3. mgr. í 2. tl., Almenn ákvæði, í A-hluta viðauka hljóðar svo:
Hlutasýni:
Hlutasýni skulu tekin á eins ólíkum stöðum, á víð og dreif um framleiðslueininguna, og mögulegt er. Sé ekki farið eftir þessari aðferð skal það skrásett ásamt öðrum upplýsingum um sýnin. Ekki skal nota til sýnatöku vörur sem eru skemmdar að einhverju eða öllu leyti. Lágmarksfjöldi hlutasýna sem taka þarf er gefinn upp í töflum í B, C, D og F, G, H, I, J, K og L hluta þessa viðauka eftir því sem við á. Sýni skulu vera eins lík að stærð og mögulegt er. Þegar um er að ræða vörur í fljótandi formi er nægilegt að taka eitt hlutasýni til greiningar í hverri framleiðslueiningu sem safnsýni. Vísa verður til framleiðslueiningarinnar. Vörur í fljótandi formi sem innihalda vatnsrofin jurtaprótein (HVP) eða sojasósur þarf að hrista mjög vel eða gera einsleitar með öðrum hætti, áður en hlutasýni er tekið.
Á eftir töflu H2 í 1. tl., Almenn ákvæði, í H-hluta bætist eftirfarandi:
Sérstök ákvæði um sýnatöku úr framleiðslueiningu af heilum fiski.
Fjöldi hlutasýna sem taka skal úr framleiðslueiningu er ákvarðaður í samræmi við töflu H1. Safnsýni sem myndað er úr hlutasýnum skal vera a.m.k. 1 kg.
· | Ef framleiðslueining, sem sýni er tekið úr, inniheldur lítinn fisk (hver fiskur vegur < 1 kg) telst heill fiskur vera hlutasýni til að mynda safnsýni. Ef safnsýnið vegur meira en 3 kg geta hlutasýnin, sem mynda safnsýnið, samanstaðið af miðhluta fisksins og hvert vegur a.m.k. 100 g. Heildarmagnið, sem hámarksgildið á við um, er notað við jafnblöndun á sýninu. |
· | Ef framleiðslueining, sem sýni er tekið úr, inniheldur stóran fisk (hver fiskur er þyngri en 1 kg) samanstendur hlutasýnið af miðhluta fisksins. Hvert hlutasýni vegur a.m.k. 100 g. Ef framleiðslueining, sem sýni er tekið úr, samanstendur af mjög stórum fiski (t.d. > 6 kg) og verulegur efnahagslegur skaði hlýst af ef tekinn er hluti úr miðhluta fisksins, getur talist fullnægjandi að taka þrjú sýni sem hvert um sig vegur a.m.k. 350 g, óháð stærð framleiðslueiningarinnar. |
Undirkaflinn: "Samþykki fyrir framleiðslueiningu eða framleiðsluhluta" á eftir töflu H2 í 1. tl., Almenn ákvæði, í H-hluta hljóðar svo:
Samþykki fyrir framleiðslueiningu eða framleiðsluhluta.
Samþykki ef niðurstaða einnar mælingar er innan hámarksgildis sbr. c) lið 1. gr. reglugerðar nr. 662/2003 að teknu tilliti til mælióvissu.
Synjun ef niðurstöður, sem eru staðfestar með tvöfaldri greiningu og reiknaðar sem meðaltal a.m.k. tveggja aðgreindra ákvarðana, eru sannanlega yfir hámarksgildi sbr. c) lið 1. gr. reglugerðar nr. 662/2003, að teknu tilliti til mælióvissu.
Mælióvissu má meta með annarri af eftirfarandi aðferðum:
· | Útreikningi á útvíkkaðri mælióvissu, með þekjustuðulinn 2 sem gefur u.þ.b. 95% áreiðanleika. |
· | Finna ákvörðunarmörk (CCa) samkvæmt bráðabirgðaákvörðun ráðsins nr. 2002/657/EB frá 12. ágúst 2002 um framkvæmd tilskipunar 96/23/EB varðandi nothæfi greiningaraðferða og túlkun niðurstaðna (1) (liður 3.1.2.5 í viðauka – þegar um er að ræða efni með ákvarðað hámarksgildi). |
(1) Stjtíð. EB L 221, 17.8.2002, bls. 8. Ákvörðuninni var síðast breytt með ákvörðun 2004/25/EB (Stjtíð. EB L 6, 10.1.2004, bls. 38).
Þessar túlkunarreglur gilda um niðurstöðu greiningar á sýni sem er tekið við opinbert eftirlit. Innlendar reglur gilda um greiningu sem er gerð með tilliti til verslunarverndar eða úrskurðarmála.
Við lið 1.2., Bakgrunnur, í I-hluta bætist svohljóðandi málsgrein:
Aðeins varðandi H-hluta viðauka við reglugerð þessa er gengið út frá því að viðurkennd magngreiningarmörk einstakra efnamynda svari til styrks greiningarefnis í útdráttarlausn sýnis sem kallar fram mælissvörun fyrir tvær mismunandi jónir, sem eru til rannsóknar, og þar sem hlutfall milli merkis og suðs er 3:1 fyrir það merki sem er síður næmt. Auk þess skal uppfylla grunnkröfur um t.d. rástíma og hlutfall samsætna, í samræmi við ákvörðunaraðferðina sem lýst er samkvæmt aðferð Umhverfisstofnunar Bandaríkjanna (EPA) nr. 1613, endurskoðun B.
Heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Umhverfisstofnunar fara með eftirlit með því að ákvæðum þessarar reglugerðar sé framfylgt nema annað sé ákvarðað samkvæmt lögum eða reglugerðum.
Með brot gegn reglugerð þessari skal farið samkvæmt lögum um matvæli, nr. 93/1995, með síðari breytingum samanber og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 18. gr. laga um matvæli nr. 93/1995 samanber og lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, með síðari breytingum og til innleiðingar á tilskipun 2004/44/EB sem vísað er til í XII. kafla II. viðauka samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og honum var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 143/2005 hinn 29. október 2005.
Reglugerðin öðlast gildi við birtingu.