Efnahags- og viðskiptaráðuneyti

67/2012

Reglugerð um flutningsjöfnunarstyrki. - Brottfallin

1. gr.

Gildissvið

Reglugerð þessi kveður á um styrki á grundvelli laga nr. 160/2011 um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Lög nr. 160/2011 gilda um flutningsjöfnunarstyrki til einstaklinga eða lögaðila sem stunda framleiðslu á vöru, í samræmi við ákvæði laganna, vegna framleiðslu sem fellur undir C-bálk í íslensku atvinnugreinaflokkuninni ÍSAT2008.

Styrkir sem veittir eru á grundvelli reglugerðar þessarar falla undir reglugerð fram­kvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 1998/2006 um beitingu 87. og 88. gr. sátt­málans varðandi minniháttar aðstoð. Hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efna­hags­svæðið með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 29/2007 sem birt var 9. ágúst 2007 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 38, bls. 34. Reglu­gerðin var birt 14. maí 2009 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 25, bls. 143.

2. gr.

Styrksvæði.

Styrksvæði teljast þau svæði þar sem heimilt er að veita byggðaaðstoð samkvæmt byggðakorti. Byggðakort er kort af Íslandi sem Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur með ákvörðun nr. 378/06/COL samþykkt fyrir árin 2008-2013 þar sem fram kemur á hvaða svæðum á Íslandi er heimilt að veita byggðaaðstoð og að hvaða marki. Ákvörðunin var birt 28. febrúar 2008 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 11. Byggðakortið er jafnramt aðgengilegt á vefsvæði Byggðastofnunar.

Styrksvæðin eru tvö: Sveitarfélögin Árneshreppur, Bolungarvíkurkaupstaður, Ísafjarðar­bær, Kaldrananeshreppur, Reykhólahreppur, Strandabyggð, Súðavíkurhreppur, Tálkna­fjarðar­hreppur, Vesturbyggð, Norðurþing, Svalbarðshreppur, Langanesbyggð og Vopna­fjarðar­hreppur, eins og þau eru skilgreind 1. janúar 2012, tilheyra svæði 2. Önnur sveitar­félög landsins tilheyra svæði 1, svo fremi að þau uppfylli skilyrði 1. mgr.

3. gr.

Skilyrði styrkveitinga.

Styrkir eru veittir framleiðendum sem staðsettir eru fjarri innanlandsmarkaði eða útflutn­ingshöfn og búa við skerta samkeppnisstöðu vegna hærri flutningskostnaðar.

Rétt til flutningsjöfnunarstyrkja vegna framleiðslu á styrksvæðum eiga einstaklingar sem stunda atvinnurekstur og eru með lögheimili á styrksvæði og lögaðilar sem eru með starfsemi og heimilisfesti á styrksvæði.

Ávallt skal velja hagkvæmustu flutningsleið, hvort sem er á sjó, landi eða í lofti.

Flutningsjöfnunarstyrkir eru veittir vegna flutnings:

  1. frá styrksvæði ef framleiðslan er annaðhvort fullunnin eða hálfunnin vara, þ.e. vara sem hefur farið gegnum ákveðið framleiðsluferli á styrksvæðinu, eða
  2. til styrksvæðis á hrávöru eða hálfunninni vöru, þ.e. vöru sem vantar til að endan­leg framleiðsla á vöru geti átt sér stað á styrksvæðinu.

Flutningsjöfnunarstyrkir eru veittir ef vara er flutt með flutningsaðila, sbr. 5. tölul. 3. gr. laga nr. 160/2011. Framleiðanda er þó heimilt að flytja vöru sína sjálfur svo fremi að kostnaði vegna flutnings vöru til eða frá styrksvæði sé haldið aðgreindum frá öðrum kostnaði í bókhaldi hans. Einnig ber að halda sölutölum hvers styrksvæðis aðgreindum.

Ekki eru veittir styrkir til aðila sem skulda skatta eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga hér á landi. Ekki eru veittir styrkir til einstaklinga eða lögaðila sem hafa verið úrskurðaðir gjaldþrota á næstliðnum fimm árum fyrir dagsetningu umsóknar.

Ekki eru veittir flutningsjöfnunarstyrkir vegna útflutnings.

4. gr.

Útreikningur flutningsjöfnunarstyrkja.

Flutningsjöfnunarstyrkur reiknast sem hlutfall af flutningskostnaði, eins og nánar er kveðið á um í 2. mgr. að teknu tilliti til annarra styrkja sem veittir eru vegna flutnings, ef við á.

Framleiðandi á svæði 1, sbr. 2. mgr. 4. gr., fær 10% endurgreiðslu af flutningskostnaði á vöru ef lengd ferðar er a.m.k. 245 km. Framleiðandi á svæði 2, sbr. 2. mgr. 4. gr., fær 10% endurgreiðslu af flutningi á vörum ef lengd ferðar er 245-390 km en 20% ef ferð er lengri en 390 km.

Flutningsjöfnunarstyrkir til hvers framleiðanda skulu aldrei vera hærri en sem nemur 200.000 evrum á þriggja ára tímabili. Við umreikning yfir í íslenskar krónur skal miða við gengi sem ESA gefur út og birt er í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins og á vef stofnunarinnar. Við útreikning hámarksfjárhæðar skal reikna til frádráttar aðra styrki sem framleiðandi hefur fengið frá opinberum aðilum. Í þessu sambandi eru þó undanskildir sérstakir styrkir er aðili hefur fengið samkvæmt styrkjareglum sem ESA hefur samþykkt en með því er átt við ríkisstyrki sem eru tilkynningarskyldir til ESA og styrki sem veittir eru á grundvelli reglna um hópundanþágur.

5. gr.

Umsókn um flutningsjöfnunarstyrki.

Umsókn um flutningsjöfnunarstyrki skal skila til efnahags- og viðskiptaráðuneytisins fyrir 31. mars ár hvert vegna næsta almanaksárs á undan. Umsókn um flutningsjöfnunarstyrki skulu fylgja eftirfarandi upplýsingar:

  1. nafn, kennitala og lögheimili framleiðanda,
  2. tegund starfsemi og framleiðslu,
  3. heildarkostnaður styrkhæfra flutninga,
  4. afrit af reikningum vegna flutninga á vöru þar sem fram koma upplýsingar um hver óskar eftir flutningi, kostnað vegna flutninga, frá hvaða svæði og til hvaða svæðis er flutt, heiti kaupanda, flutningsvegalengd, heiti vöru, magn, þyngd og rúmmál hennar. Hafi framleiðandi flutt vöru sína sjálfur skal hann skila kostnaðaryfirliti þar sem fram koma sömu upplýsingar og taldar eru upp í 1. málslið,
  5. afrit af móttökukvittun vegna flutnings á vöru þar sem fram kemur staðfesting kaupanda á því að hann hafi móttekið vöru,
  6. upplýsingar um það hvort aðili fái eða hafi fengið aðra styrki frá opinberum aðilum á næstliðnum þremur almanaksárum, að styrkári meðtöldu, og þá fjárhæð þeirra styrkja. Opinberir styrkir eru, óháð formi, hvers kyns styrkir, hvort sem þeir eru í formi fjármuna, aðstöðu eða annarrar fyrirgreiðslu, sem ríkið eða sveitarfélög veita fyrirtækjum og/eða einstaklingum sem stunda atvinnustarfsemi,
  7. staðfestingu á að styrkþegi skuldi ekki skatta eða gjöld til ríkis eða sveitarfélaga hér á landi,
  8. staðfestingu á að styrkþegi hafi ekki verið úrskurðaður gjaldþrota á næstliðnum fimm árum frá dagsetningu umsóknar,
  9. yfirlýsing um að styrkur til styrkþega fari ekki yfir þá fjárhæð sem getið er um í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 160/2011.

6. gr.

Endurgreiðsla flutningsjöfnunarstyrks.

Endurkrefja ber flutningsjöfnunarstyrk ef í ljós kemur að styrkþegi hefur vísvitandi veitt rangar eða villandi upplýsingar eða leynt upplýsingum sem hafa áhrif á styrk.

Komi í ljós að fjárhæð flutningsjöfnunarstyrks er umfram það hámark sem kveðið er á um í 3. mgr. 6. gr. laga nr. 160/2011 skal endurkrefja styrkþega um flutnings­jöfnunar­styrkinn í heild.

Beri styrkþega að endurgreiða styrk skv. 1. eða 2. mgr. skal hann endurgreiða styrkinn með vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður og birtir skv. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá þeim tíma er greiðslan átti sér stað og þar til endurgreiðsla fer fram.

Auk almennra vaxta skv. 3. mgr. skal styrkþegi greiða dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.

Vextir skv. 3. mgr. skulu þó ekki greiddir ef endurgreiðsla fer fram innan 30 daga frá því að styrkurinn var greiddur út.

7. gr.

Lagastoð og gildistaka.

Reglugerð þessi er sett á grundvelli 10. gr. laga nr. 160/2011 um svæðisbundna flutningsjöfnun og öðlast þegar gildi.

Efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, 27. janúar 2012.

Steingrímur J. Sigfússon.

Helga Jónsdóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica