Reglugerð þessi gildir um skipulag og starfsemi Landbúnaðarstofnunar, sem starfar skv. ákvæðum laga nr. 80/2005 um Landbúnaðarstofnun og laga nr. 76/2005 um breytingu á ýmsum lögum við stofnun Landbúnaðarstofnunar.
Landbúnaðarstofnun hefur aðsetur og aðalskrifstofu á Selfossi. Forstjóri Landbúnaðarstofnunar fer með yfirstjórn stofnunarinnar, mótar stefnu í störfum hennar og ber ábyrgð á fjárhagslegum rekstri, sbr. 3. gr. laga nr. 80/2005 um Landbúnaðarstofnun. Landbúnaðarráðherra setur forstjóra erindisbréf. Landbúnaðarstofnun skal skipt í eftirfarandi svið eftir viðfangsefnum:
1. | Rekstrar- og þjónustusvið. |
2. | Stjórnsýslusvið. |
3. | Dýraheilbrigðissvið. |
4. | Matvæla- og umhverfissvið. |
Í samræmi við 1. mgr. 4. gr. laga nr. 80/2005 um Landbúnaðarstofnun skipar landbúnaðarráðherra sviðsstjóra dýraheilbrigðissviðs, sem fer með málefni dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim. Skal sviðsstjórinn vera dýralæknir og nefnast yfirdýralæknir. Hann er jafnframt staðgengill forstjóra stofnunarinnar.
Forstjóri Landbúnaðarstofnunar ræður sviðsstjóra yfir öðrum sviðum stofnunarinnar, sem kallast forstöðumenn. Forstöðumenn ásamt yfirdýralækni starfa við aðalskrifstofu stofnunarinnar.
Hlutverk Landbúnaðarstofnunar er skilgreint í 2. gr. laga nr. 80/2005 um Landbúnaðarstofnun. Forstjóri stofnunarinnar ákvarðar hvernig einstökum viðfangsefnum, sem stofnunin annast, skal skipt milli þeirra sviða sem tilgreind eru í 2. gr. þessarar reglugerðar.
Umdæmisskrifstofur Landbúnaðarstofnunar heyra undir yfirstjórn stofnunarinnar og skulu vera í umdæmum héraðsdýralækna, sbr. 2. mgr. þessarar greinar, og taka mið af umfangi starfseminnar á hverjum stað. Auk verkefna sem héraðsdýralæknum og öðrum dýralæknum er falið að annast skv. 3. - 6. mgr. 11. gr. laga nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, með síðari breytingum, getur Landbúnaðarstofnun falið umdæmisskrifstofum að sinna öðrum viðfangsefnum innan starfssviðs stofnunarinnar.
Umdæmisskrifstofur Landbúnaðarstofnunar skulu staðsettar sem hér segir, sbr. nánari skilgreiningu á umdæmum héraðsdýralækna í 11. gr. laga nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, með síðari breytingum:
1. | Gullbringu- og Kjósarumdæmi. |
2. | Borgarfjarðar- og Mýraumdæmi. |
3. | Snæfellsnesumdæmi. |
4. | Dalaumdæmi. |
5. | Vestfjarðaumdæmi. |
6. | Vestur-Húnaþingsumdæmi. |
7. | Austur-Húnaþingsumdæmi. |
8. | Skagafjarðar- og Eyjafjarðarumdæmi. |
9. | Þingeyjarumdæmi. |
10. | Austurlandsumdæmi nyrðra. |
11. | Austurlandsumdæmi syðra. |
12. | Austur-Skaftafellsumdæmi. |
13. | Vestur-Skaftafellsumdæmi. |
14. | Suðurlandsumdæmi. |
Reglugerð þessi er sett með stoð í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 80/2005 um Landbúnaðarstofnun og öðlast gildi 1. janúar 2006.
Hafi sú starfsemi sem tilgreind er í 2. gr. laga nr. 80/2005 ekki verið sameinuð á aðalskrifstofu Landbúnaðarstofnunar við gildistöku reglugerðarinnar, skal skiptingu stofnunarinnar í svið eftir viðfangsefnum, sbr. 2. gr. reglugerðarinnar, frestað þar til svo er orðið, en þó ekki lengur en til 1. apríl 2006.