1. gr.
Reglugerð þessi gildir fyrir alla fiskibáta, er þeir fara í línuróðra frá Rifshöfn, Ólafsvík og Grundarfirði.
2. gr.
Á tímabilinu 1. september til 15. maí, er bátum sem fara í línuróðra frá Rifshöfn, Ólafsvík og Grundarfirði og leggja inn bogalínu, sem dregin er 30 sjómílur frá Öndverðarnesvita óheimilt að fara í róðra fyrir kl. 01.20 í íslenskum meðaltíma.
Róðratími miðast við, að brottfararstaður sé við innsiglingarbauju að Rifi á Snæfellsnesi.
Sé ekki róið frá Rifsbauju ber skipstjórum að haga siglingu þannig, að komið sé á veiðisvæði á sama tíma og hefði verið róið frá Rifsbauju.
3. gr.
Hlutaðeigandi hreppsnefndir eða bæjarstjórnir tilnefna þrjá til fimm bátaformenn ár hvert í nefnd til að gæta þess, að fylgt sé ákvæðum reglugerðar þessarar, og annast nefndarmenn að fyrirskipuð merki um róðratíma séu gefin og kæra fyrir brot á reglugerðinni til lögreglustjóra.
4. gr.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 47 25. apríl 1973.
5. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 47 25. apríl 1973 um róðratíma fiskibáta til þess að öðlast gildi þegar í stað og birtist til eftirbreytni öllum, sem hlut eiga að máli.
Sjávarútvegsráðuneytið, 11. janúar 1983.
F. h. r.
Jón L. Arnalds.
Þórður Eyþórsson.