Sauðfjárframleiðendur sem uppfylla skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu eiga rétt til sérstakra álagsgreiðslna úr ríkissjóði á árunum 2004-2007. Álagsgreiðslur skulu greiddar af uppkaupaálagi, sbr. 4. mgr. 38. gr. og af þeim fjármunum sem beingreiðslur lækka um samkvæmt 1. mgr. 39. gr. laga nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum með síðari breytingum.
Með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu er átt við framleiðslu sauðfjárafurða samkvæmt gæðakerfi Bændasamtaka Íslands sem landbúnaðarráðherra staðfestir. Gæðakerfið nær til eftirtalinna þátta: landnota, aðbúnaðar og umhverfis, sauðfjárskýrsluhalds, jarðræktar, fóðrunar, heilsufars og lyfjanotkunar. Gæðakerfið byggist á að skjalfesta framleiðsluaðferðir og framleiðsluaðstæður.
Framkvæmdanefnd búvörusamninga hefur yfirumsjón með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu en er heimilt að leita aðstoðar hjá öðrum aðilum varðandi tiltekna þætti gæðastýringarinnar.
Í reglugerð þessari er merking hugtaka sem hér segir:
1. | Auðnir, eru ógrónar eða mjög lítið grónar landgerðir (2-20% þekja háplantna) sem mótast af mörgum ferlum jarðvegsrofs; t.d. urðir, melar, sandar, sendnir melar, hraun, sendin hraun, áreyrar o.fl. |
2. | Álagsgreiðsla, er tiltekin fjárhæð sem greiðist á gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. |
3. | Ástand beitilands, er eiginleikar og samsetning gróðurs og jarðvegs í vistkerfi viðkomandi landsvæðis, í samanburði við það sem telja má eðlilegt miðað við náttúrulegar aðstæður og hóflega landnýtingu að mati Landgræðslu ríkisins. |
4. | Beitargnótt, er lítið eða mjög hóflegt beitarálag miðað við flatarmál og framleiðni gróðurs. |
5. | Beitarærgildi, er hér vetrarfóðruð kind. |
6. | Búfjáreftirlitsmaður, er starfsmaður sveitarfélags sem hefur eftirlit með ásetningi búfjár, aðbúnaði, fóðrun og beit á láglendi. |
7. | Einstaklingsmerking, er merking á hverri kind með númeri en jafnframt skal vera unnt að rekja merkinguna til bús. |
8. | Framleiðandi, er hér hver sá, sem á eigin vegum framleiðir sauðfjárafurðir, hvort sem er einstaklingur, lögaðili, aðili að félagsbúi eða ríkisbú. |
9. | Framleiðslueining, er bú með öllu því landi sem nýtt er til beitar og getur verið fleiri en ein jörð. |
10. | Gróðureinkunn, er einkunn sem gefur til kynna ástand gróðurs. |
11. | Gróðurflokkur, er gróðursamfélag sem hefur sérstaka eiginleika með tilliti til gróðursamsetningar og beitar. |
12. | Heimaland, er eignarland, þar sem hlutaðeigandi framleiðandi, eigandi eða ábúandi fer einn með nýtingarrétt. |
13. | Jarðvegsrof, er losun og flutningur jarðvegsefna eða yfirborðsefna sem hamlar eða getur hamlað vexti gróðurs eða getur komið í veg fyrir að gróður nemi land í yfirborði jarðvegs. |
14. | Landbótaáætlun, er áætlun sem felur í sér hvaða aðgerðir verði ráðist í til að uppfylla skilyrði beitarnýtingar. |
15. | Sjálfbær landnýting, miðar við að framleiðslugeta landsins sé nægileg og nýting innan þeirra marka að gróðurfar sé í jafnvægi eða framför að mati Landgræðslu ríkisins. |
16. | Stýriþættir, eru þættir sem gefa viðbótarupplýsingar um land og nýtingu þess og geta haft áhrif á niðurstöðu vottunar, svo sem vísitegundir beitarplantna, landgerð, hæð yfir sjávarmáli, halli lands, önnur landnýting o.fl. |
17. | Upprekstrarheimaland, er eignarland einnar eða fleiri jarða sem beitt eru sameiginlega. |
18. | Úthagi, er óræktað beitiland, heimalönd og afréttir. |
19. | Vísitegundir, eru plöntutegundir sem finnast í beitilandi og gefa til kynna þróun gróðurfars. |
Framleiðandi sem óskar eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu skal senda skriflega umsókn til búnaðarsambands á því svæði þar sem framleiðsla fer fram á eyðublöðum sem þar fást. Umsóknum skal skila eigi síðar en 30. júní ef framleiðandi óskar eftir álagsgreiðslum fyrir næsta almanaksár. Ef umsókn er vegna endurnýjaðrar þátttöku, sbr. 20. gr. er umsóknarfrestur til 15. desember.
Eftirfarandi upplýsingar skulu koma fram í umsókn:
a) | Nafn, kennitala og lögheimili framleiðanda. |
b) | Jörð eða jarðir sem framleiðandi nytjar. |
c) | Beitiland viðkomandi framleiðanda sem hann hefur til afnota, þar með talið heimaland, upprekstrarheimaland og afréttur. Tilgreina skal eins og kostur er þær jarðir sem eiga land innan upprekstrarheimalands. Gera skal grein fyrir friðuðu landi í úthaga, svo sem skógræktargirðingum. |
d) | Fjöldi vetrarfóðraðs sauðfjár, hrossa, nautgripa og geitfjár, sem framleiðandi beitir á úthaga, þar með talið gripir í hagagöngu. Einnig skal tilgreina beitartíma og fjölda búfjár framleiðanda í heimalandi, upprekstrarheimalandi og afrétti. |
e) | Upplýsingar um aðra aðila sem nýta beitarland framleiðanda. |
Búnaðarsambönd fara yfir umsóknir og senda þær til framkvæmdanefndar búvörusamninga. Hún heldur skrá yfir umsækjendur og aðila sem fengið hafa staðfest að þeir uppfylli skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Búnaðarsambönd skulu einnig senda Landgræðslu ríkisins allar upplýsingar úr umsóknum um beitarnýtingu einstakra framleiðenda.
Framleiðendur sem sótt hafa um að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu skulu sækja undirbúningsnámskeið sem framkvæmdanefnd búvörusamninga skipuleggur.
Framleiðendur sem óska eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu skulu skrá í gæðahandbók upplýsingar um framleiðsluaðferðir sínar, aðstæður og önnur atriði samkvæmt ákvæðum þessarar reglugerðar. Skráning skal hefjast í síðasta lagi 1. janúar 2004 eða fyrsta dag þess árs sem framleiðandi tekur upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.
Bændasamtök Íslands bera ábyrgð á útgáfu, viðhaldi og dreifingu gæðahandbókar. Í gæðahandbók skulu vera ítarlegar leiðbeiningar um hvaða upplýsingar eigi að skrá og hvernig það skuli gert. Við gerð gæðahandbókarinnar skal við það miðað að hún sé í flestu upplýsandi um aðstæður og aðferðir sem notaðar eru við framleiðsluna og að unnt sé að nota hana við ákvarðanatöku í rekstrinum og markaðssetningu á afurðunum.
Framleiðanda er skylt að einstaklingsmerkja allan fjárstofn sinn samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur með heimild í 17. gr. laga nr. 103/2002 um búfjárhald og skrá hann í skýrsluhaldskerfi Bændasamtaka Íslands. Lokaskil á skýrsluhaldi hvers árs skulu vera eigi síðar en 1. mars árið eftir. Bændasamtök Íslands annast útgáfu, viðhald og dreifingu skýrsluhaldsgagna og leggja fram leiðbeiningar um notkun þeirra. Miðað skal við að unnt sé að rekja uppruna og afdrif allra gripa í hjörðinni á einfaldan og öruggan hátt.
Auk einstaklingsmerkingar skal allt sauðfé eyrnamerkt eiganda sínum samkvæmt 63. gr. laga nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.
Framleiðanda er skylt að uppfylla almennar kröfur um húsaskjól og umhirðu fjárins í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 60/2000 um eftirlit með aðbúnaði og heilbrigði sauðfjár og geitfjár og eftirlit með framleiðslu kjöts og annarra afurða þeirra.
Framleiðandi skal skrá í gæðahandbók öll lyfjakaup fyrir sauðfjárbúið og sömuleiðis hvaða lyf eru notuð, í hve miklu magni og hve oft eða lengi. Þá skal skrá dagsetningar þegar einstakir gripir veikjast eða slasast svo og sjúkdómsgreiningu. Öll vanhöld skulu skráð og þess skal gætt að allar sjúkdóma- og lyfjaskráningar séu rekjanlegar til einstakra gripa í hjörðinni.
Framleiðandi skal skrá í gæðahandbók alla áburðarnotkun á búinu, bæði tilbúinn áburð og búfjáráburð. M.a. skal tilgreina áburðartíma, áburðartegund og áborið magn, eftir einstökum spildum. Um áburðarnotkun fer að öðru leyti eftir almennum reglum um mengunarvarnir og umhverfisvernd, sbr. ákvæði laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir með síðari breytingum.
Skrá skal í gæðahandbók alla fóðuröflun og fóðurnotkun á búinu, hvort sem um gróffóður eða kjarnfóður er að ræða. Leitast skal við að haga skráningu þannig að auðvelda megi gerð fóðuráætlana eftir fóðrunartímabilum.
Um mat á fóðurmagni, fóðurgæðum og fóðurþörfum fer eftir ákvæðum reglugerðar nr. 743/2002 um búfjáreftirlit o.fl.
Búfjáreftirlitsmenn annast árlegt eftirlit með skráningum í gæðahandbók samkvæmt reglugerð þessari. Uppfylli einstakir framleiðendur ekki þau skilyrði um gæðastýringu sem búfjáreftirlitsmenn hafa eftirlit með skal veittur að hámarki fjögurra vikna frestur til úrbóta ef ætla má að þeir geti bætt úr annmörkunum og uppfylli eftir þann tíma skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Frestur til úrbóta skal þó ekki veittur ef um vísvitandi ranga skráningu eða upplýsingagjöf er að ræða.
Bændasamtök Íslands skulu tilkynna framkvæmdanefnd búvörusamninga fyrir 1. júlí ár hvert hvaða framleiðendur hafa ekki staðist eftirlit með skráningum í gæðahandbók og lögbundið búfjáreftirlit eða hafa ekki skilað fullnægjandi sauðfjárskýrslum.
Landbúnaðarráðherra er heimilt að fela aðilum sem hlotið hafa faggildingu samkvæmt lögum nr. 100/1992 um vog, mál og faggildingu að annast framkvæmd eftirlitsþátta með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu.
Framleiðendur skulu hafa aðgang að nægu nýtanlegu beitilandi fyrir búfé sitt. Landnýting skal vera sjálfbær þannig að framleiðslugeta landsins sé nægileg og nýting innan þeirra marka að gróðurfar sé í jafnvægi eða framför að mati Landgræðslu ríkisins.
Landnýtingarþáttur gæðakerfisins tekur til alls lands sem viðkomandi framleiðandi á og/eða nýtir til beitar; heimalands, upprekstrarheimalands og afréttar. Skrá skal í gæðahandbók ítarlegar upplýsingar um fyrirkomulag beitar.
Landgræðsla ríkisins leggur mat á land framleiðenda sem óska eftir að taka upp gæðastýrða sauðfjárframleiðslu og staðfestir með tilkynningu til framleiðenda og framkvæmdanefndar búvörusamninga hvort framleiðendur uppfylli skilyrði um beitarnýtingu. Matið skal byggjast á stærð gróðurlendis og gerð þess, gróðurfari og framleiðni ásamt fyrirliggjandi gögnum um nýtingu og ástand, t.d. vegna rofs, uppblásturs o.fl., sbr. og 1. viðauka með reglugerð þessari.
Rísi ágreiningur um rétt umsækjanda til nýtingar á landi skal umsækjandi sýna Landgræðslu ríkisins fram á að hann hafi rétt til að nýta landið.
Landgræðsla ríkisins skal senda staðfestingu á að framleiðandi uppfylli skilyrði um beitarnýtingu til Bændasamtaka Íslands.
Telji Landgræðsla ríkisins að framleiðandi uppfylli ekki skilyrði um beitarnýtingu skal hún greina honum frá ástæðum þess og jafnframt kynna honum þau úrræði sem hann hefur með því að semja tímasetta landbótaáætlun sbr. 14. gr. reglugerðar þessarar. Sama gildir ef Landgræðsla ríkisins telur ástæðu til að afturkalla staðfestingu sem þegar hefur verið gefin út vegna þess að nýting hefur breyst eða ef í ljós kemur að nýting er umfram þol landsins.
Framleiðandi sem ekki uppfyllir skilyrði um beitarnýtingu samkvæmt 13. gr. getur óskað eftir að unnin verði tímasett landbótaáætlun þar sem úrbóta er þörf og getur hún tekið til allt að 10 ára. Landgræðsla ríkisins staðfestir hvort landbótaáætlun stenst viðmiðunarkröfur. Landbótaáætlun er því aðeins gild að hún hljóti staðfestingu Landgræðslu ríkisins.
Ef vinna þarf landbótaáætlun til þess að uppfylla skilyrði um landnýtingu gilda eftirfarandi reglur:
• | Framleiðandi skal vinna, eða láta vinna, landbótaáætlun fyrir eigið heimaland. |
• | Landbótaáætlun fyrir upprekstrarheimaland skal unnin af hlutaðeigandi framleiðanda og landeigendum. |
• | Landbótaáætlun fyrir afrétti skal unnin í samstarfi viðkomandi bænda, Landgræðslu ríkisins, sveitarstjórnar, fjallskilastjórnar og búnaðarsambands. |
Landgræðsla ríkisins hefur eftirlit með að landbótaáætlun eða landnýtingaráætlun sé fylgt.
Framleiðandi sem ekki uppfyllir skilyrði um landnýtingu og hefur ekki fengið staðfestingu Landgræðslu ríkisins á landbótaáætlun eða landnýtingaráætlun innan fimm mánaða frá því að Landgræðsla ríkisins gerði skriflegar athugasemdir við landnýtingu til framleiðanda uppfyllir ekki skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Sama gildir ef framleiðandi fylgir ekki áður staðfestri landbótaáætlun eða landnýtingaráætlun. Landgræðsla ríkisins skal senda skriflega tilkynningu um það til framkvæmdanefndar búvörusamninga og framleiðanda. Berist tilkynning síðar en 15. febrúar leiðir hún þó ekki til þess að álagsgreiðslur vegna gæðastýringar falli niður það almanaksár.
Framkvæmdanefnd búvörusamninga tilkynnir umsækjanda hvort hann uppfyllir skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu fyrir 31. júlí ár hvert. Skal framkvæmdanefndin byggja tilkynningu sína á staðfestingu Bændasamtaka Íslands um búfjáreftirlit, sauðfjárskýrslum og skráningum í gæðahandbók, sbr. 7.-12. gr. reglugerðar þessarar, svo og á staðfestingu Landgræðslu ríkisins varðandi beitarnýtingu, sbr. 13.-14. gr. reglugerðar þessarar.
Framleiðandi heldur staðfestingu á að framleiðsla hans sé gæðastýrð sauðfjárframleiðsla á milli ára, án umsóknar, svo lengi sem hann uppfyllir skilyrði um gæðastýrða framleiðslu og óskar ekki sjálfur eftir að staðfestingin verði felld niður.
Álagsgreiðslur fyrir gæðastýrða sauðfjárframleiðslu geta að hámarki numið 100 kr. á hvert kg dilkakjöts miðað við verðlag 1. mars 2000. Hámarksfjárhæð álagsgreiðslna breytist eftir það í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs.
Framleiðendur sem hljóta staðfestingu framkvæmdanefndar búvörusamninga á að þeir uppfylli skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu, sbr. 15. gr. fá greiddar álagsgreiðslur úr ríkissjóði á árunum 2004-2007, sbr. 1. gr.
Bændasamtök Íslands halda skrá yfir rétthafa álagsgreiðslna. Á hverju lögbýli skal aðeins einn framleiðandi vera skráður rétthafi. Þó er heimilt þegar um fleiri sjálfstæða rekstraraðila er að ræða sem standa að búinu, að skrá þá sérstaklega. Sjálfstæður rekstraraðili telst sá einn sem hefur sjálfstætt virðisaukaskattsuppgjör.
Bændasamtök Íslands annast uppgjör álagsgreiðslna til rétthafa.
Álagsgreiðslur greiðast eigi síðar en 25. nóvember og 20. desember ár hvert. 95% af álagsgreiðslum vegna framleiðslu í mánuðunum janúar til október skulu greiðast eigi síðar en 25. nóvember og 95% af álagsgreiðslum vegna framleiðslu í nóvember skulu greiðast eigi síðar en 20. desember. Lokauppgjör skal fara fram eigi síðar en 10. febrúar ár hvert.
