1. gr.
Reglugerð þessi lýtur að framkvæmd samninga sem íslensk stjórnvöld hafa gert við færeysk stjórnvöld um heimildir skipa frá Færeyjum til veiða á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum í fiskveiðilandhelgi Íslands á árinu 2006.
2. gr.
Veiðar sbr. 1. gr. innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu. Um borð í veiðiskipi skal vera staðfesting þess að viðkomandi skip hafi leyfi til síldveiða í fiskveiðilandhelgi Íslands og ennfremur reglur, sem um síldveiðarnar gilda.
3. gr.
Eingöngu er heimilt að stunda síldveiðar utan 12 sjómílna frá viðmiðunarlínu samkvæmt 5. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands með þeim takmörkunum sem síldveiðum eru settar í sérstökum reglugerðum eða skyndilokunum. Aðeins skal 8 færeyskum skipum heimilt að stunda síldveiðar samtímis í fiskveiðilandhelgi Íslands.
4. gr.
Fiskiskipum sem leyfi hafa fengið skv. 2. gr. til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands, er skylt að halda afladagbækur um veiðarnar þar sem fram komi veiðisvæði, veiðitími og afli í hverju togi eða kasti. Skal Fiskistofu sent afrit af afladagbókunum eigi síðar en 14 dögum eftir hver mánaðamót eða eftir að veiðum lýkur.
Veiðarfæri, sem ætluð eru til annarra veiða en leyfi miðast við, skulu geymd í sérstakri veiðarfærageymslu.
5. gr.
Skip sem leyfi hafa fengið til síldveiða sbr. 2. gr. skulu búin fjarskiptabúnaði sem sendir upplýsingar með sjálfvirkum hætti til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslu og Fiskistofu, hér eftir nefnd Eftirlitsstöðin.
6. gr.
Tilkynna skal Eftirlitsstöðinni siglingu skipsins inn í íslenska lögsögu með minnst 6 klukkustunda fyrirvara og mest 12 klukkustunda fyrirvara.
Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:
Orðið "komutilkynning" (entry report).
Nafn skips.
Kallmerki.
Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd þegar tilkynning er send.
Heildarafli um borð, sundurliðaður eftir tegundum.
Haldi skip til veiða úr íslenskri höfn skal það tilkynnt Eftirlitsstöðinni á sama hátt og greint er í 1. mgr.
7. gr.
Skip sem stundar veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands skal á hverjum degi á tímabilinu frá kl. 06:00 til 08:00 að íslenskum tíma, senda Eftirlitsstöðinni tilkynningu þar sem eftirfarandi kemur fram í þessari röð:
Orðið "aflatilkynning" (catch report).
Nafn skips.
Kallmerki.
Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd þegar tilkynning er send.
Heildarafli um borð, sundurliðaður eftir tegundum.
Afli síðasta sólarhrings, miðað við kl. 24:00, eða afli frá því skipið kom inn í fiskveiðilandhelgi Íslands sé um skemmri tíma að ræða, sundurliðaður eftir tegundum.
8. gr.
Þegar skip lýkur veiðum í fiskveiðilandhelgi Íslands skal það tilkynnt Eftirlitsstöðinni. Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:
Orðið "lokatilkynning" (exit report).
Nafn skips.
Kallmerki.
Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd þegar tilkynning er send.
Heildarafli um borð, sundurliðaður eftir tegundum.
Afli síðan síðasta aflatilkynning var send, sundurliðaður eftir tegundum.
9. gr.
Áður en skip heldur út úr fiskveiðilandhelgi Íslands skal senda Eftirlitsstöðinni tilkynningu um það með minnst 6 klukkustunda fyrirvara og mest 12 klukkustunda fyrirvara. Í tilkynningunni komi eftirfarandi upplýsingar fram í þessari röð:
Orðið "athugunartilkynning" (control report).
Nafn skips.
Kallmerki.
Dagsetning, tími og staðsetning í breidd og lengd, þegar tilkynning er send.
Heildarafli um borð, sundurliðaður eftir tegundum.
Landi skip afla sínum í íslenskri höfn skal tilkynna það Eftirlitsstöðinni á sama hátt og greint er frá í 1. mgr.
10. gr.
Tilkynningar samkvæmt 6.-9. gr. skal senda á íslensku eða ensku og skulu tímasetningar vera samkvæmt íslenskum tíma (UTC).
11. gr.
Skip sem stunda veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands samkvæmt reglugerð þessari skulu hlíta ákvæðum laga nr. 22/1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands, nema annað sé sérstaklega ákveðið í reglugerð þessari og sömu reglum og íslensk skip við sams konar veiðar, m.a. um veiðibann, friðunarsvæði og aðra lokun svæða.
12. gr.
Eftirlit með framkvæmd reglugerðar þessarar er í höndum Landhelgisgæslu Íslands, Fiskistofu og eftirlitsmanna í hennar þjónustu. Heimilt er ráðuneytinu að ákveða að skipin skuli sigla inn og út úr fiskveiðilandhelginni á tilteknum athugunarstöðvum og að þeim beri að tilkynna komu sína á þá með ákveðnum fyrirvara.
Fiskistofu er heimilt að setja veiðieftirlitsmenn um borð í veiðiskip sem leyfi hafa til veiða innan íslenskrar lögsögu. Skal útgerð skips sjá eftirlitsmönnum fyrir fæði og aðstöðu meðan þeir eru um borð í veiðiskipi og enn fremur greiða allan kostnað af veru þeirra um borð í skipinu.
Telji Landhelgisgæslan eða Fiskistofa að eftirlit samkvæmt reglugerð þessari geti ekki farið fram á sjó, skal hlutaðeigandi skipi skylt að hlíta fyrirmælum um að halda til nálægrar hafnar þar sem eftirlit getur farið fram.
13. gr.
Fiskistofa getur svipt skip leyfi til veiða innan fiskveiðilandhelginnar brjóti útgerð, áhöfn skipsins eða aðrir þeir er í þágu útgerðar starfa gegn lögum sem um hlutaðeigandi veiðar gilda, reglugerð þessari eða ákvæðum milliríkjasamninga.
14. gr.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 22, 8. apríl 1998, um veiðar og vinnslu erlendra skipa í fiskveiðilandhelgi Íslands. Með mál út af brotum á reglugerð þessari skal farið að hætti opinberra mála.
15. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 22, 8. apríl 1998, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 31. mars 2006.
F. h. r.
Jón B. Jónasson.
Guðný Steina Pétursdóttir.