Félagsmálaráðuneyti

196/1994

Reglugerð um fræðslu og þjálfun í brunavörnum og slökkvistarfi á vegum einkaaðila - Brottfallin

1. Almenn ákvæði.

1.1. Brunamálastofnun ríkisins ber að fylgjast með því hvernig staðið er að fræðslu um brunavarnir og brunamál í landinu, þ.m.t. þjálfun í eldvarnaeftirliti, slökkvistarfi og björgun úr eldsvoða.

Fræðsla um brunavarnir í skipum ásamt tilheyrandi þjálfun, sem samkvæmt lögum heyrir undir siglingamálastjóra, er undanþegin þessu ákvæði. Sama gildir um fræðslu um brunavarnir ásamt tilheyrandi þjálfun í flugvélum sem heyrir undir flugmálastjóra.

1.2. Samkvæmt lögum nr. 41/1992 er Brunamálastofnun ríkisins skylt:

- Að beita sér fyrir kynningar- og fræðslustarfsemi fyrir þá sem sinna reglubundnu eldvarnaeftirliti.

- Að gangast fyrir ráðstefnum og námskeiðum fyrir hönnuði og aðra tæknimenn og kynna þeim nýjungar á sviði brunavarna.

- Að beita sér fyrir kynningar- og fræðslustarfi meðal almennings.

1.3. Slökkviliðsstjórum ber að veita fræðslu um brunavarnir og brunamál, svo og þjálfun í brunavörnum, í umdæmum sínum og innan sinna vébanda. Slík fræðsla og þjálfun er háð eftirliti Brunamálastofnunar ríkisins samkvæmt gr. 1.1.

Slökkviliðsstjórar skulu rn.a. fræða eftirtalda aðila í sínum umdæmum um brunavarnir og brunamál til að þeir megi sem best uppfylla kröfur um brunavarnir og öryggi gegn eldi:

- Fyrirtæki og annan atvinnurekstur, þ.m.t. landbúnað.

- Skóla og aðrar menntastofnanir.

- Félög og félagasamtök, þ.m.t. hjálpar- og björgunaraðila.

- Allan almenning eftir því sem kostur er, þ.m.t. eigendur íbúðarhúsnæðis.

1.4. Félögum og félagasamtökum er heimilt að veita meðlimum sínum fræðslu um brunavarnir og brunamál.

1.5. Skólum og öðrum menntastofnunum er bæði heimilt og skylt að uppfræða nemendur um brunavarnir og brunamál eða sjá til þess að þeir fái slíka þjálfun og fræðslu hjá viðurkenndum aðila.

1.6. Fyrirtækjum og stofnunum er bæði heimilt og skylt að uppfræða starfsmenn sína um brunamál og þjálfa þá í brunavörnum og slökkvistarfi eða sjá til þess að þeir fái slíka þjálfun hjá viðurkenndum aðilum.

2. Fræðsla og þjálfun á vegum einkaaðila.

2.1. Brunamálastofnun ríkisins skal hafa eftirlit með fræðslu um brunavarnir og brunamál og einnig hafa eftirlit með þjálfun í brunavörnum og björgun úr eldsvoða, sem fer fram á vegum einkaaðila og boðin er slökkviliðum, almenningi og fyrirtækjum í landinu.

Einkaaðilar eru hér taldir allir aðrir en opinberir aðilar, þ.e. einstaklingar, félög, samtök og fyrirtæki.

2.2. Einkaaðili sem hyggst veita fræðslu um brunavarnir og brunamál eða þjálfun í brunavörnum og björgun úr eldsvoða og taka gjald fyrir, verður að fá viðurkenningu Brunamálastofnunar ríkisins á starfsemi sinni. Ef hann er hæfur að mati stofnunarinnar gefur hún út skilyrt vottorð honum til handa. Slökkviliðsstjóri getur einnig veitt framangreinda heimild að fengnu leyfi brunamálastjóra.

2.3. Einkaaðilum er heimilt án sérstaks leyfis Brunamálastofnunar ríkisins að láta í té fræðslu um brunavarnir á afmörkuðu sviði, t.d. eftirliti og viðhaldi brunavarnabúnaðar sem viðkomandi aðili framleiðir eða flytur til landsins. Slík fræðsla veitir þó einungis réttindi á því afmarkaða sviði.

Slökkviliðsstjórum ber að gangast fyrir námskeiðum, sem húseigendum og starfsmönnum fyrirtækja og stofnana er skylt að sækja til að uppfylla lög og reglur um brunavarnir, en þau eru háð eftirliti Brunamálastofnunar ríkisins og verða að uppfylla kröfur stofnunarinnar um leiðbeinendur og námsefni.

3. Brot á ákvæðum þessarar reglugerðar.

3.1. Brunamálastofnun ríkisins og slökkviliðsstjórar í umboði hennar, hver á sínu brunavarnasvæði, hafa eftirlit með því að farið sé eftir reglugerð þessari.

3.2. Séu ákvæði reglugerðar þessarar brotin fer um málið eftir ákvæðum 31. gr. laga nr. 41/1992 um brunavarnir og brunamál.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 30. gr. laga nr. 41/1992 um brunavarnir og brunamál og öðlast þegar gildi.

Félagsmálaráðuneytið, 7. apríl 1994.

Jóhanna Sigurðardóttir.

Sesselja Arnadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica