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og lögum nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni ásamt síðari breytingum nema að þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
Með mál sem kunna að rísa út af brotum gegn þessari reglugerð skal farið að hætti opinberra mála.
15. gr.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni ásamt síðari breytingum og 5. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og að höfðu samráði við félagsmálaráðuneytið hvað varðar þátt Vinnueftirlits ríkisins.
Einnig var höfð hliðsjón af þeim ákvæðum samningsins um Evrópska efnahagssvæðið sem vísað er til í II. viðauka, XV. kafla 4. tl., tilskipun 76/769/EBE um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi takmörkun á sölu og notkun tiltekinna skaðlegra efna og efnablandna ásamt breytingum í tilskipunum 85/467/EBE, 89/677/EBE og 91/339/EBE. Jafnframt er tekið mið af ákvæðum XX. viðauka samningsins, einkum tilskipun 75/439/EBE um förgun olíuúrgangs ásamt breytingum í tilskipun 87/101/
EBE og tilskipun 96/59/EB um förgun fjölklóraðra bifenýla og fjölklóraðra terfenýla (PCB/PCT) sem leysir af hólmi tilskipun 76/403/EBE sem er í sama viðauka.
Reglugerð þessi öðlast gildi við birtingu. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 84/1996 um innflutning, notkun og förgun PCB efna, PCT efna og umhverfisskaðlegra staðgengilefna.
Umhverfisráðuneytinu, 8. júní 1998.
Guðmundur Bjarnason.
Ingimar Sigurðsson.
Viðauki I
Merking búnaðar sem hefur innihaldið PCB.
Sérhver búnaður sem hefur innihaldið PCB skal vera skýrt merktur með óafmáanlegu letri þar sem eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram:
Búnaður sem hefur innihaldið PCB
Olía með PCB hefur verið fjarlægð og í staðinn var sett_________________(nafn staðgengilsefnis)
þann____________________ (dagsetning)
af ____________________________________ (nafn þess sem framkvæmdi hreinsun)
Styrkur PCB í
olíu sem hætt var að nota _____________% massahlutfall
olíu sem sett var í staðinn _____________% massahlutfall.