Samgönguráðuneyti

398/2000

Reglugerð um bílaleigur. - Brottfallin

1. gr.

Reglugerð þessi gildir um leigu á skráningarskyldum bifreiðum án ökumanns. Reglugerðin tekur þó ekki til starfsemi kaupleigu- eða fjármögnunarfyrirtækja eða leigu í eigin þágu eða til tengdra aðila.


2. gr.
Umsókn um starfsleyfi.

Sækja skal um starfsleyfi til reksturs bílaleigu að jafnaði að minnsta kosti mánuði áður en fyrirhuguð starfsemi á að hefjast. Ráðuneytið aflar umsagnar lögreglustjóra í því umdæmi sem bílaleiga mun hafa fasta starfsstöð. Með umsókn um starfsleyfi til reksturs bílaleigu skulu veittar eftirfarandi upplýsingar:

1. Nafn og kennitala umsækjanda.
2. Nafn, kennitala og heimilisfang bílaleigu.
3. Upplýsingar um fjölda starfsstöðva.
4. Aðsetur fastrar starfsstöðvar.
5. Staðsetning útibúa.
6. Nafn framkvæmdastjóra.
7. Nöfn fyrirsvarsmanna útibúa.
8. Hvenær starfsemin hófst, ef bílaleiga hefur haft leyfi áður.

Jafnframt skulu eftirfarandi gögn fylgja umsókn um starfsleyfi til reksturs bílaleigu:

1. Sakavottorð framkvæmdastjóra bílaleigunnar, fyrirsvarsmanna útibúa og stjórnarmanna.
2. Staðfesting á starfsábyrgðartryggingu skv. 4. gr. Þeir sem sækja um starfsleyfi fyrir 10. júlí 2000 hafa frest til þess tíma að leggja fram staðfestingu skv. þessum tölulið.
3. Afrit eldra leyfis, ef það hefur verið gefið út.
4. Listi yfir bifreiðar til útleigu þegar umsókn er gerð (tegund – árgerð – skráningarnúmer).


3. gr.
Starfsleyfi bílaleiga.

Sá einn getur fengið starfsleyfi samgönguráðuneytis til reksturs bílaleigu sem uppfyllir skilyrði 4. gr. laga um bílaleigur nr. 64/2000. Starfsleyfi er veitt til fimm ára í senn og skal greiða gjald fyrir útgáfu þess kr. 10.000.

Um starfsleyfi fer að öðru leyti eftir ákvæðum 3. og 4. gr. laga um bílaleigur nr. 64/2000.


4. gr.
Starfsábyrgðartrygging.

Áður en starfsleyfi er veitt skal umsækjandi leggja fram staðfestingu þess efnis að vegna bílaleigunnar hafi verið tekin starfsábyrgðartrygging hjá vátryggingafélagi sem starfsleyfi hefur hér á landi. Skal vátryggingin bæta leigutökum almennt fjártjón er stjórnendur og starfsmenn bílaleigunnar af gáleysi kunna að baka þeim vegna vanefndar á leigusamningi, t.d. vegna afhendingartafa og endurgreiðslu fyrirframgreidds fjár sökum rekstrarstöðvunar eða gjaldþrots bílaleigu. Einungis beint fjárhagslegt tjón leigutaka skal greitt af tryggingunni en ekki tjón sem rekja má t.d. til óþæginda eða miska.

Vátryggingin skal gilda vegna reksturs bílaleigunnar hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins.

Heimilt er að leggja fram samsvarandi bankaábyrgð í stað vátryggingar hjá vátryggingafélagi að mati samgönguráðuneytisins.

Starfsábyrgðartrygging bílaleigu skal vera 250 þús. króna hið lægsta vegna hvers einstaks tjónsatviks. Heildarfjárhæð vátryggingabóta innan vátryggingarárs skal að lágmarki vera eftirfarandi miðað við fjölda bifreiða til útleigu:

1 – 10 bifreiðar 1 millj. króna.
11 – 25 bifreiðar 1,5 millj. króna.
26 – 50 bifreiðar 2,5 millj. króna
51 – 75 bifreiðar 3,5 millj. króna
> 75 bifreiðar 5 millj. króna

Vátryggingarfjárhæðir eru miðaðar við vísitölu neysluverðs í maí 2000 (198,4 stig) og skulu breytast 1. maí ár hvert í samræmi við breytingar á vísitölunni til þess tíma.

Heimilt er að semja um eigin áhættu vátryggingartaka, en slíkt má í engu skerða rétt leigutaka til bóta úr hendi vátryggingafélags.

Vátryggingafélagi er heimilt að endurkrefja hvern þann sem valdið hefur tjóni af stórkostlegu gáleysi.

