Prentað þann 10. jan. 2025
600/2018
Reglugerð um heimild til lagningar sæstrengja og neðansjávarleiðslna.
Efnisyfirlit
- 1. gr. Markmið.
- 2. gr. Gildissvið.
- 3. gr. Skilgreiningar.
- 4. gr. Krafa um samþykki fyrir lagningu sæstrengs eða neðansjávarleiðslu.
- 5. gr. Umsókn til Umhverfisstofnunar um lagningu sæstrengs eða neðansjávarleiðslu.
- 6. gr. Samþykki Umhverfisstofnunar.
- 7. gr. Tilkynning til sjómælingasviðs Landhelgisgæslu Íslands.
- 8. gr. Þvingunarúrræði og refsiviðurlög.
- 9. gr. Kæruheimild.
- 10. gr. Lagastoð og gildistaka.
1. gr. Markmið.
Markmið reglugerðar þessarar er að vernda hafið, auðlindir þess og lífríki, með því að tryggja að einungis þeim sem aflað hafa tilskilinna leyfa og uppfylla skilyrði reglugerðarinnar verði heimilt að leggja sæstrengi og neðansjávarleiðslur.
2. gr. Gildissvið.
Reglugerðin gildir um heimild til lagningar sæstrengja og neðansjávarleiðslna frá stórstraumsfjörumáli, í mengunarlögsögu Íslands og eins langt og réttindi og skyldur Íslands ná.
Reglugerðin gildir ekki um sæstrengi sem lagðir eru vegna öryggis ríkisins og þátttöku Íslands í samvinnu við önnur ríki til að tryggja frið og öryggi.
3. gr. Skilgreiningar.
Merking hugtaka í reglugerð þessari er sem hér segir:
Sæstrengur: Hvers konar strengur sem lagður er í sjó miðað frá stórstraumsfjörumáli, einkum til að flytja orku, vegna fjarskipta eða rannsókna.
Neðansjávarleiðsla: Hvers konar leiðsla sem lögð er í sjó miðað frá stórstraumsfjörumáli til að flytja hvers kyns efni, á hvaða formi sem er.
Framkvæmdaraðili: Sá aðili, opinber eða einkaaðili sem óskar eftir að leggja sæstreng eða neðansjávarleiðslu.
4. gr. Krafa um samþykki fyrir lagningu sæstrengs eða neðansjávarleiðslu.
Óheimilt er að reka, eiga eða leggja sæstreng eða neðansjávarleiðslu án þess að hafa áður fengið til þess:
- Samþykki Umhverfisstofnunar, sbr. lög nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda.
- Framkvæmdaleyfi sveitarfélaga innan netlaga skv. skipulagslögum, nr. 123/2010.
- Samþykki Samgöngustofu, sbr. lög um vitamál, nr. 132/1990.
Eftir atvikum skal leita byggingarleyfis Mannvirkjastofnunar, sbr. lög nr. 160/2010 um mannvirki og leyfis Orkustofnunar, sbr. raforkulög nr. 65/2003.
5. gr. Umsókn til Umhverfisstofnunar um lagningu sæstrengs eða neðansjávarleiðslu.
Með umsókn til Umhverfisstofnunar skulu fylgja upplýsingar um framkvæmd lagningar, sbr. 1.-5. tl., eins og við á hverju sinni:
- Lýsing á umfangi framkvæmdar og umfangi einstakra framkvæmdaþátta og uppdrættir af staðsetningu og legu.
- Upplýsingar um gerð, tegund og tilgang lagningar viðkomandi sæstrengs eða neðansjávarleiðslu.
- Upplýsingar um hvernig framkvæmd fellur að gildandi skipulagsáætlunum eða skipulagsstefnu á viðkomandi svæði.
- Lýsing á staðháttum á framkvæmdarsvæði.
- Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum eða ákvörðun Skipulagsstofnunar um að framkvæmd skuli ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
Telji Umhverfisstofnun að upplýsingar í umsókn séu ófullnægjandi, eftir að hafa gefið framkvæmdaraðila kost á úrbótum, skal stofnunin vísa umsókn frá skriflega og gera grein fyrir þeim þáttum sem vanreifaðir eru.
6. gr. Samþykki Umhverfisstofnunar.
Umhverfisstofnun getur á grundvelli þeirra upplýsinga sem krafist er í 5. gr. reglugerðar þessarar og laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda:
- veitt umsókn samþykki,
- hafnað því að gefa út samþykki eða
- bundið samþykki skilyrðum.
Við ákvörðun um samþykki lagningar skal taka fullt tillit til opinberrar skipulagsstefnu, skipulagsáætlana og viðeigandi reglna sem gilda á hverjum tíma.
Umhverfisstofnun gefur út samþykki vegna lagningar sæstrengs eða neðansjávarleiðslu að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunar og annarra aðila ef þörf krefur.
Samþykki Umhverfisstofnunar fellur úr gildi hafi framkvæmd ekki verið hafin innan 24 mánaða frá útgáfu þess.
7. gr. Tilkynning til sjómælingasviðs Landhelgisgæslu Íslands.
Umhverfisstofnun skal tilkynna sjómælingasviði Landhelgisgæslu Íslands um þá sæstrengi og neðansjávarleiðslur sem stofnunin veitir samþykki fyrir.
8. gr. Þvingunarúrræði og refsiviðurlög.
Umhverfisstofnun hefur heimildir skv. V. kafla laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda til að beita þvingunarúrræðum ásamt öðrum úrræðum til að framfylgja ákvæðum reglugerðarinnar.
9. gr. Kæruheimild.
Ákvarðanir Umhverfisstofnunar er lúta að lagningu sæstrengja og neðansjávarleiðslna sæta kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 4. mgr. 28. gr. laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda. Um aðild, kærufrest, málsmeðferð og annað er varðar kæruna fer samkvæmt lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
10. gr. Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er með stoð í p-lið 6. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda, öðlast þegar gildi.
Reglugerðin er sett að höfðu samráði við þau ráðuneyti sem fara með samgöngumál og málefni sjávarútvegs og Samband íslenskra sveitarfélaga sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 23. maí 2018.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson.
Sigríður Auður Arnardóttir.
Fyrirvari
Reglugerðir eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda skv. 3. gr. laga um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, nr. 15/2005, sbr. reglugerð um útgáfu Stjórnartíðinda nr. 958/2005.
Sé misræmi milli þess texta sem birtist hér í safninu og þess sem birtur er í útgáfu B-deildar Stjórnartíðinda skal sá síðarnefndi ráða.