Reglugerð þessi gildir um vöruflutninga og efnisflutninga á landi í atvinnuskyni með ökutækjum, hvort sem um eitt ökutæki eða samtengd ökutæki er að ræða.
Leyfi Vegagerðarinnar þarf til að hafa með höndum þá vöruflutninga sem þessi reglugerð nær til. Leyfið skal gilda í allt að fimm ár og vera óframseljanlegt. Heimilt er að veita leyfi til skemmri tíma óski umsækjandi eftir því.
Með vöruflutningum og efnisflutningum í atvinnuskyni er átt við flutninga á vöru eða efni gegn gjaldi sem ekki fellur undir j-lið 3. gr. laga nr. 73/2001 um flutninga í eigin þágu.
Með efnisflutningum er átt m.a. við flutning á efni í förmum svo sem flutning á jarðefnum, steypu, hráefnum til iðnaðar, fóðri og fiski. Jafnframt er hér átt við flutning í tönkum á vökvum eins og olíu, bensíni eða mjólk.
Með flutningum með sendibifreiðum samkvæmt reglugerð þessari er átt við hefðbundna flutningaþjónustu með sendibifreiðum, þar sem starfsemin er að mestu innan afmarkaðs svæðis.
Vegagerðin hefur með höndum útgáfu leyfa og umsjón með eftirliti samkvæmt reglugerð þessari.Vegagerðin gefur út eftirfarandi tegundir leyfa:
a. | almennt rekstrarleyfi til vöruflutninga, |
b. | almennt rekstrarleyfi til flutninga með sendibifreiðum, |
c. | almennt rekstrarleyfi til efnisflutninga. |
Þeir einir sem uppfylla eftirtalin skilyrði mega starfa sem vöru- og efnisflutningsaðilar með ökutækjum:
1. | Hafa fullnægjandi fjárhagsstöðu. Fullnægjandi fjárhagsstaða merkir að hafa aðgang að nægilegu fjármagni til að stofna fyrirtæki og tryggja öruggan rekstur þess. Fyrirtæki verður að hafa eigið fé og sjóði sem jafngilda a.m.k. kr. 850.000 eða 9000 evrum fyrir fyrsta ökutæki og kr. 450.000 eða 5000 evrum á hvert ökutæki umfram það. Fyrirtæki sem rekur bifreiðar undir 15 tonnum að þyngd verða að hafa eigið fé og sjóði sem jafngilda a.m.k. kr. 50.000 eða 500 evrum fyrir hvert tonn af leyfilegri hámarksþyngd ökutækja sem fyrirtækið notar til flutninga. Krefjast skal þeirrar upphæðar sem gefur lægstu niðurstöðu. Til að meta fjárhagsstöðu skal Vegagerðin taka mið af þeim gögnum sem tilgreind eru í 6. gr. reglugerðar þessarar. |
Vegagerðinni er heimilt að taka gilda staðfestingu löggilts endurskoðanda, banka eða annarrar viðurkenndrar stofnunar til sönnunar á fjárhagsstöðu. Heimilt er að veita slíka staðfestingu í formi bankaábyrgðar eða annarrar samsvarandi tryggingar. | |
2. | Hafa fullnægjandi starfshæfni. Til að uppfylla skilyrði um starfshæfni skal umsækjandi taka þátt í námskeiði á vegum Vegagerðarinnar, sbr. 5. gr. Prófuð skal þekking umsækjanda á þeim sviðum sem greinina varðar. Vegna þessa skal Vegagerðin útbúa námsskrá að höfðu samráði við hagsmunaaðila sem að greininni standa. Þátttökugjald skal tilgreint í námsskránni. Heimilt er að veita undanþágu frá námskeiði ef umsækjandi sýnir fram á að hafa a.m.k 5 ára samfellda starfsreynslu á sviði framkvæmdastjórnar í starfsgreininni eða ef umsækjandi getur sýnt fram á að hafa lokið prófi í einhverri þeirra greina sem um getur í námsskrá. |
Vegagerðinni er heimilt að gera mismunandi kröfur um starfshæfni eftir tegund starfsleyfis. | |
3. | Hafa ekki verið dæmdur til refsivistar né framið alvarleg eða ítrekuð brot á reglum sem um starfsgreinina gilda. Hafi brot verið smávægilegt eða langt er um liðið frá því að brot var framið getur umsækjandi þó öðlast leyfi samkvæmt lögunum. |
Framangreindum skilyrðum verður leyfishafi að fullnægja á leyfistímanum.
Þrátt fyrir ákvæði 2. tl. 1. mgr. 4. gr. getur Vegagerðin heimilað umsækjanda að starfa sem flutningsaðili á landi að því tilskildu að hann tilkynni um tilnefningu annars aðila sem fullnægir kröfum 1. og 2. tl. 1. mgr. 4. gr. enda sjái hinn síðarnefndi um daglegan rekstur fyrirtækisins.
