REGLUGERÐ
um framleiðslu á fiskmjöli og lýsi.
I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.
Reglugerð þessi gildir um framleiðslu á fiskmjöli í verksmiðjum í landi. Reglugerðin tekur til framleiðslu fiskmjöls um borð í skipum eftir því sem við getur átt. Reglugerðin gildir einnig um framleiðslu á lýsi, eftir því sem við á.
2. gr.
Reglugerðin tekur ekki til eftirlits með mengunarvörnum sem eru á hendi Hollustuverndar ríkisins.
II. KAFLI
Vinnsluleyfi.
3. gr.
Einungis má framleiða fiskmjöl og lýsi í verksmiðju sem fengið hefur vinnsluleyfi frá Fiskistofu.
Við útgáfu vinnsluleyfis fær fyrirtækið vinnsluleyfisnúmer sem notað skal til merkingar á afurðum.
Vinnsluleyfið má ekki framselja.
4. gr.
Fiskistofa veitir fiskmjölsverksmiðjum vinnsluleyfi þegar gengið hefur verið úr skugga um að þær fullnægi skilyrðum laga nr. 93/1992 og uppfylli einnig ákvæði III.-VI. kafla reglugerðar þessarar varðandi húsnæði, búnað, hollustuhætti, vinnslu og innra eftirlit.
5. gr.
Sækja skal um nýtt vinnsluleyfi ef starfsemin er flutt í annað húsnæði eða ef veruleg breyting verður á húsnæði eða aðstöðu. Áður en það er gefið út skal endurmeta þau atriði sem varða forsendur leyfisveitingar.
III. KAFLI
Byggingar og búnaður fyrirtækisins.
6. gr.
Fiskmjölsverksmiðjur skulu hafa umráð yfir hráefnisgeymslum og geymslurými fyrir afurðir.
Húsnæðið skal þannig byggt að þrif séu auðveld. Veggir og skilrúm skulu vera slétt til að draga úr hættu á að mjölsalli eða óhreinindi safnist þar.
Fyrir hendi skal vera búnaður til að draga úr dreifingu mjölsalla í loftinu, t.d. útblástursviftur, sogbúnaður eða ryksuga, til að safna salla á stöðum þar sem hann myndast.
7. gr.
Lóð skal vera snyrtileg og henni vel við haldið til að auðvelda þrif hennar. Vélum og öðrum tækjum, sem geymd eru utanhúss, skal þannig fyrir komið að þar myndist ekki afdrep fyrir skordýr eða önnur meindýr. Sé lóðin grasi gróin skal því haldið snöggslegnu.
Byggingar skulu vera snyrtilega frágengnar hið ytra. Veggir skulu vera sléttir og vel málaðir eða varðir fyrir veðrun á annan hátt. Þök, gluggar og hurðir skulu vera þéttar og þeim vel við haldið.
Gólf skulu vera með stömu, sléttu og ósprungnu yfirborði úr slitþolnu, ógagndræpu efni sem þolir rækileg þrif. Samskeyti milli gólfs og veggja og annarra lóðréttra flata skulu vera með íhvolfum kverkum þar sem það er nauðsynlegt vegna þrifa. Gólf á blautsvæðum skulu vera með nægilegum halla til þess að vatn geti runnið óhindrað að niðurföllum og gólfrennum.
Niðurföll skulu vera nægilega mörg og víð til að koma í veg fyrir að uppistöður myndist og vera tengd lokuðu skolplagnakerfi. Þau skulu vera meindýraheld og með ristum svo að þau stíflist síður. Skolplagnir frá salernum má ekki tengja innanhúss við skolplagnir frá vinnusvæðum.
8. gr.
Í fyrirtækinu eða í næsta nágrenni þess skal vera fullnægjandi snyrtiaðstaða ásamt bað- og búningsaðstöðu eins og fyrir er mælt í heilbrigðislöggjöf. Við snyrtinguna skulu vera handlaugar með heitu vatni og köldu neysluvatni, sápu og einnota handþurrkum.
9. gr.
Aðstaða skal vera til að framleiða nægilegt heitt vatn og gufu.
Vinnuslurás frá hitunarstað, sbr. 14. gr., að sekkjun skal vera lokuð. Sá hluti fyrirtækisins þar sem tekið er á móti hráefni og það unnið skal aðskilinn frá þeim hluta sem afmarkaður er fyrir sekkjun og geymslu afurða til að koma í veg fyrir mengun þeirra.
IV. KAFLI
Hráefni.
10. gr.
Til framleiðslu á fiskmjöli og lýsi má einungis nota fisk sem veiddur er á ómenguðu hafsvæði. Ferskan fiskúrgang má aðeins nota frá fyrirtækjum sem framleiða fiskafurðir til manneldis.
Fisk sem ætlaður er til bræðslu skal flytja þannig að gæði hráefnisins spillist ekki umfram það sem óhjákvæmilegt er.
Fiskúrgang og lifur skal flytja í vatnsheldum geymum eða flutningatækjum þannig að komið sé í veg fyrir leka. Geymarnir eða flutningatækin skulu lokuð á fullnægjandi hátt. Flutningatækjum, yfirbreiðslum og margnota geymum skal haldið hreinum.
Fiskistofa setur reglur um notkun rot- og þráavarnarefna við framleiðslu fiskmjöls og lýsis.
V. KAFLI
Hreinlætis- og hollustuhættir.
11. gr.
Fiskmjölsverksmiðjur skulu ekki vera í grennd við sorphauga, skolpræsaop, mengandi iðnrekstur eða aðra mengunarvalda.
Bein tenging húsa við aðra starfsemi um dyr, glugga, stiga, lyftur, ganga o.s. frv. er því aðeins heimil að hætta á mengun sé hverfandi.
Varanlegt slitlag með niðurföllum skal vera fyrir framan alla innganga að verksmiðjunni. Góður vatnshalli sé á niðurföllum til að koma í veg fyrir að uppistöður myndist.
12. gr.
Varnir gegn skordýrum og öðrum meindýrum, svo sem nagdýrum, skulu við það miðaðar að komið sé í veg fyrir að þau hafi afdrep á lóð eða komist inn í húsakynnin. Í hverri verksmiðju skulu vera skriflegar reglur um meindýravarnir eða samningur við meindýraeyði sem annast þær.
Reglulega skal fylgjast með og tæma egndar gildrur sem komið skal fyrir þar sem líklegt er að dýr þessi fari um eða leiti skjóls. Í verksmiðjum skal skrá allt eftirlit með gildrum og notkun eiturefna.
Notkun eiturefna er aðeins heimil að höfðu samráði við heilbrigðisyfirvöld viðkomandi bæjar- eða sveitarfélags eða meindýraeyði.
Engum dýrum, svo sem fuglum, hundum eða köttum, má hleypa inn í verksmiðju.
13. gr.
Starfsemi fyrirtækisins skal þannig háttað að gæði hráefnis spillist ekki umfram það sem óhjákvæmilegt er.
Fisk og fiskúrgang skal vinna svo fljótt sem auðið er eftir móttöku. Fram að vinnslu skal geyma fisk og fiskúrgang eins og við á í lokuðu rými, yfirbyggðri þró eða tanki, þannig að hráefnið sé varið fyrir mengun.
14. gr.
Síritandi hitamælum skal komið fyrir á mikilvægum stöðum á hitunarferlinu. Við framleiðslu á fiskmjöli skal hita allt efnið að minnsta kosti upp í 81°C einhvers staðar á vinnsluferlinu.
15. gr.
Eftirlit skal hafa með vinnslubúnaðinum og þrífa hann og gerileyða eftir þörfum. Fjarlægja skal fiskmjölsleifar sem sitja eftir í vinnslurásinni. Hráefnis-, mjöl- og lýsisgeymar skulu skoðaðir í hvert sinn sem þeir eru tæmdir og þeir þrifnir eftir þörfum.
16. gr.
Húsakynnum, tækjum og búnaði skal vel við haldið og hreinum. Mælitæki skal kvarða reglulega.
17. gr.
Afurðir skal fara með og geyma þannig að sem minnst hætta sé á mengun.
VI. KAFLI
Innra eftirlit.
18. gr.
Forsvarsmenn fiskmjölsverksmiðja og lýsisbræðslna skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að farið verði að kröfum reglugerðar þessarar á öllum stigum framleiðslu og dreifingar fiskmjöls og lýsis. Þeir eru ábyrgir fyrir því að komið sé á fót innra eftirliti sem miðist við umfang og eðli starfseminnar og byggist á eftirfarandi meginreglum:
1. Að greina áhættuþætti miðað við framleiðsluferli það sem notað er.
2. Að skipuleggja og koma á aðferðum í því skyni að fylgjast með og hafa eftirlit með slíkum áhættuþáttum, þ.m.t. hitunar- og þurrkunaraðferðum.
3. Að taka sýni til greiningar á rannsóknastofu sem Fiskistofa samþykkir, til að staðfesta að aðferðir við framleiðsluna séu fullnægjandi og að sýnin uppfylli örverufræðilegar viðmiðanir fyrir afurðir sem kveðið er á um í viðauka.
4. Að geyma skriflegar skýrslur eða gögn, sem skráð eru með varanlegum hætti varðandi framangreind atriði, þannig að unnt sé að leggja þau fram sé þess óskað. Þess skal gætt að geyma niðurstöður prófana og eftirlits í a.m.k. tvö ár.
19. gr.
Ef niðurstöður innra eftirlits leiða í ljós að afurðir fiskmjölsverksmiðju séu ekki í samræmi við ákvæði í viðauka skal forsvarsmaður grípa til nauðsynlegra aðgerða og hafa samráð við Fiskistofu ef kröfur varðandi salmonellugerla eru ekki uppfylltar.
VII. KAFLI
Viðurlög og gildistaka.
20. gr.
Fullnægi vinnsluleyfishafi ekki kröfum laga nr. 93/1992 eða reglugerðar þessarar getur Fiskistofa svipt viðkomandi vinnsluleyfi samkvæmt IV. kafla laga nr. 93/1992 um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.
21. gr.
Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 93/1992 um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.
Með mál út af brotum skal farið að hætti opinberra mála.
22. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 93/1992 um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.
Við gerð þessarar reglugerðar var höfð hliðsjón af tilskipunum ráðherraráðs Evrópusambandsins nr. 90/667, 92/118 og ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins nr. 92/562.
23. gr.
Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
Fiskistofu er heimilt, í allt að sex mánuði frá gildistöku þessarar reglugerðar, að veita framleiðendum undanþágu frá ákvæðum varðandi frágang lóða, sbr. 1. mgr. 7. gr. og frá ákvæðum 3. mgr. 6. gr. varðandi búnað til að safna mjölsalla. Einnig er heimilt að veita framleiðendum undanþágu frá ákvæði 2. mgr. 13. gr. um lokaðar hráefnisgeymslur í allt að 12 mánuði, að því tilskildu að heilnæmi afurða sé tryggt. Skilyrði fyrir undanþágu er að með umsókn fylgi skrifleg framkvæmdaáætlun.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 18. júní 1996.
Þorsteinn Pálsson.
Árni Kolbeinsson.
Viðauki
Örverufræðilegar viðmiðanir í fiskmjöli.
Sýni af fiskmjöli, sem tekin eru í geymslu eða við útskipun skulu uppfylla eftirfarandi viðmiðanir:
Salmonella: Ekki finnanleg í 25 g, n = 5, c = 0
Iðragerlar: n = 5, c = 2, m = 10, M = 3 x 102 í 1 g,
þar sem breyturnar n, m, M og c eru skilgreindar á eftirfarandi hátt:
n = Fjöldi eininga í sýni.
m = Allar niðurstöður undir þessum mörkum eru álitnar fullnægjandi.
M = Allar niðurstöður yfir þessum mörkum eru álitnar ófullnægjandi.
c = Leyfilegur fjöldi sýna þar sem gerlafjöldi er á milli m og M.