REGLUGERÐ
um starfsemi Flugmálastjórnar Íslands.
1. gr.
Hlutverk.
Flugmálastjórn Íslands hefur eftirlit með því, að lögum, reglugerðum og fyrirmælum um flugstarfsemi sé framfylgt, með sérstakri áherslu á flugöryggi. Hún vinnur að þróun búnaðar og annast byggingu, uppsetningu og rekstur flugsamgöngumannvirkja og veitir alhliða flugumferðar- og flugleiðsöguþjónustu.
Stofnunin gerir heildaráætlanir um þróun flugsamgangna og framkvæmdir við flugsamgöngumannvirki, annast alþjóðleg samskipti á sviði flugmála, safnar og gefur út tölfræðilegar upplýsingar um flugumferð á flugstjórnarsvæði Íslands og vinnur að rannsóknum á sviði flugtækni og öðrum þeim sviðum, sem tengjast starfsemi hennar.
Stofnunin veitir öðrum stjórnvöldum ráðgjöf á sviði flugmála, vinnur að framþróun íslensks flugrekstrar og sinnir öðrum verkefnum á sviði flugmála, sem samgönguráðherra felur stofnuninni.
Starfs- og þjónustusvæði Flugmálastjórnar eru Ísland og lofthelgi landsins, flugstjórnarsvæðið, þar sem Alþjóðaflugmálastofnunin eða erlend ríki hafa falið Íslandi að veita þjónustu og starfsstöðvar íslenskra flugrekenda í öðrum löndum.
2. gr.
Þjónusta.
Flugmálastjórn veitir alhliða flugumferðarþjónustu við flugumferð á flugstjórnarsvæði Íslands, þar með talda flugupplýsingaþjónustu (veðurupplýsingar, flugumferðarupplýsingar, viðvaranir), flugumferðarstjórn og leitar- og björgunarþjónustu í samræmi við alþjóðlega staðla og starfsaðferðir.
Stofnunin annast rekstur flugleiðsögu-, fjarskipta- og upplýsingakerfa og sér um að þessi kerfi fullnægi alþjóðlegum kröfum.
Einnig sér stofnunin um skrásetningu loftfara og útgáfu hvers konar skírteina vegna flugstarfsemi í samræmi við loftferðalög og skírteinareglugerðir. Hér er um að ræða lofthæfisskírteini fyrir loftför, skírteini til flugliða og annarra starfsmanna við flugrekstur, sem skylt er að bera skírteini og flugrekendaskírteini auk annarra viðurkenninga á réttindum starfsmanna við flugrekstur.
Stofnunin sér um rekstur á flugvöllum og flugstöðvum íslenska ríkisins og veitir flugrekendum alhliða flugvallaþjónustu eftir því sem þörf krefur. Stofnunin gefur út upplýsingar og gögn um flugsamgöngukerfið, flugumferð og flugflutninga og veitir almenningi, atvinnulífi og stjórnvöldum ráðgjöf og þjónustu, þar sem sérþekking hennar kemur að notum, s.s. vegna skipulagsmála og mannvirkjagerðar.
3. gr.
Rekstur upplýsinga- og fjarskiptakerfa.
Flugmálastjórn Íslands annast rekstur upplýsinga- og fjarskiptakerfa, þ.m.t. skynjara, fjarskiptakerfa, gagnaneta, gagnavinnslukerfa og gagnabanka, sem gera stofnuninni kleift að inna af hendi þá þjónustu, sem henni er ætlað að veita skv. 2. gr. Til þessara kerfa teljast eftirlits-, fjarskipta- og tölvukerfi vegna flugleiðsögu- og flugumferðarstjórnar, veðurstöðvar á flugvöllum og gagnanet, sem tengir saman starfsstöðvar stofnunarinnar innanlands og tengist alþjóðlegum fluggagnanetum.
Stofnunin gefur út handbók flugmanna á íslensku og ensku jafnframt því að annast daglega upplýsingagjöf til flugmanna um hvaðeina sem varðar flug á starfssvæði hennar (Notices to Airmen).
4. gr.
Rannsóknir og þróun.
Flugmálastjórn Íslands stundar rannsóknir og vinnur að þróun á þeim sviðum flugtækni, sem hafa hagnýtt gildi fyrir starfsemi hennar, auk hvers konar rannsókna sem varða þróun íslenskra flugsamgangna og skipta máli vegna stefnumótunar og áætlunargerðar. Í þessu skyni getur stofnunin stofnað til samvinnu við innlenda og erlenda rannsóknar- og þróunaraðila og tekið þátt í alþjóðlegri rannsóknarstarfsemi.
5. gr.
Alþjóðasamstarf.
Flugmálastjórn annast fyrir Íslands hönd samskipti við Alþjóðaflugmálastofnunina (ICAO) og er flugmálastjóri aðalfulltrúi Íslands á þingi stofnunarinnar. Þá fer stofnunin með önnur alþjóðasamskipti á starfssviði sínu, m.a. samstarf við Evrópusamband flugmálastjórna (ECAC), Flugöryggissamtök Evrópu (JAA) og Evrópsku flugstjórnarstofnunina (EUROCONTROL). Flugmálastjóri fer með yfirstjórn í málefnum alþjóðaflugþjónustunnar, sem veitt er samkvæmt svonefndum Joint Financing samningi milli Alþjóðaflugmálastofnunarinnar (ICAO) og Íslands, og annast samskipti við ICAO vegna þessarar starfsemi.
6. gr.
Þjálfun.
Flugmálastjórn skal viðhalda og auka hæfni starfsmanna sinna með endurmenntun og þjálfun. Stofnunin starfrækir skóla til að þjálfa flugumferðarstjóra, aðstoðarmenn í flugumferðarstjórn og flugradíómenn. Jafnframt sinnir stofnunin þjálfun starfsmanna sem annast rekstur flugvalla, svo og annarra starfsmanna, sem stunda sérhæfð þjónustustörf í þágu flugöryggis- og flugsamgangna.
7. gr.
Skipulag, stjórnun og starfsmenn.
Flugmálastjórn Íslands skiptist í starfssvið í samræmi við meginverkefni stofnunarinnar. Hverju sviði er skipt í deildir eftir því sem nauðsynlegt þykir til að sinna tilgreindum viðfangsefnum. Flugmálastjóri gerir tillögur um skipulag stofnunarinnar, sem samgönguráðherra staðfestir að lokinni umfjöllun flugráðs.
Flugmálastjóri stjórnar og ber ábyrgð á faglegri og fjárhagslegri starfsemi stofnunarinnar. Skrifstofa flugmálastjóra sinnir stefnumótandi verkefnum og hefur með höndum ýmis stjórnsýsluverkefni, sem ekki heyra undir aðalsvið stofnunarinnar. Varaflugmálastjóri er staðgengill flugmálastjóra.
Samgönguráðherra ræður framkvæmdastjóra starfssviða að fengnum tillögum flugmálastjóra og flugráðs. Flugmálastjóri ræður annað starfsfólk til starfa hjá stofnuninni.
Framkvæmdastjórar stjórna og bera ábyrgð gagnvart flugmálastjóra á rekstri starfssviða og skulu í samvinnu við flugmálastjóra gera rekstrar- og starfsáætlanir og framfylgja þeim. Þeir bera ábyrgð á störfum sínum í samræmi við verklýsingu, þar sem starfssvið þeirra er tilgreint. Deildarstjórar stjórna daglegum rekstri deilda og bera ábyrgð gagnvart framkvæmdastjóra viðkomandi sviðs.
8. gr.
Fjármál.
Rekstur Flugmálastjórnar Íslands er fjármagnaður með framlögum á fjárlögum þ.m.t. framlagi vegna samnings Íslands við Alþjóðaflugmálastofnunina, tekjum af alþjóðaflugþjónustunni, þjónustutekjum, tekjustofnum flugmálaáætlunar og rannsóknarstyrkjum.
Undir rekstur sem fjármagnaður er með framlagi á fjárlögum fellur meðal annars:
a) Yfirstjórn Flugmálastjórnar og rekstur almennrar stjórnsýslu.
b) Flugumferðar- og flugleiðsöguþjónusta fyrir innanlandsflug.
c) Kostnaðarhluti Flugmálastjórnar vegna alþjóðaflugþjónustunnar.
d) Leitar- og björgunarþjónusta.
e) Rekstur flugleiðsögu- og flugupplýsingakerfa fyrir innanlandsflugið.
f) Stefnumótun og almennt starf að flugöryggismálum.
g) Almenn samskipti við erlend ríki og alþjóðlegar stofnanir.
Flugmálaáætlun fjármagnar framkvæmdir við flugvelli landsins og flugleiðsögu- og upplýsingakerfi fyrir innanlandsflug. Rekstur flugvalla er fjármagnaður með framlögum úr ríkissjóði ásamt lendingargjöldum og öðrum þjónustugjöldum, sem greidd eru af flugrekendum og öðrum notendum.
Rekstur og starfsemi alþjóðaflugþjónustunnar er að mestu leyti fjármögnuð með notendagjöldum, sem eru greidd af flugrekendum í millilandaflugi en að öðru leyti með framlögum frá þeim ríkjum, sem eiga aðild að Joint Financing (JF) samningi Alþjóðaflugmálastofnunarinnar og Íslands um þessa þjónustu.
Stofnunin tekur þátt í innlendum eða alþjóðlegum rannsóknarverkefnum sem kostuð eru af opinberum vísinda- og rannsóknarsjóðum eða öðrum aðilum.
Stofnunin selur flugrekendum, flugvélaeigendum, flugliðum og öðrum starfsmönnum við flugrekstur, fyrirtækjum, stofnunum og einstaklingum þjónustu, sem er á starfs- og þekkingarsviði stofnunarinnar gegn endurgjaldi samkvæmt verðskrá stofnunarinnar eða samningum við aðila eftir því hvort við á.
9. gr.
Gjaldskrár.
Ráðherra ákveður í gjaldskrá að fengnum tillögum flugmálastjóra greiðslur fyrir selda þjónustu Flugmálastjórnar sbr. 8. gr. Gjaldskráin tekur mið af þeim kostnaði sem fellur til vegna veittrar þjónustu, þróunar hennar, framleiðslu og miðlunar. Tekið skal tillit til stofnkostnaðar og viðhalds tækja og búnaðar og gæta samræmis við þær reglur sem gilda í verðlagningu sambærilegrar þjónustu á hinu Evrópska efnahagssvæði eftir því sem lög heimila. Gjaldskrána skal birta í Stjórnartíðindum.
10. gr.
Höfundarréttur og afnot gagna.
Flugmálastjórn Íslands er fyrir hönd ríkisins eigandi að öllum réttindum sem til verða í starfsemi stofnunarinnar og háð eru höfundarrétti. Stofnunin gætir hagsmuna ríkisins á sviði höfunda-, afnota- og útgáfuréttar á öllu því efni og búnaði sem stofnunin hefur eignast, unnið eða gefið út. Um höfundarrétt gilda að öðru leyti höfundalög nr. 73/1972, með síðari breytingum.
Stofnuninni er heimilt að veita öðrum rétt til afnota af réttindum hennar og til útgáfu á gögnum eða upplýsingum í vörslu stofnunarinnar að því tilskildu að uppruna sé getið og áreiðanleika upplýsinga eða áskilinni leynd gagna sé ekki stefnt í tvísýnu. Um gjald fyrir slík afnot fer samkvæmt gjaldskrá skv. 9. gr. eða í samningum aðila.
11. gr.
Gildistaka.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt ákvæðum 187. gr. laga um loftferðir nr. 34/1964 öðlast þegar gildi. Jafnframt fellur úr gildi reglugerð um sama efni nr. 292/1993.
Samgönguráðuneytinu, 1. júlí 1997.
Halldór Blöndal.
Halldór S. Kristjánsson