Námskeið í umsjón Vegagerðarinnar verða eftirfarandi:
a. | Grunnnámskeið fyrir alla þá sem sækja um leyfi skv. reglugerð þessari. |
b. | Námskeið ætlað stjórnendum fyrirtækja í vöru- og efnisflutningum. |
Námskeið samkvæmt ákvæði þessu eru í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í tilskipun nr. 96/26/EB, sbr. tilskipun nr. 98/76/EB, um aðgang að starfsgrein farmflytjanda á vegum og starfsgrein aðila sem stunda farþegaflutninga á vegum og um gagnkvæma viðurkenningu á prófskírteinum, vottorðum og öðrum vitnisburði um formlega menntun og hæfi sem á að auðvelda þessum aðilum að neita staðfesturéttarins í innanlands- og millilandaflutningum.
Þegar sótt er um leyfi skal umsækjandi leggja fram ítarlega áætlun um rekstur, greiðslustreymi og efnahag fyrir yfirstandandi og næsta ár.
Þegar umsókn er lögð fram skulu eftirtalin gögn fylgja:
a) | Áritaður ársreikningur eða staðfest skattframtal. |
b) | Rekstraráætlun fyrir yfirstandandi ár og næsta ár. Vegagerðin getur óskað eftir staðfestingu endurskoðanda um að hún sé rétt miðað við gefnar forsendur. |
c) | Skrifleg yfirlýsing frá innheimtuaðila ríkis og viðkomandi sveitarfélags þess efnis að umsækjandi sé ekki í vanskilum með opinber gjöld. |
d) | Staðfesting á starfshæfni. |
e) | Sakavottorð. |
f) | Ljósrit af skráningarskírteini bifreiða. |
Vegagerðin leggur mat á forsendur áætlunarinnar og þau gögn sem umsókn fylgja og er henni heimilt að óska eftir frekari gögnum gerist þess þörf og vísa frá þeim umsóknum sem ekki hafa fullnægjandi gögn til stuðnings.
Leyfi má veita einstaklingum, hlutafélögum, einkahlutafélögum eða sameignarfélögum enda uppfylli þau skilyrði 1. tl. 4. gr. þessarar reglugerðar.
Hjá félaginu skal starfa forsvarsmaður sem ber ábyrgð á rekstrinum og uppfyllir skilyrði 2.-3. tl. 4. gr. Ákvarðanir Vegagerðarinnar eru kæranlegar til samgönguráðuneytisins samkvæmt stjórnsýslulögum. Kærufrestur er 3 mánuðir.
Leyfi samkvæmt reglugerð þessari fellur niður þegar eitt af eftirtöldu á við:
a) | Andlát leyfishafa, sbr. þó 2. mgr. |
b) | Leyfishafi uppfyllir ekki lengur eitt af skilyrðum 1.-3. tl. 4. gr. |
c) | Ef félag, sem er leyfishafi, hefur ekki á að skipa forsvarsmanni sem uppfyllir skilyrði 2. og 3. tl. 4. gr. Nú uppfyllir forsvarsmaður ekki framangreind skilyrði, lætur af störfum eða fellur frá og skal leyfishafi þá tilkynna Vegagerðinni um það og tilnefna nýjan forsvarsmann innan 3ja mánaða en að öðrum kosti fellur leyfi niður. |
Við andlát leyfishafa getur Vegagerðin heimilað erfingjum hans að stunda vöru- og efnisflutninga tímabundið, að hámarki eitt ár frá andláti hans. Umsókn um þetta skal send Vegagerðinni innan 3ja mánaða frá andláti leyfishafa og tilnefndur forsvarsmaður, sem ábyrgð ber á rekstrinum, og uppfyllir skilyrði 2. og 3. tl. 4. gr.
Verði aðili uppvís að því að stunda leyfisskylda starfsemi samkvæmt reglugerð þessari án þess að hafa til þess tilskilin leyfi er heimilt að stöðva starfsemina og viðkomandi ökutæki þegar í stað þar til leyfi hefur verið fengið.
Brot gegn lögum nr. 73/2001 og reglugerð þessari varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum og skal fara með slík mál að hætti opinberra mála.
Við alvarleg og ítrekuð brot er Vegagerðinni heimilt að svipta viðkomandi leyfum er honum hafa verið veitt samkvæmt lögum nr. 73/2001 og reglugerð þessari. Slík svipting tekur gildi þegar í stað og gildir þangað til úrlausn hefur fengist í málinu.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum nr. 73/2001, öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 121/1990.