REGLUGERÐ
um breytingu á reglugerð um flutningaflug nr. 641/1991
með síðari breytingum.
1. gr.
Í efnisyfirliti bætist við nýr liður á eftir 3.7:
3.8 Notkun rafeindatækja.
2. gr.
Í orðaskýringum 1.0 bætist við eftirfarandi orðskýring í viðeigandi stafrófsröð:
Flugrekandaskírteini (Air operator certificate/AOC): Skírteini gefið út til handa fyrirtæki eða hópum fyrirtækja og staðfestir að hlutaðeigandi flugrekandi hafi yfir að ráða sérþekkingu og rekstrarskipulagi sem þarf til að tryggja öruggan rekstur loftfara vegna þeirrar flugstarfsemi sem tilgreind er í skírteininu.
3. gr.
Í orðaskýringum 1.0 breytist eftirfarandi orðskýring:
Flugrekstrarleyfi (Operating license): Leyfi sem veitt er til reksturs loftfara í fjáraflaskyni.
4. gr.
Grein 2.2 orðast svo:
2.2 Leyfi til flugstarfsemi.
Samgönguráðuneytið veitir leyfi til loftferða í fjáraflaskyni. Nefnist það flugrekstrarleyfi. Forsenda flugrekstrarleyfis er að umsækjandi hafi flugrekandaskírteini gefið út af Flugmálastjórn. Í flugrekandaskírteini kemur fram nánari skilgreining á flugrekstrinum og loftfaraskrá. Um útgáfu flugrekstrarleyfis til flutningaflugs gildir reglugerð ráðsins (EBE) nr. 2407/92.
5. gr.
Á eftir grein 3.7 bætist við ný grein 3.8, svohljóðandi:
3.8 Notkun rafeindatækja.
Notkun ferðasenditækja og ferðaviðtækja sem geta haft truflandi áhrif á mælitæki og búnað flugvéla er með öllu óheimil um borð. Flugrekanda ber að gera ráðstafanir til að koma í veg fyrir notkun slíkra tækja um borð í flugvélum sínum.
6. gr.
Greinar 4.2 - 4.2.1.2 orðast svo:
4.2 Flugrekandaskírteini og flugrekstrareftirlit.
4.2.1 Flugrekandaskírteini.
4.2.1.1 Forsenda útgáfu flugrekstrarleyfis til flutningaflugs er gilt flugrekandaskírteini sem gefið er út af Flugmálastjórn. Ekki má stunda flugrekstur í flutningaflugi nema að slíkt flugrekandaskírteini sé í gildi.
4.2.1.2 Í flugrekandaskírteini er tilgreint nákvæmlega hvers konar flugstarfsemi er heimiluð og veitir skírteinið ekki heimild til annars konar flugstarfsemi en þar segir. Flugrekanda ber að haga flugrekstri sínum í samræmi við þau skilyrði sem sett eru í flugrekandaskírteininu.
7. gr.
2. mgr. greinar 4.2.1.3 fellur brott.
8. gr.
Greinar 4.2.1.4.1 - 4.2.1.4.2 orðast svo:
4.2.1.4.1 Tímalengd og forsendur.
Flugrekandaskírteini er veitt til ákveðins tíma sem þar er nánar tilgreindur. Handhafi flugrekandaskírteinis skal tafarlaust skýra Flugmálastjórn frá því ef starfsemi hans breytist á þann veg að forsendur flugrekandaskírteinis eru brostnar, t. d. að því er lýtur að starfsliði, loftförum, vátryggingum eða stjórnendum.
4.2.1.4.2 Endurnýjun.
Ef óskað er endurnýjunar flugrekandaskírteinis, skal senda Flugmálastjórn beiðni þar að lútandi, a. m. k. þremur mánuðum áður en gildandi skírteini rennur út.
9. gr.
Grein 9.4.4 orðast svo:
9.4.4 Hæfnipróf flugmanna.
Flugrekandi skal sjá til þess að flugmenn hans séu prófaðir, bæði við tæknilega framkvæmd flugsins og í neyðarviðbrögðum með þeim hætti að sýnt sé fram á hæfni þeirra. Þar sem kann að vera flogið samkvæmt blindflugsreglum ber flugrekanda að sannreyna hæfni flugmanna sinna í að framfylgja þeim reglum, annaðhvort með því að láta eftirlitsflugmann sinn eða eftirlitsflugmann frá Flugmálastjórn sjá um slíka prófun. Gildistími hæfniprófs skal vera sex almanaksmánuðir til viðbótar því sem eftir er af prófmánuðinum. Ef hann stenst hæfnipróf innan síðustu þriggja almanaksmánaða af gildistíma fyrra hæfniprófs, skal gildistími hæfniprófsins vera frá prófdegi hæfniprófs þar til sex almanaksmánuðir eru liðnir frá því að gildistími síðasta hæfniprófs rann út. Nota má flugherma, sem Flugmálastjórn hefur samþykkt, fyrir þann hluta af hæfniprófinu sem þeir hafa sérstaklega verið samþykktir fyrir.
10. gr.
Reglugerð þessi, sem sett er samkvæmt 188. gr. laga nr. 34/1964 um loftferðir með síðari breytingum, staðfestist hér með og öðlast þegar gildi.
Samgönguráðuneytinu, 23. febrúar 1996.
Halldór Blöndal.
Halldór S. Kristjánsson.