Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

578/2017

Reglugerð um (5.) breytingu á reglugerð nr. 941/2002, um hollustuhætti.

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 3. gr. reglugerðarinnar:

  1. Skilgreiningin matsölustaðir fellur brott.
  2. Við bætast eftirfarandi skilgreiningar í viðeigandi stafrófsröð, svohljóðandi:
    1. Fullbúin baðaðstaða er sérstakt herbergi, með baðkeri eða sturtu, salerni og handlaug með heitu og köldu vatni, spegli, sápu og snögum eða fráleggsstað fyrir föt og handklæði.
    2. Færanleg starfsemi er starfsemi sem eðlis síns vegna er færanleg milli staða. Í starfseminni er notast við hreyfanlegan búnað til að vinna tímabundið verk á hverjum stað sem tengist ekki veitukerfum á staðnum. Um er að ræða starfsemi sem ekki er gert ráð fyrir á skipulagi eða þarf byggingarleyfi.
    3. Gisting er leiga á húsnæði gististaðar til gesta gegn endurgjaldi að hámarki 30 daga samfleytt í senn.
    4. Gistiskáli: Gisting í herbergjum eða svefnskálum. Hér undir falla farfuglaheimili (hostel).
    5. Handlaug er vaskur sem ætlaður er til handþvotta.
    6. Skolvaskur er vaskur til að skola búnað og áhöld og er hvorki notaður til handþvotta né í tengslum við matvæli.
  3. Eftirfarandi skilgreiningar breytast og orðast svo:
    1. Fjallaskálar eru gisting í herbergjum eða í svefnskálum staðsett utan alfaraleiðar og almenningur hefur aðgang að, s.s. skálar fyrir ferðamenn, veiðiskálar og sæluhús.
    2. Frístundahús er hús utan þéttbýlis sem ætlað er til tímabundinnar dvalar.
    3. Gististaður er hvert það hús eða húshluti sem notaður er til gistingar og dvalið er til skamms tíma, að hámarki 30 daga samfellt, gegn endurgjaldi.
    4. Heilbrigðisstofnanir eru staðir þar sem heilbrigðisþjónusta er veitt samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.
    5. Hollustuvernd tekur til eftirlits með meðferð, notkun og merkingum efna í starfsleyfis- eða skráningarskyldri hollustuháttastarfsemi, húsnæði, öðrum vistarverum og umhverfi þeirra og öryggisþáttum þeim tengdum. Einnig tekur hún til sóttvarna og fræðslu í þessum efnum.
    6. Samkomustaðir eru staðir þar sem fram fer skemmtana- og samkomuhald, þar með taldir tónleikasalir, söfn, leikhús, kvikmyndahús, kirkjur, félagsmiðstöðvar, markaðir og veitingastaðir.
    7. Starfsmannabústaður er varanlegt íbúðarhúsnæði sem ætlað er til svefns, matar, daglegrar dvalar, vinnu eða samkomuhalds starfsfólks í tengslum við atvinnu­starfsemi.
    8. Útihátíð er samkoma sem haldin er utanhúss vegna hátíðahalda eða skemmtana fyrir almenning, á takmörkuðu svæði og stendur yfir í meira en þrjár klukkustundir, svo sem bæjarhátíðir.
    9. Veitingastaðir eru staðir þar sem framreiddur er matur og/eða drykkur hvort sem er til neyslu fyrir viðskiptavini á staðnum eða ekki, þar með talin mötuneyti, skyndi­bitastaðir og söluskálar.

2. gr.

2. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Í starfsleyfi skal lýsa í hverju starfsemin er fólgin, tilgreina rekstraraðila og staðsetningu starfsemi, m.a. færanlega starfsemi, tegund hennar, fastanúmer umræddrar fasteignar, skilyrði, gildistíma og endurskoðun starfsleyfis, auk ákvæða um eftirlit, umgengi, hreinlæti, öryggisráðstafanir, sóttvarnir, gæðastjórnun og innra eftirlit eftir því sem við á hverju sinni. Í starfsleyfi má heimila að færanleg starfsemi tengist fráveitu á staðnum enda sé fráveita til staðar sem hefur gilt starfsleyfi, eðli verkefnisins krefst þess og leyfi eiganda fráveitu liggur fyrir.

3. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 14. gr. reglugerðarinnar:

  1. Í stað orðanna "samþykki byggingarnefndar" í 1. mgr. kemur: staðfestingu leyfisveitanda byggingarleyfis á því að starfsemin sé í samræmi við samþykkta notkun húsnæðisins.
  2. Á eftir 2. mgr. bætist ný málsgrein, er verður 3. mgr., svohljóðandi: Heilbrigðisnefnd er heimilt að gera kröfu um að í húsnæði sé gert ráð fyrir rými fyrir hjálpartæki og búnað þar sem þess er þörf.
  3. 6. mgr., er verður 7. mgr., orðist svo: Um framleiðslu og dreifingu matvæla fer samkvæmt ákvæðum reglugerðar um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli.
  4. 8. mgr., er verður 9. mgr., orðast svo: Vatnskerfi skal vera þannig að ekki sé hætta á húðbruna almenns notanda. Uppfylla skal kröfur um öryggi vatns í samræmi við 14.5.10. gr. byggingarreglugerðar. Vatnshiti við töppunarstað í handlaugum og böðum skal ekki fara yfir 38°C á leikskólum, gæsluvöllum og í daggæslu hjá dagforeldrum.
  5. 9. mgr., er verður 10. mgr., orðast svo: Aðgangur skal vera að neysluvatni í starfsemi sem fjallað er um í V.-XI. kafla, sbr. þó ákvæði 6. mgr. 27. gr. og 28. gr. Um gæði þess gilda ákvæði reglugerðar um neysluvatn.

4. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 15. gr. reglugerðarinnar:

  1. Í stað orðanna "fylgiskjali 2" í 1. mgr. kemur: byggingarreglugerð.
  2. 1. málsl. 2. mgr. fellur brott.
  3. Við bætist ný málsgrein, er verður 5. mgr., svohljóðandi: Gerð salerna skal að öðru leyti vera í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar.

5. gr.

19. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Hreinlæti og dýr.

Óheimilt er að hleypa hundum, köttum eða öðrum dýrum inn í húsrými eða á lóðir sem fjallað er um í fylgiskjali 3, nema í eftirfarandi tilvikum:

  1. Heimilt er fötluðu fólki að hafa með sér hjálparhunda á gististaði, veitingastaði, í skóla, á snyrtistofur og hársnyrtistofur, heilbrigðisstofnanir, íþrótta- og baðstaði, fangelsi, verslunar­miðstöðvar og samkomuhús, enda sé hinum fatlaða einstakling ótvíræð nauðsyn að hjálparhundi. Hundurinn skal merktur sem hjálparhundur og hinn fatlaði einstaklingur skal hafa leyfi fyrir honum í samræmi við ákvæði í samþykktum einstakra sveitarfélaga.
  2. Heilbrigðisnefnd er heimilt, að fenginni beiðni hlutaðeigandi stofnunar, að veita leyfi til að halda hunda, ketti og önnur gæludýr á heilbrigðisstofnunum.
  3. Heilbrigðisnefnd getur heimilað að farið sé með gæludýr inn í stofnanir, svo sem skóla eða bókasöfn, í afmarkaðan tíma. Kveða skal á um slíkt í starfsleyfi eða gefa út einstakt leyfi fyrir stakar heimsóknir ef slíkar heimsóknir eru ekki með reglubundnu millibili. Í skilyrði slíks starfsleyfis eða leyfis skal m.a. kveða á um heilbrigði og hreinsun dýrsins, leyfi sem dýrið skal hafa, tíma sem dýrið dvelur á staðnum hverju sinni, hvar dýrið má vera í húsnæði stofnunarinnar og þrif á húsnæði. Fullnægjandi þrif skulu fara fram strax að loknum viðburði. Sé um að ræða hund eða kött skal upplýsa greinilega í fjórar vikur eftir að viðburði er lokið að hundur eða köttur hafi verið í húsnæðinu.
  4. Heilbrigðisnefnd getur heimilað að farið sé með dýr inn í íþróttamannvirki þar sem aðstaða er til íþróttaiðkunar, t.d. á ís vegna sýninga eða keppni. Kveða skal á um það í starfsleyfi íþróttamannvirkisins eða gefa út sérstakt starfsleyfi fyrir einstakar sýningar eða keppni ef slík starfsemi er ekki með reglubundnu millibili í íþróttamannvirkinu. Umhverfisstofnun skal gefa út leiðbeiningar um skilyrði slíks starfsleyfis. Að sýningu eða keppni lokinni skal upplýsa gesti sem koma í íþróttamannvirkið um að í húsinu hafi verið dýr og hvaða dýr um ræðir þannig að þeir sem haldnir eru ofnæmi þurfi ekki að verða fyrir óþægindum. Í starfsleyfi skal setja skilyrði sem á að uppfylla fyrir hverja sýningu eða keppni.
  5. Sé starfsleyfisskyld starfsemi rekin á einkaheimili, svo sem heimili fyrir fatlað fólk eða sumarheimili fyrir börn, þar sem gæludýr eru haldin getur heilbrigðisnefnd heimilað slíka starfsemi að því gefnu að það sé kynnt með skýrum hætti þannig að gestum sé ljóst að dýr séu á heimilinu.

Búpening má hvorki hafa í híbýlum manna né í öðrum húsum nema þeim sem til þess eru ætluð.

6. gr.

24. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Íbúðarhúsnæði.

Óheimilt er að leigja út íbúðarhúsnæði eða íbúðarherbergi nema fyrir liggi staðfesting leyfisveitanda byggingarleyfis á því að starfsemin sé í samræmi við samþykkta notkun húsnæðisins. Hvorki má leigja út íbúðarhúsnæði eða íbúðarherbergi ef heilsu manna er stefnt í hættu, m.a. vegna hita og raka, hávaða, fráveitu skólps, meindýra, reyks, fasts eða fljótandi úrgangs, mengunar í lofti, jarðvegi eða vatni, gasleka eða geislunar né leigja húsnæði til búsetu ef það er ekki ætlað til búsetu.

Heilbrigðisnefnd getur bannað afnot íbúðarhúsnæðis ef hún telur að húsnæðið geti ógnað heilsu íbúanna. Þar skal sérstaklega tekið tillit til velferðar barna, sjúklinga og aldraðra.

Hús skulu vera meindýraheld sem og lagnir. Skólplögnum skal haldið við.

Hæfileg fjarlægð skal vera á milli mannabústaða og matvælafyrirtækja annars vegar og mengandi atvinnustarfsemi og annarri starfsemi sem valdið getur óþægindum hins vegar. Þar sem kveðið er á um fjarlægðarmörk í öðrum reglugerðum eða í skipulagi skal taka tillit til þeirra marka.

7. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 25. gr. reglugerðarinnar:

  1. Í stað tölunnar "80" í 4. mgr. kemur: 90.
  2. Í stað orðanna "fylgiskjali 2" í 6. málsl. 6. mgr. kemur: ákvæðum byggingarreglugerðar.

8. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 26. gr. reglugerðarinnar:

 

  1. 5. mgr. orðast svo: Eldhús skal fullnægja ákvæðum reglugerðar um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli eftir því sem við á.
  2. Í stað tölunnar "80" í 7. mgr. kemur: 90.
  3. Í stað orðanna "fylgiskjali 2" í 3. málsl. 8. mgr. kemur: ákvæðum byggingarreglugerðar.

9. gr.

27. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Gististaðir.

Á gististöðum skal gæta fyllsta hreinlætis og snyrtimennsku. Allur búnaður skal vera hreinn, heill og vel við haldinn.

Ávallt skal skipta á rúmfatnaði, handklæðum og öðrum hreinlætisbúnaði áður en nýjum viðskiptavini er vísað til gistiherbergis. Ef þvottur er þveginn á staðnum skal það gert við aðstæður sem heilbrigðisnefnd samþykkir.

Fullbúin baðaðstaða skal vera á staðnum ef hana er ekki að finna í gistiherbergi. Að jafnaði skulu ekki vera fleiri en 10 viðskiptavinir um baðaðstöðu með búningsklefa. Handlaug skal vera í herbergjum sé ekki fullbúin baðaðstaða eða fullbúin snyrting í gistiherbergi Um salerni fer samkvæmt byggingarreglugerð. Ekki er þó skylt að hafa handlaug á gistiherbergjum í heima­gistingu.

Ákvæði 5. mgr. 14. gr. eiga ekki við um heimagistingu.

Ef gæludýr eru á heimili þar sem rekin er heimagisting, þ.e. gisting í flokki I samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, skal það koma fram í markaðssetningu og gestum tilkynnt það sérstaklega þegar bókað er.

Ef ekki er hægt að uppfylla ákvæði 9. mgr. 14. gr. um aðgengi að neysluvatni í sumarhúsi þar sem rekin er heimagisting, skal koma fram í markaðssetningu að vatnið sé óneysluhæft og gestum tilkynnt það sérstaklega þegar bókað er. Einnig skal gefa til kynna að vatn sé óneysluhæft á myndrænan hátt með merki, sbr. ÍST EN 7010.

Um gistiskála gilda framangreind ákvæði eftir því sem við á.

Um flokkun gististaða og tegundir fer samkvæmt lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtana­hald og reglugerð þar um.

10. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 28. gr. reglugerðarinnar:

  1. Við 1. málsl. bætist: , sem samþykkt er af heilbrigðisnefnd.
  2. 2. málsl. fellur brott.

11. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 31. gr. reglugerðarinnar:

  1. Í stað orðanna "fylgiskjali 2" í 1. mgr. kemur: ákvæðum byggingarreglugerðar.
  2. 3. mgr. orðast svo: Um salerni starfsfólks á veitingastöðum skal fara að ákvæðum reglugerðar um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli og reglum Vinnueftirlits ríkisins um húsnæði vinnustaða.

12. gr.

3. mgr. 32. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Rekstraraðili svæðisins skal sjá um að það sé þrifið, að umgengni sé góð og öryggisgæsla sé nægjanleg.

13. gr.

Við 33. gr. reglugerðarinnar bætist við ný málsgrein, er verður 3. mgr., svohljóðandi:

Að öðru leyti gilda ákvæði reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

14. gr.

Fyrirsögn VIII. kafla reglugerðarinnar verður: Kennslustaðir, frístundaheimili, leikvellir og daggæsla hjá dagforeldrum.

15. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 34. gr. reglugerðarinnar:

  1. 1. mgr. orðast svo: Þess skal gætt við staðsetningu skóla, daggæslu dagforeldra, frístundaheimila og leikvalla að ekki verði um að ræða ónæði vegna hávaða frá umferð, atvinnurekstri eða annarri starfsemi.
  2. 4. mgr. orðast svo: Ræsting skal fara fram samkvæmt skriflegri hreinlætisáætlun og verk­lýsingu fyrir hvert vinnusvæði sem kveður á um hvað eigi að þrífa, hve oft og hvaða efni eigi að nota til þrifa.

16. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 37. gr. reglugerðarinnar:

  1. 4. málsl. 4. mgr. orðist svo: Rými á nemanda á öðrum kennslustöðum og á frí­stunda­heimilum skal vera að lágmarki 1,4 m² og a.m.k. 3 m² á hvert barn í leikstofum.
  2. Í stað orðanna "fylgiskjali 2" í 7. mgr. kemur: ákvæðum byggingarreglugerðar.

17. gr.

40. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Húsakynni daggæslu dagforeldra.

Snyrting og eldhús skulu búin fullnægjandi innréttingum og tækjum. Lágmarkstæki í eldhúsi eru eldavél, kæliskápur og uppþvottavaskur.

Leiksvæði fyrir hvert barn innandyra skal vera a.m.k. 3 m² að gólffleti á hvert barn. Leiksvæði og hvíldaraðstaða skal vera fullnægjandi.

Um leikvallatæki, leikföng og lóð gilda ákvæði 35. gr., eftir því sem við á.

Ákvæði 6. mgr. 14. gr. um aðskilnað á ekki við um starfsemi daggæslu í heimahúsum nema hvað svefnaðstaða heimilisfólks telst ekki til leikrýmis barna.

Fari daggæsla fram í öðru húsnæði en heimahúsi skal húsnæðið samþykkt af byggingarfulltrúa til þessara nota.

18. gr.

2. og 3. mgr. 43. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Nauðsynlegur búnaður og aðstaða, s.s. borð og þvottalaug, skal vera til staðar til þvotta og sótthreinsunar á áhöldum. Þar sem gerðar eru hvers konar stungur á húð skal sérstök smitgát viðhöfð. Í vinnurými skal vera sérstök handlaug með fljótandi handsápu, gerlaeyði og einnota hand­þurrkum eða handþurrkum á rúllu.

