909/2019
Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 822/2004 um gerð og búnað ökutækja.
1. gr.
Eftirfarandi breytingar eru gerðar á lið 07.01 um ljósker í 7. gr.:
- Skilgreining á "Auka háljósker" í tölulið (1) um aðalljós skal vera eftirfarandi:
Auka háljósker: Ljósker skulu tengd öðrum háljóskerum og kvikna skal á þeim samtímis áskildum háljóskerum eða um sérstakan rofa. Þegar um er að ræða tvö pör aukaháljóskera mega þau ekki loga samtímis. Einnig er heimilt að hafa aðeins eitt aukaháljósker í stað pars aukaháljóskera, og skal það þá vera í lóðréttu breiddarmiðplani ökutækisins. Þegar skipt er af háljósum á lágljós skulu öll háljósin slokkna samtímis. Aukaháljós skulu staðsett framar en ökumaður. Að öðru leyti gilda sömu ákvæði og um áskilin háljósker.
- Í stað orðanna "Ljóskerin skulu vera byrgð þegar þau eru ekki í notkun" í tölulið (11) um ljóskastara kemur:
Fjöldi: Einn eða tveir. Ef einn ljóskastari er notaður skal hann vera í lóðréttu breiddarmiðplani ökutækisins.
- Skilgreining á "Tíðni" í tölulið (12) um neyðarakstursljós í lið 07.01 um ljósker í 7. gr. skal vera eftirfarandi:
Tíðni: Blikktíðni skal vera á milli 60 og 240 leiftur á mínútu. Þó er heimilt að hafa eingöngu blá ljós án blikktíðni (sólir) til að auka sýnileika neyðarakstursökutækis þegar neyðarakstur á sér ekki stað t.d. að næturlagi og við fjölmennar samkomur.
2. gr.
Við lið 07.02 um glitaugu og endurskinsmerki í 7. gr. bætast eftirfarandi töluliðir:
- (8) Sérstakar glitmerkingar.
Glitmerkingar ökutækja í neyðarakstri skulu vera sem hér segir:
Litasamsetningar:
Ökutæki lögreglu: Gulur og blár.
Ökutæki slökkviliðs: Gulur og rauður.
Ökutæki til sjúkraflutninga: Gulur og grænn.
Ökutæki björgunarsveita: Gulur og appelsínugulur.
Óheimilt er að hafa framvísandi rauða glitmerkingu og afturvísandi hvíta glitmerkingu, nema um sé að ræða viðvörunarglitmerkingar.
Lögun: Raðir af viðeigandi litum til skiptis. Önnur ökutæki en fólksbifreiðar skulu hafa ferhyrnt glit á hlið, viðvörunarglitmerkingar skv. lið 07.02 (7) að framan og/eða aftan.
Viðurkenning og merkingar: Ekki er gerð krafa um viðurkenningu á sérstökum glitmerkingum, en viðvörunarglitmerkingar skulu vera viðurkenndar og merktar samkvæmt ECE-reglum nr. 70 og 104.
Stærð merkinga: Hver flötur skal vera að lágmarki 40 x 40 mm.
- (9) Undanþága.
Samgöngustofa getur veitt ökutækjum í neyðaraksti undanþágu frá merkingum eða heimild til frekari merkinga og annarrar gerðar þeirra en kveðið er á um í reglugerð þessari.
3. gr.
Lagastoð og gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt heimild í 60. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 með síðari breytingum, öðlast þegar gildi.
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, 30. september 2019.
Sigurður Ingi Jóhannsson.