REGLUGERÐ
um breytingu á reglugerð nr. 522, 18. ágúst 1998,
um vigtun sjávarafla.
1. gr.
Í stað 26. - 30. gr. reglugerðarinnar komi nýjar greinar er orðist svo:
26. gr.
Óunninn afli samkvæmt þessum kafla er afli sem ekki hefur verið flakaður eða flattur.
Fiskistofa viðurkennir, að fengnu samþykki sjávarútvegsráðuneytis, erlenda uppboðsmarkaði sem vigtunarstaði á grundvelli athugana á vigtunaraðferðum, frágangi á vigtarnótum, uppboðsaðferðum og verðmyndun svo og á stærð markaðarins. Ef afli er seldur á viðurkenndum erlendum uppboðsmarkaði, er heimilt að endurvigta hann þar, enda hafi aflinn verið ísaður og frágenginn til útflutnings um borð í veiðiskipi.
Ef löndun, vigtun, uppboð eða skýrslugjöf vegna sölu afla á erlendum markaði er að einhverju leyti í verkahring annarra aðila en viðkomandi markaðar, er viðkomandi aðila óheimilt að annast vigtun og/eða skýrslugjöf til íslenskra stjórnvalda nema hann hafi fengið formlega viðurkenningu til þess frá Fiskistofu. Fiskistofa getur bundið slíka viðurkenningu skilyrðum og varða brot gegn þeim eða ákvæðum reglugerðar þessarar sviptingu viðurkenningarinnar.
Þeir aðilar sem fengið hafa ofangreinda formlega viðurkenningu Fiskistofu til skýrslugjafar, s.s. umboðsmaður eða uppboðsmarkaður erlendis, skulu samdægurs senda til Fiskistofu skýrslur á því formi sem Fiskistofa óskar, um sölu á afla viðkomandi skips erlendis, þar sem tilgreint er endanlegt magn hverrar fisktegundar, söluverð og skipaskrárnúmer veiðiskips.
Óheimilt er að flytja afla á erlendan markað með flugfragt sem ekki hefur endanlega verið vigtaður og skráður í aflaskráningarkerfið Lóðs.
27. gr.
Sé fyrirhugað að flytja út óunninn afla til sölu erlendis, í gámum eða með öðru flutningsfari en viðkomandi veiðiskipi, sem ekki hefur endanlega verið vigtaður og skráður í aflaskráningarkerfið Lóðs, skal skipstjóri viðkomandi veiðiskips tryggja að áður en afli er settur um borð í flutningsfarið sé tilkynnt til Fiskistofu um útflutt aflamagn sundurliðað eftir tegundum og ílátum eins nákvæmlega og unnt er, á áætlunarblaði fyrir óvigtaðan afla til útflutnings. Tilkynning skal vera á þar til gerðu eyðublaði sem Fiskistofa lætur í té (Áætlun fyrir óvigtaðan afla til útflutnings). Sé afli skips fluttur út í fleiri en einum gámi skal skila áætlunarblaði fyrir hvern gám. Í hverju íláti skal að jafnaði einungis vera ein fisktegund. Þó er heimilt að fylla ílát með öðrum tegundum og skal þá hver tegund vera aðskilin og ílátið merkt sérstaklega með upplýsingum um þær tegundir sem í því eru og skal þess sérstaklega getið á áætlunarblaðinu til Fiskistofu. Aldrei er þó heimilt að flytja út þorsk með öðrum tegundum í sama íláti.
Sé fyrirhugað að flytja út óunninn afla til sölu erlendis, í gámum eða með öðru flutningsfari, sem þegar hefur endanlega verið vigtaður og skráður í aflaskráningarkerfið Lóðs, skal útflytjandi (umráðamaður viðkomandi afla) tryggja að áður en afli er settur um borð í flutningsfarið sé tilkynnt til Fiskistofu um þau veiðskip sem veitt hafa umræddan afla og um útflutt aflamagn sundurliðað eftir tegundum eins nákvæmlega og unnt er. Tilkynning skal vera á þar til gerðu eyðublaði sem Fiskistofa lætur í té (Áætlun fyrir vigtaðan afla til útflutnings). Sé afli skips fluttur út í fleiri en einum gámi skal skila áætlunarblaði fyrir hvern gám. Útflytjandi (umráðamaður viðkomandi afla) skal tryggja að Fiskistofu séu sendar samdægurs sölunótur vegna sölu erlendis, þar sem tilgreint er endanlegt magn hverrar fisktegundar, söluverð og skipaskrárnúmer veiðiskips.
Óheimilt er að flytja út í sama gámnum afla sem endanlega hefur verið vigtaður og skráður í aflaskráningarkerfið Lóðs, og afla sem fluttur er til endurvigtunar á viðurkenndan uppboðsmarkað erlendis.
28. gr.
Allur óunninn afli sem fluttur er út í gámum skal brúttóvigtaður á viðkomandi hafnarvog. Löggiltur vigtarmaður sem jafnframt er starfsmaður hafnar skal gefa út flutningsnótu sbr. 9. gr., sem fylgja skal farmi uns hann er kominn um borð í flutningsfar sem flytur hann á markað erlendis. Á þeirri nótu komi fram sundurliðaðar upplýsingar um afla.
Ef afli sem sendur er til endurvigtunar á viðurkenndan uppboðsmarkað erlendis, fer þegar eftir löndun í flutningsfar má brúttóvigta aflann með því að vigta gáminn, enda liggi þá fyrir á viðkomandi hafnarvog upplýsingar um innihald gámsins undirritaðar af skipstjórnarmanni viðkomandi veiðiskips á þar til gerðu eyðublaði sem Fiskistofa lætur í té (Eyðublað um innihald gáms).
Óunninn afli sem fluttur er út í gámum og endanlega hefur verið vigtaður og skráður í aflaskráningarkerfið Lóðs, skal vigtaður í gámnum á hafnarvog, enda liggi þá fyrir á viðkomandi hafnarvog upplýsingar um innihald gámsins undirritaðar af útflytjanda (umráðamanni aflans), á þar til gerðu eyðublaði sem Fiskistofa lætur í té (Eyðublað um innihald gáms).
Ef ekki er unnt að vega gám á hafnarvog þar sem afla er landað skal brúttóvigta aflann eftir tegundum á hafnarvog áður en aflinn er settur í gáminn.
Verði gámur fylltur smám saman af afla sem senda á til endurvigtunar á viðurkenndan uppboðsmarkað erlendis, þannig að afla er hlaðið oft í gáminn, er óheimilt að setja afla í gáminn eða taka afla úr honum nema að viðstöddum hafnarstarfsmanni. Hafnarstarfsmaður skal læsa gámnum eftir að afli hefur verið settur í hann. Allan afla, sem settur er í gám með þessum hætti, skal áður brúttóvigta eftir tegundum á hafnarvog og skal aflinn strax að vigtun lokinni settur í gáminn.
Afrit af flutningsnótu, ásamt upplýsingum um gámanúmer og eyðublað um innihald gámsins, skal varðveitt hjá hafnaryfirvöldum.
29. gr.
Sigli veiðiskip með eigin afla til sölu á markað erlendis, skal skipstjóri, strax þegar skipið hættir veiðum, senda Fiskistofu upplýsingar á eyðublaði sem Fiskistofa lætur í té (Áætlun skips sem siglir með eigin afla) í símskeyti, telexi, telefaxi eða með öðrum þeim hætti sem Fiskistofa heimilar, þar sem tilgreint er magn hverrar fisktegundar eins nákvæmlega og unnt er. Jafnframt skal tilgreina umboðsmann, sölustað og áætlaðan söludag. Dreifist afli til fleiri söluaðila erlendis skal þess getið sérstaklega.
30. gr.
Flutningafyrirtækjum sem annast flutning á afla á erlendan markað er skylt að senda Fiskistofu farmskýrslur á því formi sem Fiskistofa óskar og eigi síðar en 24 klst. eftir að flutningsfar lætur úr höfn.
2. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli.
Sjávarútvegsráðuneytinu, 5. nóvember 1999.
Árni M. Mathiesen.
Jón B. Jónasson.