1. gr.
Við II. kafla um smíði, vatnsþéttleika og ýmsan búnað í I. viðauka bætist ný regla sem verður 20. regla, svohljóðandi:
20. regla
Varnir gegn flæði.
(1) Setja skal í austurbrunna við afturþil í fiskilestum eða á afturþilið sjálft um það bil 20 cm frá lestarbotni vökvaborðsviðvörunarbúnað, sem skynjar samsöfnun vökva við venjulegan hliðar- og stafnhalla. Skynjunarkerfið skal gefa viðvörun á heyranlegan og sýnilegan hátt á þeim stöðum, þar sem stöðug vöktun er höfð. Þetta ákvæði tekur þó ekki til fiskiskipa sem búin eru farmtönkum, s.s. loðnu- og síldveiðiskip.
(2) Setja skal í kjalsogið í vélarúmum fremst og aftast vökvaborðsviðvörunarbúnað, sem skynjar samsöfnun vökva við venjulegan hliðar- og stafnhalla. Skynjunarkerfið skal gefa viðvörun á heyranlegan og sýnilegan hátt á þeim stöðum, þar sem stöðug vöktun er höfð.
(3) Stjórnbúnaður allra loka fyrir sjóinntök, frárennsli fyrir neðan sjólínu eða austurssogskerfi, skal vera aðgengilegur.
(4) Við reglubundið árlegt eftirlit með virkni vökvaborðsviðvörunarbúnaðar skal sýnt fram á virkni hans.
2. gr.
Við 8. gr. bætist ný málsgrein, sem verður 4. málsgrein, eftirfarandi:
Ákvæði reglugerðar þessarar um eiturefnabúninga, neyðaröndunartæki og vinnuöryggishandbók taka þegar gildi og skulu ákvæði um eiturefnabúninga og neyðaröndunartæki uppfyllt eigi síðar en við fyrstu búnaðarskoðun árið 2005 og ákvæði um vinnuöryggishandbók skulu uppfyllt eigi síðar en við fyrstu búnaðarskoðun árið 2006.
3. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um eftirlit með skipum nr. 47/2003, öðlast þegar gildi. Ákvæði reglugerðar þessarar skulu uppfyllt eigi síðar en við fyrstu búnaðarskoðun árið 2005.
Samgönguráðuneytinu, 25. júlí 2006.
Sturla Böðvarsson.
Ragnhildur Hjaltadóttir.