Reglugerð þessi tekur til:
- staðla á sviði upplýsingatækni eins og tilgreint er í 4. gr.
- notkunarforskrifta fyrir þjónustu sem boðin er sérstaklega til upplýsinga- og gagnaskipta milli tæknilegra upplýsingakerfa um almenn fjarskiptanet.
Reglugerð þessi tekur ekki til:
- sameiginlegra tækniforskrifta fyrir notendabúnað sem tengdur er við almenn fjarskiptanet sem falla undir reglugerð nr. 589/1994 um viðurkenningu notendabúnaðar á grundvelli sameiginlegra tæknilegra reglugerða á Evrópska efnahagssvæðinu.
- forskrifta fyrir búnað, sem er hluti af almennum fjarskiptanetum.
Í reglugerð þessari merkir:
1. "tækniforskrift": Forskrift í skjali þar sem kveðið er á um þá eiginleika sem framleiðsluvara skal hafa, svo sem gæði, skil, öryggiseiginleika eða stærðir, þar á meðal þær kröfur sem gerðar eru hvað vöruna snertir um notkun íðorða og tákna, prófanir og prófunaraðferðir, umbúðir og vöru- og umbúðamerkingar;
2. "sameiginleg tækniforskrift": Tækniforskrift sem ætluð er til samræmdrar notkunar í öllum aðildarríkjum bandalagsins;
3. "staðall": Tækniforskrift sem samþykkt hefur verið af viðurkenndri staðlastofnun og ætluð er til endurtekinna eða stöðugra nota án þess að skylt sé að fylgja henni:
4. "alþjóðlegur staðall": Staðal sem tekinn er upp af viðurkenndri alþjóðlegri staðlastofnun;
5. "frumvarp að alþjóðlegum staðli (DIS)": Frumvarp að staðli sem tekið er upp af viðurkenndri alþjóðlegri staðlastofnun;
6. "alþjóðleg tækniforskrift á fjarskiptasviði": Tækniforskrift um alla eða suma eðliseiginleika vöru, sem mælt er með af Alþjóðlegu ráðgjafanefndinni um ritsíma og talsíma (CCITT), Samtökum póst- og símastjórna Vestur-Evrópu (CEPT) eða öðrum hliðstæðum stofnunum;
7. "Evrópskur staðall": Staðal samþykktan af ETSI (Fjarskiptastaðlastofnun Evrópu), CEN/CENELEC (Evrópsku staðlasamtökin/Evrópsku rafstaðlasamtökin), CEPT (Samtök póst- og símastjórna í Evrópu) og öðrum stofnunum sem aðilar EES koma sér saman um.
8. "Evrópskur staðall (ENV);4: Staðal samþykktan af sömu stofnunum og um getur í 7. tölulið.
9. "Notkunarstaðall": Staðal sem saminn er með tilliti til margþættar notkunar sem krafist er til að tryggja að kerfi geti starfað saman, yfirleitt gerðan með því að tengja saman marga viðmiðunarstaðla sem þegar eru fyrir hendi og sem tekinn er upp í samræmi við samþykktir staðlastofnana;
10. "notkunarforskrift": Forskrift á sviði fjarskipta þar sem skilgreind er notkun eins eða fleiri staðla um samtengingu opinna kerfa vegna tiltekinnar kröfu um fjarskipti milli kerfa á sviði upplýsingatækni (staðla sem mælt er með af Alþjóðlegu ráðgjafanefndinni um ritsíma og talsíma (CCITT), Samtökum póst- og símastjórna Vestur-Evrópu CEPT eða öðrum hliðstæðum stofnunum);
11. "tæknileg reglugerð": Tækniforskriftir, þar á meðal viðeigandi stjórnsýsluákvæði, sem skylt er að fylgja að lögum eða í raun til að setja megi vöru á markað eða nota hana í tilteknu aðildarríki eða verulegum hluta þess, að frátöldum þeim forskriftum sem staðbundin yfirvöld setja;
12. "samræmisvottun": Aðgerð sem vottar, með samræmisvottorði eða samræmismerki, að vara eða þjónusta sé í samræmi við tiltekna staðla eða aðrar tækniforskriftir;
13. "upplýsingatækni": Kerfi, vélbúnað, íhluta og hugbúnað sem þarf til að safna upplýsingum, vinna úr þeim og geyma þær á öllum sviðum mannlegrar starfsemi (á heimilum, í skrifstofum og verksmiðjum o.s.frv.), og sem rafeindatækni eða skyld tækni er almennt notuð við;
14. "opinberir innkaupasamningar": Samninga sem:
- skilgreindir eru í reglugerð nr. 591/1993 um opinber innkaup og opinberar framkvæmdir á Evrópska efnahagssvæðinu ásamt síðari breytingum
- gerðir eru um útvegun tækjabúnaðar sem varðar upplýsingatækni og fjarskipti, án tillits til þess hvert verksvið samningsyfirvaldsins er;
15. "fjarskiptayfirvöld": Viðurkennd yfirvöld eða einkafyrirtæki sem veita almenna fjarskiptaþjónustu.
Beita skal viðeigandi evrópskum eða alþjóðlegum stöðlum við:
- Sannprófun á samræmi vöru og þjónustu við staðlana og notkunarforskriftirnar á grundvelli prófunarkrafna sem tilgreindar eru í þeim;
- Vottun samræmis við staðla og notkunarforskriftir á grundvelli tilhlýðilegra samhæfðra aðferða. Beita skal stöðlum og notkunarforskriftum sem varða upplýsingatækni og fjarskipti við opinber innkaup og í tæknilegum reglugerðum.
1. Í opinberum innkaupasamningum á sviði upplýsingatækni skal miða við:
- Evrópska staðla og evrópska forstaðla;
- Alþjóðastaðla þegar þeir eru viðurkenndir á Íslandi þannig að upplýsinga- og gagnaskipti og rekstrarsamhæfni kerfa byggist á þessum stöðlum.
2. Þegar um er að ræða aðgang að almennum fjarskiptanetum fyrir þjónustugreinar, sem sérstaklega miðast við upplýsinga- og gagnaskipti milli tæknilegra upplýsingakerfa, skal beita notkunarforskriftum, sem byggðar eru á stöðlum, sem nefndir eru í 1. tl., í því skyni að fullkomin samhæfni náist.
3. Taka má tillit til sérstakra aðstæðna eins og lýst er hér á eftir sem geta réttlætt notkun annarra staðla og forskrifta en kveðið er á um í þessari reglugerð:
- Þörf á órofnum rekstri eldri kerfa, en þó aðeins sem liður í skýrt markaðri og skjalfestri áætlun um síðari breytingu til alþjóðlegra og evrópskra staðla eða notkunarforskrifta;
- sérstök verkefni sem eru raunverulegt nýmæli;
- þegar staðall eða notkunarforskrift er tæknilega ekki fullnægjandi til að gegna hlutverki sínu þar sem beiting þeirra tryggir ekki viðeigandi skilyrði til upplýsinga- og gagnaskipta eða rekstrarsamhæfni kerfa, eða að ekki eru til aðferðir, þar sem meðal prófanir, sem staðfest geta fullnægjandi samræmi vöru við þann staðal eða notkunarforskrift sem um er að ræða eða ef um er að ræða evrópska forstaðla sem ekki hafa nægan stöðugleika til að vera nothæfir. Veita ber öðrum aðildarríkjum EES (Evrópska efnahagssvæðisins) tækifæri til að sýna fram á að búnaður í samræmi við staðalinn hafi verið notaður með fullnægjandi árangri og að ekki hafi verið réttmætt að gera þessa undantekningu;
- þegar í ljós kemur eftir vandlega markaðsathugun að af mikilvægum hagkvæmnisástæðum er ekki réttmætt að nota viðkomandi staðal eða notkunarforskrift. Veita ber öðrum aðildarríkjum EES tækifæri til að sýna fram á, að búnaður í samræmi við staðalinn hafi verið notaður með fullnægjandi árangri og að ekki hafi verið réttmætt að gera þessa undantekningu.
4. Að auki geta aðildarríki EES í sömu tilvikum og tilgreint er í 1. tl., krafist þess að miðað sé við frumvörp að alþjóðastöðlum.
5. Hlutaðeigandi stjórnvöld, sem beita 3. tl., skulu tilgreina ástæður sínar fyrir því, ef mögulegt er, í upphaflegum útboðsgögnum sem gefin eru út í tilefni kaupanna, og skulu í öllum tilvikum skjalfesta ástæður í eigin gögnum og veita bjóðendum þessar upplýsingar sé þess óskað, en jafnframt virða viðskiptaleynd.
6. Samningsyfirvöldum er heimilt, telji þau það nauðsynlegt, að beita öðrum forskriftum við samninga, nemi fjárhæð þeirra minna en 100 000 ECU (evrópskum gjaldmiðilseiningum), svo fremi að þessi innkaup komi ekki í veg fyrir notkun staðlanna sem getið er um í 1. og 2. tl., við samning sem nemur hærri fjárhæð en að ofan greinir.
Við samningu á tæknilegum reglugerðum eða við breytingar á þeim sviðum, sem þessi reglugerð nær yfir, skal ætíð miða við þá staðla sem vísað er til í 4. gr., þegar þeir samsvara á viðeigandi hátt þeim tækniforskriftum sem krafist er í hlutaðeigandi tæknilegri reglugerð.
Reglugerð þessi skal hvorki hafa áhrif á beitingu:
a) Tilskipunar ESB nr. 83/189/EBE með síðari breytingum, um tilhögun upplýsingaskipta vegna tæknilegra staða og reglugerða né
b) Reglugerðar nr. 589/1994 um viðurkenningu notendabúnaðar á grundvelli sameiginlegra tæknilegra reglugerða á Evrópska efnahagssvæðinu.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um fjarskipti nr. 73/1984 sbr. 1. nr. 32/1993 og með hliðsjón af ákvörðun ráðherraráðs ESB frá 22. desember 1986 nr. 87/95/EBE um stöðlun á sviði upplýsingatækni og fjarskipta staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi.
Samgönguráðuneytið, 11. janúar 1995.
Halldór Blöndal.
Ragnhildur Hjaltadóttir