1. gr.
Bannað er að selja í almennum verslunum, öðrum en lyfjaverslunum og verslunum sem til þess hafa fengið leyfi Hollustuverndar ríkisins, gerileyðandi efni sem innihalda meira en 30 hundraðshluta af etanóli og ætluð eru til notkunar í matvælaiðnaði.
2. gr.
Framleiðendur og innflytjendur mega selja fyrirtækjum gerileyðandi efni sem falla undir reglugerð þessa. Aðeins má þó afhenda vöruna einstaklingum sem eru fullra 18 ára og skal skrá sölu vörunnar í þar til gerðar sölubækur sem fást hjá Lyfjaeftirliti ríkisins. Það sama gildir um verslanir sem hafa heimild til að selja gerileyðandi efni samkv. 1. gr.
3. gr.
Söluaðilar efna sem þessi reglugerð nær til skulu fyrir 1. febrúar ár hvert senda Hollustuvernd ríkisins yfirlit yfir sölu síðastliðins árs.
4. gr.
Reglugerð þessi, sem er sett með stoð í 11. gr. laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni og 6. gr. laga nr. 24/ 1936 um eftirlit með matvælum og öðrum neyslu- og nauðsynjavörum, öðlast gildi þegar við birtingu.
Umhverfisráðuneytið, 13. júlí 1994.
Össur Skarphéðinsson.
Ingimar Sigurðsson.