1. gr.
Við slátrun skal þess ávallt gætt, að skepnan sé meðvitundarlaus, áður en henni er látið blæða með skurði eða hjartastungu.
Enga skepnu má því deyða með hálsskurði, mænustungu né hjartastungu, hvorki við heimaslátrun eða í sláturhúsi.
2. gr.
Hross, nautgripi og svín skal deyða með skotvopni, sauðfé og geitfé annað hvort með skotvopni eða helgrímu.
Hunda, ketti og loðdýr skal deyða með skoti eða svæfingu samkvæmt fyrirsögn dýralæknis.
Alifugla skal deyða með því að hálshöggva þá með beittri öxi eða með skotvopni.
3. gr.
Ef lóga verður skepnu án tafar vegna banvænna lemstra eða sjúkdóms, er þó heimilt að víkja frá ofangreindum ákvæðum, ef eigi er annars kostur.
4. gr.
Þegar búfé er slátrað skal þess gætt, að ein skepnan horfi eigi á slátrun annarrar og að þær skepnur, sem til slátrunar eru leiddar, sjái ekki þær, sem þegar hefur verið slátrað.
Skal í sláturhúsum vera sérstakur banaklefi.
5. gr.
Eigi mega aðrir deyða búfé en fullveðja og samvizkusamir menn, sem kunna að fara með þau áhöld, sem heimilt er að nota við deyðingu.
Börn innan 14 ára aldurs mega ekki vera við eða aðstoða við deyðingu búfjár, t. d. hræra í blóði, blóðga o. þ. h.
6. gr.
Um mál út af brotum á reglugerð þessari og refsingar fyrir þau fer samkvæmt 21. gr. laga um dýravernd, nr. 21 13. apríl 1957.
7. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 21 13. apríl 1957, öðlast þegar gildi.
Jafnframt eru úr gildi felldar reglur nr. 63 frá 31. ágúst 1923, um aflífun húsdýra, slátrun búpenings og fleira.
Menntamálaráðuneytið, 23. september 1957.
F. h. r.
Birgir Thorlacius.
______________
Ásgeir Pétursson.