REGLUGERÐ
um alþjónustu.
1. gr.
Gildissvið.
Reglugerð þessi, sem sett er með tilvísun til 2. og 40. gr. laga um fjarskipti nr. 143/1996, nær til þeirra þátta fjarskiptaþjónustu, sem skilgreindar eru sem alþjónusta. Markmið reglugerðarinnar er að skilgreina þessa þætti og setja reglur um mat á kostnaði rekstrarleyfishafa af alþjónustu, sem honum er gert skylt að veita, með það í huga að bæta honum upp mismun kostnaðar og tekna af þjónustunni.
2. gr.
Skilgreiningar.
Alþjónusta: Afmarkaðir þættir fjarskipta, sem boðnir eru öllum notendum á viðráðanlegu verði, óháð landfræðilegri staðsetningu þeirra.
Almenningssími: Sími, sem er aðgengilegur almenningi, þar sem nota má til greiðslu peninga, greiðslu- eða debetkort og/eða fyrirfram greidd kort.
Stofnstrengur: Símastrengur milli símastöðvar og þess staðar þar sem síðasta greining til mismunandi notenda á sér stað.
3. gr.
Tilgangur alþjónustu.
Megintilgangur með alþjónustu er að tryggja jafnvægi milli markaðar, sem opnaður hefur verið fyrir samkeppni og þörf þess að viðhalda grunnþáttum fjarskiptaþjónustu á viðráðanlegu verði fyrir notendur. Alþjónusta merkir aðgang að lágmarksþjónustu með ákveðnum gæðum fyrir alla notendur óháð staðsetningu og á verði, sem miðað við aðstæður í hverju landi fyrir sig, telst viðráðanlegt.
4. gr.
Umfang alþjónustu.
Eftirfarandi þjónusta fellur undir reglur um alþjónustu:
- almenn talsímaþjónusta
- aðstoð talsímavarðar (handvirk þjónusta)
- aðgangur að neyðarþjónustu og svörun neyðarsímtala
- aðgangur að upplýsingaþjónustu um símanúmer
- almenningssímar
Innifalið í almennri talsímaþjónustu er möguleiki að senda og taka á móti faxsendingum og aðgangur að lághraðagagnaflutningi þ.m.t. Internetinu með aðstoð mótalda.
Alþjónusta getur einnig merkt framboð talsímaþjónustu á sérstökum kjörum og/eða framboð öðruvísi möguleika fyrir notendur með fötlun eða sérstakar þjóðfélagsþarfir.
5. gr.
Alþjónustuframboð.
Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að setja ákvæði um alþjónustu í leyfisbréf til handa rekstrarleyfishöfum. Stofnunin skal tryggja að a.m.k. einn rekstrarleyfishafi veiti alþjónustu. Heimilt er að deila alþjónustukvöðum milli tveggja eða fleiri rekstrarleyfishafa. Kvaðir vegna alþjónustu skulu vera tímabundnar, en gildistími slíkra kvaða skal aldrei vera lengri en gildistími viðkomandi rekstrarleyfis.
6. gr.
Réttur til alþjónustu.
Rétt til alþjónustu hafa allir landsmenn óháð búsetu, sjá þó 4. mgr. Rekstrarleyfishafi, sem á hafa verið lagðar kvaðir um alþjónustu, skal verða við beiðni umsækjanda um tengingu talsíma, þegar lögn er fyrir hendi á þeim stað, þar sem síma er óskað. Einnig skal rekstrarleyfishafi verða við beiðni umsækjanda um talsíma, þó að leggja þurfi nýja línu, ef eitt eftirfarandi skilyrða hefur verið uppfyllt:
a) Umsækjandi um heimilissíma hefur sýnt fram á að hann á lögheimili á þeim stað, þar sem óskað er eftir síma og gefið út yfirlýsingu um að hann hyggist eiga þar fasta búsetu í a.m.k. 1 ár eftir að hafa lagt inn umsókn um síma.
b) Umsæjandi um atvinnusíma hefur sýnt fram á að fyrirtæki hans er löglega skrásett á þeim stað, þar sem óskað er eftir síma og gefið út yfirlýsingu um að fyrirtæki verði starfrækt þar í a.m.k. 1 ár.
c) Umsækjandi hefur sýnt fram á að sími er nauðsynlegur á viðkomandi stað til að tryggja öryggi almennings.
Rekstrarleyfishafa er ekki skylt að útvega umsækjanda um heimilissíma fleiri en tvær talsímalínur. Honum er ennfremur heimilt að takmarka fjölda lína til atvinnufyrirtækis, ef talið er sýnt að eðlilegum þörfum fyrirtækis verði engu að síður mætt.
Þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr. getur rekstrarleyfishafi hafnað umsókn um talsímatengingu, ef fjarlægð frá næsta stofnstreng í fjarskiptaneti hans til umsækjanda er lengri en 10 km eða ef kostnaður er áætlaður sérstaklega mikill.
Sjái rekstrarleyfishafi sér ekki fært að veita tilteknum aðila alþjónustu svo sem vegna fjarlægðar, kostnaðar eða annars óhagræðis, er honum heimilt að bera ágreining vegna synjunar undir úrskurð Póst- og fjarskiptastofnunar.
Umsækjanda um talsíma, sem er hafnað af rekstrarleyfishafa vegna þess að fjarlægð frá stofnstreng er meiri en 10 km, getur skotið ágreiningi um synjun til Póst- og fjarskiptastofnunar. Stofnunin skal meta umsóknina með tilliti til almenningsheilla og getur ákveðið að skylda rekstrarleyfishafa til að verða við umsókninni.
7. gr.
Almenningssímar.
Póst- og fjarskiptastofnun skal skipuleggja staðsetningu almenningssíma í sveitarfélögum í samráði við rekstrarleyfishafa, sem falinn hefur verið þessi þáttur alþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að leita álits sveitarstjórna um bestu staðsetningu almenningssíma í viðkomandi byggðarlagi. Skipulag almenningssíma skal endurskoða eigi sjaldnar en annað hvert ár og hafa þá til hliðsjónar notkun hvers síma á næsta ári á undan.
8. gr.
Gjaldskrá fyrir alþjónustu.
Gjaldskrá fyrir alþjónustu sbr. 4. gr. skal taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði. Póst- og fjarskiptastofnun skal hafa almennt eftirlit með gjaldskrám í alþjónustu. Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt að mæla fyrir um hámarksverð í alþjónustu, þegar sérstaklega stendur á, svo sem þegar gjaldskrárbreyting er að hennar mati í ósamræmi við ákvæði gjaldskráa í nálægum löndum. Póst- og fjarskiptastofnun er einnig heimilt að ákveða að einstakir þættir alþjónustu skulu vera verðlagðir eins allsstaðar á landinu.
9. gr.
Framlög til alþjónustu.
Þegar rekstrarleyfishafi, sem hefur verið gert að veita alþjónustu sbr. 5. og 6. gr., telur að einhverjir þættir þjónustunnar verði ekki reknir nema með tapi eða séu óarðbærir, t.d. í ákveðnum landshlutum eða með tilliti til sérstakra notendahópa, getur hann krafist þess af Póst- og fjarskiptastofnun að honum verði með fjárframlögum tryggt eðlilegt endurgjald fyrir þá þætti alþjónustunnar. Sé þjónustan óhjákvæmileg að mati Póst- og fjarskiptastofnunar og verði ekki aflögð, skal stofnunin gera úttekt á hagkvæmni rekstrarins þ.ám. tekjum og gjöldum. Úttektin skal gerð í samræmi við viðurkenndar aðferðir t.d. útreikninga á viðvarandi umframkostnaði. Staðfesti niðurstaða úttektarinnar réttmæti kröfugerðar rekstrarleyfishafa, skal Póst- og fjarskiptastofnun með fjárframlögum tryggja honum eðlilegt endurgjald fyrir þá alþjónustu, sem veitt er. Í þessu sambandi skal greina kostnað vegna alþjónustuskyldu rekstrarleyfishafans í sameiginlegar einingar fyrir hóp notenda eins og þá, sem tengjast sömu símastöð eða útstöð, en ekki einstaka notendur. Ákvörðun um upphæð endurgjalds skal gilda í 1 ár í senn.
Rekstrarleyfishafi, sem gert hefur verið að veita alþjónustu, skal fyrir 31. desember ár hvert tilkynna Póst- og fjarskiptastofnun skriflega, ef hann óskar eftir fjárframlagi á þar næsta ári.
10. gr.
Jöfnunargjald.
Til að standa straum af greiðslu fjárframlaga samkvæmt 9. gr. skal Póst- og fjarskiptastofnun innheimta jöfnunargjald, sem rennur til stofnunarinnar og skal varðveita í sérstökum sjóð. Jöfnunargjaldið skal leggja á alla rekstrarleyfishafa, sem veita þjónustu, sem talin er upp í 4. gr., í hlutfalli við bókfærða veltu þeirra á því sviði. Með bókfærðri veltu er hér átt við rekstrartekjur, sem rekstrarleyfishafi hefur af leyfisbundinni starfsemi sinni hér á landi. Jöfnunargjald má draga frá tekjum þess rekstrarárs, þegar stofn þess myndaðist.
Um álagningu og innheimtu jöfnunargjalds fer samkvæmt ákvæðum VIII.-XIV. kafla laga nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, eftir því sem við á og skulu innheimtuaðilar standa Póst- og fjarskiptstofnun skil á innheimtum gjöldum mánaðarlega.
Nú hefur Póst- og fjarskiptastofnun innan þeirra tímamarka, sem kveðið er á um í 9. gr. fengið beiðni um fjárframlag vegna alþjónustu og skal hún þá eigi síðar en 1. febrúar þess árs sem um ræðir gera grein fyrir fjárþörf jöfnunarsjóðs á yfirstandandi ári. Jöfnunargjald skal ákveðið með lögum í samræmi við fjárþörfina. Það skal lagt á í hlutfalli við veltu yfirstandandi árs, en ákveðast til bráðabirgða á grundvelli veltu hvers aðila næsta ár á undan.
Ef í ljós kemur að ekki er hægt að beita jöfnunargjaldi til að mæta kostnaði við alþjónustu, skal kostnaðurinn greiddur úr ríkissjóði, enda liggi fyrir því heimild í fjárlögum.
11. gr.
Takmörkun á ábyrgð Póst- og fjarskiptastofnunar.
Takist ekki að innheimta jöfnunargjald sbr. 10. gr. þrátt fyrir tilraunir innheimtumanna, skal Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að fresta greiðslu fjárframlaga til rekstrarleyfishafa, sem annast alþjónustu, þangað til að innheimtumönnum hefur tekist að standa Póst- og fjarskiptastofnun skil á jöfnunargjöldum.
12. gr.
Bókhaldslegur aðskilnaður.
Rekstraleyfishafi, sem á hafa verið lagðar alþjónustukvaðir, skal aðgreina fjárstrauma og semja sérgreind reikningsskil fyrir þá gjalda- og tekjuþætti, sem hægt er að heimfæra til þjónustunnar. Að lágmarki skal aðgreina eftirfarandi þætti:
a) Rekstur almennra fjarskiptaneta, sem notuð eru fyrir talsímaþjónustu.
b) Rekstur almennrar sjálfvirkrar talsímaþjónustu, innanlands og til útlanda.
c) Rekstur handvirkrar talsímaþjónustu.
d) Rekstur upplýsingaþjónustu um símanúmer.
e) Rekstur almenningssíma.
Ekki er krafist sérgreindra reikningsskila vegna neyðarsímtala, sem notendur almennrar talsímaþjónustu efna til.
Rekstrarleyfishafi, sem hefur verið gert að bjóða sérstökum hópum önnur kjör en almennt gilda, sbr. 3. mgr. 4. gr., skal færa sérgreind reikningsskil fyrir þessa hópa.
