1. gr.
7. gr. orðast svo:
Menntun og vottun starfsmanna.
Starfsmönnum er eingöngu heimilt að annast lekaeftirlit með búnaði sem inniheldur 3 kg eða meira af flúoruðum gróðurhúsalofttegundum og með búnaði sem inniheldur 6 kg eða meira af flúoruðum gróðurhúsalofttegundum með loftþéttum kerfum sem merkt eru sem slík, endurheimt, uppsetningu, viðhald eða þjónustu vegna staðbundinna kæli- og varmadælukerfa og loftkælinga hafi þeir hlotið vottun um að þeir uppfylli viðeigandi lágmarkskröfur samkvæmt fylgiskjali I við reglugerð þessa.
Starfsmönnum er eingöngu heimilt að annast lekaeftirlit með búnaði sem inniheldur 3 kg eða meira af flúoruðum gróðurhúsalofttegundum, endurheimt, uppsetningu, viðhald eða þjónustu vegna staðbundinna brunavarnakerfa og endurheimt vegna slökkvitækja hafi þeir hlotið vottun um að þeir uppfylli viðeigandi lágmarkskröfur samkvæmt fylgiskjali II við reglugerð þessa.
Starfsmönnum er eingöngu heimilt að endurheimta flúoraðar gróðurhúsalofttegundir úr háspennurofbúnaði hafi þeir hlotið vottun um að þeir uppfylli viðeigandi lágmarkskröfur samkvæmt fylgiskjali III við reglugerð þessa.
Starfsmönnum er eingöngu heimilt að endurheimta tiltekna leysa, sem í eru flúoraðar gróðurhúsalofttegundir, úr búnaði hafi þeir hlotið vottun um að þeir uppfylli viðeigandi lágmarkskröfur samkvæmt fylgiskjali IV við reglugerð þessa.
Starfsmönnum er eingöngu heimilt að endurheimta flúoraðar gróðurhúsalofttegundir úr loftræstibúnaði í vélknúnum ökutækjum hafi þeir hlotið vottun um að þeir uppfylli viðeigandi lágmarkskröfur samkvæmt fylgiskjali V við reglugerð þessa.
Vottun samkvæmt þessari grein er framkvæmd af vottunarstofu sem hefur verið faggilt af faggildingarsviði Einkaleyfastofu í samræmi við lög nr. 24/2006 um faggildingu o.fl. Vottunarstofa gefur út skírteini um vottun starfsmanna. Skírteini skal gilda í fjögur ár en framlengist um önnur fjögur ár hafi viðkomandi starfsmaður sannanlega unnið við umrædd kerfi. Skírteini skal gefið út á íslensku og ensku. Í skírteini skal koma fram með skýrum hætti að starfsmaður fullnægi kröfum viðeigandi reglugerðar Evrópusambandsins, sbr. 11. gr. Vottunarstofa skal halda skrá yfir vottaða einstaklinga og jafnframt senda upplýsingar um útgefin skírteini til Umhverfisstofnunar fyrir undangengið almanaksár fyrir 1. mars ár hvert. Umhverfisstofnun heldur skrá yfir starfsmenn sem hlotið hafa vottun. Skrár skulu varðveittar í a.m.k. fimm ár.
Vottun sem veitt hefur verið í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins vegna starfsmanna sem annast verkefni sem getið er um í 1.-5. mgr. skal teljast jafngild vottun skv. 6. mgr. Umhverfisstofnun getur þó gert að skilyrði að viðkomandi skili inn afriti af skírteini, ásamt þýðingum unnum af löggiltum skjalaþýðendum eða öðrum aðilum sem stjórnvöld viðurkenna. Þýðingar mega vera á ensku eða Norðurlandamáli, öðru en finnsku.
2. gr.
8. gr. orðast svo:
Vottun fyrirtækja.
Fyrirtækjum er eingöngu heimilt að annast uppsetningu, viðhald eða þjónustu í tengslum við staðbundin kæli- og varmadælukerfi og loftkælingar hafi þau hlotið vottun um að þau uppfylli viðeigandi kröfur samkvæmt fylgiskali I við reglugerð þessa.
Fyrirtækjum er eingöngu heimilt að annast uppsetningu, viðhald eða þjónustu í tengslum við staðbundin brunavarnakerfi sem innihalda flúoraðar gróðurhúsalofttegundir hafi þau hlotið vottun um að þau uppfylli viðeigandi kröfur samkvæmt fylgiskjali II við reglugerð þessa.
Vottun samkvæmt þessari grein er framkvæmd af vottunarstofu sem hefur verið faggilt af faggildingarsviði Einkaleyfastofu í samræmi við lög nr. 24/2006 um faggildingu o.fl. Vottunarstofa gefur út skírteini um vottun fyrirtækja. Skírteini skal gilda í fjögur ár en hafi viðkomandi fyrirtæki sannanlega unnið við umrædd kerfi framlengist skírteinið um önnur fjögur ár. Skírteini skal gefið út á íslensku og ensku. Í skírteini skal koma fram með skýrum hætti að fyrirtæki fullnægi kröfum viðeigandi reglugerðar Evrópusambandsins, sbr. 11. gr. Vottunarstofa skal halda skrá yfir fyrirtæki sem hlotið hafa vottun og jafnframt senda upplýsingar um útgefin vottorð til Umhverfisstofnunar fyrir undangengið almanaksár fyrir 1. mars ár hvert. Umhverfisstofnun heldur skrá yfir fyrirtæki sem hlotið hafa vottun. Skrár skulu varðveittar í a.m.k. fimm ár.
Vottun sem framkvæmd hefur verið undir lögsögu annarra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins vegna fyrirtækja sem annast verkefni sem getið er í 1. og 2. mgr. skal teljast jafngild vottun skv. 3. mgr. Umhverfisstofnun getur þó gert að skilyrði að viðkomandi skili inn afriti af skírteini, ásamt þýðingum unnum af löggiltum skjalaþýðendum eða öðrum aðilum sem stjórnvöld viðurkenna. Þýðingar mega vera á ensku eða Norðurlandamáli, öðru en finnsku.
3. gr.
Ákvæði II til bráðabirgða orðast svo:
Bráðabirgðavottun starfsmanna og fyrirtækja.
Starfsmönnum og fyrirtækjum sem við gildistöku þessarar reglugerðar annast einhver af þeim störfum sem getið er í 7. og 8. gr. er heimilt að starfa áfram til 1. júlí 2013 þrátt fyrir að hafa ekki hlotið vottun samkvæmt þessum greinum. Heimild þessi gildir eingöngu hér á landi en ekki í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins. Starfsmenn og fyrirtæki sem framangreint á við um skulu eigi síðar en 20. apríl 2012 senda umsókn til Umhverfisstofnunar sem gefur út bráðabirgðaskírteini þessu til staðfestingar.
4. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 31. gr. laga nr. 52/1988 um eiturefni og hættuleg efni. Reglugerðin öðlast þegar gildi.
Umhverfisráðuneytinu, 5. mars 2012.
Svandís Svavarsdóttir.
Magnús Jóhannesson.