Samgönguráðuneyti

1290/2007

Reglugerð um flugráð. - Brottfallin

1. gr.

Flugráð er ráðherra og flugmálastjóra til ráðuneytis um flugmál og hefur lögbundna umsagnarheimild.

2. gr.

Flugráð skal skipað sex mönnum og jafnmörgum til vara og taka varamenn sæti í ráðinu í forföllum aðalmanna. Um skipun í flugráð og skipunartíma fer eftir 3. og 4. mgr. 3. gr. laga nr. 100/2006.

3. gr.

Fundir í flugráði skulu haldnir eftir því sem þurfa þykir en að jafnaði skal stefnt að því að halda einn fund í mánuði, að undanskildu tímabilinu júní til ágúst.

Formaður flugráðs boðar til fundar með sannanlegum hætti með a.m.k. viku fyrirvara og skal dagskrá fundarins fylgja fundarboði. Fundur er löglegur og ályktunarbær ef löglega er til hans boðað og meirihluti aðalmanna sækir fund. Skylt er að boða til fundar ef samgönguráðherra, flugmálastjóri eða tveir flugráðsmenn óska eftir því.

Tilkynna skal formanni um forföll og boðar formaður þá varamann til fundar. Vikufrestur skv. 2. mgr. gildir ekki um boðun varamanns.

Flugmálastjóri situr fundi flugráðs með málfrelsi og tillögurétt. Auk þess sitja fundi flugráðs aðrir starfsmenn Flugmálastjórnar Íslands sem flugmálastjóri telur ástæðu til eða flugráð óskar eftir og hafa þeir jafnframt málfrelsi og tillögurétt.

Fulltrúar samgönguráðuneytisins sem fara með flugmál sitja fundi flugráðs, með málfrelsi og tillögurétt.

Flugráði er heimilt að boða aðra aðila á einstaka flugráðsfundi eftir því sem ástæða þykir til.

4. gr.

Formaður flugráðs stýrir fundum, eða varaformaður í forföllum hans. Flugráð velur ritara úr sínum hópi eða fær til þess sérstakan starfsmann. Ritari ritar fundargerð og færir til bókar ályktanir og annað sem fram fer á fundum. Bóka skal ummæli einstakra fundar­manna ef þess er sérstaklega óskað.

Að loknum fundi skal fundargerð svo fljótt sem auðið er send þeim sem fundinn sátu hverju sinni til samþykktar. Fundargerð skal undirrituð af formanni, eða varaformanni í forföllum hans, og ritara.

Flugráð skal í síðasta lagi í mars ár hvert skila samgönguráðherra ársskýrslu um störf þess fyrir liðið ár.

5. gr.

Helstu verkefni flugráðs eru að fjalla um stefnumótun í flugmálum, veita ráðherra umsögn um tillögur samgönguráðs að samgönguáætlun og veita umsögn um lög og reglur á sviði flugmála.

Til stefnumarkandi ákvarðana teljast m.a. skipulagsbreytingar á verksviði flugmála­yfirvalda, ráðgerðar breytingar á loftferðalögum og öðrum lögum og reglugerðum um flugmál. Einnig skal kynna nýja milliríkjasamninga er varða flugmál fyrir flugráði.

Að auki fjallar flugráð um önnur þau mál sem ráðherra sendir því til umfjöllunar. Jafnframt er flugmálastjóra og einstökum flugráðsmönnum heimilt að óska eftir að flugráð taki til umfjöllunar einstök málefni er varða flugmál.

6. gr.

Flugráði skulu send til umsagnar drög að lagafrumvörpum og reglugerðum er varða flugmál. Veittur skal hæfilegur tími til umsagnar sem almennt skal ekki vera skemmri en tvær vikur.

Samgönguráðherra sendir flugráði til umsagnar tillögur samgönguráðs að samgöngu­áætlun og flugmálahluta fjögurra ára samgönguáætlunar, áður en endanleg tillaga er unnin og lögð fyrir Alþingi. Veittur skal hæfilegur frestur til umsagnar sem almennt skal ekki vera skemmri en tvær vikur.

7. gr.

Reglugerð þessi er sett með vísan til 2. mgr. 12. gr. laga nr. 100/2006 um Flugmálastjórn Íslands með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um flugráð nr. 377/2003.

Samgönguráðuneytinu, 10. desember 2007.

Kristján L. Möller.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

Reglugerð sem fellur brott:


Þetta vefsvæði byggir á Eplica