Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti

708/2009

Reglugerð um barnamat fyrir ungbörn og smábörn.

I. KAFLI

Gildissvið og skilgreiningar.

1. gr.

Gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um eftirtalin matvæli sem er ætlað að fullnægja sérstökum næringar­þörfum heilsuhraustra ungbarna og smábarna. Efnisákvæði reglugerðarinnar eiga þannig við um matvæli fyrir ungbörn sem verið er að venja af brjósti og fyrir smá­börn þegar um er að ræða viðbót við mataræði þeirra og/eða þegar verið er að venja þau á almennt fæði:

 

a)

Tilbúinn barnamat, þar sem uppistaðan er korn sem skiptist niður í eftirfarandi fjóra flokka:

   

1.

Einfaldar kornvörur sem eru hrærðar út eða hræra skal út með mjólk eða öðrum heppilegum næringarvökva.

   

2.

Kornvörur, að viðbættum próteinríkum fæðutegundum, sem eru hrærðar út eða hræra skal út með vatni eða öðrum próteinfríum vökva.

   

3.

Pasta sem nota skal eftir að það hefur verið soðið í vatni eða öðrum heppilegum vökva.

   

4.

Tvíbökur og kex sem neyta má beint eða mylja út í vatn, mjólk eða annan heppilegan vökva.

 

b)

Annan barnamat fyrir ungbörn og smábörn þar sem uppistaðan er ekki korn.



Reglugerðin gildir ekki um mjólkurvörur ætlaðar smábörnum.

Ákvæði reglugerðarinnar ná þó ekki til barnamatar sem ætlaður er til útflutnings til ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins.

2. gr.

Skilgreiningar.

Merking orða í þessari reglugerð er sem hér segir:

Ungbörn eru börn yngri en 12 mánaða.

Smábörn eru börn á aldrinum eins til þriggja ára.

Barnamatur er matur fyrir ungbörn og smábörn.

Varnarefnaleifar eru leifar af varnarefnum ásamt umbrots-, niðurbrots- og myndefnum þeirra.

II. KAFLI

Samsetning, efnainnihald og merking.

3. gr.

Barnamatur skal framleiddur úr innihaldsefnum sem staðfest hefur verið með viður­kenndum vísindarannsóknum að henti næringarþörf ungbarna og smábarna.

Tilbúinn barnamatur þar sem korn er uppistaðan skal uppfylla viðmiðanir um sam­setningu sem eru tilgreindar í viðauka I.

Barnamatur, sem er lýst í viðauka II, skal uppfylla viðmiðanir um samsetningu sem þar eru tilgreindar.

Óheimilt er að markaðssetja barnamat nema hann uppfylli ákvæði þessarar reglugerðar.

4. gr.

Íblöndun næringarefna.

Við framleiðslu á barnamat er einungis heimilt að bæta þeim næringarefnum, sem eru skráð í viðauka IV.

5. gr.

Varnarefnaleifar.

Í barnamat skulu ekki vera nein efni í því magni sem stefnt getur heilsu ungbarna og smábarna í hættu.

Barnamatur skal ekki innihalda meira af leifum einstakra varnarefna en sem nemur 0,01 mg/kg nema að því er varðar þau efni sem tiltekin viðmiðunarmörk hafa verið ákvörðuð fyrir í viðauka VI en í því tilviki skulu þau sérstöku mörk gilda.

Óheimilt er að nota varnarefnin í töflum 1 og 2 í viðauka VII við framleiðslu á land­búnaðar­afurðum sem notaðar eru til framleiðslu á barnamat. Við eftirlit skal litið svo á varðandi magn þessara varnarefna að þau hafi ekki verið notuð ef leifar þeirra eru ekki meiri en 0,003 mg í hverju kg af vörunum tilbúnum til neyslu.

Greiningaraðferðir til þess að ákvarða innihald varnarefnaleifa skulu vera staðlaðar og almennt viðurkenndar.

6. gr.

Merking.

Merkingar á umbúðum vara sem reglugerð þessi tekur til skulu uppfylla ákvæði reglu­gerðar nr. 503/2005 um merkingu matvæla, með síðari breytingum, og reglugerðar nr. 757/2002 um sérfæði, með síðari breytingum, auk þess skulu eftirfarandi upplýsingar koma fram á umbúðum:

 

a)

Upplýsingar um fyrir hvaða aldurshóp varan er ætluð með hliðsjón af sam­setningu hennar, áferð og öðrum sérstökum eiginleikum. Óheimilt er að til­greina að vara sé ætluð ungbörnum yngri en 4 mánaða. Heimilt er að mæla með notkun vöru fyrir ungbörn frá fjögurra mánaða aldri, nema óháðir aðilar með þekkingu á sviði læknisfræði, næringarfræði eða lyfjafræði eða annað fagfólk, sem er ábyrgt fyrir ungbarna- og mæðravernd, ráðleggi annað.

 

b)

Ef varan er ætluð ungbörnum yngri en sex mánaða skulu koma fram upplýsingar um hvort glúten er í vörunni eða ekki.

 

c)

Orkugildi í kílójúlum (kJ) og kílókaloríum (kkal) ásamt prótein-, kolvetna- og fituefnainnihaldi, gefið upp sem tölugildi í 100 g eða 100 ml af vöru eins og hún er seld og, þar sem við á, miðað við tiltekið magn tilbúinnar vöru sem ráðlagt er að neyta.

 

d)

Meðalmagn hvers steinefnis og hvers vítamíns, sem gildi eru tilgreind fyrir í við­auka I og II, gefið upp sem tölugildi í 100 g eða 100 ml af vöru eins og hún er seld og, þar sem við á, miðað við tiltekið magn tilbúinnar vöru sem ráðlagt er að neyta.

 

e)

Leiðbeiningar um hvernig ber að tilreiða vöruna, ef nauðsyn krefur, og yfirlýsing um mikilvægi þess að fylgja þeim leiðbeiningum.



Eftirfarandi má koma fram:

 

a)

Meðalmagn næringarefnanna, sem talin eru upp í viðauka IV, komi það ekki fram skv. ákvæði d-liðar 1. mgr., gefið upp sem tölugildi í 100 g eða 100 ml af vöru eins og hún er seld og, þar sem við á, miðað við tiltekið magn tilbúinnar vöru sem ráðlagt er að neyta.

 

b)

Auk tölulegra upplýsinga, upplýsingar um vítamín og steinefni sem eru tilgreind í viðauka V, gefnar upp sem hlutfall viðmiðunargilda sem þar eru gefin upp, miðað við 100 g eða 100 ml vörunnar eins og hún er seld og, þar sem við á, tilgreint magn vöru sem ráðlagt er að neyta, að því tilskildu að magnið í vörunni sé a.m.k. 15% af viðmiðunargildunum.



III. KAFLI

Eftirlit og gildistaka.

7. gr.

Eftirlit.

Heilbrigðisnefndir hafa undir yfirumsjón Matvælastofnunar, hver á sínum stað, eftirlit með því að farið sé að ákvæðum þessarar reglugerðar.

8. gr.

Viðurlög.

Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum nr. 93/1995 um matvæli með síðari breytingum, nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Með mál sem rísa út af brotum gegn reglugerð þessari skal farið að hætti sakamála.

9. gr.

Gildistaka.

Reglugerð þessi er sett með stoð í lögum nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breyt­ingum. Einnig var höfð hliðsjón af efnisákvæðum tilskipunar nr. 2006/125/EB um barna­mat þar sem korn er uppistaðan og barnamat fyrir ungbörn og smábörn. Reglu­gerðin öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 140/2003 um barna­mat fyrir ungbörn og smábörn.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 4. ágúst 2009.

F. h. r.
Sigurgeir Þorgeirsson.

Baldur P. Erlingsson.

VIÐAUKAR
(sjá PDF-skjal)


Þetta vefsvæði byggir á Eplica