Reglugerð þessi nær til eldis fisks og annarra sjávardýra, svo og sjávargróðurs, sem nytjaður er eða kann að verða nytjaður í íslenskri fiskveiðilandhelgi, íslensku landgrunni eða á landi. Eiga ákvæði reglugerðarinnar því við hvers konar sjávardýr og sjávargróður sem nytjuð kunna að verða í eldi þó svo að einungis fiskur sé tilnefndur hverju sinni. Ferskvatnsfiskar teljast ekki til nytjastofna sjávar samkvæmt þessari reglugerð.
Til eldis samkvæmt reglugerð þessari teljast geymsla, gæsla og fóðrun nytjastofna, hafbeit, klak- og seiðaeldi, hvort sem er á landi eða í sjó.
Í reglugerðinni er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1. | Aleldi: Skipulegt eldi allt frá klaki til slátrunar. |
2. | Áframeldi: Eldi á fönguðum villtum fiski til slátrunar. |
3. | Eldisafurðir: Eldisfiskur eins og honum er dreift til neyslu eða afurðir unnar úr honum. |
4. | Eldiseining: Kví eða eldisker í strandeldisstöð eða þyrping samfastra eða mjög nálægra kvía eða kerja. Nær einnig til sjóinntaks og frárennslis strandeldisstöðva. |
5. | Eldisstöð: Starfsstöð í fiskeldi, rekin sem ein heild. Eldisstöð hefur að lágmarki eina eldiseiningu. |
6. | Ferskvatnsfiskur: Fiskur sem lifir að hluta eða allan sinn lífsferil í fersku vatni. |
7. | Föngun: Veiði fisks sem settur er í áframeldi. |
8. | Hafbeit: Sú starfsemi að sleppa seiðum í sjó til að auka afrakstur viðkomandi tegundar. |
9. | Hvíldartími: Sá tími þar sem ekkert eldi má fara fram í eldiseiningu samkvæmt ákvörðun dýralæknis. |
10. | Klakfiskur: Fiskur nýttur til undaneldis. |
11. | Kví: Netpoki sem hangir í fljótandi grind eða er festur á grind sem komið er fyrir undir yfirborði sjávar. |
12. | Matfiskeldi: Eldi á fiski frá seiðastigi til slátrunar. |
13. | Seiðaeldi: Klak og eldi á fyrstu stigum vaxtarferils. |
14. | Sérhæft nám í fiskeldisfræði: Nám sem hafið er eftir framhaldsskólapróf eða eftir að nemendur hafa aflað sér sambærilegrar þekkingar og reynslu úr atvinnulífinu. Í náminu sé kennd umhirða og eldi fiska allt frá hrognastigi og þar til eldisafurðinni er komið á markað. Hluti námsins felist í verknámi á eldisstöð. |
15. | Sjókvíaeldi: Eldi fisks sem fram fer í kvíum í sjó eða í söltu vatni. |
16. | Strandeldi: Eldi fisks í tönkum eða kerjum á landi. |
17. | Vinnslustöð: Hver sú aðstaða þar sem eldisafurðir eru verkaðar, unnar, kældar, frystar, pakkaðar eða geymdar. |
Fiskistofa gefur út rekstrarleyfi til fimm ára í senn.
Umsókn um rekstrarleyfi, hvort sem er til hafbeitar, áframeldis eða aleldis, þ.m.t. seiðaeldi og matfiskeldi, skal vera skrifleg og skulu þar koma fram eftirtaldar upplýsingar:
1. | Nafn og kennitala umsækjanda. |
2. | Eignaraðild að eldisstöð. |
3. | Fagþekking umsækjanda. |
4. | Heildarstærð stöðvar í rúmmetrum og staðsetning og afstöðumynd af væntanlegri starfsemi þar sem fram kemur lega og stærð einstakra eldiseininga. |
5. | Eldistegundir. |
6. | Áætlað framleiðslumagn fyrir hverja eldistegund. |
7. | Eldisaðferðir. |
8. | Upplýsingar um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. |
9. | Starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. |
10. | Skilríki um afnot lands og sjávar ásamt upplýsingum um stöðu skipulags á framkvæmdasvæði, eftir því sem við á. |
11. | Leyfi til mannvirkjagerðar og leyfi til starfsemi samkvæmt ákvæðum annarra laga sem varða slíkan atvinnurekstur. |
12. | Gögn um sjúkdómstengda og vistfræðilega þætti. |
13. | Lýsing á fyrirhugaðri uppbyggingu eldisstöðvarinnar og hverrar eldiseiningar, þar sem fram kemur rökstuðningur fyrir því að sá búnaður sem ætlunin er að nota sé hannaður fyrir aðstæður á eldisstað ásamt áætlun um reglubundið eftirlit og viðhald sbr. 12. gr. reglugerðarinnar. |
Áður en Fiskistofa veitir rekstrarleyfi skal hún leita umsagnar Hafrannsóknastofnunarinnar, veiðimálastjóra, dýralæknis fisksjúkdóma og Siglingastofnunar Íslands.
