Sjávarútvegsráðuneyti

935/2001

Reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 522, 18. ágúst 1998, um vigtun sjávarafla. - Brottfallin

935/2001

REGLUGERÐ
um breytingu á reglugerð nr. 522, 18. ágúst 1998, um vigtun sjávarafla.

1. gr.

17. gr. reglugerðarinnar orðist svo:
Allur hörpudiskur skal veginn á hafnarvog samkv. ákvæðum 3. gr. Um vigtun hörpudisks gilda að öðru leyti eftirfarandi reglur:

1. Fari endanleg vigtun fram á hafnarvog er vigtarmanni heimilt að draga allt að 4% frá vegnum afla vegna áætlaðra aðskotahluta í aflanum. Þessi frádráttur skal koma fram á vigtarnótu og er því aðeins leyfður að vigtarmaður á hafnarvog staðfesti með áritun á vigtarnótu að aðskotahlutir hafi verið í aflanum við löndun.
2. Sé aflinn endurvigtaður hjá aðila sem leyfi Fiskistofu hefur til slíks, skal það gert svo fljótt sem við verður komið og með eftirfarandi hætti:
a) Löggildur vigtarmaður sem annast skal vigtunina skal velja af handahófi og vigta úrtak sem nemur a.m.k. 0,5% af farmi. Við endurvigtunina skal úrtakið brúttóvigtað síðan skulu hrúðurkarlar, dauðar skeljar og aðrir aðskotahlutir hreinsaðir frá og úrtakið síðan vegið að nýju og þannig fundinn nettóþungi.
b) Löggildur vigtarmaður sem annast endurvigtun afla skal fylla út og undirrita úrtaksvigtunarnótu þar sem tilgreina skal eftirfarandi upplýsingar:
- Nafn skips, skrásetningarnúmer ásamt umdæmisnúmeri.
- Veiðarfæri.
- Löndunarhöfn og löndunardag.
- Viðtakand afla.
- Fjölda íláta.
- Brúttóafla á hafnarvog (afli og aðskotahlutir)
- Brúttóþunga úrtaks.
- Þunga hrúðurkarla.
- Þunga annarra aðskotahluta.
- Nettóþunga úrtaks.
- Reiknað hlutfall hrúðurkarla og aðskotahluta í afla.
- Nettóafla (brúttóafla samkvæmt hafnarvog að frádregnum hrúðurkörlum og öðrum aðskotahlutum í afla).

2. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar til þess að öðlast þegar gildi.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 11. desember 2001.

Árni M. Mathiesen.
Þórður Eyþórsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica