REGLUGERÐ
um fyrirkomulag eftirlits með sjávarafurðum.
I. kafli
Almenn ákvæði.
1. gr.
Reglugerð þessi tekur til fyrirkomulags við eftirlit með framleiðslu sjávarafurða, þ.m.t. eftirlits með meðferð afla um borð í veiðiskipi, við löndun, flutning, geymslu, vinnslu og útflutning. Reglugerðin tekur jafnframt til eftirlits með innflutningi sjávarafurða sem ætlaðar eru til umpökkunar eða vinnslu hér á landi. Reglugerðin tekur einnig til eftirlits með slátrun, vinnslu og pökkun vatna-, hafbeitar- og eldisfisks og annarra eldisdýra.
Reglugerðin tekur ekki til smásöluverslunar innanlands.
2. gr.
Vinnslustöðvar, lagmetisiðjur, skip sem leyfi hafa til veiða í atvinnuskyni, sbr. 1. nr. 38/ 1990, skip sem vinna afla um borð, uppboðsmarkaðir fyrir sjávarafla og fiskgeymslur sem ekki eru hlutar af fiskvinnslufyrirtæki, fiskimjölsverksmiðjur og framleiðendur dýrafóðurs úr sjávarafurðum skulu hafa vinnsluleyfi.
Skilyrði fyrir útgáfu vinnsluleyfis er að uppfylltar séu kröfur um hreinlæti, búnað og innra eftirlit og að gerður hafi verið samningur við viðurkennda skoðunarstofu. Ráðherra er þó heimilt að veita undanþágu frá skilyrði um samning við viðurkennda skoðunarstofu enda starfi vinnsluleyfishafi eftir vottuðu gæðakerfi, sem fullnægir kröfum íslenskra og alþjóðlegra staðla IST/ISO 9001 eða 9002.
3. gr.
Óheimilt er að veiða, vinna, pakka eða geyma sjávarafurðir án vinnsluleyfis. Ennfremur er óheimilt að dreifa eða flytja úr landi sjávarafurðir sem hafa verið framleiddar án tilskilins vinnsluleyfis.
II. kafli
Um Fiskistofu.
4. gr.
Fiskistofa annast framkvæmd laga nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra, svo og reglugerða og reglna settra með stoð í þeim lögum.
Fiskistofa skal setja sér vinnureglur um fyrirkomulag eftirlits með sjávarafurðum. Þær skulu m.a. innihalda gæðastefnu, vinnuaðferðir, skilgreindar kröfur til hæfni starfsfólks og lýsingu á fyrirkomulagi við úttekt á skoðunarstofu.
5. gr.
Fiskistofa veitir skoðunarstofum viðurkenningu að uppfylltum skilyrðum III. kafla þessarar reglugerðar. Áður en viðurkenning er veitt skal kanna hvort einstakir hlutar gæðakerfis skoðunarstofunnar séu skilvirkir og hvort líklegt sé að sett markmið í störfum hennar náist. Fiskistofa skal kanna hvort skilyrðum 11. gr. um hagsmunatengsl sé fullnægt.
Fiskistofa fylgist með starfsemi skoðunarstofa, gætir samræmis í störfum þeirra og gerir úttektir á þeim, m.a. með skoðunum hjá einstökum vinnsluleyfishöfum og á grundvelli skýrslna skoðunarstofa. Komi í ljós að skoðunarstofa hafi ekki rækt skyldur sínar skal Fiskistofa veita henni áminningu eða svipta hana viðurkenningu ef sakir eru miklar eða brot
ítrekað.
6. gr.
Fiskistofa veitir tölusett vinnsluleyfi og heldur skrá yfir alla vinnsluleyfishafa. Gildistími leyfisins skal vera ótímabundinn.
Fiskistofa skal hafa yfirsýn yfir hvort vinnsluleyfishafar fullnægi settum skilyrðum fyrir leyfi og öðrum kröfum sem til þeirra eru gerðar.
Fiskistofa skal afturkalla vinnsluleyfi sé skilyrðum þess ekki lengur fullnægt.
III. kafli
Um skoðunarstofur.
7. gr.
Með skoðunarstofu er átt við lögaðila eða fyrirtæki í eigu einstaklings sem hlotið hefur viðurkenningu Fiskistofu. Hlutverk skoðunarstofa er að annast reglulegar skoðanir á búnaði og innra eftirliti vinnsluleyfishafa. Ennfremur veita þær Fiskistofu upplýsingar um starfsemi og ástand fyrirtækja.
8. gr.
Skoðunarstofa skal hafa yfir að ráða skjalfestu gæðakerfi. Í gæðakerfinu skal m.a. koma fram lýsing á starfsemi stofunnar, stjórnun, skipulagi hennar og dreifingu ábyrgðar ásamt skilgreindum kröfum til þekkingar og hæfni starfsmanna. Gæðakerfið þarf að innihalda verklagsreglur þar sem m.a. er kveðið á um fyrirkomulag við skoðanir, prófanir og mælingar.
Starfsfólk skoðunarstofu sem sinnir skoðunum skal hafa nægilega þekkingu á kröfum til innra eftirlits, meðferðar og vinnslu sjávarafurða. Starfsfólkið skal hafa hæfni til að meta mikilvægi frávika við skoðanir með tilliti til hollustu og neyslu afurðanna. Halda skal skrá um menntun, þjálfun og reynslu starfsmanna.
9. gr.
Samningur milli skoðunarstofu og viðsemjenda samkvæmt 2. gr. skal taka til þeirrar starfsemi sem viðkomandi vinnsluleyfi nær til. Skoðunarstofa getur falið öðrum aðila skoðun einstakra þátta enda sýni hún fram á að sá aðili sé hæfur til verksins. Skoðunarstofu er skylt að taka í viðskiptialla þá framleiðendur sem uppfylla skilyrði um vinnsluleyfi. Skoðunarstofa getur þó sagt upp samningi við vinnsluleyfishafa verði verulegar vanefndir á samningsskuldbindingum af hans hálfu. Skoðunarstofu er heimilt að krefjast greiðslutryggingar. Skoðunarstofur skulu senda Fiskistofu afrit af samningum sínum við vinnsluleyfishafa.
10. gr.
Skoðunarstofa skal hafa yfir að ráða viðeigandi búnaði og aðstöðu til að annast skoðanir. Búnaði skal haldið við í samræmi við skráðar verklagsreglur.
Skýrslur um niðurstöður skoðana og prófana skulu innihalda nægilegar upplýsingar til að endurmat sé mögulegt.
11. gr.
Skoðunarstofa skal rekin sem fjárhagslega sjálfstæð rekstrareining. Með því er átt við að tekjur af starfseminni standi að jafnaði undir rekstrargjöldum. Sé skoðunarstofa rekin sem hluti af öðrum rekstri skal reksturinn vera bókhaldslega aðgreindur frá annarri starfsemi. Skoðunarstofu er skylt að veita Fiskistofu aðgang að gögnum varðandi reksturinn sé þess krafist.
Skoðunarstofu er óheimilt að annast skoðanir hjá vinnsluleyfishafa sem á hlut í viðkomandi skoðunarstofu. Þó er slíkt heimilt ef um er að ræða skoðunarstofu sem annast skoðanir hjá a.m.k. 15 lögaðilum enda eigi enginn þeirra stærri hlut en nemur 20°/o í viðkomandi skoðunarstofu.
Skoðunarstofu er óheimil eignaraðild að fyrirtæki sem það annast skoðun hjá. Fiskistofu er heimilt að fengnu samþykki ráðuneytisins að veita undanþágu frá ákvæði 3. mgr. sé starfsemi vinnsluleyfishafa einskorðuð við pökkun eða tilraunaframleiðslu.
IV. kafli
Um vinnsluleyfishafa og innra eftirlit.
12. gr.
Forsvarsmenn fyrirtækja sem fengið hafa vinnsluleyfi bera ábyrgð á því að afurðir uppfylli þær kröfur sem gerðar eru til þeirra varðandi heilnæmi, um merkingar og að þær séu framleiddar við fullnægjandi aðstæður. Í því skyni skulu þeir koma á fót og starfrækja innra eftirlit með þeim þáttum sem áhrif geta haft á gæði sjávarafurða við veiðar, framleiðslu, flutning eða geymslu.
13. gr.
Með innra eftirliti er átt við þær aðgerðir sem fylgt er í fyrirtækjum og miðast að því að hafa stjórn á þeim atriðum sem áhrif hafa á gæði afurða.
Innra eftirlit skal taka mið af umfangi framleiðslu og aðstæðum á hverjum stað. Við skipulag og framkvæmd innra eftirlits skulu einkum höfð til hliðsjónar þau atriði sem helst geta spillt gæðum sjávarafurða. Í innra eftirliti felst eftir því sem getur átt við: skýrslugerðir um afla, framleiðslu og birgðir, lýsing á skiptingu ábyrgðar, skipurit, verklýsingar, áætlanir um þrif, eftirlit með hreinlæti, heilbrigðisskoðanir starfsfólks og skýrslugerðir um menntun, endurmenntun og þjálfun starfsfólks. Jafnframt skulu vera fyrir hendi skráðar reglur um leiðir til að rekja frábrugðna eða gallaða vöru, meðferð frábrigða og aðgerðir til úrbóta.
14. gr.
