REGLUGERÐ
um starfsemi, skyldur og eftirlit með
Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli.
1. gr.
Flugstöð Leifs Eiríkssonar hf. fer með starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli á grundvelli laga nr. 76/2000 um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, reglugerðar þessarar og rekstrarleyfis sem utanríkisráðherra veitir.
2. gr.
Rekstrarleyfishafa er skylt að fara að fyrirmælum stjórnvalda í starfsemi og rekstri Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli í málum er varða stjórn flugmála, umferð og öryggi í samræmi við gildandi lög og reglur á hverjum tíma. Rekstrarleyfishafa er skylt í allri starfsemi sinni að virða og standa við þær skuldbindingar sem stjórnvöld hafa undirgengist og þau síðar kunna að undirgangast og varða flugstöðina og starfsemi þá sem rekstrarleyfishafi fer með og yfirtekur. Til þeirra skuldbindinga teljast m.a.:
a) stofnsamningur Alþjóða flugmálastofnunarinnar (ICAO) ásamt viðaukum við hann,
b) samþykktir Evrópusambands flugmálastjórna (ECAC),
c) tilskipun ráðs Evrópusambandsins nr. 96/67/EB frá 15. október 1996 um aðgang að flugafgreiðslumarkaðnum á flugvöllum bandalagsins, sbr. viðeigandi viðauka eða bókun við EES-samninginn og eftir atvikum ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar,
d) skuldbindingar sem stjórnvöld hafa undirgengist vegna Schengen-samstarfsins,
e) aðrar skuldbindingar sem stjórnvöld hafa undirgengist eða kunna að undirgangast á sviði flugafgreiðslu, flugmála, flug- og farþegaöryggis, tollafgreiðslu og landamæraeftirlits, og kunna að varða starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli,
f) varnarsamningur milli Íslands og Bandaríkjanna, sbr. lög nr. 110/1951 um lagagildi varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna og um réttarstöðu liðs Bandaríkjanna og eignir þess, svo og aðrir samningar sem gerðir hafa verið milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda og varða Keflavíkurflugvöll og flugstöðina, og
g) samkomulag milli Íslands og Bandaríkjanna um samvinnu við byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar frá 26. ágúst 1983, að því er varðar aðgang og afnot Bandaríkjanna af Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli á ófriðartímum og í neyðartilvikum.
3. gr.
Í rekstrarleyfi skal nánar kveðið á um starfsemi flugstöðvarinnar, aðgang að henni og aðstöðu fyrir þjónustuaðila þar, skyldur leyfishafa, eftirlit og skilyrði fyrir veitingu leyfisins. Í rekstrarleyfinu skal m.a. fjallað um samskipti rekstrarleyfishafa við stjórnvöld og þjónustuaðila og skilyrði og kröfur sem miða að því að rekstrarleyfishafi veiti ætíð góða þjónustu og stuðli að því að afgreiðsla loftfara og flutningur farþega, farangurs og annars varnings um flugstöðina verði örugg og hnökralaus og án óþarfa tafa.
4. gr.
Utanríkisráðherra hefur eftirlit með starfsemi rekstrarleyfishafa. Flugvallarstjórinn á Keflavíkurflugvelli í umboði utanríkisráðherra og í samráði við Flugmálastjórn Íslands hefur eftirlit með starfsemi Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli varðandi flugöryggi og farþegavernd. Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli hefur umsjón og eftirlit með að tolla- og öryggisreglur séu virtar. Rekstrarleyfishafa er skylt að fara að fyrirmælum eftirlitsaðila.
5. gr.
Utanríkisráðherra veitir rekstrarleyfishafa tímabundið rekstrarleyfi til starfsemi og reksturs Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Rekstrarleyfi má veita til allt að 12 ára í senn.
6. gr.
Brjóti rekstrarleyfishafi gegn ákvæðum reglugerðar þessarar, rekstrarleyfis sem gefið er út á grundvelli hennar eða gegn ákvæðum laga nr. 76/2000 um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, skal utanríkisráðherra veita rekstrarleyfishafa skriflega aðvörun og stuttan frest til úrbóta. Utanríkisráðherra er heimilt að grípa til tafarlausra úrbóta á kostnað rekstrarleyfishafa ef um er að ræða tilvik sem ekki þola bið og raskað geta öryggi loftfara, flugfarþega eða farangurs. Aðgerðarleysi rekstrarleyfishafa, ásetningur, stórkostlegt gáleysi, gjaldþrot og árangurslaust fjárnám varðar afturköllun rekstrarleyfis.
7. gr.
Reglugerð þessi er sett samkvæmt 14. gr. laga nr. 76/2000 um stofnun hlutafélags um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, og öðlast þegar gildi.
Utanríkisráðuneytinu, 1. október 2000.
Halldór Ásgrímsson.
Hjálmar W. Hannesson.