Fiskistofu er heimilt að óska eftir frekari gögnum en hér eru tilgreind. Fiskistofu er jafnframt heimilt að veita sérstök bráðabirgðaleyfi til geymslu á fönguðum fiski í kvíum sem síðar yrði fluttur í eldisstöð, enda þótt ofangreindum skilyrðum sé ekki fullnægt.
Við eldisstöð með meira en 200 tonna ársframleiðslu skal starfa aðili sem lokið hefur a.m.k. eins árs sérhæfðu námi í fiskeldisfræði eða aflað sér menntunar og reynslu sem sambærileg getur talist. Rekstraraðilar eldisstöðva með 200 tonna ársframleiðslu eða minni skulu hafa sér til ráðgjafar, um allt það er lýtur að eldinu, aðila sem lokið hefur a.m.k. eins árs sérhæfðu námi í fiskeldisfræði eða aflað sér sambærilegrar menntunar.
Verði verulegar breytingar á forsendum fyrir rekstri eldisstöðvar skal sækja um rekstrarleyfi að nýju.
Ef starfsemi eldisstöðvar er ekki hafin innan 12 mánaða frá útgáfu rekstrarleyfis er Fiskistofu heimilt að fella það úr gildi. Einnig getur Fiskistofa fellt rekstrarleyfi úr gildi ef uppbygging eða rekstur stöðvarinnar víkur verulega frá upplýsingum gefnum í umsókn.
Fiskistofa fer með eftirlit með eldisstöðvum sem fengið hafa rekstrarleyfi samkvæmt þessari reglugerð.
Á hverri eldisstöð skal haldin sérstök framleiðsludagbók sem Fiskistofa gefur út. Þær upplýsingar sem þar eru skráðar skulu vera aðgengilegar Fiskistofu. Stöðvarstjórar einstakra eldisstöðva eru ábyrgir fyrir færslu bókanna, þ.m.t að þær séu færðar eins og reglugerð þessi mælir fyrir um. Jafnframt skulu stöðvarstjórarnir veita aðstoð við að sannreyna upplýsingar sem færðar hafa verið í framleiðsludagbækur æski Fiskistofa þess.
Framleiðsludagbækurnar skulu vera í tvíriti, innbundnar og með númeruðum síðum. Skal Fiskistofa hafa yfirlit yfir síðunúmer í bókum þeim sem ætlaðar eru til notkunar í hverri eldisstöð fyrir sig. Óheimilt er að fjarlægja síður úr bókum, sbr. þó 11. gr.
Allt sem fært er í framleiðsludagbók skal vera skýrt og læsilegt með varanlegu letri. Ekki má eyða eða gera á annan hátt ólæsilegt það sem eitt sinn hefur verið í þær fært. Þurfi að gera breytingu á færslu skal það gert með nýrri færslu þannig að hin ranga færsla verði áfram vel læsileg að leiðréttingu lokinni.
Heimilt er að færa framleiðsludagbækur á rafrænan hátt enda sé til þess notað forrit sem hlotið hefur samþykki Fiskistofu og skráning sé gerð samkvæmt leiðbeiningum Fiskistofu. Í rafrænar framleiðsludagbækur skal færa allar upplýsingar sem kveðið er á um í reglugerð þessari. Unnt skal að rekja allar breytingar sem kunna að verða gerðar á skráningum. Þá getur Fiskistofa m.a. gert kröfu um að byggt sé á tilteknum stöðlum.
Skrá skal eftirfarandi upplýsingar í framleiðsludagbækur:
1. | Nafn eldisstöðvar, númer rekstrarleyfis og staðsetning. |
2. | Fjölda kvía eða kerja í notkun, ummál og dýpt. |
3. | Ef eldisfiskur er fluttur í eldisstöðina skal skrá: |
a. | fjölda einstaklinga, | |
b. | meðallengd, meðalþyngd eða aldur eftir atvikum, | |
c. | uppruna, | |
d. | flutningstæki. |
4. | Fjölda og þyngd dauðra fiska sem eru fjarlægðir úr kvíum eða kerum. |
5. | Magn og gerð fóðurs sem gefið er. |
6. | Ef eldisfiskur er fluttur úr eldisstöð skal skrá: |
a. | fjölda einstaklinga, | |
b. | meðallengd, meðalþyngd eða aldur eftir atvikum, | |
c. | móttakanda, | |
d. | flutningstæki. |
7. | Þegar eldisfiski er slátrað skal skrá: |
a. | fjölda einstaklinga, | |
b. | meðallengd, meðalþyngd eða aldur eftir atvikum, | |
c. | slátrunarstað, | |
d. | vinnslustöð, | |
e. | flutningstæki á slátrunarstað. |
8. | Bólusetningar og lyfjagjöf. |
9. | Ef fiskur sleppur skal skrá ástæðu þess og áætlaðan fjölda fiska sem slapp. |
Að auki ber að færa í framleiðsludagbækur aðrar þær upplýsingar sem kveðið er á um í bókunum sjálfum.
Allar færslur í framleiðsludagbækur skulu vera í samræmi við reglugerð þessa og leiðbeiningar í bókunum sjálfum.
Skylt er að senda útfyllt og undirritað frumrit hverrar síðu framleiðsludagbóka til Fiskistofu innan tveggja vikna frá lokum hvers mánaðar.
Um skil á framleiðsludagbókum sem skráðar eru á rafrænan hátt fer samkvæmt ákvörðun Fiskistofu.
Framleiðsludagbækur skulu ávallt vera tiltækar á eldisstöð og skulu þær geymdar í a.m.k. tvö ár frá því að frumritum úr þeim var skilað til Fiskistofu.
Í hverri eldisstöð skulu vera til staðar skriflegar reglur, samþykktar af Fiskistofu, um styrkleika neta og reglubundið eftirlit með þeim, nótaskiptum, dælubúnaði, festingum og fleiri atriðum er skipta máli til að koma í veg fyrir að fiskur sleppi, eldiseiningar losni eða óheimil losun úrgangs eigi sér stað.
Niðurstöður reglulegs viðhalds og eftirlits, skv. 1. mgr. skulu skráðar og vera aðgengilegar eftirlitsmönnum Fiskistofu.
Tilkynna skal Fiskistofu um fyrirhugaða slátrun úr áframeldi með að lágmarki þriggja virkra daga fyrirvara, þar sem m. a. kemur fram hve miklu er áætlað að slátra og hvar.
Fjarlægð á milli sjókvíaeldisstöðva skal vera að lágmarki 2 km og að lágmarki 1 km milli eldiseininga. Klakfiskur skal vera að lágmarki í 2ja km fjarlægð frá næstu eldiseiningu. Slátrunarstaður skal vera að lágmarki í 2ja km fjarlægð frá næstu eldiseiningu. Tilgreindar fjarlægðir eiga einnig við sjóinntak og frárennsli strandeldisstöðva.
Fiskistofa getur ákveðið að lengra eða skemmra skuli vera á milli eldisstöðva og eldiseininga en segir hér að ofan telji hún aðstæður krefjast þess.
Fóðurframleiðsla, fóðurblöndun, móttaka, geymsla og notkun á fóðri skal vera í samræmi við lög nr. 22/1994, um eftirlit með fóðri, áburði og sáðvöru og reglugerð nr. 340/2001, um eftirlit með fóðri með síðari breytingum.
Óheimilt er að fóðra fisk með úrgangi eða öðru hráefni sem til fellur við fiskeldi eða með fóðri sem unnið er úr slíku hráefni.
Þess skal ætíð gætt að eldisfiskur hafi nægilegt rými, fái nóg af hreinum og heilnæmum sjó og sé gefið nógu mikið og heilnæmt fóður.
Sjálfdauður og sýktur fiskur skal fjarlægður og urðaður eða honum eytt með viðurkenndum hætti svo fljótt sem verða má og gripið skal til þeirra ráðstafana sem ástæða þykir til svo koma megi í veg fyrir útbreiðslu sjúkdóma. Dýralækni fisksjúkdóma er þó heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði hvað sýktan fisk varðar.
Heimilt er að merkja eldisfisk, samanber reglugerð nr. 279/2002, um dýratilraunir. Upplýsingar um fjölda merktra fiska skulu færðar í framleiðsludagbækur. Merkin skulu skilyrðislaust tekin úr fisknum við slátrun. Fari merktur fiskur á markað ber leyfishafa að endurgreiða kostnað þann sem af skilum merkjanna hlýst.
Tæki sem notuð eru til flutnings á fiski til slátrunar skulu þannig gerð að auðvelt sé að þrífa þau og sótthreinsa og skulu þau ávallt þrifin að flutningi loknum. Auk þess skulu tækin sótthreinsuð ef hefja á flutning frá nýjum aðila.
Fiskistofa getur, í samráði við dýralækni fisksjúkdóma, bannað flutninga á fiski á milli tiltekinna svæða eða um tiltekin svæði nema að uppfylltum vissum skilyrðum sem lúta að því að draga úr hættu á að sjúkdómar dreifist.
Slátrun og vinnsla eldisfisks og pökkun afurða skal fara fram í vinnslustöð sem hlotið hefur vinnsluleyfi Fiskistofu, skv. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 55/1998 með síðari breytingum, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.
Fiskistofa getur þó heimilað að slátrun fari fram á slátrunarstað sem hefur starfsleyfi Fiskistofu, skv. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 55/1998, um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða.
Fari slátrun fram nær eldiseiningu en kveðið er á um í 1. mgr., 14. gr. reglugerðar þessarar skal þess gætt að blóð, slóg og annar úrgangur fari ekki í sjóinn.
Við slátrun og vinnslu á eldisfiski skal þess gætt að blóð, slóg og annar úrgangur sem til fellur valdi ekki smithættu. Við slátrunarstað skal vera aðstaða til að setja til hliðar fisk sem ber sjúkdómseinkenni.
Ef grunur leikur á að smitsjúkdómur leynist í eldiseiningu eða eldisstöð skal sýna sérstaka gát við slátrun á fiski frá eldiseiningunni og eldisstöðinni og framkvæma rækileg þrif og sótthreinsun á sláturaðstöðu og öllum búnaði strax að þeirri slátrun lokinni.
Óheimilt er að selja eða dreifa sjálfdauðum eldisfiski. Hið sama gildir um sýktan fisk og fisk sem í leynast lyfja- eða efnaleifar. Dýralæknir fisksjúkdóma getur þó veitt undanþágu frá þessu ákvæði hvað sýktan fisk varðar.
Fiskistofa getur, að höfðu samráði við dýralækni fisksjúkdóma, bannað eða stöðvað slátrun ef vísbendingar eru um að til slátrunar komi fiskur sem beri sár, bólgur eða önnur sjúkdómseinkenni. Hið sama gildir ef ástæða er til að ætla að í fiskinum kunni að leynast lyfjaleifar eða önnur óæskileg efni sem valda því að fiskurinn sé ekki talinn hæfur til manneldis.
Fiskistofa getur þó heimilað slátrun á fiski sem er óhæfur til manneldis, sbr. 3. mgr. 19. gr. þessarar reglugerðar, enda fari hún fram með samþykki dýralæknis fisksjúkdóma og verði fiskinum fargað í samráði við yfirvöld hollustumála.
