1. gr.
Á eftir 7. gr. koma fjórar nýjar greinar 7. gr. a, b, c og d:
7. gr. a.
Bann við dreifingu á ógerilsneyddri mjólk.
Í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 853/2004/EB, með síðari breytingum, gilda eftirfarandi ákvæði um setningu hrámjólkur og hrárjóma, sem dreifa á beint til manneldis, á markað:
Mjólk sem dreift er til neytenda, skal vera gerilsneydd og pakkað í neytendaumbúðir. Mjólkurvörur skulu unnar úr gerilsneyddri mjólk.
Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að dreifa ógerilsneyddri broddmjólk. Vottorð Matvælastofnunar skal fylgja hverri sendingu og liggja fyrir á sölustað til staðfestingar. Broddmjólkinni skal pakka í nýjar einnota neytendaumbúðir, sem eru þannig gerðar að þær komi í veg fyrir að hún spillist með einhverjum hætti. Broddmjólkina skal frysta strax eftir pökkun og ber að tryggja að hún haldist frosin (við a.m.k. -18°C) frá því hún fer frá framleiðanda uns sala fer fram. Merkja skal umbúðir með pökkunardegi, "best fyrir" dagsetningu, nafni framleiðanda, framleiðslustað, auk annarra merkingarskyldra atriða samkvæmt reglugerð nr. 588/1993 um merkingu, kynningu og auglýsingu matvæla.
7. gr. b.
Meðferð mjólkur hjá frumframleiðendum.
Þrátt fyrir ákvæði reglugerðar nr. 853/2004/EB, með síðari breytingum gildir eftirfarandi:
Mjólk skal kæld niður í 2-4°C svo fljótt sem unnt er að loknum mjöltum og geymd við það hitastig.
Mjólk, sem kæld er í kæligeymi í mjólkurhúsi framleiðanda og er ætluð til manneldis, má ekki vera eldri en 78 klst. þegar hún berst mjólkurstöð. Ef gerilskerðing eða gerilsneyðing hennar dregst lengur en 4 klst. skal mjólkin kæld niður fyrir 4°C strax og hún berst viðkomandi mjólkurstöð og skal það hitastig hennar haldast þar til hún verður gerilskert eða gerilsneydd. Víkja má frá ákvæðum um hámarksgeymslutíma mjólkur þegar sérstaklega stendur á, svo sem vegna ófærðar eða náttúruhamfara.
Eigi má dæla mjólk úr geymi í mjólkurhúsi í flutningageyma nema hitastig hennar sé undir 6°C. Meðan á flutningi stendur má hitastig mjólkur ekki fara yfir 6°C í flutningageymum.
7. gr. c.
Framleiðsla og dreifing.
Mjólkurstöðvar skulu tvisvar á ári láta framkvæma sýklagreiningu á innleggsmjólk hvers framleiðanda í þeim tilgangi að leita að keðjusýklum af flokki B (Streptococcus agalactive). Þegar þessi sýkill greinist í mjólk framleiðanda skal tilkynna það mjólkurframleiðanda og Matvælstofnun og skulu gerðar sérstakar ráðstafanir til útrýmingar honum.
Óheimilt er að tvígerilsneyða mjólk sem selja skal sem neyslumjólk nema til komi sérstakt leyfi Matvælastofnunar. Heimilt er að tvígerilsneyða rjóma og undanrennu og skal síðari hitunin ávallt vera við hærra hitastig.
Heimilt er að gerilskerða mjólk í mjólkurstöð til þess að auka geymsluþol hennar ef geyma þarf mjólkina lengur en 48 klst. eftir móttöku áður en gerilsneyðing hennar, vinnsla og pökkun hefst. Strax að lokinni gerilsneyðingu skal kæla mjólkina niður fyrir 4°C og geyma hana þannig. Þar sem gerilskerðingu verður ekki viðkomið er Matvælastofnun heimilt að leyfa tvígerilsneyðingu ef geyma þarf mjólkina lengur en 48 klst. áður en síðari gerilsneyðing, vinnsla og pökkun hefst. Gerilskerðing eða gerilsneyðing skal fara fram í mjólkurstöð innan 48 klst. frá móttöku mjólkurinnar.
7. gr. d.
Lágmarkskröfur um mjólkurgæði.
Sýni til rannsókna skulu vera af kældri mjólk, sem tekin hafa verið úr kæligeymi mjólkurframleiðanda. Séð skal til þess að sýnin berist rannsóknarstofu eins fljótt og kostur er, að þau séu óskemmd og í þannig ástandi að gæðum mjólkurinnar sé rétt lýst.
Mjólk frá framleiðanda skal uppfylla eftirfarandi staðla:
a) |
Líftala örvera með BactoScan aðferð eða líftölumælingu: |
|
BactoScan aðferð ≤ 600.000 einingar/ml. |
||
Líftala í ml við 30°C í 72 klst. ≤ 100.000* (* Hlaupandi faldmeðaltal á tveggja mánaðar tímabili þar sem tekin eru a.m.k. tvö sýni á mánuði). |
||
b) |
Frumutala með Fossomatic (eða aðrar aðferðir, sem eru sambærilegar og viðurkenndar): |
|
Frumutala ≤ 400.000 frumur/ml ** (** Hlaupandi faldmeðaltal á þriggja mánaða tímabili þar sem tekið er a.m.k. eitt sýni á mánuði nema eftirlitsaðili tilgreini aðra aðferð þar sem tekið er tillit til árstíðarbundinna magnsveiflna í framleiðslunni). |
2. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt heimild í 18. og 31. gr. a laga nr. 93/1995 um matvæli, með síðari breytingum og öðlast þegar gildi.
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, 18. október 2012.
Steingrímur J. Sigfússon.
Sigurgeir Þorgeirsson.