13. gr.
Sérgreining kostnaðar og tekna vegna alþjónustu.
Við heimfærslu kostnaðar og tekna á einstaka rekstrarþætti sbr. 12. gr. skal rekstrarleyfishafi, sem hefur kvöð að veita alþjónustu, nota eftirfarandi grunnreglur:
a) Beinan kostnað af því að koma upp, starfrækja og viðhalda viðkomandi rekstrarþætti skal heimfæra alfarið á hann.
b) Sameiginlegan kostnað, þ.e. kostnað sem ekki er hægt án tvímælis að heimfæra á einstakan rekstrarþátt skal deila að svo miklu leyti sem unnt er milli rekstrarþátta með því að greina tilurð kostnaðarins.
c) Þegar bein kostnaðargreining samkvæmt liðum a) og b) er ekki möguleg, skal sameiginlegum kostnaði skipt á grundvelli óbeinna tengsla við aðra kostnaðarliði eða hóp kostnaðarliða, þar sem bein heimfærsla er möguleg; hin óbeinu tengsl skulu byggjast á sambærilegri uppsetningu kostnaðar.
d) Þegar hvorki er hægt að finna beina né óbeina aðferð til heimfærslu, skal heimfærsla kostnaðar eiga sér stað á grundvelli almenns skiptingarlykils, sem reiknast sem hlutfall alls beins og óbeins kostnaðar heimfærður annars vegar til viðkomandi alþjónustu og hins vegar til annarrar þjónustu, sem á hlutdeild í kostnaðinum.
e) Tekjur sem aflað er í sambandi við starfsemi rekstrarleyfishafa á ákveðnu rekstrarsviði, skulu skiptast eftir sömu reglum og um getur í liðum a) til d).
f) Tekjur, sem ekki er aflað sem hluti af starfsemi rekstrarleyfishafa á ákveðnu rekstrarsviði, er óheimilt að færa í sérgreind reikningsskil þeirra.
Rekstrarleyfishafi, sem lagðar hafa verið á kvaðir um alþjónustu, skal innan 3ja mánaða gera Póst- og fjarskiptastofnun grein fyrir því hvernig sérgreining kostnaðar og tekna verður útfærð. Allar breytingar, sem síðar verða gerðar á reikningsaðferðum eru háðar samþykki Póst- og fjarskiptastofnunar.
Að öðru leyti skulu gilda reglur um bókhald fjarskiptafyrirtækja, sem samgönguráðherra setur.
14. gr.
Eftirlit Póst- og fjarskiptastofnunar.
Póst- og fjarskiptastofnun er heimilt í samræmi við 5. gr. laga nr. 147/1996 að krefjast þess að rekstrarleyfishafi upplýsi um alla þætti starfsemi sinnar tengda alþjónustu. Stofnunin skal fyrirvaralaust hafa aðgang að reikningsbókhaldi rekstrarleyfishafa og eigi síðar en 6 mánuðum eftir lok reikningsárs skal rekstrarleyfishafi afhenda stofnuninni sérgreind reikningsskil rekstrarþátta sem tengjast alþjónustu.
15. gr.
Skýrsla Póst- og fjarskiptastofnunar.
Póst- og fjarskiptastofnun skal birta opinberlega á ári hverju skýrslu um kostnað við alþjónustu og framlög allra aðila til jöfnunarsjóðs.
16. gr.
Viðurlög.
Brot á reglugerð þessari varða viðurlögum samkvæmt 38. gr. laga nr. 143/1996 um fjarskipti.
17. gr.
Reglugerð þessi sem sett er samkvæmt lögum um fjarskipti nr. 143/1996 staðfestist hér með til að öðlast þegar gildi og birtast til eftirbreytni öllum þeim sem hlut eiga að máli.
Samgönguráðuneytinu, 6. apríl 1998.
Halldór Blöndal.
Ragnhildur Hjaltadóttir.