1. gr.
Smárækjuskilja er tæki eða útbúnaður, sem komið er fyrir í togveiðarfærum í þeim tilgangi að flokka rækju eftir stærð í vörpunni, þannig að smárækja skiljist lifandi úr vörpunni. Smárækjuskilja skal ekki hafa áhrif á uppsetningu og eiginleika vörpunnar að öðru leyti.
2. gr.
Ef rækjuveiðar á tilgreindum svæðum eru bundnar því skilyrði, að varpan sé útbúin smárækjuskilju, skal eingöngu nota þær gerðir skilja sem ráðuneytið hefur viðurkennt að fenginni umsögn Hafrannsóknastofnunarinnar. Í viðaukum við reglugerð þessa skal birta hvaða gerðir smárækjuskilju eru viðurkenndar og hvernig þeim skuli komið fyrir í vörpunni.
3. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands til þess að öðlast þegar gildi. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 253, 17. apríl 1997, um gerð og útbúnað smárækjuskilju.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 13. október 2000.
Árni M. Mathiesen.
Jón B. Jónasson.
VIÐAUKI 1
Tegund skilju - Húsavíkurskilja.
Lýsing á skilju:
Húsavíkurskilja er grind, ýmist ferhyrnd eða sporöskjulaga. Rimlar eru festir við neðri ramma grindarinnar og við þverrimil ofarlega á skiljunni, en milli hans og efri ramma grindarinnar er op, að hámarki 50 cm. Bil milli rimla er a.m.k. 7 mm neðst, og a.m.k. 9 mm efst, miðað við meðaltal 10 mælinga.
Skiljan skal vera staðsett í belg vörpunnar, aftan við seiðaskilju og skal fínriðin nettrekt vera framan við smárækjuskiljuna, verði því við komið.
Rimlar grindarinnar liggja samsíða belg vörpunnar. Skiljunni er komið þannig fyrir að neðri hlutinn er fremstur og hún hallar aftur í u.þ.b. 45°. Skiljan skal fylla út í belginn og skulu allir jaðrar hennar festir við netið í belgnum. Frá efri enda rimlanna er sérstakur smáriðinn leiðari, sem beinir smárækju niður um op á undirbyrði vörpunnar þannig að hún fari ekki aftur í poka.
VIÐAUKI 2
Tegund skilju - ICEDAN.
Lýsing á skilju:
ICEDAN skiljan er bæði seiðaskilja (sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 304/1999, um úthafsrækjuveiðisvæði og notkun seiðaskilju við rækjuveiðar) og smárækjuskilja. Um er að ræða tvær grindur. Smárækjuskiljan sem er styttri en seiðaskiljan er fest aftan við seiðaskiljuna þannig að lengra bil er frá efri brún smárækjuskilju að seiðaskilju, en á milli neðri brúna skiljanna. Rækja og annað sem fer í gegnum hana lendir á smárækjuskiljunni, þar sem smárækja og annað smátt fer í gegn og þaðan út úr vörpunni, en stærri rækja rennur upp grindina og aftur í poka. Bil milli rimla er a.m.k. 7 mm neðst, og a.m.k. 9 mm efst, miðað við meðaltal 10 mælinga.
Skiljan er staðsett í belg vörpunnar, og skal fínriðin nettrekt vera framan við skiljuna.
Rimlar grindanna liggja samsíða belg vörpunnar. Skiljunni er komið þannig fyrir að neðri hlutinn er fremstur og hallar seiðaskiljan aftur í u.þ.b. 55°. Smárækjuskiljan hallar þá u.þ.b. 35°. Skiljan skal fylla út í belginn og skulu allir jaðrar hennar festir við netið í belgnum. Undirbyrðið er fest upp í efri brún smárækjuskiljunnar, þannig að ekkert net hindrar smárækju eða annað sem fer í gegnum grindina í að komast frá veiðarfærinu.