Skilmálar vátryggingar skulu kynntir samgönguráðuneyti áður en vátrygging er boðin bílaleigum.

Falli starfsábyrgðartrygging úr gildi skal hlutaðeigandi vátryggingafélag eða banki tilkynna það viðkomandi bílaleigu (vátryggingartaka) og samgönguráðuneyti þegar í stað. Vátryggingartímabili telst ekki lokið fyrr en átta vikur eru frá því að tilkynnt var um tryggingaslit, nema önnur fullnægjandi trygging hafi verið tekin.

Uppfylli bílaleiga ekki skilyrði reglugerðar þessarar um starfsábyrgðartryggingu er henni skylt að leggja inn starfsleyfi sitt til samgönguráðuneytis.


5. gr.
Skyldur bílaleigu.

Bílaleiga skal í hvívetna leysa störf sín af hendi svo sem góðar viðskiptavenjur bjóða. Hún skal gæta þess að viðskiptamenn hennar njóti jafnræðis um upplýsingar, verð og önnur viðskiptakjör, svo og þess að leigutaka séu eigi settir ólögmætir, ósanngjarnir eða óeðlilegir skilmálar í samningum. Bílaleiga ber ábyrgð á verkum starfsmanna sinna við leigu bifreiða.

Skylt er að leyfisbréf bílaleigunnar liggi frammi á fastri starfsstöð hennar og afrit þess í útibúum.

Bílaleiga skal tryggja að skráningarskyldar bifreiðir til útleigu séu ætíð í góðu ásigkomulagi og fullnægi kröfum sem gerðar eru um þær. Bílaleiga skal færa ökutæki til útleigu til lögboðinnar skoðunar.

Bílaleiga skal bjóða upp á bifreiðar til útleigu jafnt til almennings sem fyrirtækja.

Bílaleiga skal upplýsa erlenda leigutaka um íslenskar umferðarreglur, umferðarmerki og reglur um bann við umferð utan vega. Jafnframt skal bílaleiga vekja sérstaka athygli leigutaka á hættu sem stafar af dýrum á vegum.


6. gr.
Leigusamningur.

Bílaleiga skal sjá um að ávallt sé gerður skriflegur leigusamningur um leigu á bifreið, sem undirritaður skal af leigutaka og leigusala. Bílaleiga skal kynna leigutaka efni leigusamningsins og sérstaklega þær skyldur sem hann tekur á sig með undirritun leigusamningsins. Leigusamningurinn skal gerður í að minnsta kosti tveimur eintökum og bílaleiga og leigutaki heldur hvor um sig einu eintaki leigusamningsins.

Í leigusamningi skulu eftirfarandi atriði að minnsta kosti koma fram:

1. Fullt nafn bílaleigu, kennitala og heimilisfang.
2. Fullt nafn leigutaka, kennitala og heimilisfang.
3. Númer vegabréfs ef ekki er um íslenska ríkisborgara að ræða.
4. Nafn þess eða nöfn þeirra sem heimild hafa til að aka bifreiðinni.
5. Númer ökuskírteinis.
6. Skráningarnúmer bifreiðar.
7. Upphaf og lok leigutíma miðað við dag og klukkustund.

Bílaleiga skal varðveita leigusamning í að minnsta kosti eitt ár frá undirritun hans.


7. gr.
Leigutaki.

Sá einn sem hefur tilskilin ökuréttindi getur leigt bifreið. Bílaleigu er þó heimilt að gera leigusamning við einstakling sem ekki hefur tilskilin ökuréttindi, enda tilnefni hann ökumann í leigusamningi og má sá aka bifreiðinni. Skal ökumaður ávallt uppfylla framangreind skilyrði. Sama gildir ef leigutaki er félag eða annar lögaðili.

Leigusamningur skal ávallt vera í bifreiðinni meðan á leigutíma stendur.

Leigutaka er óheimilt að nota bifreiðina til flutnings farþega gegn greiðslu, lána það eða framleigja.


8. gr.
Refsiákvæði o.fl.

Um brot gegn reglugerð þessari fer samkvæmt ákvæðum 9. gr. laga um bílaleigur nr. 64/2000.


9. gr.
Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi er sett með heimild í 8. gr. laga um bílaleigur nr. 64/2000 og öðlast þegar gildi. Þær bílaleigur sem starfa við gildistöku þessarar reglugerðar skulu uppfylla skilyrði laga um bílaleigur nr. 64/2000 og reglugerðar þessarar og afla sér starfsleyfis fyrir 1. september 2000.


Samgönguráðuneytinu, 8. júní 2000.

Sturla Böðvarsson.
Jóhann Guðmundsson.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica