Umhverfis- og auðlindaráðuneyti

724/2013

Reglugerð um (4.) breytingu á reglugerð nr. 608/2008 um Vatnajökulsþjóðgarð. - Brottfallin

1. gr.

Eftirfarandi breytingar verða á 4. gr.:

  1. 7. tölul. orðast svo:
    Reiðleið er leið sem ætluð er umferð á hestum og tilgreind er í verndaráætlun.
  2. Við bætast tveir nýir töluliðir, svohljóðandi:
    Hjólreiða- eða gönguleið er leið sem tilgreind er í útgefnum gögnum þjóðgarðsins.
    Hjólreiða-, göngu- eða reiðstígur er leið með breyttu yfirborði og er tilgreind í gögnum þjóðgarðsins.

2. gr.

1. málsl. 7. mgr. 7. gr. orðist svo:

Mannvirkjagerð, vegagerð og hvers konar efnistaka innan Vatnajökulsþjóðgarðs er einungis heimil ef gert er ráð fyrir henni í verndaráætlun fyrir þjóðgarðinn.

3. gr.

10. gr. orðist svo:

Gestum þjóðgarðsins ber að tjalda á skipulögðum tjaldsvæðum. Í verndaráætlun þjóðgarðsins er kveðið á um reglur um tjöldun fjarri skipulögðum tjaldsvæðum.

Stjórn er heimilt í samráði við viðkomandi svæðisráð að setja sérreglur um tjöldun á einstökum svæðum, þ.m.t. að banna hana með öllu. Skulu slíkar reglur kynntar á vefsetri garðsins og á starfsstöðvum hans.

4. gr.

15. gr. orðist svo:

Umferð reiðhjóla er heimil á vegum, bílastæðum og merktum reiðhjólaleiðum í þjóðgarðinum. Umferð reiðhjóla á göngustígum og gönguleiðum er heimil þar sem ekki gilda sérstök bönn við reiðhjólaumferð, enda valdi það ekki spjöllum og hjólreiðafólk viðhafi fulla aðgát gagnvart göngufólki. Þjóðgarðsvörður getur heimilað umferð reiðhjóla á tilteknum reiðleiðum eða reiðstígum enda hafi hjólreiðafólk þá gát gagnvart hestaumferð og víki fyrir henni. Þjóðgarðsverðir geta bannað umferð reiðhjóla á göngustígum og gönguleiðum og reiðleiðum þar sem umferð er mikil eða þar sem gróðurlendi getur hlotið skaða af. Undanþágur 2. mgr. 16. gr. og 17. gr. frá banni við akstri vélknúinna ökutækja utan vega vegna tiltekinna starfa eiga einnig við um umferð á reiðhjólum.

5. gr.

17. gr. orðist svo:

Ef brýn nauðsyn krefur, er heimilt að aka vélknúnum ökutækjum utan vega í landi þjóðgarðsins, án þess að jörð sé snævi þakin og frosin sbr. 2. mgr. 16. gr., vegna starfa við landgræðslu og heftingu landbrots, mannvirkjagerð, línulagnir, vegalagnir og lagningu annarra veitukerfa, rannsóknir, landmælingar og landbúnað, enda sé ekki unnt að framkvæma viðkomandi störf á annan hátt. Slíkur akstur skal vera í samráði við þjóðgarðsvörð og með leyfi landeiganda eða rétthafa þar sem því er að skipta. Sambærileg heimild er fyrir hendi vegna löggæslu- og björgunarstarfa að undanskildum æfingum.

Á ræktuðu landi er heimilt að aka utan vega vegna starfa við landbúnað, ef ekki hljótast af því náttúruspjöll.

Sérstök aðgát skal höfð við akstur utan vega samkvæmt ákvæði þessu til þess að draga úr hættu á náttúruspjöllum. Hafa skal fullnægjandi útbúnað til slíks aksturs. Við framangreindar athafnir skal leita leiða til að flytja efni og annað sem til þarf á þann hátt að ekki sé þörf á akstri utan vega.

6. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 7., 15. og 20. gr. laga nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð og tekur þegar gildi.

Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 12. júlí 2013.

Sigurður Ingi Jóhannsson.

Stefán Thors.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica