1. gr.
Smásíld telst síld 27 cm að lengd eða minni mælt frá trjónuodda að sporðsenda.
2. gr.
Fái nótaskip síldarkast, sem bersýnilega er að mestu leyti smásíld, 27 cm að lengd eða minni, þá er skipstjóra skylt, áður en þrengt hefur verið að síldinni í nótinni, að sleppa síldinni.
3. gr.
Hafi verið þrengt að síld í nót er skylt að hirða alla síldina eða miðla til annarra síldarbáta eftir því sem aðstæður framast leyfa.
4. gr.
Þrátt fyrir ákvæði 1.- 2. gr. getur sjávarútvegsráðuneytið, að fengnu áliti Hafrannsóknarstofnunar, veitt leyfi til veiði smásíldar, 27 cm að lengd eða minni, til niðursuðu eða annarrar vinnslu til manneldis eða til beitu. Leyfi þetta má binda skilyrðum, sem nauðsynleg þykja.
5. gr.
Ef reknet og lagnet, eru notuð til síldveiða, skal lágmarksmöskvastærð vera slík að þegar möskvi er teygður horna á milli eftir lengd netsins, komist flöt mælistika 63 mm breið og 2 mm þykk auðveldlega í gegn, þegar netið er vott.
6. gr.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt lögum nr. 81 31. maí 1976, og skal með mál út af brotum farið að hætti opinberra mála.
7. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 12. gr. laga nr. 81 31. maí 1976, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 409 26. ágúst 1991.
Sjávarútvegsráðuneytið, 8. október 1992.
Þorsteinn Pálsson.
Árni Kolbeinsson.