Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti

149/1989

Reglugerð um meindýraeyða - Brottfallin

I. KAFLI

Skilgreiningar.

1. gr.

            Sá einn má kalla sig meindýraeyði, sem til þess hefur fengið leyfi Hollustuverndar ríkisins.

            Leyfi skal veita þeim, er hafa gild leyfisskírteini til nota á efnum og efnasamsetningum í X-og A-hættuflokki til útrýmingar meindýra, sbr. ákvæði reglugerðar um notkun eiturefna og hættulegra efna í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra (nú nr. 50/1984), sbr. einnig ákvæði reglugerðar um útgáfu og afgreiðslu eiturbeiðna og annarra tilsvarandi leyfa (nú nr. 39/1984).

            Áður en leyfi er veitt skal leita staðfestingar eiturefnanefndar.

            Leyfi Hollustuverndar ríkisins fellur úr gildi um leið og leyfisskírteini hlutaðeigandi umsækjanda.

 

2. gr.

            Með meindýrum er í reglugerð þessari átt við rottur og mýs annars vegar, og skordýr og aðra hryggleysingja hins vegar, sem valda tjóni eða umtalsverðum óhreinindum í eða við hýbýli manna, í peningshúsum, farartækjum, vöruskemmum o.s.frv..

            Vargfugl (svartbakur og hrafn) telst einnig til meindýra, þegar hann veldur umtalsverð­um óhreinindum eða tjóni í æðarvarpi, í eða við hýbýli manna, í peningshúsum, í fyrirtækjum, í vöruskemmum og í vatnsbólum.

            Telji heilbrigðisfulltrúar að fækka þurfi vargfugli, sbr. 2. mgr., er heimilt með samþykki veiðistjóra að láta meindýraeyði hafa sérstök efni til þeirrar útrýmingar en gæta skal fuglafriðunarlaga og ákvæða reglugerða settum skv. þeim.

 

II. KAFLI

Framkvæmd.

3. gr.

            Áður en hafist er handa um útrýmingu meindýra, skal meindýraeyðir kynna sér aðstæður og meta þörf á notkun útrýmingarefna. Ef vafi leikur á, hvers kyns meindýr um er að ræða sbr. 1. mgr. 2. gr., skal leita úrskurðar sérfræðinga Náttúrufræðistofnunar Íslands, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins eða Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í meinafræði.

Við útrýmingu meindýra skal eigi nota mikilvirkara efni en þörf krefur.

            Leiði athugun í ljós, að eigi verði náð fullnægjandi árangri, nema gripið sé til svælingar með mikilvirku efni s.s. blásýru eða metýlbrómíði, skal fara með notkun þeirra eins og segir í III. kafla.

 

4. gr.

            Meindýraeyðum ber að gæta ítrustu varúðar við störf sín og tryggja að útrýmingarefni valdi hvorki tjóni á mönnum, dýrum, (öðrum en meindýrum), né berist í matvæli og fóður.

 

5. gr.

            Meindýraeyðum ber að fylgja notkunarleiðbeiningum þeim, er greinir á ílátum útrýming­arefna eða kunna að fylgja á annan hátt.

            Um meðferð, geymslu og förgun útrýmingarefna fer að öðru leyti samkvæmt ákvæðum gildandi reglugerðar um notkun eiturefna og hættulegra efna í landbúnaði og garðyrkju og til útrýmingar meindýra.

 

6. gr.

            Meindýraeyði ber, að útrýmingu lokinni, að gera skýrslu um verkið. Skýrslueyðublöð, sbr. viðauka við reglugerð þessa, fást hjá Hollustuvernd ríkisins, en heimilt er að nota önnur skýrslueyðublöð, að fengnu samþykki Hollustuverndar ríkisins.

            Skýrslur skal gera í þríriti og skal meindýraeyðir afhenda þeim, er beiddist útrýmingar meindýra, frumritið. Annað afrit skal hann senda framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits svæðisins innan mánaðar, en varðveita hitt sjálfur.

 

III. KAFLI

Svæling með metýlbrómíði eða blásýru.

7. gr.

            Þeir einir mega nota blásýru (eða sölt sýrunnar, cýaníð) og metýlbrómíð til útrýmingar meindýra (svælingar), sem sótt hafa sérstök námskeið í meðferð efnanna hérlendis eða erlendis og hlotið hafa viðurkenningu Hollustuverndar ríkisins. Þeir skulu og vera viður­kenndir meindýraeyðar. Gildistími leyfisbréfs fer skv. ákvæðum 4. mgr. 1. gr.

Öll vinna með blásýru og metýlbrómíð fer fram á ábyrgð leyfishafa. Er hann bótaskyldur fyrir tjóni, er rekja má til notkunar efnanna. Óheimilt er að nota blásýru eða metýlbrómíð á sama stað samtímis.

 

8. gr.

            Sækja ber um leyfi til Hollustuverndar ríkisins hverju sinni, sem svæling er fyrirhuguð með blásýru eða metýlbrómíði. Í umsókn skal koma fram hvaða meindýrum skuli útrýmt, í hverju (matvælum, varningi o.s.frv.) og hvar.

            Hollustuvernd ríkisins tilkynnir Vinnueftirliti ríkisins um fyrirhugaðar svælingar.

 

9. gr.

            Leyfishafi skal tilkynna hlutaðeigandi lögregluyfirvaldi um fyrirhugaða svælingu með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara.

            Tilkynningin skal vera með sömu upplýsingum og fylgja umsókn, sbr. 8. gr. Ennfremur skal upplýsa, hvenær svælingu verði lokið og hverjar ráðstafanir verði gerðar til þess að hafa gæslu þar, sem svæla á og varna óviðkomandi aðgangs.

 

10. gr.

            Lyfjaverslun ríkisins skal annast innflutning, sölu og varðveislu blásýru og metýlbrómíðs til svælingar. Lyfjaverslunin skal eiga hæfilegar birgðir þessara efna. Öðrum er óheimilt að flytja inn, geyma eða selja blásýru og metýlbrómíð, sem ætlað er til útrýmingar meindýra.

 

11. gr.

            Við svælingu með blásýru eða metýlbrómíði skulu aldrei starfa færri en 2 menn. Skal a.m.k. annar þeirra vera sérmenntaður í meðferð efnanna og hafa leyfi til þess að nota þau, sbr. 7. gr. Nefnist hann stjórnandi, sbr. 12. gr.

 

12. gr.

            Áður en svæling hefst skulu stjórnanda svælingar afhentir allir lyklar að öllum hurðum byggingar eða farartækis, sem svæla á. Skal öllum hurðum læst eða þeim hluta byggingar eða farartækis, sem svæla á, að undantekinni þeirri, þar sem blásýran eða metýlbrómíðið verður borið inn um. Við þá hurð skal vera varðmaður.

            Við allar dyr skal setja aðvörunarmerki, gult á litinn og minnst 30 x 20 cm að stærð. Á því skal vera varnaðarmerki A og B, sbr. viðauka 1. við reglugerð um gerð íláta, merkingu og varnaðar- merki varðandi sölu og varðveislu eiturefna, nú nr. 77/1983, og eftirfarandi texti með stórum greinilegum bókstöfum lífshætta þar fyrir neðan aðgangur bannaður og neðar eiturgas. Á aðvörunarmerkinu skal einnig koma fram nafn og heimili stjórnanda, ásamt upp­lýsingum um hvenær svælingin hófst og hvenær henni lýkur.

Áður en svæling hefst skulu allir, sem að henni standa, vita hvar næsti sími er og hvernig auðveldast er að ná sambandi við lækni og sjúkrabíl.

            Þá skal ennfremur slökkva allan eld. Eldstæði og annað þess háttar skal vera kalt. Stjórnanda svælingar ber að varðveita alla lykla að læstum hurðum og ber sjálfum að ganga um allan staðinn eða þann hluta hans, sem svæla á, til þess að ganga úr skugga um, að hvorki verði svælingin mönnum, né dýrum að fjörtjóni. Vörur, sem ekki á að svæla, skal fjarlægja.

 

13. gr.

            Allir sem starfa við svælinguna, skulu klæddir hlífðarfatnaði. Skal hann umlykja þétt við háls, úlnliði og ökkla. Allir skulu berg gasgrímur og hanska og hafa á sér vasaljós. Gasgrímurnar skulu vera í góðu lagi og af réttri stærð og gerð. Áður en svæling hefst skal

stjórnandi fullvissa sig um, að grímur falli þétt að andliti, að síur séu ætlaðar til frásogunar á blásýru eða metýlbrómíði og þær séu festar á réttan hátt. Aukasíur skulu hafðar tiltækar og skipt um, ef grunur leikur á, að síur séu óvirkar.

            Ef styrkur blásýru eða metýlbrómíðs verður það mikill, að hætta er á að síur mettist, skulu notaðar ferskloftsgrímur eða reykköfunarbúnaður.

            Hanskarnir skulu vera úr efni, sem ekki hleypir metýlbrómíði eða blásýru í gegn. Allur hlífðarfatnaður og öryggisbúnaður skal viðurkenndur af Vinnueftirliti ríkisins. Um aðrar ráðstafanir til að tryggja öryggi þeirra og heilsu, er vinna við svælinguna, svo og starfsmanna nærliggjandi vinnustaða, skal fara samkvæmt fyrirmælum Vinnueftirlitsins.

 

14. gr.

            Heimilt er að nota allt að 10 g blásýru eða 50 g metýlbrómíðs í hvern rúmmetra lofts í húsnæði eða farartæki. Má svæling ekki standa lengur en 1 sólarhring, ef blásýra er notuð, en 2 sólarhringa ef metýlbrómíð er notað.

            Stjórnanda er þó heimilt að nota allt að 20 g blásýru í hvern rúmmetra lofts, ef hann tclur sérstaka ástæðu vera til. Skal hann gera grein fyrir ástæðunni í skýrslu sinni, sbr. 18. gr.

 

15. gr.

            Finni einhver þeirra, er að svælingunni vinnur, til vanlíðunar (dæmi: erting í vitum eða augum, tárarennsli, höfuðverkur, höfgi, sjóntruflanir, ógleði), skulu þeir allir tafarlaust leita út í ferskt loft. Hlutaðeigandi skal látinn leggjast niður og því næst fluttur viðstöðulaust á slysavarðstofu, sjúkrahús, heilsugæslustöð eða til næsta læknis.

            Ef maður, sem að svælingu vinnur, fær metýlbrómíðvökva í augu eða á húð, skal hann tafarlaust hætta vinnu. Augu skal skola með nægu vatni og húð skal skola vel í vatni og síðan þvo með sápu. Að þessu loknu skal leita læknis eins fljótt og auðið er.

 

16. gr.

            Að lokinni svælingu skal lofta vel út það rými, sem svælt var. Einnig skal lofta aðliggjandi rými, ef hætta er á, að gufur efnanna hafi dreifst þangað. Stjórnandi svælingar skal ásamt aðstoðarmanni (aðstoðarmönnum) annast útloftun og skulu báðir berg gasgrímur.

            Útloftun fer þannig fram, að hurðir og gluggar eru opnaðir. Ekki er fullnægjandi að setja loftræstikerfið í gang, þótt það sé til staðar.

            Útloftun skal standa minnst í 6 klst. Ef útihitastig er undir 10°C, skal útloftun hætt eftir eina klst. , rýmið hitað í 15°C og látið vera við þann hita í minnst hálfa klst. Skal þá aftur lofta út í eina klst. Er rýmið þá hitað í 15°C og loftað út aftur í minnst 6 klst.

            Vandlega skal gæta þess, að gufur efnanna valdi ekki tjóni, er þær streyma frá svælingarstað.

            Áður en öðrum er leyfður aðgangur að rýminu, er svælt var, skal stjórnandi svælingarinn­ar fullvissa sig um, að magn blásýru og metýlbrómíðs sé alls staðar undir hættumörkum, 5 ppm. Skal styrkur efnanna mældur með viðurkenndum mælingaraðferðum. Gæta skal þess, að gufur efnanna leynist hvergi innilokaðar, t.d. í skápum og sökklum, og hlutir, sem bundið geta mikið af gufum efnanna, t.d. bólstruð húsgögn, sængurföt o.fl., séu nægjanlega viðraðir.

 

17. gr.

            Gæsla skal vera þar, sem svæling fer fram, allt frá því er svæling hefst, uns aðgangur er leyfður að svælingarstaðnum.

            Gæslumaður skal hafa gasgrímu og hlífðarfatnað við hendina.

 

18. gr.

            Að svælingu lokinni skal stjórnandi verksins senda skýrslu til Hollustuverndar ríkisins. Skal þar koma fram, hvenær svæling fór fram, hve mikið hafi verið notað af blásýru eða metýlbrómíði í hvern rúmmetra lofts og hver árangur hafi orðið af svælingunni, svo og allt annað, er telst skipta máli.

 

19. gr.

            Hollustuvernd ríkisins getur sett nánari reglur um framkvæmd svælingar eftir því sem þörf krefur hverju sinni.

 

IV. KAFLI

Refsiákvæði og leyfissvipting.

20. gr.

            Um brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar fer skv. ákvæðum laga nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni.

 

21. gr.

            Hollustuvernd ríkisins getur numið úr gildi leyfi meindýraeyða, ef gildar ástæður eru til að ætla, að leyfishafi brjóti svo af sér við störf sín, að hætta geti stafað af.

            Uni leyfishafi ekki leyfissviptingu Hollustuverndar ríkisins getur hann skotið máli sínu til heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra til úrskurðar.

 

V. KAFLI

Gildistaka.

22. gr.

            Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í lögum nr. 52/1988, um eiturefni og hættuleg efni sbr. og lög nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, öðlast gildi 1. maí 1989.

 

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, 10. mars 1989.

 

Guðmundur Bjarnason.

 

Páll Sigurðsson.

Viðauki 1.

Form skýrslueyðublaðs vegna útrýmingar meindýra.

 

SKÝRSLA UM ÚTRÝMINGU Á MEINDÝRUM.

 

1. Meindýrum, sem útrýma skyldi.

2. Verslunarheiti þeirrar efnasamsetningar, sem notuð var.

3. Heiti virks/virkra efna.

4. Nafn andefnis (móteiturs), ef til er.

5. Hvenær fór útrýming fram.

6. Nafn og heimilisfang þess, er beiddist útrýmingar mein­dýra.

7. Ef útrýming meindýra fór fram innan dyra, skal geta um tegund húsnæðis (íveruhús, peningshús, vörugeymsla o.s.frv.), eða farartækis, ef svo ber við, staðsetningu og umsjónarmann svo og, hve lengi umgangur kann að hafa verið bannaður um húsnæðið eða farartækið.

8. Ef útrýming meindýra fór fram utan dyra eða á víða­vangi, skal greina frá helstu varúðarráðstöfunum, sem gerðar voru.

9. Nafn, heimilisfang og sími þess meindýraeyðis, er útrým­ingu annaðist.

 

 


Þetta vefsvæði byggir á Eplica