Rétthafar álagsgreiðslna skulu láta Bændasamtökum Íslands í té upplýsingar um sérstakan reikning í banka eða öðrum viðskiptastofnunum, sem greiðslur skulu lagðar inn á.
Réttur til álagsgreiðslna fellur því aðeins niður að framleiðandi uppfylli ekki lengur skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Skal framkvæmdanefnd búvörusamninga tilkynna framleiðanda eigi síðar en 31. júlí ár hvert ef réttur hans fellur niður það almanaksár. Missi framleiðandi rétt til álagsgreiðslna getur hann fyrst öðlast slíkan rétt á næsta almanaksári, eftir endurnýjun umsóknar.
Landbúnaðarráðherra skipar úrskurðarnefnd til tveggja ára í senn til að leysa úr ágreiningi um hvort einstakir framleiðendur uppfylla skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu. Í nefndinni eiga sæti þrír menn, einn skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður nefndarinnar, einn samkvæmt tilnefningu Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og einn samkvæmt tilnefningu Landbúnaðarháskólans á Hvanneyri. Varamenn skulu skipaðir með sama hætti.
Úrskurðarnefnd skal afgreiða mál eins fljótt og unnt er. Hafi nefndin ekki úrskurðað í ágreiningsmáli fyrir 15. október ár hvert heldur framleiðandi rétti til álagsgreiðslna það árið.
Kostnaður af störfum nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.
Brot gegn reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Með mál út af brotum skal farið sem opinber mál.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, öðlast þegar gildi og gildir til og með 31. desember 2007.
Meginviðmiðun við ákvörðun um nýtingu heimalanda og afrétta er að nýtingin sé sjálfbær þannig að framleiðslugeta landsins sé nægileg og nýting innan þeirra marka að gróðurfar sé í jafnvægi eða framför. Matsreglur byggjast einkum á mati á stærð gróðurlendis og gerð þess, gróðurfari og framleiðni ásamt fyrirliggjandi gögnum um nýtingu og ástand, t.d. vegna jarðvegsrofs, uppblásturs o.fl. Nýtanlegt beitiland skal vera í viðunandi ástandi með tilliti til framangreindra matsþátta. Miðað skal við að auðnir og rofsvæði verði ekki nýtt til beitar og að gerðar verði tímasettar framkvæmda- og fjárhagsáætlanir um úrbætur eftir því sem við á.
Staðfesting á landnotum miðar við ástand landsins þegar matið fer fram, en stýriþættir, t.d. vísitegundir, þróun gróðurfars og önnur landnýting, eru einnig hafðir til hliðsjónar.
1. tafla. Kvarði fyrir ástand lands. Miðað við jarðvegsrof, gróðurflokka og ástandsflokka.
Einkunn, ástand | Jarðvegsrof | Ástand gróðurs – lýsing |
A Ágætt – Gott | Ekkert rof Lítið rof |
Ágætt – heil, oftast uppskerumikil þekja Gott – heil gróðurþekja, lítið um rofdíla. Mikið af góðum beitartegundum í sverði. |
B Viðunandi | Lítið eða nokkurt rof | Talsvert af góðum beitarplöntum í sverði. Lítið um rofdíla í þekju. |
C Rýrt | Nokkurt rof | Lítið um góðar beitartegundir eða lélegar beitartegundir eða beitarfælnar plöntur ráðandi. Eða allmikið um rofdíla. |
D Slæmt | Talsvert rof | Ofnýtt land eða mikið um rofdíla í gróðurþekju. Rofsvæði og auðnir. |
E Mjög slæmt | Mikið rof Mjög mikið rof |
Ekki beitarhæft. Mjög rýrt gróðurfar, lélegar beitarplöntur eða beitarfælnar plöntur ríkjandi, og jafnmikið rof og skv. D eða meira í sverði. Landrýrnun ráðandi ferli. Sandauðnir og mellönd. |
Eftirfarandi reglur gilda um ástand heimalanda:
Land er flokkað í 10 gróðurflokka. Þeir eru ræktað land, kjarr- og skóglendi, graslendi, votlendi, hálfdeigja, ríkt mólendi, rýrt mólendi, mosavaxið land, hálfgróið land og lítt gróið land. Hver þessara flokka fær gróðureinkunn sem þó getur breyst við nánari skoðun á landinu, sbr. 2. töflu. Hlutfall lands með hverja einkunn er síðan reiknað út fyrir hverja framleiðslueiningu. Land sem ekki er nýtt til beitar er undanskilið í útreikningum.
2. tafla. Einkunnir fyrir gróðurflokka.
Gróðureinkunn
|
|||||
Gróðurflokkur |
A
|
B
|
C
|
D
|
E
|
Votlendi |
X
|
-
|
-
|
o
|
o
|
Hálfdeigja |
X
|
-
|
-
|
-
|
o
|
Kjarrgróður og skóglendi |
X
|
-
|
-
|
-
|
o
|
Ræktað land |
X
|
-
|
-
|
o
|
o
|
Graslendi / blómlendi |
-
|
X
|
-
|
-
|
-
|
Ríkt mólendi |
-
|
X
|
-
|
-
|
o
|
Rýrt mólendi |
-
|
-
|
X
|
-
|
-
|
Mosavaxið land |
o
|
-
|
X
|
-
|
-
|
Hálfgróið land |
o
|
-
|
-
|
X
|
-
|
Lítið gróið land, auðnir |
o
|
o
|
-
|
-
|
X
|
X: gefið gildi fyrir nánari skoðun skv. gögnum um stærð gróðurlendis og gerð þess, gróðurfar og framleiðni.
- : möguleg einkunn
o: ólíkleg einkunn
Upprekstrarheimaland.
Til að nýting upprekstrarheimalands fái staðfestingu Landgræðslu ríkisins þarf að vera sátt meðal allra eigenda viðkomandi landsvæðis um nýtinguna og er gengið út frá því að svo sé nema skriflegar athugasemdir hafi verið gerðar. Hver sá sem á hagsmuna að gæta getur gert athugasemdir við nýtinguna og skulu þá eigendur landsins ná samkomulagi um nýtingu þess. Athugasemdum skal komið skriflega á framfæri við Landgræðslu ríkisins, sem tilkynnir framkvæmdanefnd búvörusamninga um stöðu mála.
Staðfesta má nýtingu upprekstrarheimalanda samliggjandi jarða í heild, enda sé nýtingin ágreiningslaus.
Til að nýting heimalands og upprekstrarheimalands fái staðfestingu án frekari skoðunar þarf það að lenda ofan viðmiðunarmarka miðað við fyrirliggjandi gögn um stærð gróðurlendis og gerð þess, gróðurfar og framleiðni. Viðmiðunarmörk byggjast annars vegar á ástandi lands m.t.t. ástandseinkunnar og hins vegar beitargnótt, sem er lítið eða hóflegt beitarálag á viðkomandi landi miðað við flatarmál gróðurflokka (3. tafla). Beitarþungi er fundinn út frá bústofnsupplýsingum, m.a. fyrir sauðfé, hross og nautgripi, sem ganga í úthaga. Einnig er stuðst við önnur fyrirliggjandi gögn um ástand og nýtingu landsins. Sé landið undir viðmiðunarmörkum þarf að skoða það frekar m.t.t. stýriþátta og hugsanlegra landbóta.
3. tafla. Viðmiðunarmörk fyrir beitargnótt, heimalönd neðan 400 m.
Beitargnótt
Ha/beitar ærgildi |
|
Graslendi/blómlendi, hálfdeigja, ræktað land (endurvöxtur) |
2,5
|
Kjarrgróður og skóglendi, ríkt mólendi, votlendi |
4,0
|
Rýrt mólendi |
8,0
|
Mosi, hálfgróið, lítið gróið land |
¥
|
Þar sem beitarþungi á beitilandi framleiðanda er umtalsvert meiri en beitargnótt þarf að skoða land frekar óháð ástandi sem reiknað er af kortum (2. tafla). Þar sem beitarþungi er minni en beitargnótt þarf ekki að skoða land frekar nema þar sem lokaeinkunn E (mjög slæmt ástand ) er >5% af beitilandi eða niðurstöður gróðureftirlits gefa vísbendingu um að skoðunar sé þörf.
4. tafla. Viðmiðunarmörk fyrir ástand heimalanda og upprekstrarheimalanda.
Lokaeinkunn E
Rof og ástand gróðurs |
D+E
Rof og ástand gróðurs |
Lítið gróið land, auðnir
|
|
Staðfest með eða án skoðunar |
<5%
|
<33%
|
<10%
|
Frekari skoðun – landbóta þörf eða staðfesting án skilyrða |
5-15%
hámark 40 ha |
33-66%
hámark 280 ha |
10-20%
hámark 80 ha |
Landbótaáætlun nauðsynleg |
>15%
|
>66%
|
>20%
|
Ávallt verður að skoða land frekar þar sem lokaeinkunn E er >5%.
Afréttir.
Ástand afrétta er metið með hliðsjón af útbreiðslu og ástandi gróðurs, jarðvegsrofi og hlutfalli auðna. Þar sem ástand beitilands á afrétti telst neðan ásættanlegra viðmiðunarmarka skal liggja fyrir áætlun um landbætur.
Afréttir sem þurfa frekari skoðunar við skulu skoðaðir af Landgræðslu ríkisins og nýtingaraðilum m.t.t. nauðsynlegra úrbóta. Þá skal gætt að stýriþáttum s.s. vísitegundum beitarplantna, hæð yfir sjávarmáli, halla lands, annarri landnýtingu o.fl. sem getur haft áhrif á niðurstöðu. Þar sem þörf er á úrbótum verður að gera landbótaáætlun og vinna eftir henni. Slík áætlun skal unnin í samstarfi Landgræðslu ríkisins, viðkomandi bænda, sveitarstjórnar, fjallskilastjórnar og búnaðarsambands.
5. tafla. Viðmiðunarmörk fyrir ástand beitilands á afréttum.
Lokaeinkunn E
Rof og ástand gróðurs |
Lokaeinkunn D+E
Rof og ástand gróðurs |
Auðnir
|
|
Staðfesting með eða án skoðunar |
<5%
|
<50%
|
<33%
|
Frekari skoðun – landbóta þörf eða staðfesting án skilyrða |
5-15%
|
50-66%
|
33-75%
|
Landbótaáætlun nauðsynleg eða friðun í lok aðlögunartíma (afréttur ekki hæfur til sauðfjárbeitar). |
>15%
|
>66%
|
>75%
|
Landbætur geta falist í t.d.:
• | fækkun fjár, |
• | breyttum beitartíma, |
• | uppgræðslu, |
• | smölun á viðkvæmum svæðum utan hefðbundins smölunartíma, |
• | friðun viðkvæmra svæða, |
• | afmörkun gróins beitilands, |
• | markvissri förgun fjár sem gengur á óbeitarhæfum svæðum, |
• | friðun afréttar í lok aðlögunartíma. |
Sveitarstjórn og/eða fjallskiladeild getur sett reglur í samræmi við lög nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. með síðari breytingum, til að tryggja staðfestingu landnýtingar á viðkomandi afrétti. Sama mat á afrétti gildir fyrir alla þá sem nýta hann. Heimilt er að beita ákvæðum um ítölu sbr. lög nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl. með síðari breytingum.
Þar sem úrbætur felast í fækkun fjár á afrétti leggur Landgræðsla ríkisins til að stuðst verði við útreiknaða beitargnótt heimalanda til að áætla hlutdeild hvers framleiðanda í fækkuninni. Ef ekki taka allir notendur þátt í fækkunaraðgerðum þarf heildarfjöldi að lokinni fækkun að vera innan 15% fráviks frá útreiknaðri beitargnótt afréttarins.
Nýting afrétta sem einkennast fyrst og fremst af auðnum og/eða rofsvæðum, sbr. 5. töflu, getur fengið tímabundna staðfestingu til 10 ára, ef þar er unnið samkvæmt tímasettri áætlun um friðun afréttar á meðan annarra úrlausna er leitað, svo sem að skapa beit á öðrum stöðum, t.d. með uppgræðslu í heimalöndum.
Þar sem eru samfelld nýtanleg gróðurlendi á lítt grónum eða illa förnum afrétti geta landbætur falist í afmörkun þessara beitarhæfu svæða sé slíkt talið framkvæmanlegt að mati nýtingaraðila og Landgræðslu ríkisins. Fyrir slík svæði er fundin beitargnótt og áætlaður sá fjöldi búfénaðar sem þar gæti gengið í tiltekinn tíma.