Upplýsa skal um hugsanleg ofnæmisviðbrögð af völdum nikkels. Handklæði, ábreiður eða tauhlífar skal þvo og geyma í lokuðum skápum eða ílátum.

19. gr.

45. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Viðskiptavinir skulu eiga greiðan aðgang að snyrtingum. Baðaðstaða skal vera fyrir viðskiptavini þar sem við á. Gott aðgengi að handlaugum og skolvaski skal vera við eða í vinnurými.

20. gr.

3. mgr. 46. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Á ljósastofum skal hengja upp á áberandi stað þær reglur sem gilda um notkun sólarlampa/ljósabekkja. Þar skal m.a. koma fram að einstaklingum yngri en 18 ára eru óheimil afnot af sólarlömpum, í öðrum tilgangi en læknisfræðilegum, á stöðum sem starfsleyfi hafa samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. ákvæði laga um geislavarnir.

21. gr.

Við 3. mgr. 49. gr. reglugerðarinnar bætist nýr málsliður, svohljóðandi:

Búnaðinn skal prófa með sporprófum eða álíka viðurkenndum aðferðum.

22. gr.

50. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Hjúkrunar- og dvalarheimili.

Fullnægjandi baðaðstaða skal vera á staðnum sé sér snyrtiherbergi, þ.e. fullnægjandi baðaðstaða, ekki inn af íbúðarherbergi. Skulu aldrei vera fleiri en 10 heimilismenn um baðaðstöðu með búningsklefa. Baðaðstaða skal standast kröfur til einkalífs. Handlaug skal vera í herbergjum sé snyrti­herbergi ekki inn af því. Um salerni fer samkvæmt ákvæðum byggingarreglugerðar.

23. gr.

Í stað tölunnar "80" í 2. málsl. 52. gr. reglugerðarinnar kemur: 90.

24. gr.

Við 54. gr. reglugerðarinnar bætast tvær nýjar málsgreinar sem orðast svo:

Innanhúss gervigrasvelli skal þrífa reglulega í samræmi við tilmæli heilbrigðisnefndar.

Viðskiptavinir dansskóla, jógasetra, bogfimisetra og annarrar sambærilegrar starfsemi skulu eiga greiðan aðgang að snyrtingum. Baðaðstaða skal vera fyrir viðskiptavini í samræmi við eðli starfseminnar, eftir því sem við á.

25. gr.

Fyrirsögn XIV. kafla reglugerðarinnar verður: Almenningssamgöngutæki.

26. gr.

55. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Almenningssamgöngutæki skulu háð heilbrigðiseftirliti.

Rými sem ætlað er farþegum í almenningssamgöngutækjum skal vera vel við haldið og því haldið hreinu. Farþega má eigi flytja svo marga eða á þann hátt að valdi þeim eða öðrum hættu. Dýr má ekki flytja í almennum farþegarýmum samgöngutækja. Þetta gildir þó ekki um hjálparhunda, sbr. 19. gr. Notkun almenningssamgöngutækja skal þannig hagað að frá þeim stafi ekki hávaði eða loftmengun að óþörfu.

Um meðferð og eftirlit með matvælum, neysluvatni og hreinlætistækjum í samgöngutækjum gilda almenn ákvæði þessarar reglugerðar, reglugerðar um gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli, reglugerðar um neysluvatn og þar sem við á reglugerðar um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald.

27. gr.

Í stað orðsins "Siglingastofnun" hvarvetna í 55. gr. a. reglugerðarinnar kemur: Samgöngustofu.

28. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 56. gr. reglugerðarinnar:

  1. Orðin "13. tl. A liðar 1. mgr. 41. gr." í 2. málsl. 1. mgr. falla brott.
  2. Í stað orðanna "Að öðru leyti" í 3. mgr. kemur: Jafnframt.

29. gr.

Í stað orðanna "snyrtivörum, eiturefnum og hættulegum efnum" í 60. gr. reglugerðarinnar kemur: meðferð, notkun og merkingum efna í starfsleyfis- eða skráningarskyldri hollustuháttastarfsemi.

30. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á fylgiskjali 1 með reglugerðinni:

  1. Í stað orðanna "í heimahúsum" kemur: dagforeldra.
  2. Í stað orðsins "Gististaðir" kemur: Gististaðir í II., III. og IV. flokki.
  3. Við bætast, í réttri stafrófsröð:
    1. Frístundaheimili og önnur félagsaðstaða og dægradvöl.
    2. Tannsmiðir sem taka á móti viðskiptavinum.

