1. gr.
Markmið.
Reglugerð þessari er ætlað að tryggja dýraeigendum nauðsynlega almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu við dýr á landsvæðum þar sem fjöldi dýra er takmarkaður og/eða verkefni dýralækna eru af skornum skammti.
Til að tryggja framangreint skal dýralæknum sem starfa á slíkum landsvæðum tryggð skv. reglugerð þessari greiðsla vegna starfa þeirra á hlutaðeigandi landsvæðum og til að koma upp starfsaðstöðu.
2. gr.
Þjónustusvæði.
Þeim landsvæðum sem falla undir reglugerðina er skipt upp eftir þjónustusvæðum og eru:
Þjónustusvæði 1:
Eyja- og Miklaholtshreppur, Snæfellsbær, Grundafjarðarbær, Helgafellssveit og Stykkishólmsbær.
Þjónustusvæði 2:
Dalabyggð, Reykhólahreppur, Strandabyggð, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur og fyrrum Bæjarhreppur.
Þjónustusvæði 3:
Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur.
Þjónustusvæði 4:
Húnaþing vestra (nema fyrrum Bæjarhreppur), Húnavatnshreppur, Blönduósbær, Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagaströnd.
Þjónustusvæði 5:
Þingeyjarsveit (nema Fnjóskadalur), Skútustaðahreppur, Tjörneshreppur og Norðurþing (vestan Blikalónsdals og Hófaskarðs).
Þjónustusvæði 6:
Norðurþing (austan Blikalónsdals og Hófaskarðs), Svalbarðshreppur, Langanesbyggð og Vopnafjarðarhreppur.
Þjónustusvæði 7:
Fljótsdalshérað, Fljótsdalshreppur, Borgarfjarðarhreppur, Seyðisfjarðarkaupstaður, Fjarðabyggð, Fáskrúðsfjörður, Stöðvarfjörður og Djúpavogshreppur (norður af Djúpavogi).
Þjónustusvæði 8:
Sveitarfélagið Hornafjörður og Djúpavogshreppur (Djúpivogur og suður af honum).
Þjónustusvæði 9:
Skaftárhreppur og Mýrdalshreppur.
3. gr.
Þjónustusamningar.
Matvælastofnun er heimilt að gera þjónustusamninga við sjálfstætt starfandi dýralækna um að þeir sinni almennri dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu við dýr á þjónustusvæðum, sbr. 2. gr. Í samningum skal kveðið á um réttindi og skyldur dýralækna, s.s. varðandi almenna starfshætti, endurgjald fyrir veitta þjónustu samkvæmt þjónustusamningi, viðveru, starfsaðstöðu, afleysingar og samstarf innan sama þjónustusvæðis og milli svæða. Þá skal kveðið á um hvernig standa skuli að uppsögn og endurskoðun samninga.
Þjónustusamningur skv. 1. mgr. skal aðeins gerður að undangenginni opinberri auglýsingu og skal gera ráð fyrir staðaruppbót samkvæmt þjónustusamningi fyrir veitta þjónustu dýralækna á hverju þjónustusvæði. Heimilt er að semja við fleiri en einn dýralækni innan sama þjónustusvæðis. Staðaruppbót samkvæmt þjónustusamningi er sama fjárhæð fyrir alla dýralækna í fullu starfi og í réttu hlutfalli í hlutastarfi.
Hafi ekki tekist að tryggja almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu á tilteknu þjónustusvæði með auglýsingu skv. 2. mgr. er Matvælastofnun heimilt að semja við dýralækni á þjónustusvæðinu, nærliggjandi svæði eða sama vaktsvæði dýralækna, sbr. 12. gr. laga nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, um að taka að sér þjónustu skv. reglugerð þessari. Í slíkum tilvikum er Matvælastofnun heimilt að víkja frá ákvæðum 4. gr. um staðsetningu starfsstöðvar og skal þá taka tillit til þess við mat á hvað telst hæfilegur viðbragðstími skv. 4. gr. reglugerðarinnar. Slíkur þjónustusamningur skal vera tímabundinn og vera að hámarki til eins árs og skal þá auglýst að nýju.
4. gr.
Starfsstöð.
Dýralæknir sem gerir þjónustusamning skv. 3. gr. skal vera með eða hafa aðgang að starfsstöð innan hlutaðeigandi þjónustusvæðis til að tryggja eftir föngum að dýraeigendur fái ávallt dýralækna- og bráðaþjónustu innan hæfilegs tíma. Ákvæði þetta kemur þó ekki í veg fyrir að dýralæknir geti sinnt þjónustu á fleiri en einu þjónustusvæði. Jafnframt er öðrum dýralæknum, en þeim sem Matvælastofnun hefur gert þjónustusamning við, heimilt að sinna dýralæknaþjónustu á þeim þjónustusvæðum sem tilgreind eru í 2. gr.
5. gr.
Endurskoðun.
Matvælastofnun skal með reglubundnum hætti endurmeta þörf fyrir þjónustu skv. reglugerð þessari á einstökum svæðum og er stofnuninni heimilt að segja upp þjónustusamningi ef stofnunin telur tryggt að fullnægjandi almenn dýralæknaþjónusta og bráðaþjónusta verði til staðar á viðkomandi þjónustusvæði.
Við endurskoðun á því hvort nauðsynleg dýralæknaþjónusta eða bráðaþjónusta sé á tilteknu þjónustusvæði skal hafa hliðsjón af fjölda sjálfstætt starfandi dýralækna á viðkomandi þjónustusvæði og/eða fjölda verkefna fyrir starfandi dýralækna.
6. gr.
Gildistími.
Reglugerð þessi er sett með stoð í 13. gr. laga nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr og öðlast þegar gildi. Frá sama tíma fellur reglugerð nr. 846/2011 um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum úr gildi.
Ákvæði til bráðabirgða.
Þjónustusamningar skv. reglugerð þessari skulu gilda frá 1. maí 2020 með þeirri undantekningu að fram til 1. desember 2020 skal þjónustusvæðum vegna svæða 7 og 8 skipt upp í þrjú svæði, a) þjónustusvæði sem tekur til Fljótsdalshéraðs, Fljótsdalshrepps, Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Fjarðabyggðar (nema Fáskrúðsfjarðar, Stöðvarfjarðar og fyrrum Breiðdalshrepps), b) þjónustusvæði sem tekur til Fáskrúðsfjarðar, Stöðvarfjarðar, fyrrum Breiðdalshrepps og Djúpavogshrepps, og c) þjónustusvæði sem tekur til Sveitarfélagsins Hornafjarðar.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 29. apríl 2020.
Kristján Þór Júlíusson
sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Elísabet Anna Jónsdóttir.