1. gr.
Í stað orðsins "ábyrgðarsending" í 2. mgr. 5. gr. reglugerðarinnar koma orðin: rekjanleg sending, og í stað hugtaksins "bögglasendinga" kemur: pakkasendinga.
Í sömu málsgrein fellur niður málsliðurinn "dagblaða, vikublaða, tímarita, bóka og verðlista með utanáskrift".
2. gr.
Í stað tölunnar "100" í 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar kemur: 50, og í stað orðsins "þrisvar" kemur: 2,5.
3. gr.
6. gr. reglugerðarinnar fellur niður.
4. gr.
10. gr. reglugerðarinnar skal orðast svo:
Rekstrarleyfishafi, sem fengið hefur leyfi til að starfrækja póstþjónustu sem fellur undir alþjónustu og á hafa verið lagðar kvaðir samkvæmt rekstrarleyfi um að veita alþjónustu á landinu öllu eða á ákveðnu svæði, skal bera út póst alla virka daga til einstaklinga sem hafa fasta búsetu, sbr. lög um lögheimili nr. 21/1990, með síðari breytingum. Á sama hátt skal bera út póst til fyrirtækja sem hafa fasta atvinnustarfsemi í viðkomandi húsnæði.
Á dreifbýlissvæðum, þar sem kostnaður við dreifingu er þrefaldur eða meiri miðað við sams konar kostnað í þéttbýli, er rekstrarleyfishafa heimilt að fækka dreifingardögum í annan hvern virkan dag. Rekstrarleyfishafi skal senda Póst- og fjarskiptastofnun tilkynningu þessa efnis með rökstuddri greinargerð um kostnað. Stofnunin skal yfirfara og staðreyna útreikninga rekstrarleyfishafa og eftir atvikum hafna eða samþykkja umsókn, innan þriggja mánaða.
Nú fellst Póst- og fjarskiptastofnun á umsókn rekstrarleyfishafa um fækkun dreifingardaga vegna kostnaðar við dreifingu og skal þá miða við að breytingin komi ekki til framkvæmda fyrr en að liðnum tveimur mánuðum frá ákvörðun stofnunarinnar.
Jafnframt getur rekstrarleyfishafi sent Póst- og fjarskiptastofnun rökstudda umsókn um undanþágu frá ákvæðum 1. mgr., ef hann metur kringumstæður eða landfræðilegar aðstæður þannig að útburður pósts alla virka daga sé verulegum erfiðleikum bundinn á tilteknum landsvæðum. Við mat sitt á umsókninni skal Póst- og fjarskiptastofnun taka tillit til annars vegar mikilvægi póstþjónustu fyrir þá aðila sem í hlut eiga, og hins vegar erfiðleika við útburð, svo sem vegna fjarlægðar, vetrarþjónustu Vegagerðarinnar á viðkomandi svæði, lélegs vegasambands eða kostnaðar sem telst óhófleg byrði á fyrirtækinu.
Ekki er skylda að bera út póst í sumarhús (frístundahús), né til fyrirtækja sem skráð eru með heimilisfesti í sumarhúsum án eiginlegrar starfsemi á viðkomandi stað, né heldur á svæðum sem teljast til hálendis. Sama á við ef búseta eða regluleg starfsemi er skemmri en þrír mánuðir á almanaksári.
Póstrekanda er heimilt að synja um útburð pósts á heimilisfang ef vart verður við eftirlitslausan eða lausan hund á viðkomandi lóð sem torveldað getur aðgengi bréfbera að bréfakassa/bréfalúgu.
5. gr.
Á eftir 2. málsl. 1. mgr. 11. gr. bætist við eftirfarandi setning:
Rekstrarleyfishafa er heimilt við tæmingu póstkassa að taka mið af fjölda dreifingardaga á viðkomandi svæði, sbr. 10. gr. reglugerðarinnar.
6. gr.
Á eftir 1. mgr. 13. gr. kemur svofelld málsgrein:
Að lágmarki skal 85 af hundraði pósts í B-flokki borinn út innan þriggja daga (D+3) frá póstlagningu. Krafan miðast við þriggja mánaða tímabil.
7. gr.
16. gr. reglugerðarinnar skal orðast svo:
Hús í merkingu þessarar greinar tekur til íbúðarhúsnæðis og atvinnuhúsnæðis.
Skilgreiningar vegalaga á þjóðvegum gilda eftir því sem við á.
Við val á staðsetningu bréfakassa skal eftirfarandi lagt til grundvallar:
Þéttbýli:
Í þéttbýli skal bréfakassi vera staðsettur við eða í húsi.
Þéttbýlisstaður telst vera samfellt byggt svæði sem afmarkað er sem þéttbýli í aðalskipulagi sveitarfélags, annaðhvort út frá reiknireglunni um þyrpingu húsa þar sem búa a.m.k. 50 manns og fjarlægð milli húsa fer að jafnaði ekki yfir 200 metra, eða með öðrum hætti eftir ákvörðun sveitarstjórnar.
Aðgengi að bréfarifum og bréfakössum skal vera þannig að bréfberi geti óhindrað komist að og athafnað sig við skil bréfapóstsendinga.