31. gr.

Fylgiskjal 2 orðast svo:

Snyrtingar.

Tjald- og hjólhýsasvæði.

Á tjald- og hjólhýsasvæðum skal fjöldi salerna að lágmarki vera eftirfarandi:

Fyrir 25 gesti skal vera ein fullbúin snyrting þar sem tekið er tillit til þarfa fatlaðs fólks. Fyrir 26-100 gesti skulu vera tvö salerni og tekið tillit til þarfa fatlaðs fólks a.m.k. varðandi annað salernið. Fyrir hverja 50 gesti umfram 100 skal vera eitt salerni. Þvagstæði geta komið að 1/3 hluta fyrir salerni karla. Fjöldi handlauga skal vera í samræmi við fjölda salerna.

Útihátíðir.

Á mótssvæðum og útihátíðum skal fjöldi fullbúinna snyrtinga ekki vera færri en fjórar, þar af ein ætluð fötluðu fólki. Fyrir hverja 200 gesti umfram 200 skal vera eitt salerni til viðbótar. Þvagstæði geta komið að 1/3 hluta fyrir salerni karla. Fjöldi handlauga skal vera í samræmi við fjölda salerna. Salerni skulu eftir atvikum dreifð um útihátíðarsvæði.

Á mótssvæðum og við útihátíðir skal komið fyrir hæfilegum fjölda fullbúinna snyrtinga.

Þar sem útisamkomur eru haldnar í dreifbýli skal taka mið af kröfum um fjölda salerna á tjaldsvæði út frá áætluðum gestafjölda.

Þar sem útihátíðir eru haldnar í þéttbýliskjörnum skal skipuleggjandi leggja fram áætlun um fjölda gesta og mögulegan aðgang þeirra að snyrtingum. Taka skal mið af dreifingu mótsgesta og tímalengd hátíðarhalda þegar fjöldi snyrtinga er ákveðinn.

Snyrtistofur og önnur sambærileg starfsemi.

Gestir skulu hafa aðgengi að fullbúinni snyrtingu.

Aldrei skulu fleiri en 25 gestir vera um hverja snyrtingu.

Starfsmannabústaðir og starfsmannabúðir - heimili og stofnanir fyrir börn.

Greiður aðgangur skal vera að fullbúnum snyrtingum. Þess skal gætt að ekki séu fleiri en 10 íbúar (dvalargestir) um hverja snyrtingu.

Tannlæknastofur, læknastofur, aðgerðarstofur og önnur sambærileg starfsemi.

Gestir skulu hafa aðgengi að fullbúinni snyrtingu með aðgengi fyrir fatlað fólk.

Aldrei skulu fleiri en 25 gestir vera um hverja snyrtingu.

Dvalarheimili, heilbrigðis- og meðferðarstofnanir.

Þar sem fullbúin snyrting er ekki í beinum tengslum við íbúðarherbergi eða sjúkrastofu, skulu ekki fleiri en 10 heimilismenn (sjúklingar) vera um hverja snyrtingu. Jafnframt skulu gestir hafa aðgang að fullbúinni snyrtingu. Aldrei skulu fleiri en 25 gestir vera um hverja snyrtingu.

Heilsuræktarstöðvar og íþróttahús.

Salerni skulu vera við bað- og búningsaðstöðu.

Gestir skulu hafa greiðan aðgang að fullbúinni snyrtingu sem aðgengileg er fyrir fatlað fólk. Um fjölda salerna og handlauga fer samkvæmt ákvæðum byggingareglugerðar.

32. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á fylgiskjali 3 með reglugerðinni:

  1. Í stað orðanna "matvælaeftirlit og hollustuhætti við framleiðslu og dreifingu matvæla" kemur: gildistöku reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 852/2004 um hollustuhætti sem varða matvæli.
  2. Í stað orðsins "Gististaðir" kemur: Gististaðir í II., III. og IV. flokki.

33. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og að höfðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvað varðar skyldur sveitarfélaga, sbr. ákvæði 3. mgr. 43. gr. laganna.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 21. júní 2017. 

Björt Ólafsdóttir.

Sigríður Auður Arnardóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica