Veflestur er þjónusta ætluð þeim sem einhverra hluta vegna eiga erfitt með að lesa texta af skjá
Sjávarútvegsráðuneyti

722/2005

Reglugerð um úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2005/2006. - Brottfallin

1. gr.

Á fiskveiðiárinu 2005/2006 skal úthluta 4.010 þorskígildislestum til stuðnings byggðarlögum sbr. 2. tl. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Magn þetta skiptist á eftirgreindar fisktegundir, miðað við slægðan fisk, þannig: Þorskur 2.992 lestir, ýsa 1.587 lestir, ufsi 1.209 lestir og steinbítur 197 lestir.


Af 4.010 þorksígildislestum skal miðað við að 2.000 þorskígildislestum sé ráðstafað til minni byggðarlaga sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi og háð eru veiðum og vinnslu á botnfiski. Minni byggðarlög teljast í þessu sambandi byggðarlög með færri íbúum en 1.500, miðað við 1. desember 2004.



Þá skal miðað við að 2.010 þorskígildislestum sé ráðstafað til sveitarfélaga, sem orðið hafa fyrir óvæntri skerðingu á heildaraflaheimildum fiskiskipa, sem gerð hafa verið út og landað afla í viðkomandi byggðarlögum og sem veruleg áhrif hefur haft á atvinnuástand í þeim.


Skipting 4.010 þorskígildislestanna samkvæmt 2. og 3. mgr. er notuð við útreikning á hlut hvers byggðarlags og skal sá kostur ávallt valinn fyrir hvert byggðarlag sem gefur því mestar aflaheimildir skv. 2.–3. gr.


Aðeins koma til greina byggðarlög sem sótt hefur verið um stuðning fyrir til sjávarútvegsráðuneytisins á grundvelli auglýsingar ráðuneytisins frá 5. júní 2005.


2. gr.

Ráðuneytið skal reikna út hve miklar aflaheimildir, sbr. 2. mgr. 1. gr., koma í hlut hvers byggðarlags. Við þann útreikning skal gefa hverju byggðarlagi punkta sem fundnir eru þannig:


1. Fyrir hvert 0,1% sem botnfiskafli fiskiskipa í byggðarlagi hefur mest dregist saman, sem hlutfall af heildarbotnfiskafla frá fiskveiðiárinu 1992/1993 að telja til fiskveiðiársins 2003/2004, skal gefa tvo punkta.
2. Fyrir hvert 0,1% sem botnfiskaflaheimildir fiskiskipa frá byggðarlagi hafa mest dregist saman, sem hlutfall af heildarbotnfiskaflaheimildum frá fiskveiðiárinu 1992/1993 að telja til fiskveiðiársins 2004/2005, skal gefa tvo punkta.
3. Fyrir hvert 0,1% sem vinnsla botnfiskafla í byggðarlagi hefur mest dregist saman, sem hlutfall af unnum heildarbotnfiskafla frá árinu 1992/1993 að telja til ársins 2003/2004, skal gefa fjóra punkta.


Ráðuneytið metur hvaða viðmiðunarár er hagstæðast hverju byggðarlagi til útreiknings aflaheimilda samkvæmt þessari reglugerð. Leggur það til grundvallar tölulegar upplýsingar frá Fiskistofu. Sama fiskveiðiárið skal ávallt lagt til grundvallar við mat á öllum þáttum fyrir hvert byggðarlag, sbr. 1.–3. tl. 1. mgr., og hafi aukning orðið í einum þætti milli viðmiðunarára kemur hún til frádráttar. Samanlagðir punktar einstakra byggðarlaga ráða því hversu mikið af aflaheimildum kemur í þeirra hlut samkvæmt þessari grein en þó ekki umfram 150 lestir.


Komi í ljós veruleg lækkun á reiknuðum aflaheimildum samkvæmt þessari grein skal ráðuneytið kanna, hvort raunverulegar breytingar hafi orðið á útgerð eða botnfiskvinnslu í viðkomandi byggðarlagi. Hafi svo ekki orðið er heimilt að halda úthlutuðum aflaheimildum samkvæmt þessari grein óbreyttum frá úthlutun fyrir fiskveiðiárið 2004/2005.


3. gr.

Ráðuneytið skal reikna út hve miklar aflaheimildir, sbr. 3. mgr. 1. gr. komi í hlut hvers byggðarlags sbr. A. lið eða sveitarfélags sbr. B. lið. Við þann útreikning skal leggja eftirfarandi forsendur til grundvallar:


A. Hafi samdráttur í byggðarlagi í vinnslu á skel og rækju, sem veidd er hér við land, verið 400 þorskígildislestir eða minni frá fiskveiðiárinu 2001/2002 eða 2002/2003 að telja til viðmiðunartímabilsins 1. maí 2004 til 30. apríl 2005 koma aflaheimildir, sem nema 70 þorskígildislestum í þess hlut. Hafi samdrátturinn verið meiri en 400 þorskígildislestir en minni en 1500 þorskígildislestir í byggðarlagi koma 140 þorskígildislestir í þess hlut. Hafi samdrátturinn verið 1500 þorskígildislestir eða meiri í byggðarlagi koma 210 lestir í þess hlut. Nú sýna útreikningar að aflaheimildir koma einnig í hlut tiltekins byggðarlags samkvæmt 2. gr. og skal þá einungis úthluta aflaheimildum til þess byggðarlags á grundvelli þess ákvæðis sem meira gefur.
B. Þeim sveitarfélögum, sem var úthlutað sérstökum aflaheimildum frá Byggðastofnun, sbr. ákvæði XXVI til bráðabirgða við lög nr. 38/1990, á fiskveiðiárinu 2003/2004, skal úthlutað aflaheimildum á fiskveiðiárinu 2005/2006 sem reiknast þannig: Leggja skal saman aflaheimildir sem úthlutað var til sveitarfélaga af Byggðastofnun og sjávarútvegsráðuneyti, sbr. 9. gr. laga nr. 38/1990 á fiskveiðiárinu 2003/2004. Frá þeirri samtölu skal draga reiknaðar bætur samkvæmt 2. gr. reglugerðarinnar og samkv. A. lið þessarar greinar auk bóta Byggðastofnunar á fiskveiðiárinu 2005/2006 og skal mismunurinn bættur, séu bætur á fiskveiðiárinu 2005/2006 samtals lægri. Bætur samkvæmt þessum lið skulu þó aldrei vera hærri en sem nemur lækkun bóta Byggðastofunar milli fiskveiðiáranna 2004/2005 og 2005/2006 en skulu þó að lágmarki vera 20 þorskígildislestir og að hámarki 145 þorskígildislestir.


4. gr.

Við útreikninga ráðuneytisins á, hversu miklar aflaheimildir komi í hlut hvers sveitarfélags skal líta til hvers einstaks byggðarlags innan sveitarfélagsins, sbr. þó B. lið 3. gr. Ráðuneytið tilkynnir sveitarstjórnum hversu miklar aflaheimildir komi í hlut hvers sveitarfélags og hvernig þær skiptast á einstök byggðarlög.


5. gr.

Ráðuneytið skal gefa sveitarstjórnum kost á því að gera tillögur til ráðuneytisins um reglur er gildi um skiptingu úthlutunarinnar til einstakra skipa. Sveitarstjórnir skulu miða tillögur sínar við það að aflaheimildir sem koma í hlut hvers byggðarlags fari til fiskiskipa, sem gerð eru út frá viðkomandi byggðarlagi og að aflinn verði unninn þar enda verði því við komið. Sveitarstjórn er heimilt að leggja til að byggðakvóta, sem kemur í hlut sveitarfélagsins samkvæmt B. lið 3. gr., verði ráðstafað til einstakra byggðarlaga innan sveitarfélagsins. Tillögur sveitarstjórna skulu byggjast á almennum hlutlægum reglum og skal jafnræðissjónarmiða gætt. Heimilt er sveitarstjórn að miða við ákveðnar stærðir eða flokka fiskiskipa. Þá er henni heimilt að líta til þess hvort um sé að ræða samstarf aðila í veiðum og vinnslu afla innan viðkomandi byggðarlags, hvort fiskiskip hafi áður landað í byggðarlaginu og til annarra atriða sem stuðla að eflingu byggðarlagsins.


Í tillögum sveitarstjórnar til ráðuneytisins um reglur til úthlutunar byggðakvóta skal ávallt koma fram:


1. Hvaða skilyrðum fiskiskip og útgerðir þeirra þurfa að fullnægja til að koma til greina við skiptingu byggðakvótans milli einstakra fiskiskipa.
2. Hvaða viðmiðanir verði lagðar til grundvallar skiptingu byggðakvótans milli einstakra skipa.
3. Ef sveitarstjórnir vilja binda úthlutun byggðakvóta öðrum skilyrðum t.d. um löndun afla eða mótframlag af eigin kvóta þarf að tilgreina þau skilyrði í tillögunum til ráðuneytisins.
4. Hvernig standa skuli að endurúthlutun byggðakvóta í því tilviki að útgerð fiskiskips, sem gefinn hefur verið kostur á úthlutun afsalar sér byggðakvóta eða missir vegna þess að hún fullnægir ekki skilyrðum, sem sett eru sbr. 3. tl.


6. gr.

Tillögur sveitarfélaga um þessar reglur skulu sendar ráðuneytinu.


Geti ráðuneytið ekki fallist á tillögur sveitarstjórnar skal ráðuneytið gefa sveitarstjórn tveggja vikna frest til þess breyta tillögum sínum eða leggja fram nýjar.


Fallist ráðuneytið á tillögur sveitarstjórnar um úthlutun aflaheimildanna staðfestir það þær og birtir, sem reglur viðkomandi sveitarfélags um úthlutun. Eftir það ber sveitarstjórn að kynna reglurnar með þeim hætti sem tíðkast að kynna ákvarðanir sveitarstjórnar og gefa útgerðum fiskiskipa kost á að sækja um aflaheimildir fyrir ákveðinn tíma. Að loknum umsóknarfresti gerir sveitarstjórn síðan tillögur til ráðuneytisins um endanlega skiptingu aflaheimilda milli fiskiskipa. Fallist ráðuneytið á endanlegar tillögur sveitarstjórnar um skiptingu aflaheimildanna milli fiskiskipa staðfestir það þær og tilkynnir það Fiskistofu. Geti ráðuneytið ekki fallist á tillögu sveitarstjórna um skiptingu aflaheimildanna felur það Fiskistofu að skipta þeim milli einstakra báta samkvæmt reglum 7. gr.


7. gr.

Geri sveitarstjórn ekki tillögu um hvernig skipta skuli þeim veiðiheimildum sem það hefur til ráðstöfunar skal Fiskistofa skipta þeim milli einstakra fiskiskipa, sem skráð eru í viðkomandi byggðarlagi 1. ágúst 2005. Sama gildir geti ráðuneytið ekki fallist á tillögur sveitarstjórnar um úthlutun eða skiptingu. Skal úthluta til einstakra aflamarksskipa og krókaaflamarksbáta hlutfallslega miðað við heildaraflamark þeirra í þorskígildum reiknað, miðað við úthlutun til þeirra á grundvelli aflahlutdeildar, skv. lögum nr. 38/1990, í upphafi fiskveiðiárs 2005/2006. Við úthlutun skal heildaraflamark einstakra fiskiskipa ekki aukast um meira en 100%, miðað við úthlutun í upphafi fiskveiðiárs 2005/2006 og ekkert fiskiskip skal hljóta meira en 15 þorskígildislestir miðað við óslægðan fisk. Vikið skal frá þessari takmörkun á hlut hvers báts fáist heildarhlut einhvers byggðarlags ekki skipt með öðrum hætti. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut einhvers fiskiskips, samkvæmt framangreindum reglum, fellur úthlutun til þess fiskiskips niður og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi.


Afla sem úthlutað er samkvæmt þessari grein er skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlags, enda fari vinnsla botnfisks þar fram.


8. gr.

Reglugerð þessi er sett samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38, 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, til þess að öðlast gildi 1. september 2005 og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.


Sjávarútvegsráðuneytinu, 4. ágúst 2005.


Árni M. Mathiesen.
Jón B. Jónasson.


Prenta reglugerð

Þetta vefsvæði byggir á Eplica