1. gr.
Orðið "Neytendastofa" í k) lið 3. gr. fellur brott.
2. gr.
12. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:
Almennt um eftirlit.
Mannvirkjastofnun hefur eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar.
Mannvirkjastofnun fylgist með tækjum á markaði, aflar á skipulegan hátt upplýsinga um þau og tekur við ábendingum frá neytendum og öðrum aðilum. Hún getur falið faggiltum rafskoðunarstofum að annast skoðanir tækja á markaði, sbr. 9. gr. laga nr. 146/1996 og 6. mgr. þessarar greinar.
Mannvirkjastofnun hefur eftirlit með að fastur búnaður uppfylli ákvæði reglugerðar þessarar og tekur við ábendingum frá neytendum og öðrum aðilum. Hún getur falið faggiltum rafskoðunarstofum að annast skoðanir á föstum búnaði, sbr. 9. gr. laga nr. 146/1996 og 6. mgr. þessarar greinar.
Eftirlitsaðila er heimilt að skoða búnað hjá ábyrgðaraðila og einnig hjá seljanda, eftir því sem við á, og krefjast upplýsinga um ábyrgðaraðila. Eftirlitsaðila er jafnframt heimilt að taka sýnishorn búnaðar til rannsóknar. Seljanda er skylt að halda skrá með upplýsingum um ábyrgðaraðila allra þeirra tækja sem hann hefur á boðstólum.
Ábyrgðaraðila er skylt að halda skrá yfir öll tæki sem hann hefur á boðstólum. Hann skal einnig ávallt hafa tiltæk afrit af EB-samræmisyfirlýsingum fyrir tæki og gögn sem staðfesta samræmi fasts búnaðar við ákvæði reglugerðar þessarar. Eftirlitsaðili getur einnig krafið ábyrgðaraðila um tæknigögn, fylgiskjöl, leiðbeiningar, tæknilegar upplýsingar og aðrar nauðsynlegar upplýsingar um búnað.
Mannvirkjastofnun getur falið þar til bærri skoðunarstofu að skoða búnað og viðeigandi gögn og rannsaka og meta hvort þau samræmist kröfum reglugerðar þessarar. Prófun skal framkvæmd af prófunarstofu sem tilkynnt hefur verið af aðildarríki hins Evrópska efnahagssvæðis.
Starfsmenn Mannvirkjastofnunar og skoðunarstofu eru bundnir þagnarskyldu um atriði er fram koma við rannsókn og atvinnuleynd hvílir yfir.
3. gr.
13. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:
Úrræði Mannvirkjastofnunar vegna tækja.
Ef tæki uppfyllir ekki formleg skilyrði til markaðssetningar skv. 8. og 9. gr. getur Mannvirkjastofnun bannað sölu þess. Sama gildir ef ábyrgðaraðili torveldar skoðun eða rannsókn tækis eða hefur ekki tiltæk gögn skv. 4. mgr. 12. gr.
Ef rökstuddur grunur leikur á að tæki uppfylli ekki grunnkröfur getur Mannvirkjastofnun ákveðið tímabundið bann við sölu þess á meðan á rannsókn stendur. Uppfylli tæki ekki grunnkröfur getur Mannvirkjastofnun bannað sölu þess.
4. gr.
15. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:
Málsmeðferð og málskot.
Mannvirkjastofnun skal beina aðgerðum sínum skv. V. kafla að ábyrgðaraðilum búnaðar. Stofnuninni er einnig heimilt að beina aðgerðum sínum að seljendum þegar það á við.
Mannvirkjastofnun skal, eftir því sem unnt er, hafa samvinnu við ábyrgðaraðila og seljendur um málsmeðferð, s.s. öflun gagna, skoðun, prófanir og aðgerðir, s.s. stöðvun sölu eða notkunar.
Mannvirkjastofnun ber að tilkynna aðilum um rökstudda ákvörðun sína svo fljótt sem unnt er. Ákvörðunin skal studd viðeigandi gögnum, sem eftir aðstæðum geta verið skoðunarskýrslur, prófunarskýrslur eða önnur gögn. Ábyrgðaraðilum skal veittur 10 daga frestur til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, þ.m.t. að fara fram á prófun eða endurprófun tækis.
Ákvörðunum Mannvirkjastofnunar má skjóta til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 7. mgr. 11. gr. laga nr. 146/1996, með áorðnum breytingum. Um meðferð kæru og um kæruaðild fer samkvæmt ákvæðum laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Málskot skv. 4. mgr. frestar ekki framkvæmd ákvörðunar. Verða ákvarðanir Mannvirkjastofnunar ekki bornar undir dómstóla fyrr en úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála liggur fyrir.
Mannvirkjastofnun er heimilt að endurskoða ákvörðun ef breyttar aðstæður eru fyrir hendi.
Ábyrgðaraðili eða seljandi, þegar við á, ber kostnað vegna þeirra sýnishorna tækja sem þeir láta af hendi vegna rannsókna. Að loknum rannsóknum skal sýnishornum skilað eða þau eyðilögð með öruggum hætti. Ábyrgðaraðilar skulu bera kostnað vegna prófunar búnaðar, leiði sú prófun í ljós að hann uppfylli ekki grunnkröfur 5. gr.
5. gr.
16. gr. ásamt fyrirsögn orðast svo:
Tilkynningar til Eftirlitsstofnunar EFTA.
Ef Mannvirkjastofnun bannar sölu eða hindrar á annan hátt, á grundvelli þessarar reglugerðar, markaðssetningu tækis sem ber CE-merkingu, sbr. 8. gr., skal hún tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA ákvörðun sína, ásamt rökstuðningi og útskýringum. Mannvirkjastofnun er einnig heimilt að senda slíkar tilkynningar um tæki sem ekki bera CE-merkingu, sbr. 8. gr.
6. gr.
Reglugerð þessi tekur gildi 1. september 2014 og er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 146/1996 um öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga.
Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, 26. ágúst 2014.
F. h. r.
Sigríður Auður Arnardóttir.
Steinunn Fjóla Sigurðardóttir.