Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

493/2017

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 993/2004 um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu.

1. gr.

7. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Ávallt skal setja leyfi og vottorði þau skilyrði að lifandi eintök sem flutt eru eða eru í geymslu meðan á milliflutningi eða umfermingu stendur, skuli undirbúa, flytja og annast á þann hátt að sem minnst hætta sé á meiðslum, heilsutjóni eða illri meðferð, sbr. reglur alþjóða flugmálasamtakanna IATA, um flutning á lifandi dýrum (e. Life animals regulation).

2. gr.

8. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Leyfi til innflutnings á eintökum þeirra tegunda sem taldar eru upp í II. viðauka skal því aðeins gefa út að útflutningsleyfi eða endurútflutningsleyfi hafi verið gefið út í útflutnings- eða endur­útflutn­ings­­landinu.

3. gr.

2. mgr. 16. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Ekki þarf innflutnings-, útflutnings- eða endurútflutningsleyfi fyrir dauð eintök, hluta eða afurðir neðan­greindra tegunda sem teljast persónulegar eigur eða heimilismunir, ef um er að ræða eftir­farandi eintök og fjölda eða magn:

  1. styrjukavíar (tegundir af ættbálki Acipenseriformes), að hámarki 125 g á mann, eingöngu í pakkningum sem merktar eru í samræmi við samþykkt 12.7 (Res.12.7);
  2. hristur (rainsticks) úr afurðum af kaktusaætta (Cactaceae), að hámarki þrjár á mann;
  3. krókódílar, að hámarki fjögur eintök á mann;
  4. skeljar af tegundinni Queen conch (Strombus gigas), að hámarki þrjú eintök á mann;
  5. sæhestar (Hippocampus spp.), að hámarki fjögur eintök á mann;
  6. risaskeljar (Tridacnidae spp.), að hámarki þrjú eintök og að hámarki 3 kg á mann, hvert eintak getur verið tvær samfastar skeljar eða tvær aðskildar en sampassandi skeljar;
  7. Agarwood, að hámarki eitt kg af viðarkurli, 24 ml af olíu og tvö eintök af talnaböndum (hálsfesti eða armbandi) á mann.

4. gr.

1. mgr. 19. gr. reglugerðarinnar orðast svo:

Leyfisveitandi skal beina því til lögreglu eða tollyfirvalda að haldleggja og gera upptæk til ríkissjóðs eintök dýra eða plantna og afurða þeirra sem hafa verið flutt eða reynt hefur verið að flytja ólöglega inn, út eða á annan hátt verið farið með andstætt ákvæðum reglugerðar þessarar, án tillits til þess hver er eigandi þeirra eða til eignarhafta sem á þeim kunna að hvíla. Munir sem gerðir hafa verið upptækir skulu skráðir og varðveittir í vísindasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands.

5. gr.

Í stað viðauka I-III við reglugerðina koma nýir viðaukar sem birtir eru sem fylgiskjal með reglugerð þessari.

6. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er skv. 4. gr. laga um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu, nr. 85/2000, öðlast þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 17. maí 2017.

F. h. r.

Sigríður Auður Arnardóttir.

Sigurður Á. Þráinsson.

Fylgiskjal.
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica