Samgönguráðuneyti

126/1998

Reglugerð um tilkynningarskyldu flugslysa og flugatvika. - Brottfallin

1. Orðaskýringar.

1.1 Þegar eftirfarandi orð eða orðasambönd eru notuð í þessari reglugerð, hafa þau þá merkingu sem hér segir:

Loftfar (aircraft). Sérhvert það tæki sem haldist getur á flugi vegna verkana loftsins, annarra en loftpúðaáhrifa við yfirborð jarðar.

Flugslys (aircraft accident). Atvik tengt starfrækslu loftfars sem verður frá því maður fer um borð í loftfarið með þeim ásetningi að fljúga með því og þar til allir eru farnir frá borði og þar sem:

a) einhver lætur lífið eða hlýtur alvarleg meiðsl of völdum þess að: - vera um borð í loftfarinu, eða

- vera í beinni snertingu við einhvern hluta loftfarsins, þar með talda hluti sem hafa losnað frá loftfarinu, eða

- verður fyrir útblæstri þotuhreyfils nema þegar meiðslin verða rakin til manns sjálfs eða annars manns, eða þegar meiðslin verða á laumufarþega sem hefur falið sig utan þess svæðis sem venjulega er aðgengilegt áhöfn og farþegum, eða

b) loftfar verður fyrir skemmd eða broti, sem:

- hefur veruleg áhrif á styrkleika þess, afköst eða flugeiginleika og

- myndi venjulega valda því að þörf yrði á meiri háttar viðgerð eða skipta þyrfti um viðkomandi íhlut nema þegar um er að ræða hreyfilbilun eða skemmd sem takmarkast við hreyfilinn, hlífar bans eða fylgibúnað eða um er að ræða skemmdir sem takmarkast við loftskrúfur, vængenda, loftnet, hjólbarða, hemla, hlífar, smá beyglur eða göt á ytra byrði loftfarsins eða

c) loftfar er týnt eða það er ómögulegt að ná til þess.

Flugatvik (aircraft incident). Atvik, annað en flugslys, sem tengist starfrækslu loftfars og hefur áhrif á eða getur haft áhrif á öryggi starfrækslunnar. Sjá einnig viðbæti við reglugerð þessa.

Flugumferðaratvik (air traffic incident). Flugatvik sem aðallega tengist reglum er varða flugumferðarþjónustu og þar sem loftför fara framhjá hvort öðru í slíkri nánd að hættuástand verður, eða þar sem aðrir erfiðleikar, sem orsakast of ófullnægjandi starfsaðferðum, eða af því að ekki var farið eftir starfsaðferðum, eða af göllum í tækjabúnaði á jörðu, valda því að hættuástand verður. Sjá einnig viðbæti við reglugerð þessa.

2. Gildissvið.

2.1 Reglugerð þessi tekur til almenningsflugs á eða yfir íslensku yfirráðasvæði svo og til almenningsflugs íslenskra loftfara utan íslensks yfirráðasvæðis.

2.2 Reglugerðin tekur einnig til alls hins íslenska flugstjórnarsvæðis að því er varðar flugumferðaratvik.

2.3 Loftfar er hér talið íslenskt, þegar það er skráð í íslenska loftfaraskrá eða er rekið í atvinnuskyni samkvæmt íslensku flugrekstrarleyfi.

3. Tilkynningarskylda.

3.1 Flugstjóra loftfars er skylt, að tilkynna rannsóknarnefnd flugslysa án tafar um flugslys og flugatvik, þar með talin flugumferðaratvik, í samræmi við ákvæði reglugerðar þessarar. Ef flugstjóra er það ekki fært, skal eigandi eða umráðandi loftfarsins sjá svo um að rannsóknarnefnd flugslysa berist tilkynningin án tafar.

3.2 Rannsóknarnefnd flugslysa getur samið við flugrekendur um að flugstjóri tilkynni flugrekstrarstjóra eða fulltrúa hans án tafar um atvikið. Tilkynningarskyldan er þá hjá flugrekstrarstjóranum. Slíkt samkomulag kemur þó ekki í veg fyrir að flugstjórinn geti einnig tilkynnt rannsóknarnefnd flugslysa um atvikið.

4. Tilkynning um flugslys og flugatvik, önnur en flugumferðaratvik.

4.1 Tilkynna skal um flugslys og flugatvik, önnur en flugumferðaratvik, í síma eða í símbréii til rannsóknarnefndar flugslysa.

4.2 Á venjulegum skrifstofutíma skal senda tilkynningar beint til rannsóknarnefndar flugslysa. Utan venjulegs skrifstofutíma svo og á almennum frídögum og á helgidögum skal beina tilkynningum til varðstjóra í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavik, sem gefur upplýsingar um nafn og símanúmer rannsakanda rannsóknarnefndar flugslysa á bakvakt.

4.3 Upplýsingar er varða heimilisfang, símanúmer, bréfsímanúmer og tölvupóstfang rannsóknarnefndar flugslysa er að finna í símaskrá og í upplýsingabréfi (AIC) Flugmálastjórnar.

4.4 Tilkynningin skal innihalda eftirtaldar upplýsingar eins nákvæmlega og unnt er:

a) Hvort um er að ræða tilkynningu um flugslys eða flugatvik.

b) Tegund loftfars, gerð, raðnúmer og skrásetningarmerki.

c) Nafn eiganda/umráðanda loftfarsins.

d) Nafn flugstjórans og aðstoðarflugmanns ef við á.

e) Dagsetningu og tíma flugslyssins/flugatviksins.

f) Síðasta brottfararstað og næsta áformaðan lendingarstað.

g) Slysstað/atviksstað.

h) Fjölda flugverja og farþega um borð. Fjölda flugverja og farþega sem fórust eða meiddust. Fjölda annarra sem fórust eða meiddust.

i) Stutta lýsingu á flugslysinu eða flugatvikinu. Skemmdir á loftfarinu.

j) Stutta lýsingu á aðstæðum á slysstað/atviksstað.

k) Nafn sendanda og símanúmer.

Ekki skal draga að tilkynna um atvikið, þótt nákvæmar upplýsingar séu þá þegar ekki fyrir hendi.

4.5 Að jafnaði skal tilkynningu fylgt eftir með skriflegri skýrslu þá þegar og aldrei síðar en innan 5 daga, nema um annað hafi verið samið við rannsóknarnefnd flugslysa. Við skýrslugerðina skal skila útfylltu sérstöku eyðublaði sem rannsóknarnefnd flugslysa lætur í té í þessu skyni.

5. Tilkynning um flugumferðaratvik.

5.1 Tilkynna skal flugumferðarstjórn til bráðabirgða án tafar, með talfjarskiptum á vinnutíðni, um flugumferðaratvik, sérstaklega ef annað loftfar á hlut að máli, til þess að strax sé unnt að hefjast handa við gagnaöflun.

5.2 Flugstjóri skal eins fljótt og mögulegt er eftir lendingu, skila vandlega útfylltu sérstöku eyðublaði sem Flugmálastjórn hefur gefið út (Air Traffic Incident Report) til rannsóknarnefndar flugslysa, til þess að:

a) staðfesta bráðabirgðaskýrslu sem gefin var í samræmi við gr. 5.1., eða

b) tilkynna um atvik sem ekki krafðist tafarlausrar tilkynningar þegar það varð, eða um atvik sem ekki var unnt að tilkynna um með talfjarskiptum.

5.2.1 Eyðublaðið er birt í upplýsingabréfi Flugmálastjórnar (AIC) og það fæst hjá viðkomandi flugumferðarþjónustudeild, hjá Flugmálastjórn og hjá rannsóknarnefnd flugslysa.

6. Refsiákvæði.

6.1 Brot gegn ákvæðum reglugerðar þessarar varða refsingu samkvæmt 177. og 179. gr. lags nr. 34/1964 um loftferðir.

7. Gildistaka.

7.1 Reglugerð þessi er sett samkvæmt 8. gr. laga nr. 59, 21. maí 1996 um rannsókn flugslysa og lögum nr. 34, 21. maí 1964 um loftferðir og tekur þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð nr. 248/1995 um tilkynningarskyldu í flugi.

Samgönguráðuneytinu, 25. febrúar 1998.

Halldór Blöndal.

Halldór S. Kristjánsson

.

 

VIÐAUKI

Dæmigerð alvarleg flugatvik.

Flugatvikin, sem talin eru hér upp, eru dæmigerð flugatvik sem líkindi eru fyrir að verði alvarleg flugatvik. Þessi listi er ekki tæmandi og er aðeins til leiðbeiningar við skilgreiningu á því hvað telst "alvarlegt flugatvik" eða "flugumferðaratvik".

· Árekstrarhætta þar sem sveigja varð frá eða þegar rétt hefði verið að sveigja frá til þess að koma í veg fyrir árekstur eða óöruggar aðstæður.

· Naumlega var komið í veg fyrir að flogið væri undir fullri stjórn í jörðina (CFIT).

· Hætt við flugtak á lokaðri eða upptekinni flugbraut og naumlega forðað árekstri við hindranir í flugtaki af slíkri braut.

· Lending eða tilraun til að lenda á lokaðri eða upptekinni flugbraut.

· Alvarleg frávik frá því að ná tilætluðum afköstum í flugtaki eða í frumklifri.

· Sérhver eldur og reykur í farþegarými, í vörurými eða eldur í hreyfli jafnvel þótt slíkur eldur sé slökktur með slökkviefni.

· Sérhvert tilvik þar sem nauðsynlegt var að flugáhöfn gripi til súrefnis í neyð.

· Bilun í burðarvirki loftfarsins eða sundrun hreyfils sem ekki flokkast undir flugslys.

· Margþætt bilun eins eða fleiri kerfa loftfarsins sem hefur alvarleg áhrif á starfrækslu þess.

· Flugliðar verða ófærir um að gegna störfum sínum í flugi.

· Sérhvert tilvik þegar eldsneytismagn loftfars á flugi gerir flugmanni nauðsynlegt að lýsa yfir neyðarástandi.

· Óhöpp í flugtaki og í lendingu. Óhöpp svo sem ef loftfar skammlendir, rennur út af brautarenda eða rennur út af hlið flugbrautar.

· Kerfisbilanir, veðurfyrirbrigði, starfræksla utan viðurkenndra afkastamarka og önnur atvik, sem gætu hafa valdið erfiðleikum við stjórn loftfarsins.

· Bilun meira en eins kerfis í kerfaheild sem krafist er fyrir stjórnun flugsins og flugleiðsögu.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica