1. gr.
Allar veiðar íslenskra skipa á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski eru óheimilar nema að fengnu leyfi Fiskistofu. Ákvæði reglugerðar þessarar taka til veiða á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski á samningssvæði Atlantshafs túnfiskveiðiráðsins (ICCAT), þar með talið hafsvæði utan lögsögu ríkja og enn fremur innan lögsagna þar sem íslensk skip hafa rétt til veiða samkvæmt samningum eða sérstökum veiðileyfum.
Leyfisveitingin er bundin við þau skip sem sækja um aflaheimildir á bláuggatúnfiski til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins innan frests sem auglýstur er í upphafi árs.
Leyfi til bláuggatúnfiskveiða skulu gefin út fyrir hvert almanaksár en ráðherra er heimilt að fela Fiskistofu að fella úr gildi öll leyfi til bláuggatúnfiskveiða sé talin ástæða til að takmarka veiðarnar frekar eða endurskipuleggja stjórnun þeirra.
2. gr.
Á árinu 2010 er íslenskum skipum heimilt að veiða 30 tonn af bláuggatúnfiski miðað við afla upp úr sjó. Aflaheimildum skal skipt jafnt á milli skipa.
Bláuggatúnfiskveiðar er einungis heimilt að stunda á línu.
3. gr.
Veiðar á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski á línu eru heimilar frá 1. ágúst 2010 til ársloka á veiðisvæðinu norðan 42°00,00´ N milli 10°00,00´ V og 45°00,00´ V.
4. gr.
Skipstjórar skulu skrá í afladagbækur sem Fiskistofa og Hafrannsóknastofnunin leggja til, nákvæmar upplýsingar um veiðarnar í því formi sem skýrslurnar gera ráð fyrir og skila til Fiskistofu þegar skip kemur næst til hafnar eftir að hafa stundað veiðar samkvæmt reglugerð þessari.
Veiðar á bláuggatúnfiski í landhelgi Íslands í tómstundum eða til eigin neyslu skal tilkynna til Fiskistofu eigi síðar en við löndun.
5. gr.
Þau íslensku fiskiskip sem leyfi hafa fengið til að stunda veiðar á samningssvæði ICCAT skulu vera búin fjarskiptabúnaði sem sendir upplýsingar með sjálfvirkum hætti til sameiginlegrar eftirlitsstöðvar Landhelgisgæslu Íslands og Fiskistofu, hér eftir nefnd Eftirlitsstöðin, um staðsetningu viðkomandi skips á klukkustundar fresti.
Skipi er óheimilt er að halda úr höfn til veiða fyrr en starfsmenn Eftirlitsstöðvarinnar hafa staðfest til skipstjóra að ofangreindur búnaður starfi eðlilega.
Ef búnaður til sjálfvirkra sendinga, sbr. 1. mgr., bilar skal gert við hann við komu í næstu höfn. Þar til búnaðinum verður komið í lag, skal senda á annan hátt upplýsingar um staðsetningu skipsins á 6 klukkustunda fresti til Eftirlitsstöðvarinnar. Einnig skulu allar tilkynningar skv. 6. gr. innihalda upplýsingar um staðsetningu skipsins ef búnaður til sjálfvirkra sendinga er bilaður.
6. gr.
Tilkynningar.
Öll skip sem veiðar stunda á samningssvæðinu skulu senda eftirgreindar tilkynningar til Eftirlitsstöðvarinnar:
Komutilkynning:
Skylt er skipstjóra skips að tilkynna til Eftirlitsstöðvarinnar með ekki meira en 12 klukkustunda og að minnsta kosti 6 klukkustunda fyrirvara að það fari inn á viðkomandi samningssvæði til bláuggatúnfiskveiða á þetta við um veiðar innan íslenskrar lögsögu sem og utan. Í tilkynningunni komi fram eftirfarandi upplýsingar:
Haldi skip til veiða úr íslenskri höfn skal það tilkynnt Eftirlitsstöðinni á sama hátt.
Aflatilkynning:
Dag hvern sem skip er við túnfiskveiðar, skal skipstjóri tilkynna Eftirlitsstöðinni um heildarafla síðasta sólarhrings, miðað við afla upp úr sjó, sundurgreindan eftir tegundum. Í tilkynningunni komi fram eftirfarandi upplýsingar:
Lokatilkynning:
Þegar veiðiskip hættir veiðum skal það tilkynnt Eftirlitsstöðinni. Jafnframt skal í tilkynningu tilgreina afla frá síðustu aflatilkynningu miðað við afla úr sjó, aðgreindan eftir tegundum og einnig löndunarhöfn eða löndunarstað. Lokatilkynningin skal send eigi síðar en 6 klukkustundum fyrir áætlaðan tíma í löndunarhöfn. Í tilkynningunni komi fram eftirfarandi upplýsingar:
Tilkynningar til Eftirlitsstöðvarinnar er hægt að senda með eftirfarandi sambandsleiðum: Tölvupóstfang sar@lhg.is, fax nr. 545 2001, Inmarsat C nr. 581 425101519 eða gegnum strandstöðvar á Íslandi.
7. gr.
Óheimilt er að styðjast við leit úr lofti við veiðar á bláuggatúnfiski.
Bláuggatúnfiskafla skal landað og hann veginn og lengdarmældur í einni eftirtalinna hafna: Höfn í Hornafirði, Vestmannaeyjum, Grindavík, Hafnarfirði, Reykjavík.
8. gr.
Sé þyngd bláuggatúnfisks sem veiddur er undir 30 kg, skal honum sleppt lifandi.
9. gr.
Hverju skipi er óheimilt að stunda bláuggatúnfiskveiðar nema eftirlitsmaður á vegum Fiskistofu sé um borð. Þó er Fiskistofu heimilt að veita undanþágu frá skilyrði 1. ml. enda séu eftirlitsmenn um borð í a.m.k. 20% íslenskra skipa sem stunda bláuggatúnfiskveiðar. Skipstjóra er óheimilt að halda skipinu til bláuggatúnfiskveiða án eftirlitsmanns um borð án skriflegrar heimildar Fiskistofu þar að lútandi.
Útgerð skips skal greiða eftirlitskostnað sem nemur 20% af fjárhæð gjalds skv. 4. mgr. 4. gr. laga nr. 33, 5. maí 2000, um veiðieftirlitsgjald, fyrir hvern dag sem skipið stundar veiðar á samningssvæðinu, án tillits til hvort eftirlitsmaður sé um borð eða ekki. Útgerð skips með eftirlitsmann á vegum Fiskistofu um borð skal sjá honum fyrir fæði og aðstöðu án endurgjalds.
Fyrir hverja veiðiferð skal útgerð skips tilkynna Fiskistofu ósk sína um að veiðieftirlitsmaður verði um borð í skipinu a.m.k. 7 dögum fyrir brottför úr höfn.
10. gr.
Merkja skal hvern einstakan bláuggatúnfisk sem veiddur er af íslenskum skipum samkvæmt nánari fyrirmælum Fiskistofu og í samræmi við reglur ICCAT þar að lútandi.
Öllum bláuggatúnfiski sem veiddur er af íslenskum skipum sem og öllum bláuggatúnfiski sem fluttur er inn til Íslands eða seldur er á íslenskum markaði skal fylgja sérstakt rekjanleikavottorð (e. bluefin tuna catch document, BCD) sem Fiskistofa gefur út.
Öllum bláuggatúnfiski sem endurútfluttur er frá Íslandi skal fylgja sérstakt endurútflutningsvottorð (e. bluefin tuna re-export certificate, BFTRC) sem Fiskistofa gefur út.
11. gr.
Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt ákvæðum III. kafla laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum og laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum.
12. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt ákvæðum laga nr. 151, 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, laga nr. 116, 10. ágúst 2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum og laga nr. 57, 3. júní 1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, með síðari breytingum til þess að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim, sem hlut eiga að máli. Frá sama tíma er felld úr gildi reglugerð nr. 573, 19. júní 2008, um veiðar á Austur-Atlantshafs bláuggatúnfiski með síðari breytingum.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, 4. ágúst 2010.
F. h. r.
Steinar Ingi Matthíasson.
Hrefna Gísladóttir.