Vinnsluleyfishafi skal hafa verklagsreglur sem kveði á um á hvaða stigi framleiðslunnar skoðanir, prófanir og mælingar séu nauðsynlegar til að veita nægar upplýsingar til stjórnunar á ferli og eiginleikum vörunnar. Fyrir hendi skulu vera skráðar reglur um meðhöndlun og vörslu skjala er varða innra eftirlit.
Allar skoðanir og prófanir skal skrá og undirrita. Gögn á að varðveita einu ári lengur en geymsluþol vörunnar segir til um, þó aldrei skemur en í tvö ár.
15. gr.
Fylgjast skal reglulega með og skrá hitastig vöru og umhverfis. Hráefni skal skoða reglulega með tilliti til ferskleika og heilnæmis.
Eftirlit skal hafa með vöru í vinnslu og prófa afurðir.
16. gr.
Vinnsluleyfishafi skal hafa áætlun um þrif. Til að sannprófa að þrif séu fullnægjandi skal taka sýni til greiningar á viðurkenndri rannsóknastofu a.m.k. einu sinni á ári.
17. gr.
Fái vinnslustöð ekki vatn frá vatnsveitu sem er undir viðurkenndu eftirliti skal reglulega taka sýni af neysluvatni til greiningar. Úr vatnstönkum skipa skal í sama skyni taka sýni reglulega.
Mæla skal og skrá reglulega klórstyrk vatns og ástand geislunartækja.
18. gr.
Áður en ný tegund aukefna, bætiefna og efna til þrifa og sótthreinsunar eru tekin í notkun skal kanna hvort þau séu viðurkennd. Á staðnum skulu vera lýsingar á notkun þeirra. Smurefni sem geta komist í snertingu við afurðir skulu vera viðurkennd.
19. gr.
Fylgjast skal reglubundið með aðskotaefnum þ.m.t. sníkjudýrum og þess gætt að þau séu innan þeirra marka sem opinberar reglur kveða á um.
20. gr.
Þegar ný tegund umbúða eða íláta er tekin í notkun skal kanna hvort þau séu viðurkennd fyrir matvæli og uppfylli aðrar opinberar kröfur sem til þeirra eru gerðar.
Fylgjast skal reglulega með að merkingar og þyngd vöru séu réttar og fullnægjandi.
21. gr.
Mælitæki skulu skoðuð og kvörðuð samkvæmt fyrirfram gerðum áætlunum eða áður en tækjunum er beitt hverju sinni.
22. gr.
Starfsmenn sem falin er umsjón með innra eftirliti skulu búa yfir þekkingu og færni til að rýna innra eftirlit og tryggja að þar séu framleiddar afurðir í samræmi við settar kröfur. Þeir skulu hafa hlotið þjálfun í aflestri mælitækja og geta lagt sjálfstætt mat á niðurstöður.
V. kafli
Önnur ákvæði.
23. gr.
Vinnsluleyfishöfum og útflytjendum er skylt að veita Fiskistofu eða samningsbundinni skoðunarstofu allar þær upplýsingar og þá aðstoð sem nauðsynleg er við eftirlit. Þeim er ennfremur skylt að veita upplýsingar um að heilnæmi vöru sé áfátt eða að líklegt sé að svo geti verið.
24. gr.
Fiskistofa skal fara með upplýsingar frá skoðunarstofu eða vinnsluleyfishöfum, sem leynt eiga að fara, sem trúnaðarmál.
25. gr.
Skoðunarstofur skulu gæta fyllsta trúnaðar varðandi upplýsingar frá vinnsluleyfishafa og um upplýsingar sem aflað er í tengslum við skoðanir. Til að tryggja trúnað skulu liggja fyrir skráðar reglur um meðferð og aðgang að upplýsingum frá vinnsluleyfishöfum og um meðferð þeirra.
26. gr.
Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra.
27. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 93/1992, um meðferð sjávarafurða og eftirlit með framleiðslu þeirra til þess að öðlast gildi 1. janúar 1993. Frá sama tíma fellur úr gildi reglugerð nr. 137/1985, um fyrirkomulag mats og eftirlits með sjávarafurðum til útflutnings.
Ákvæði til bráðabirgða.
I
Þrátt fyrir ákvæði um gildistöku þessarar reglugerðar skulu vinnsluleyfi og hæfnisvottorð
sem gefin voru út á árinu 1992 halda gildi sínu til 1. september 1993.
II
Framleiðendur sjávarafurða og önnur þau fyrirtæki sem tilgreind eru í 2. gr. og
vinnsluleyfi hafa fengið 1. janúar 1993 skulu hafa gert skriflegan samning við skoðunarstofu fyrir 1. apríl 1993.
Sjávarútvegsráðuneytið, 8. desember 1992.
Þorsteinn Pálsson.
Árni Kolbeinsson.