Við hverja bréfarifu og/eða á hverjum bréfakassa skal vera skilti eða gluggi, minnst 26 x 100 mm að stærð, þar sem tilgreint er með stóru og skýru letri fullt nafn húsráðanda og annarra sem þar hafa aðsetur. Ennfremur skal í fjöleignarhúsum tilgreina númer og auðkenni hæðar á bréfakassa. Eigendur (íbúar) fjöleignarhúsa skulu sjá um að bréfakassarnir séu rétt merktir á hverjum tíma og ber þeim einnig að útvega íbúaskrá fyrir viðkomandi hús. Innbyrðis staðsetning kassanna skal vera sem eðlilegust t.d. kassi fyrir íbúð á fyrstu hæð neðstur til vinstri í samstæðunni o.s.frv. Kassarnir skulu vera læstir og samstæðan vel fest við vegg svo að útilokað sé að bréf falli aftur fyrir hana. Sama á við um atvinnuhúsnæði þar sem fleiri en einn aðili hefur starfsstöð.
Um skyldu viðtakanda til að setja upp bréfakassa og/eða bréfarifu þar sem póstútburður fer fram, stærð þeirra, staðsetningu og frágang gilda að öðru leyti ákvæði byggingarreglugerðar nr. 112/2012, eftir því sem við á.
Dreifbýli:
Í dreifbýli þar sem bifreiðar eru notaðar við póstdreifingu skal miða staðsetningu bréfakassa við að landpóstur þurfi ekki að stíga út úr bíl sínum við meðhöndlun póstsendinga.
Ef heimreið (héraðsvegur) er allt að 500 metrar skal bréfakassinn vera staðsettur við vegamót tengivega eða stofnvega. Að jafnaði skal bréfakassi ekki vera staðsettur fjær en 500 metra frá húsi. Ef bréfakassar frá fleiri en einu húsi eru staðsettir við vegamót skulu þeir að jafnaði samsettir í bréfakassasamstæðu.
Við eftirfarandi aðstæður er heimilt að víkja frá ofangreindu varðandi staðsetningu bréfakassa.
Nái móttakendur póstþjónustu ekki samkomulagi við rekstrarleyfishafa um staðsetningu bréfakassa þegar aðstæður eru með þeim hætti sem fram koma í töluliðum 1-4 geta móttakendur fengið póst afhentan á afgreiðslustað rekstrarleyfishafa, sem þeir kjósa.
Ef ekki næst samkomulag um staðsetningu bréfakassa og/eða afhendingu póstsendinga á annan hátt getur hvor aðili um sig borið ágreiningsefnið undir Póst- og fjarskiptastofnun, sbr. 10. gr. laga nr. 69/2003.
Rekstrarleyfishafi skal senda til Póst- og fjarskiptastofnunar skrá yfir þá viðtakendur póstsendinga, sem falla undir töluliði 1-4 og gera grein fyrir þeim úrræðum sem valin eru í hverju tilviki.
Að jafnaði skal fara heim að húsi þegar afhenda skal skráðar sendingar.
Viðtakendur póstsendinga í dreifbýli þar sem bréfakassar eru staðsettir við heimreiðar skulu frá og með 1. janúar 2016 bera kostnað af kaupum, uppsetningu og viðhaldi þeirra. Póst- og fjarskiptastofnun skal setja reglur um stærð og frágang bréfakassa sem staðsettir eru við heimreiðar.
8. gr.
20. gr. reglugerðarinnar ásamt fyrirsögn skal orðast svo:
Opnun óskilasendinga.
Póstrekanda er heimilt að opna óskilasendingar sem hvorki hefur verið hægt að afhenda viðtakanda né endursenda sendanda í þeim tilgangi að komast að því hver sendandi eða viðtakandi er.
Eftirfarandi verklag skal viðhaft við opnun óskilasendinga:
Póst- og fjarskiptastofnun getur kannað hvort ofangreindu verklagi hafi verið fylgt við opnun óskilasendinga.
Ef engar upplýsingar fást um hver sendandi eða móttakandi er skulu sendingar, sem hafa að geyma reiðufé eða aðra muni er meta má til fjár, sendar til Póst- og fjarskiptastofnunar til varðveislu. Gefi réttur eigandi verðmætis sig ekki fram við Póst- og fjarskiptastofnun innan tveggja ára er stofnuninni heimilt að bjóða viðkomandi verðmæti upp og skal andvirði þess renna í ríkissjóð.
Aðrar sendingar skulu geymdar í a.m.k. 2 mánuði en að þeim tíma liðnum skal þeim fargað.
9. gr.
Í 22. gr. reglugerðarinnar falla niður:
10. gr.
3. mgr. 23. gr. orðist svo:
Við frágang og umbúnað sendinga sem valdið geta skaða, smiti eða veikindum skal taka mið af reglum Alþjóðapóstsambandsins (UPU), Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO), Alþjóðasamtaka flugfélaga (IATA) og Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA).
11. gr.
24. gr. skal bera heitið: Skýrsla Póst- og fjarskiptastofnunar um jöfnunarsjóð.
12. gr.
Gildistaka og heimild.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 6. og 35. gr. laga um póstþjónustu nr. 19/2002, öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.
Innanríkisráðuneytinu, 1. september 2015.
Ólöf Nordal.
Ragnhildur Hjaltadóttir.