Samgönguráðuneyti

416/1995

Reglugerð um áhafnir íslenskra kaupskipa. - Brottfallin

Reglugerð um áhafnir íslenskra kaupskipa.

1. gr.

Fjöldi skipverja í áhöfnum íslenskra kaupskipa skal ákveðinn af mönnunarnefnd, sem samgönguráðherra skipar samkvæmt 10. gr. laga um áhafnir íslenskra kaupskipa nr. 59/1995.

2. gr.

Í mönnunarnefnd skulu eiga sæti sjö aðalmenn og jafnmargir varamenn þeirra. Skal einn aðalfulltrúi og einn varafulltrúi skipaður eftir tilnefningu eftirtalinna hagsmunasamtaka: Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Vélstjórafélags Íslands, Sjómannasambands Íslands, Sambands íslenskra kaupskipaútgerða, Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambands samvinnufélaga. Ráðherra skipar, að höfðu samráði við framangreind hagsmunasamtök, formann og varaformann nefndarinnar og skulu þeir uppfylla almenn dómaraskilyrði .

Nefndin skal skipuð til þriggja ára í senn.

3. gr.

Þegar fjöldi skipverja er ákveðinn í áhöfn skips skal hliðsjón höfð af gerð skips, fyrirkomulagi þess og búnaði, þannig að fjöldi í áhöfn og skipting starfa og atvinnuskírteini einstakra skipverja fullnægi lágmarkskröfum og skilyrðum um að unnt sé að sinna öllum þáttum, sem tryggja öryggi áhafnar, skips og farþega er það flytur, svo sem boðið er í alþjóðasamþykktinni (STCW) frá 1978, um þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna.

4. gr.

Með hliðsjón af 3. gr. og 13. gr. laga um áhafnir íslenskra kaupskipa er mönnunarnefnd heimilt að herða á eða draga úr skilyrðum og kröfum um fjölda í áhöfn, svo og að kveða á um sérstakar menntunar- eða þjálfunarkröfur varðandi skip, þar sem sérstakar aðstæður gera þess þörf eða leyfa, fyrir einstök skip, og skip sem annast staðbundin verkefni á takmörkuðu farsviði.

5. gr.

Erindi sem nefndinni berast til ákvörðunar samkvæmt 3. og 4. gr. skulu tekin til afgreiðslu án ástæðulauss dráttar. Boðar formaður þá til fundar um erindið og stýrir fundi.

Til þess að fundur sé ályktunarbær skulu auk formanns a.m.k. fjórir nefndarmenn taka þátt í afgreiðslu erindis, jafnmargir fulltrúar útgerðar og stéttarfélaga þeirra starfsstétta áhafnar, sem erindi varðar.

Við afgreiðslu erinda, sem nefndinni berast, skal leitast við að ná samkomulagi hagsmunaaðila um afgreiðslu þeirra. Ef allir fulltrúar hagsmunaaðila eru sammála um afgreiðslu erindisins, skal um það bókað í gerðarbók sem ákvörðun nefndarinnar og skal hún tafarlaust tilkynnt Siglingamálastofnun, sem gefur út mönnunarskírteini í samræmi við þá ákvörðun.

6. gr.

Nú verður erindi ekki afgreitt með samkomulagi, svo sem ráð er fyrir gert í 5. gr. og getur þá fulltrúi eða fulltrúar hagsmunasamtaka þeirra starfsstétta skipaverja, sem erindi varðar og ekki vill fallast á erindið, krafist þess, að úrskurður gangi um ágreininginn. Þennan rétt eiga hagsmunasamtök útgerðar eða vinnuveitenda á sama hátt.

Að úrskurði standa eftir atvikum þrír, fimm eða allir sjö nefndarmenn.

Ef erindi varðar aðeins eina starfsstétt skipverja úrskurðar fulltrúi hagsmunasamtaka hennar ásamt einum fulltrúa útgerðar eða vinnuveitenda auk formanns.

Ef erindi varðar eða getur varðað fjölda skipverja úr tveimur starfsstéttum úrskurða fulltrúar beggja hagsmunasamtaka auk tveggja fulltrúa útgerðar eða vinnuveitenda og formanns.

Ef erindi varðar eða getur varðað fjölda skipverja úr fleiri starfsstéttum skipverja en tveimur skulu allir nefndarmenn taka þátt í úrskurði.

Nú er ágreiningur með nefndarmönnum um það hvort þrír eða fleiri eigi að taka þátt í úrskurði og sker þá formaður úr.

7. gr.

Þegar mál er tekið til úrskurðar samkvæmt 6. gr. skal það rekið án ástæðulauss dráttar. Aðilum skal veittur skammur frestur til þess að færa fram gögn til rökstuðnings kröfum sínum þar á meðal skriflegar greinargerðir ef þeir kjósa og jafnframt að flytja mál sitt munnlega fyrir gerðarmönnunum áður en málið er tekið til úrskurðar.

Úrskurður skal upp kveðinn svo fljótt sem verða má og eigi síðar en 10 dögum eftir að ágreiningsefnið hefur verið lagt til úrskurðar af aðilum.

Úrskurðir skulu vera rökstuddir. Í forsendum skal í stuttu máli greina frá kröfum, rökum og málsástæðum aðila og rökstuðningi gerðarmanna fyrir niðurstöðu þeirra.

Atkvæði meiri hluta gerðarmanna er bindandi úrlausn erindisins á sviði stjórnsýslunnar. Ákvörðun sem í úrskurði felst skal tafarlaust tilkynnt Siglingamálastofnun.

Það frestar ekki gildistöku ákvörðunar, þótt úrskurði og ágreiningi er hann tekur til sé vísað til almennra dómsstóla.

8. gr.

Mönnunarnefnd heldur fundi eftir þörfum. Formaður boðar fundi og stýrir þeim.

Nefndin heldur gerðarbók um fundi sína og störf. Í gerðarbók skal skrá stund og stað funda og hverjir nefndarmanna eða varamanna eru mættir og taka þátt í afgreiðslum. Erindi, sem nefndinni berast skulu skráð í númeraröð og hafa í heiti sínu nafn sendanda erindis og heiti skips, sem erindið varðar. Gögn, sem erindi fylgja skulu skráð í númeraröð með erindinu og dagsetningu þegar þau eru móttekin og lögð fram. Þá skal í gerðarbók greina frá því, ef aðrir en nefndarmenn sækja fundi, ástæður þess eða tilgang og árangur með gagnyrtri bókun.

Allar ákvarðanir sem varða fjölda manna í áhöfn skipa, hvort heldur þær eru byggðar á samkomulagi eða úrskurði, skulu færðar í gerðarbók og undirritaðar af þeim nefndarmönnum, sem þátt tóku í ákvörðun eða úrskurði.

9. gr.

Nefndarmönnum, varamönnum þeirra, embættismönnum og öðrum þeim, sem tekið hafa þátt í störfum nefndarinnar, skal óheimilt að skýra óviðkomandi aðilum frá því, sem þeir hafa komist að í störfum sínum fyrir nefndina eða á fundum hennar.

10. gr.

Ríkissjóður greiðir þóknun nefndarmanna samkvæmt reglugerð þessari eftir mati þóknananefndar.

11. gr.

Siglingamálastofnun ríkisins skal vera mönnunarnefnd til ráðuneytis við afgreiðslu erinda sem nefndinni berast samkvæmt ákvæðum reglugerðar þessarar í samræmi við ákvæði laga um stofnunina.

Siglingamálastofnun ríkisins gefur út mönnunarskírteini fyrir hvert íslenskt kaupskip í samræmi við ákvarðanir mönnunarnefndar.

Mönnunarskírteinin skulu vera gerð í samræmi við kröfur Alþjóða siglingamálastofnunarinnar (IMO) og ákvæði alþjóðasamþykktarinnar frá 1978 (STCW), um þjálfun, skírteini og vaktstöður sjómanna, og þeim breytingum sem á þeirri samþykkt kunna að verða gerðar. Siglingamálastofnunin hefur samráð við samgönguráðuneytið um gerð skírteinanna.

12. gr.

Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt lögum um áhafnir íslenskra kaupskipa nr. 59/1995, staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtist til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.

Jafnframt falla úr gildi ákvæði reglugerðar um mönnunarnefnd nr. 64/1985, sbr. rg. nr. 630/1991 að svo miklu leyti sem sú reglugerð tekur til flutningaskipa og farþegaskipa.

Samgönguráðuneytið, 9. júní 1995.
Halldór Blöndal.
Ragnhildur Hjaltadóttir.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica