REGLUGERÐ
um (3.) breytingu á heilbrigðisreglugerð nr.149/1990 með síðari breytingum.
1 . gr.
Eftirtaldar breytingar verða á 82. gr. reglugerðarinnar:
a. Grein 82.1 hljóði svo:
Öll framleiðsla og meðferð matvæla og annarra neysluvara, sem ætlaðar eru til sölu eða dreifingar, þar með talin upphitun á matvælum, skal háð leyfi heilbrigðisnefndar sem getur gert ákveðnar kröfur um hreinlæti og aðra aðstöðu, til þess að tryggja að matvæli verði ekki fyrir mengun eða skemmist á annan hátt.
Kjötskoðunarlæknir fer með eftirlit með kjötvinnslu sem fram fer í húsakynnum sláturhúsa.
Við tilbúning og dreifingu á matvælum, neyslu- og nauðsynjavörum, skal gæta þess hreinlætis og þeirrar varkárni, að varan óhreinkist ekki til skemmda eða spillist á annan hátt.
b. Grein 82.13.1 hljóði svo:
Óheimilt er að selja, dreifa eða bjóða til sölu kjöt og kjötvöru, nema að kjötið hafi verið heilbrigðisskoðað og stimplað með löggiltum hætti. Óstimpluðu kjöti eða kjötvöru sem er á boðstólum eða í dreifingu ber að farga.
c. Grein 82.14 hljóði svo:
Í kaupstöðum og kauptúnum er óheimilt að slátra búfé utan löggiltra sláturhúsa.
d. Grein 82.15 fellur niður.
2. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í 2. gr. laga um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit nr. 81/1988 með síðari breytingum öðlast þegar gildi.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 13. ágúst 1992.
Sighvatur Björgvinsson.
Páll Sigurðsson