Samgönguráðuneyti

608/1996

Reglugerð um aðgang að leigulínum á almenna fjarskiptanetinu. - Brottfallin

I. KAFLI

Gildissvið og merking.

1. gr.

Markmið og gildissvið.

Reglugerð þessi gildir um framboð og notkun á leigulínum í almenna fjarskiptanetinu.

Markmið reglugerðarinnar er að tryggja opinn aðgang að leigulínum í almenna fjarskiptanetinu og setja ákveðin samræmd skilyrði um framboð þeirra og notkun.

2. gr.

Skilgreiningar.

Í reglugerð þessari hafa orð og orðasambönd eftirfarandi merkingu:

Almennt fjarskiptanet:

Innviðir fyrir almenn fjarskipti sem gera kleift að flytja merki milli skilgreindra nettengipunkta með rafþræði,

örbylgjum, ljóstæknilegum aðferðum eða með öðrum rafsegulaðferðum.

Leigulínur: Aðgangur að almennu fjarskiptaneti fyrir gagnsæjan flutning milli nettengipunkta án skiptiþjónustu.

Notendur: Notendur og þjónustuaðilar, að meðtöldum fjarskiptafyrirtækjum þegar þau veita þjónustu sem aðrir veita eða geta veitt.

Einföld endursala á flutningsgetu:

Sala til almennings á gagnaflutningi á leigulínum sem látin er í té sem sérstök þjónusta og felur aðeins í sér þá sjálfvirku skiptingu, úrvinnslu eða geymslu gagna eða breytingu á samskiptareglum sem nauðsynleg er fyrir (rauntíma) sendingu til eða frá almenna sjálfvirka netinu.

Fjarskiptafyrirtæki: Fyrirtæki eða stofnun sem er heimilt að bjóða fram leigulínur.

3. gr.

Framboð á leigulínum.

Fjarskiptafyrirtæki skal bjóða fram að lágmarki þær tegundir leigulína sem taldar eru upp í II viðauka. Þær skulu standa til boða um allt land. Skilmálar þessarar reglugerðar skulu einnig gilda um línur sem fjarskiptafyrirtæki nota fyrir samkeppnisþjónustu, þ.m.t. fyrir einfalda endursölu.

Fjarskiptafyrirtæki er heimilt að bjóða fram aðrar tegundir leigulína en samkvæmt 1. mgr. Um þær gilda ákveðnir skilmálar, sbr. 5. gr.

4. gr.

Breytingar á skilmálum.

Fjarskiptafyrirtæki skal tryggja að sú þjónusta, sem er fyrir hendi, standi áfram til boða í hæfilegan tíma og að einungis sé heimilt að fella niður þjónustu að höfðu samráði við hlutaðeigandi notendur. Tilkynna skal hlutaðeigandi notendum um fyrirhugaðar breytingar eins fljótt og unnt er og eigi síðar en 6 mánuðum fyrir áætlaða breytingu.

Fjarskiptafyrirtæki getur engu að síður frátengt leigulínu sem er komin í vanskil, enda hafi leigutaka verið send skrifleg aðvörun þar að lútandi.

5. gr.

Jafnræði.

Fjarskiptafyrirtæki skal leigja línur sömu tegundar á eins kjörum.

Samgönguráðuneytið getur í ákveðnum tilvikum heimilað fjarskiptafyrirtæki að víkja frá þessu skilyrði. Þegar fjarskiptafyrirtæki notar leigulínu til að veita þjónustu sem einkaréttur gildir ekki um, skulu aðrir notendur njóta sömu kjara fyrir viðkomandi tegund leigulínu, óski þeir eftir því.

6. gr.

Ákvörðun taxta.

Samgönguráðherra setur gjaldskrá fyrir leigulínur að fengnum tillögum Pósts og síma hf.

Taxtar fyrir leigulínur skulu taka mið af kostnaði og fara eftir hlutlægum viðmiðunum í samræmi við eftirfarandi reglur:

1. Taxtar fyrir leigulínur skulu vera óháðir því til hvers þær eru notaðar.

2. Taxtar fyrir leigulínur skulu að jafnaði skiptast í: uppsetningargjald, afnotagjald, þ.e. fast leigugjald fyrir ákveðið tímabil.

Þegar önnur skipting taxta er notuð skal hún vera auðskiljanleg og fara eftir hlutlægum viðmiðunum.

3. Taxtar fyrir leigulínur gilda um alla þjónustuþætti sem látnir eru í té milli nettengipunktanna þar sem notandinn hefur aðgang að línunni.

Heimilt er að veita afslátt frá töxtum samkvæmt þessari grein.

7. gr.

Kostnaðarbókhald.

Fjarskiptafyrirtæki skal móta og nota kostnaðarbókhaldskerfi sem gerir mögulegt að framkvæma 6. gr. reglugerðar þessarar.

Kostnaðarbókhaldið skal byggt á eftirfarandi:

1. Kostnaður við leigulínur skal m.a. fela í sér beinan útlagðan kostnað fjarskiptafyrirtækisins vegna uppsetningar, reksturs og viðhalds leigulína ásamt markaðssetningu og reikningsútskrift í tengslum við leigulínur.

2. Sameiginlegur kostnaður, þ.e. kostnaður sem hvorki er hægt að færa beint á leigulínur né á aðra starfsemi og skal honum skipt sem hér segir:

a. þar sem hægt er skal sameiginlegum kostnaði skipt á grundvelli greiningar á uppruna hans.

b. þegar slíkri beinni greiningu verður ekki komið við, skal sameiginlegum kostnaði skipt eins og öðrum sambærilegum kostnaði er skipt þar sem bein heimfærsla er möguleg. Þetta gildir þegar um sambærilega kostnaðarsamsetningu er að ræða.

c. þegar hvorki er hægt að koma við beinni eða óbeinni kostnaðarskiptingu skal kostnaðinum skipt í því hlutfalli sem beinn kostnaður skiptist milli umræddrar þjónustu annars vegar og annarrar þjónustutegundar hins vegar.

8. gr.

Upplýsingaskylda fjarskiptafyrirtækis.

Fjarskiptafyrirtæki skal tryggja að upplýsingar um leigulínur, tæknilega eiginleika þeirra, taxta, skilmála um afhendingu og notkun, þörf á leyfisveitingum og yfirlýsingum ásamt skilyrðum fyrir tengingu notendabúnaðar séu birtar. Þessar upplýsingar skulu vera í samræmi við I viðauka og m.a. fela í sér eftirfarandi atriði:

* afgreiðslu pantana;

* afhendingarfrest, sem er talinn frá þeim degi, er notandi lagði fram endanlega beiðni um leigulínu fram að þeim tíma sem 80% allra leigulína af viðkomandi tegund hafa verið settar upp hjá notendum;

* samningstíma, þ.e. tímabilið sem samningur um leigu tekur til að jafnaði og lágmarkssamningstími sem notanda ber að samþykkja;

* dæmigerðan viðgerðartíma;

* sérhverja reglu um endurgreiðslu.

Fjarskiptafyrirtæki skal gera fyrir hvert almanaksár skýrslu um hvernig skilmálum þessarar greinar er fullnægt.

9. gr.

Gildistaka o.fl.

Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt lögum um fjarskipti nr. 73/1984, sbr. nr. 32/1993 og með hliðsjón af tilskipun 92/44/EBE frá 5. júní 1992 og ákvörðun framkvæmdarstjórnar ESB 94/439/EBE frá 15. júní 1994, staðfestist hér með til að taka þegar gildi.

Samgönguráðuneytinu, 30. október 1996.

Halldór Blöndal.

Ragnhildur Hjaltadóttir.

I. VIÐAUKI

Framsetning upplýsinga sem á að veita vegna leigulína samkvæmt 8. gr.

Upplýsingarnar sem um getur í 8. gr. reglugerðarinnar skulu settar fram sem hér segir:

A. Tæknilegir eiginleikar.

Tæknilegri eiginleikar fela í sér eðlis- og rafmagnsfræðilega eiginleika auk sundurliðaðra tæknilegra forskrifta og skilaforskrifta sem gilda um nettengipunktinn. Skýr tilvísun til staðla sem hafa verið notaðir verða að koma fram.

B. Taxtar.

Taxtarnir fela í sér uppsetningargjöld, áskriftargjöld og önnur gjöld. Þegar gjöld eru sundurliðuð, til dæmis þegar um mismunandi gæðastig þjónustu er að ræða eða mismunandi fjölda leigulína sem notanda stendur til boða (magnafsláttur), verður það að koma fram.

C. Afgreiðsluskilmálar.

Afgreiðsluskilmálarnir feli að minnsta kosti í sér þau atriði, sem talin eru upp í 8. gr.

D. Kröfur vegna leyfisveitingar.

Upplýsingar um kröfur vegna leyfisveitingar, aðferðir við leyfisveitingu og /eða leyfisskilmála skulu gefa fullnægjandi yfirlit yfir alla þætti sem hafa áhrif á notkunarskilyrði vegna leigulína. Þær skulu fela í sér eftirfarandi upplýsingar, eftir því sem við á:

1. Greinargóða lýsingu á þeim þjónustuflokkum sem beita skal aðferðum leyfisveitingar við og sem uppfylla skal leyfisskilmála fyrir af notanda leigulínu eða viðskiptavinum hans.

2. Upplýsingar um eðli leyfisveitingarskilmálanna, sérstaklega hvort leyfið er almenns eðlis þannig að ekki sé krafist skráningar og/eða leyfis fyrir hvert einstakt tilvik eða að hve miklu leyti krafist er með leyfisveitingarskilmálunum skráningar og/eða leyfis fyrir hvert einstakt tilvik eða að hve miklu leyti krafist er með leyfisveitingarskilmálunum skráningar og/eða leyfis fyrir hvert einstakt tilvik.

3. Skýra vísbendingu um gildistíma leyfisins, ásamt eftir atvikum upplýsingum um hvenær endurskoðun geti farið fram.

4. Upplýsingar um skilyrði vegna grunnkrafna skv. 4. gr. reglugerðar nr. 383/1994.

5. Upplýsingar um aðrar skyldur sem aðildarríkjunum er heimilt að leggja á herðar notenda leigulína samkvæmt reglugerð nr. 382/19941) að því er varðar pakka- eða rásaskipta gagnaflutningsþjónustu, þar sem þess er krafist að uppfylla verði skilyrði um gæði þjónustunnar auk þess sem hún verði að skila sér eins og til er ætlast og vera aðgengileg.

6. Skýra tilvísun til skilyrða sem hafa það að markmiði að tryggja að virt sé bann við að veita þjónustu þar sem [hlutaðeigandi aðildarríki hefur viðhaldið sérstökum réttindum eða einkarétti innan ramma bandalagsins].

7. Skrá yfir öll skjöl sem hafa að geyma upplýsingar um skilyrði tengd leyfisveitingum sem sett eru notendum leigulína, þegar þeir nota þær til að veita öðrum þjónustu.

E. Skilyrði fyrir tengingu notendabúnaðar.

Upplýsingar um tengingarskilyrði fela í sér nákvæmt yfirlit yfir þær kröfur sem notendabúnaður, sem á að tengja við viðkomandi leigulínu, verður að uppfylla samkvæmt reglugerð nr. 589/1994.2)

1) Reglugerð um skilyrði fyrir leyfum til að veita fjarskiptaþjónustu nr. 382/1994, sem sett er með tilliti til tilskipunar 90/388/EBE (þjónustutilskipunin).

2)Reglugerð um viðurkenningu notendabúnaðar á grundvelli sameiginlegra tæknilegra reglugerða (CTR) á Evrópska efnahagssvæðinu.

II. VIÐAUKI

Skilgreining á lágmarkssamstæðu leigulína með samhæfða, tæknilega eiginleika, samanber 3. gr.

Tæknilegir eiginleikar1)

Gerð leigulínu

Interface presentation specifications

Connection charecteristics and performance specifications

Tallína með venjulegum gæðum

2ja og 4ra víra hliðrænar

ITU-T M.1040

Tallína með sérstökum gæðum (dagskrárlína)

2ja og 4ra víra hliðrænar

ITU-T M.1020/M.1025

64 kbit/ stafræn2)

ETS 300 2883)

ETS 300 2894)

2 048 kbit/s stafræn óskipuleg (unstructured)5)

ETS 300 2466)

ETS 300 2477)

2 048 kbit/s stafræn skipuleg (structured)

ITU-T G.703 og G.704

(að undanskildum kafla 5)8)

Viðeigandi ITU-T tilmæli í G.800 röðinni

In-service monitoring9)

1) ITU-T tilmælin sem vísað er til, vísa til útgáfu 1988. ETSI hefur verið falið að vinna frekar að útgáfu staðla fyrir leigulínur.

2) Tengikröfum fyrir notendabúnað, sem tengja á við leigulínur, er lýst í sameiginlegri tæknilegri reglugerð 14 (CTR 14).

3) Þar til 31. desember 1996 er heimilt að bjóða leigulínur skv. ITU-T G. 703 í stað ETS 300 288. Til bráðabirgða, á tímabili eftir 31. desember 1996 er heimilt að bjóða leigulínur skv. ITU-T G. 703 í stað ETS 300 288. Til bráðabirgða á tímabili eftir 31. desember 1996 er heimilt að bjóða leigulínur sem nota aðra skilfleti, sem byggjast á X.21 eða X21 bis, í stað ETS 300 288.

4) Þar til 31. desember 1996 er heimilt að bjóða leigulínur skv. viðeigandi ITU-T G.800 tilmælum í stað ETS 300 289.

5) Tengikröfum fyrir notendabúnað, sem tengja á við leigulínur, er lýst í CTR 12.

6) Þar til 31. desember 1996 er heimilt að bjóða leigulínur skv. ITU-T G.703 í stað ETS 300 246.

7) Þar til 31. desember 1996 er heimilt að bjóða leigulínur skv. viðeigandi ITU-T G.800 tilmælum í stað ETS 300 247.

8) Með "cyclic redundancy checking" í samræmi við ITU-T G.706.

9) In-service monitoring getur stuðlað að bættu viðhaldi hjá fjarskiptafyrirtækinu.


Þetta vefsvæði byggir á Eplica