17. tölul. 1. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar orðast svo:
Vélknúin farartæki, nema báta á sjó til fuglaveiða enda gangi þeir ekki hraðar en níu sjómílur meðan á veiði stendur. Vélknúin farartæki á landi, önnur en vélsleða, fjórhjól og önnur torfærutæki, má nota til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegaslóðum. Skotvopn skulu vera óhlaðin meðan á akstri stendur. Þau skulu einnig vera óhlaðin nær vélknúnu farartæki á landi en 250 m.
5. tölul. 2. mgr. 8. gr., sem felldur var niður með reglugerð nr. 716/2003, orðast svo:
Heimilt er að veiða rjúpu frá 15. október til og með 30. nóvember, sbr. þó 9. gr.
Á eftir 8. gr. reglugerðarinnar koma tvær nýjar greinar og breytist töluröð annarra greina samkvæmt því. Hinar nýju greinar orðast svo:
a. (9. gr.)
Allar rjúpnaveiðar eru óheimilar innan svæðis sem birt er í viðauka I við reglugerð þessa og markast í norðri af lögsagnarumdæmi Reykjavíkur, Mosfellsbæ, austurhluta Mosfellsheiðar í Grímsnes- og Grafningshreppi og Skálafells og Skálafellshálsi í Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð og Kjósarhreppi. Hið friðaða svæði í Skálafelli og Skálafellshálsi markast af Kjósarskarðsvegi (48) frá vegamótum við Þingvallaveg (360) að vegamótum við Meðalfellsveg (461) og þaðan að brú á Svínadalsá og er ánni síðan fylgt að mörkum Reykjavíkur um Svínaskarð. Norðurhluti svæðisins markast síðan af Þingvallavegi frá gatnamótum Kjósarskarðsvegar að Grafningsvegamótum og þaðan af línu sem dregin er í austur frá Grafningsvegamótum í Þingvallavatn. Svæðið markast í austri af Þingvallavatni og fylgir síðan austurbakka Sogs og Ölfusár til sjávar.
b. (10. gr.)
Óheimilt er að flytja út, bjóða til sölu eða selja rjúpur og rjúpnaafurðir. Með sölu er átt við hvers konar afhendingu gegn endurgjaldi.
Sölubann skv. 1. mgr. nær ekki til innfluttra rjúpna og rjúpnaafurða. Innflytjanda og seljanda ber að tryggja að innfluttar rjúpur og rjúpnaafurðir séu þannig merktar við innflutning og sölu að fram komi í hvaða landi þær eru upprunnar.
10. gr., sem verður 12. gr., orðast svo:
Brot gegn reglugerð þessari varða sektum eða fangelsi allt að 2 árum og sviptingu skotvopna- og veiðileyfis.
Gera má lögaðila sekt fyrir brot gegn 10. gr. Um refsiábyrgðina fer eftir II. kafla A almennra hegningarlaga.
Tilraun til brota gegn lögum þessum og reglugerðum, sem settar eru á grundvelli þeirra, varða refsingu sem fullframið brot, sbr. III. kafla almennra hegningarlaga. Hið sama gildir um hlutdeild í brotum.
Gera má upptækt til ríkissjóðs: Ólöglegt veiðifang, egg eða eggjaskurn, veiðitæki og annan búnað sem notaður hefur verið við framkvæmd brots, veiðifang sem boðið er til sölu eða selt í bága við sölubann skv. 10. gr., svo og hagnað af ólöglegri veiði og sölu framangreindra verðmæta. Ekki er það upptöku til fyrirstöðu þótt annar sé eigandi veiðitækis eða annars sem upptaka er heimil á en sá sem sekur hefur reynst um brot á lögum þessum eða reglum settum á grundvelli þeirra. Að öðru leyti skal fara um eignaupptöku samkvæmt ákvæðum 69. gr. almennra hegningarlaga.
Við reglugerðina bætist viðauki I, sem birtur er í fylgiskjali við reglugerð þessa.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 7. og 17. gr. a laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, með síðari breytingum, og öðlast þegar gildi.