1. gr.
5. gr. orðist svo:
Fiskistofa skal sjá um framkvæmd skipta sbr. 6. og 7. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006 með síðari breytingum og annast skiptimarkað fyrir aflamark.
Við framkvæmd skiptimarkaðar skal Fiskistofa auglýsa hverju sinni eftir tilboðum í það magn aflamarks sem ráðherra ákveður. Auglýsa skal eftir tilboðum í tiltekið magn aflamarks í einstakri tegund í skiptum fyrir aflamark í einni af eftirfarandi tegundum: Þorski, ýsu, ufsa og steinbít, svo lengi sem aflamark er til ráðstöfunar. Fiskistofa hefur heimild til að binda tilboð við tiltekna tegund til að ná markmiðum 2. ml. 2. mgr. 4. gr.
Fiskistofa skal auglýsa eftir tilboðum eigi síðar en 10. hvers mánaðar, frá og með 10. október til og með 10. júlí. Tilboð skulu berast Fiskistofu fyrir kl. 16.00 sjö dögum frá birtingu auglýsingar á heimasíðu Fiskistofu. Þegar tilboð berst Fiskistofu er það bindandi fyrir aðila. Þó er aðila heimilt að afturkalla tilboð sitt enda berist afturköllunin Fiskistofu áður en tilboðsfrestur er liðinn. Fiskistofu er einungis heimilt að veita upplýsingar um tilboð eftir að tilboðsfrestur er liðinn og skal þá birta upplýsingarnar á heimasíðu Fiskistofu. Birta skal einungis upplýsingar um samþykkt tilboð.
Fiskistofa ákveður form tilboða. Í tilboði skal tilgreina magn þeirrar tegundar sem boðið er í og magn þeirrar tegundar sem boðin er í skiptum, svo og önnur atriði sem Fiskistofa ákveður. Tilboð og eftir atvikum afturköllun tilboðs skal vera undirritað af eiganda og útgerðaraðila skips.
Fiskistofa skal samþykkja það tilboð sem hæst er. Ef hæstu tilboð eru jöfn skal magni skipt hlutfallslega á milli tilboðsgjafa. Ef hæsta tilboð er aðeins í hluta þess magns sem í boði er skal það samþykkt. Síðan skal næst hæsta tilboðið samþykkt, þar til því aflamarki sem var í boði hefur verið ráðstafað. Fiskistofa getur hafnað tilboðum þegar hlutfall magns tegunda er lægra en 20% af hlutfalli verðmæti aflamarks tegundanna. Miða skal í þessu sambandi við meðalverð beggja tegunda í viðskiptum með aflamark, sem birt er á vef Fiskistofu, undanfarinn mánuð eða eftir atvikum síðasta mánuð sem viðskipti voru með tegund.
Ef aflamark í þorski, ýsu, ufsa eða steinbít, sem látið hefur verið í skiptum, er umfram það aflamark sem innheimta skal er heimilt að bjóða þær tegundir á skiptimarkaði.
Frá og með 16. september til og með 30. september stendur hverju skipi til boða það aflamark sem það lagði af mörkum vegna frádráttar samkvæmt 2. og 3. mgr. 4. gr. í skiptum fyrir þorsk og steinbít enda séu skiptin jöfn í þorskígildum talið.
Aflamark sem látið er í skiptum telst ekki flutt af skipi í skilningi 15. gr. laga um stjórn fiskveiða nr. 116/2006, með síðari breytingum.
2. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er skv. ákvæðum laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, tekur þegar gildi.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 9. september 2011.
Jón Bjarnason.
Indriði B. Ármannsson.