1. gr.
Allar veiðar á kúfskel til manneldis í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar nema að fengnu sérstöku leyfi Fiskistofu. Um plógveiðar krókabáta til manneldis vísast til reglna um veiðar krókaaflamarksbáta.
Leyfi til kúfskelveiða skulu gefin út fyrir hvert fiskveiðiár. Ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu að fella úr gildi öll leyfi til kúfskelveiða sé talin ástæða til að takmarka veiðarnar eða endurskipuleggja stjórnun þeirra.
Veiðar á kúfskel til manneldis eru einungis heimilar á svæðum sem hafa verið heilnæmiskönnuð af Matvælastofnun (MAST).
Með umsókn skal fylgja samningur um vinnslu á kúfskel í landi eða jafngild yfirlýsing þegar um eigin vinnslu er að ræða. Í báðum tilfellum þarf staðfesting frá MAST að fylgja um að viðkomandi vinnsla hafi gilt vinnsluleyfi frá MAST.
2. gr.
Allar veiðar á kúfskel eru bannaðar innan einnar sjómílu fjarlægðar frá punkti 66°26´N, 15°52´V.
3. gr.
Auk skila á afladagbókum samkvæmt reglugerð um afladagbækur skal skipstjóri senda Hafrannsóknastofnuninni vikulega, á mánudegi, upplýsingar um afla og veiðisvæði undanfarandi viku á því formi sem Hafrannsóknastofnunin ákveður, óski stofnunin eftir slíku.
4. gr.
Við vigtun og skráningu á kúfskel gilda ákvæði reglugerðar um vigtun og skráningu sjávarafla, með síðari breytingum.
5. gr.
Fiskistofu er heimilt að svipta skip leyfi til kúfskelveiða vegna brota á ákvæðum leyfisbréfa og ákvæðum laga og reglugerða, sem lúta að stjórn veiða og nýtingu nytjastofna. Missi skip leyfi til veiða í atvinnuskyni fellur jafnframt úr gildi leyfi til kúfskelveiða.
6. gr.
Brot varða viðurlögum samkvæmt 17. gr. laga nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Með mál sem kunna að rísa út af brotum á ákvæðum reglugerðar þessarar og ákvæðum leyfisbréfa gefnum út samkvæmt henni skal farið að hætti sakamála.
7. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt lögum nr. 79, 26. maí 1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum, til að öðlast gildi 1. mars 2014 og birtist til eftirbreytni öllum sem hlut eiga að máli. Jafnframt er felld úr gildi reglugerð nr. 701, 17. ágúst 2004, um takmarkanir á heimild til veiða á kúfiski, með síðari breytingum.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 15. nóvember 2013. |
F. h. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, |
Baldur P. Erlingsson. |
Hrefna Karlsdóttir.