Hlutverk.
1. gr.
Hlutverk Þróunarsjóðs sjávarútvegsins er að taka við þróunarsjóðsgjöldum skv. 4. og 6. gr. l. nr. 92/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins með síðari breytingum, fara með og selja eignir og hlutabréf í eigu sjóðsins skv. 11. gr. laganna, fara með og selja hlutabréf í eigu hlutafjárdeildar skv. 12. gr. laganna, innheimta skuldabréf í eigu atvinnutryggingardeildar skv. 13. gr. laganna og greiða skuldbindingar sjóðsins. Þá skal Þróunarsjóður sjávarútvegsins taka lán til að fjármagna kaup eða smíði á rannsóknaskipi fyrir Hafrannsóknastofnunina.
Stjórn.
2. gr.
Sjávarútvegsráðherra skipar sjóðnum þriggja manna stjórn til fjögurra ára í senn. Ráðherra skipar formann sjóðsstjórnar. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt.
Ráðherra ákveður þóknun sjóðsstjórnar.
Stjórnarfundir.
3. gr.
Formaður stjórnar boðar stjórnarfundi. Fundir stjórnar eru lögmætir ef tveir stjórnarmanna eru á fundinum. Afl atkvæða ræður úrslitum mála. Ákvarðanir stjórnar skulu færðar í gjörðabók.
Hlutverk stjórnar.
4. gr.
Stjórn Þróunarsjóðs hefur yfirumsjón með starfsemi sjóðsins. Hún ræður framkvæmdastjóra og annað starfsfólk til að annast daglegan rekstur hans, eða semur um það við fjármálastofnanir eftir því sem hagkvæmt þykir
Þagnarskylda.
5. gr.
Stjórnarmenn og allir starfsmenn Þróunarsjóðs sjávarútvegsins eru bundnir þagnarskyldu um atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum, fyrirmælum yfirboðara eða eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af starfi.
Rekstrar- og greiðsluáætlanir.
6. gr.
Fyrir 1. september ár hvert skal stjórn sjóðsins leggja fyrir sjávarútvegsráðherra, til staðfestingar, sundurliðaða rekstrar- og greiðsluáætlun fyrir næsta starfsár.
Eignir Þróunarsjóðs.
7. gr.
Þróunarsjóður tekur við öllum eignum og skuldbindingum Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins, sbr. l. nr. 65/1992, eignum og skuldbindingum atvinnutryggingardeildar Byggðastofnunar vegna sjávarútvegsfyrirtækja, sbr. l. nr. 42/1991, og öllum eignum og skuldbindingum hlutafjárdeildar Byggðastofnunar, sbr. l. nr. 42/1991. Yfirtakan miðast við stöðu eigna og skulda við gildistöku l. nr. 92/1994 að frádregnum endurlánum ríkissjóðs til atvinnutryggingardeildar að fjárhæð 950 m.kr. eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt miðað við gengi 31. desember 1992, sem ríkissjóður tekur að sér að greiða. Jafnframt ábyrgist Þróunarsjóður gagnvart ríkissjóði það sem á kann að falla vegna ríkisábyrgðar á verðbættu nafnvirði A-hlutdeildarskírteina hlutafjárdeildar. Halda skal fjárreiðum framangreindra sjóða aðskildum í bókhaldi sjóðsins.
Þróunarsjóði er heimilt að kaupa hlutdeildarskírteini hlutafjárdeildar.
Þróunarsjóðsgjald - fiskiskip.
8. gr.
Eigendur fiskiskipa, sem skráð eru á skipaskrá Siglingastofnunar Íslands 1. janúar 1997 og leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni skulu greiða gjald til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins. Skal gjaldið á árinu 1997 nema 849 kr. á hvert brúttótonn en þó skal gjaldið aldrei vera hærra en 322.000 kr. fyrir hvert skip. Liggi brúttótonnamæling ekki fyrir skal miða gjaldið við brúttórúmlest. Gjalddagi þróunarsjóðsgjaldsins er 1. janúar 1997 og greiðist gjaldið án tillits til þess hvort skipi er haldið til veiða eða ekki. Sé gjaldið ekki greitt fyrir lok álagningarárs skal greiða Þróunarsjóði dráttarvexti af því sem gjaldfallið er samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma, sbr. III. kafla vaxtalaga, nr. 25/1987, með síðari breytingum. Lögveð er í skipunum fyrir þróunarsjóðsgjaldi.
Gjald samkvæmt 1. mgr. vegna fiskiskipa er falla undir 5. og 7. gr. l. nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, skal innheimt gegnum greiðslumiðlunarkerfi sjávarútvegsins og skal hluti þess fjár, sem greiðist inn á vátryggingarreikning skips samkvæmt 2. tl. 7. gr. laga nr. 24/1986, ganga til greiðslu gjaldsins. Skal Landssamband íslenskra útvegsmanna mánaðarlega skila þessum hluta til Þróunarsjóðs uns fullnaðarskil vegna viðkomandi almanaksárs hafa verið gerð. Stjórn Þróunarsjóðs skal ákvarða með hvaða hætti þróunarsjóðsgjald vegna fiskiskipa sem ekki falla undir 5. og 7. gr. laga nr. 24/1986, verði innheimt.
Þátttaka í þróunarverkefnum.
9. gr.
Til að greiða fyrir þátttöku íslenskra aðila og fyrirtækja í sjávarútvegsverkefnum erlendis er stjórn Þróunarsjóðs heimilt að ráðstafa framleiðslutækjum og bátum sem sjóðurinn hefur keypt, til sjávarútvegsfyrirtækja utan Íslands eða hlutafélaga sem stofnuð eru hér á landi til að taka þátt í erlendum verkefnum á þessu sviði.
Ýmis ákvæði.
10. gr.
Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Ársreikningum skal fylgja skrá yfir ráðstafanir á fjármunum Þróunarsjóðs svo sem vegna greiðslu úreldingarstyrkja, kaupa á fasteignum og framleiðslutækjum fiskvinnsluhúsa, þátttöku í þróunarverkefnum og sölu á hlutabréfum hlutafjárdeildar. Ríkisendurskoðun annast endurskoðun reikninga Þróunarsjóðs og skal hún árlega gera sérstaka athugun á möguleikum sjóðsins til að standa undir skuldbindingum sínum miðað við stöðu efnahagsreiknings og áætlun um framtíðarútgjöld og -tekjur sjóðsins. Ráðherra staðfestir reikninga sjóðsins að lokinni endurskoðun.
11. gr.
Þróunarsjóður sjávarútvegsins er undanþeginn fasteignagjöldum af fasteignum sem sjóðurinn kann að eignast. Öll skjöl viðvíkjandi lánum sem sjóðurinn tekur skulu undanþegin stimpilgjöldum.
12. gr.
Stjórn sjóðsins er heimilt að taka lán, þó ekki með útgáfu og sölu á skuldabréfum og öðrum endurgreiðanlegum skuldaviðurkenningum til almennings, í því skyni að jafna misræmi milli tekna af þróunarsjóðsgjöldum skv. 4. og 6. gr. l. nr. 92/1994 sem og innborgana af skuldabréfum í eigu sjóðsins og afborgana og vaxta af lánum sem sjóðurinn á að standa skil á.
13. gr.
Eignir sjóðsins skulu ávaxtaðar á hagkvæman og tryggan hátt. Til að lágmarka gengisáhættu og vaxtaáhættu skal stjórn Þróunarsjóðs sjávarútvegsins, eftir því sem unnt er tryggja að gengisþróun heildarskulda sjóðsins umfram eignir í erlendri mynt endurspegli gengisþróun opinberrar myntkörfu Seðlabanka Íslands eins og hún er á hverjum tíma. Til að ná því markmiði er stjórn sjóðsins heimilt að gera framvirka gjaldmiðlasamninga, vaxtaskiptasamninga og gjaldmiðlaskiptasamninga. Þá er henni einnig heimilt að kaupa valkvæða samninga (þ.e. options).
Rekstrarkostnaður sjóðsins greiðist af tekjum hans.
Atvinnutryggingardeild og hlutafjárdeild.
14. gr.
Hlutverk atvinnutryggingardeildar vegna sjávarútvegsfyrirtækja er að innheimta skuldabréf sem eru í eigu deildarinnar.
Stjórn Þróunarsjóðs er óheimilt að veita ný lán úr atvinnutryggingardeild. Stjórn sjóðsins er þó heimilt að skuldbreyta lánum atvinnutryggingardeildar ef það er liður í sameiginlegum aðgerðum lánastofnana sem leiði til sameiningar sjávarútvegsfyrirtækja eða verulegrar minnkunar á afkastagetu einstakra fyrirtækja, sem sýnt þykir að muni leiða til betri rekstrarskilyrða.
Stjórn Þróunarsjóðs er því aðeins heimilt að gefa eftir hluta lána eða trygginga fyrir lánum að það sé talið nauðsynlegt vegna innheimtuhagsmuna atvinnutryggingardeildar og að það sé liður í skuldaskilasamningum sem aðrir kröfuhafar taka þátt í. Deildinni er ekki heimilt að gefa eftir stærri hluta krafna en aðrir kröfuhafar með sambærilega tryggingarstöðu samþykkja að gefa eftir. Lán með haldbærum tryggingum er ekki heimilt að gefa eftir.
Byggðastofnun skal annast reikningshald og innheimtu lána atvinnutryggingardeildar Þróunarsjóðs vegna sjávarútvegsfyrirtækja eftir nánara samkomulagi við stjórn Þróunarsjóðs.
15. gr.
Stjórn Þróunarsjóðs fer með hlutabréf í eigu hlutafjárdeildar. Stjórninni er heimilt að selja hlutafé í eigu deildarinnar og skal það boðið til sölu a.m.k. einu sinni á ári. Skal starfsfólk og aðrir eigendur þess fyrirtækis sem í hlut á hverju sinni njóta forkaupsréttar. Hlutafjárdeild er óheimilt að kaupa ný hlutabréf. Deildinni er þó heimilt við samruna félaga eða skipti á hlutabréfum að taka við nýjum hlutabréfum sem samsvara fyrri hlutabréfaeign. Hlutdeildarskírteini deildarinnar skulu skráð á nafn og geta gengið kaupum og sölum. Hlutafjárdeild skal tilkynnt um eigendaskipti á hlutdeildarskírteinum.
Gildistaka.
16. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í l. nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma falla úr gildi reglugerðir nr. 7/1996 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins sem og 171/1996 og 357/1996 um breytingar á henni, sbr. þó ákvæði til bráðabirgða.
Umsóknir um styrki vegna úreldingar annarra fiskiskipa en krókabáta á sóknardögum, sem bárust Þróunarsjóði fyrir gildistöku l. nr. 152/1996 um breytingu á lögum nr. 92/1994 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins með síðari breytingum, skulu afgreiddar í samræmi við ákvæði þágildandi laga nr. 92/1994 og reglugerða settra með stoð í þeim. Sama á við um kaup sjóðsins á fiskvinnslustöðvum. Öllum afgreiðslum Þróunarsjóðsins vegna umræddra umsókna skal lokið 1. júní 1997.
Ákvæði til bráðabirgða.
Til 1. júlí 1997 skal veita styrki til að úrelda krókabáta á sóknardögum. Skal úreldingarstyrkurinn nema 80% af húftryggingarverðmæti. Gilda ákvæði 7. og 8. gr. l. nr. 92/1994, sem og ákvæði til bráðabirgða II skv. þeim lögum sbr. l. nr. 89/1995, að öðru leyti um styrkveitingu þessa. Einnig gilda ákvæði 10. og 11. gr. reglugerðar nr. 7/1996 um Þróunarsjóð sjávarútvegsins með síðari breytingum eftir því sem við á. Skal það styrkhlutfall, sem ákveðið er í öðrum málslið þessa ákvæðis til bráðabirgða, einnig gilda um krókabáta á sóknardögum sem úreltir voru á tímabilinu frá 1. október 1996 til gildistöku reglugerðar þessarar. Skal Þróunarsjóður hafa lokið öllum afgreiðslum vegna umsókna krókabáta á sóknardögum um úreldingarstyrki fyrir 1. ágúst 1997.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 14. janúar 1997.
Þorsteinn Pálsson.
Árni Kolbeinsson.