Dýralæknir fisksjúkdóma hefur eftirlit með heilbrigðismálum eldisstöðva, sjúkdómum og lyfjagjöf, sbr. reglugerð nr. 403/1986, um varnir gegn fisksjúkdómum og heilbrigðiseftirlit með fiskeldisstöðvum með síðari breytingum. Dýralæknir fisksjúkdóma getur sett skilyrði um ákveðinn hvíldartíma eldiseininga eða ákveðins staðar þar sem fiskeldi hefur verið stundað.
Notkun bóluefna og sýklalyfja í fiskeldi er óheimil nema með samþykki dýralæknis fisksjúkdóma. Óheimilt er að meðhöndla eldisdýr með sýklalyfjum nema að undangenginni sjúkdómsgreiningu dýralæknis eða viðurkenndrar rannsóknastofu.
Aðili sem vill flytja inn eldisfisk eða afurðir skal sækja skriflega um heimild með tveggja vikna fyrirvara til sjávarútvegsráðherra. Ráðherra skal leita álits fisksjúkdómanefndar um hvort heimila skuli innflutninginn. Sé innflutningur heimilaður getur ráðherra sett um hann nánari skilyrði.
Heilbrigðisvottorð frá opinberum eftirlitsaðila skal fylgja hverri vörusendingu af lifandi eldisfiski, hrognum og sviljum. Hver vörusending skal greinilega auðkennd svo að unnt sé að rekja hana til upprunaeldisstöðvarinnar og sannreyna, eftir því sem við á, tengsl fisksins eða afurðanna við upplýsingarnar sem fram koma á meðfylgjandi flutningsskýrslu og heilbrigðisvottorði.
Við innflutning skal framvísa skriflegri staðfestingu yfirdýralæknis um að uppfyllt séu skilyrði þessa ákvæðis.
Flytja skal eldisfisk eins fljótt og auðið er til viðtökustaðar. Flutningur skal fara þannig fram að heilbrigði fisksins sé tryggt.
Fiskistofa innheimtir árlegt gjald fyrir eftirlit með starfsemi fiskeldisstöðva samkvæmt gjaldskrá sem sjávarútvegsráðherra setur og skal gjaldið miðast við raunkostnað við eftirlitið. Gjaldið skal innheimt með einni greiðslu á ári eigi síðar en 2. nóvember ár hvert.
Ef grunur leikur á að fiskur hafi sloppið af eldisstöð skal tilkynna Fiskistofu það án tafar. Jafnframt skal gefa upp hversu mikið af fiski má ætla að hafi sloppið og kynna aðgerðaáætlun til að hindra að meira af fiski sleppi og endurheimta það sem sloppið hefur.
Sleppi fiskur úr sjókví getur Fiskistofa heimilað eiganda eldisstöðvar að fanga fiskinn í þrjá daga eftir að þess varð vart að fiskur hafði sloppið. Leyfið spannar svæði innan 200 m frá þeirri eldiseiningu sem fiskurinn slapp frá. Fiskistofu skal heimilt að veita þetta leyfi þrátt fyrir almennt bann á svæðinu fyrir veiðum á viðkomandi tegundum eða með ákveðnum veiðarfærum.
Sjókvíar skulu merktar þannig að jaðar eldissvæðisins skal afmarka með blikkljósum í samræmi við sérmerkingar Alþjóða vitastofnunarinnar. Ljóseinkenni: Gult leiftur á 3ja til 5 sekúndna millibili. Dagmerkingar skulu vera gul flot. Hnit útmarka eldissvæðisins að legufærum meðtöldum, ásamt gerð merkinga skal senda Siglingastofnun Íslands til umsagnar hverju sinni.
Óviðkomandi er óheimilt að stunda veiðar nær merktu eldissvæði en 200 m.
Siglingar eru óheimilar óviðkomandi aðilum nær merktu eldissvæði en 100 m.
Sjávarútvegsráðherra getur veitt undanþágu frá einstökum ákvæðum reglugerðar þessarar ef gera á vísindalegar tilraunir tengdar fiskeldi.
Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum laga nr. 33/2002, um eldi nytjastofna sjávar.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 33, 16. apríl 2002, um eldi nytjastofna sjávar, með síðari breytingum til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.